Keflavík er ekki til

Keflavík er ekki til

„Keflavík er ekki til“, ekki þessi sem hann segir frá í sögunni, enda er þetta ekki raunsönn lýsing á staðháttum hér. Þetta er saga hins hverfula, þess sem aldrei varð og hvarf í djúp tómlætis og brostinna vona.

„Keflavík er ekki til“. Á þessum orðum hefst skáldsaga Keflvíkingsins Jóns Kalmans Stefánssonar, Fiskarnir hafa enga fætur. Hún gerist í bæ sem má muna sinn fífil fegurri, kvótalaus og herlaus. Bærinn heitir Keflavík og sagan gerist bæði árið 1980 og núna. Höfundurinn dregur upp dökka mynd af stöðu mála og það mótlæti sem samfélagið hér Suður með sjó hefur mátt þola á liðnum árum og áratugum er magnað upp svo að lesandanum hættir að standa á sama. Það er að segja ef lesandinn býr í Keflavík. Einhverjir hafa sjálfsagt gaman af lýsingunni og finnst um leið eins og allt gangi að óskum í sinni eigin heimabyggð.

Kirkjudyrnar lokaðar

Ég fékk þessa bók í jólagjöf og eins og títt er um skáldverk snjallra höfunda verður aðskilnaðurinn ekki auðveldur jafnvel þótt augnlok séu farin að þyngjast. Ekki spillir fyrir að margt er þar kunnuglegt. Keflavíkurkirkja kemur við sögu í frásögninni og hún verður eins og ein vísbendingin enn um þann paradísarmissi sem umhverfi þetta hefur mátt þola. Veturinn 1980, áður en kvótinn hvarf og herinn fór, er því lýst þar sem presturinn stendur á kirkjutröppunum, vonsvikinn og ástlaus og reynir að opna kirkjudyrnar. Þær standa á sér í frostinu og hann sparkar í sífellu í hurðina en án árangurs hún vill ekki ljúkast upp. Dyrnar að kirkjunni eru lokaðar og hjónaband prestsins er kulnað. Aðskilnaðurinn á milli draumanna, hins háleita og hins heilaga og svo hins napra veruleika verður vart birtur með skýrari hætti.

„Keflavík er ekki til“, sagan hefst og henni lýkur á þessum orðum. Ef til vill er það fyrir óskhyggju og heimóttaskap sem mér tókst þó að leggja ákveðna merkingu í þessi orð. Er þessi Keflavík nokkuð til? Er þetta ekki frekar upphafið og endirinn á lýsingu á þjóð sem glataði auðlindum sínum og draumum? Keflavík sögunnar átti sér framtíðarvon en glataði tækifærum sínum og situr eftir með verðmætin í fárra höndum og gróðabrall góðu áranna leiddi til mikillar ógæfu.

Harmur þjóðar

Já því auðvitað er hægt að þenja út sögusviðið og höfundurinn fer með okkur víða þar sem allt ber að sama brunni. Jón Sigurðsson neyðist til þess að horfa á Alþingishúsið þar sem hann stendur á stalli sínum á Austurvelli. Hann er þó kominn með aðra höndina inn fyrir frakkann – það er eins og hann sé í þann mund að taka þar fram egg til að kasta í veggi þinghússins.

Íslenskukennarinn í skólanum þurfti að gera hlé á beygingum nafnorða og lestri Íslendingasagna á meðan orrustuþotur flugu yfir með sínum þrumugný. Hávaðinn í hljóðfráum vélunum, í nútímanum yfirgnæfði söguna og menninguna. Já, þarna lesum við um hin glötuðu tækifæri, um æskuástina sem lenti í klóm ofbeldismanns en sjálfur stóð sögumaðurinn hjá feiminn og hikandi og þorði sig hvergi að hræra. Hugurinn, hreinn og ómengaður en hann misskildi allt og svaf á verðinum. Hann áttaði sig á því löngu síðar hvað raunverulega hafði gerst fyrir framan augu hans, rétt eins og hin grandalausa þjóð horfði á verðmætin fara forgörðum.

„Keflavík er ekki til“, ekki þessi sem hann segir frá í sögunni, enda er þetta ekki raunsönn lýsing á staðháttum hér. Þetta er saga hins hverfula, þess sem aldrei varð og hvarf í djúp tómlætis og brostinna vona. „Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá, það flest allt er runnið í gleymskunnar sjá“ – syngjum við hér á eftir. Eiga orð skáldsins um hina uppskálduðu Keflavík ekki við um flest annað sem rennur í hafdjúp gleymskunnar?

Eldurinn brennur og brennir

Því nú er runnið upp kvöld hins forgengilega. Við vitum nógu mikið til þess að skilja að öllu er afmörkuð stund eins og segir í Prédikara Gamla testamentisins. Allt á sinni vitjunartíma og það fyrirbæri þekkist ekki í alheimi sem ekki hefur eitt sinn verið ... ekki til og verður um síðir að engu.

Um það hugsum við á gamlárskvöld. Gamlárskvöld er helgað því sem ekki verður til – rétt eins og Keflavík í sögu Jóns Kalmans.

Stórir áfangar á ári og mannsævi eiga sín tákn. Á helgum jólum er það ljósið, sígrænt tré lífsins og jatan. Helsta kennimerki þessarar nætur er eldurinn. Eldurinn brennur óvíða jafn skært og í nótt. Fólk safnast saman við brennur, himinhvolfin ljóma af skoteldum í öllum regnbogans litum.

Í nótt erum við upptekin af þeirri eyðingu sem eldinum fylgir. Við brennum í burtu gamla árið eins og kveikt er í hvítri sinu á vorin til þess að skapa svigrúm fyrir nýgræðinginn sem bíður þess að gægjast upp úr moldinni. Við kveikjum í bálköstum með tilþrifum og forneskjur og kvikindi úr þjóðtrúnni stökkva þar um eins og ekkert sé sjálfsagðara og hverfa svo á braut eins og glóðin fýkur út í nóttina. Með því er eins og við séum að minna okkur á að sú stund sem okkur er ætlað að dvelja í, er þessi hérna. Ekki fortíðin, hún er liðin hún er ekki til. Framtíðin bíður okkar og þar á milli er hin ógnarstutta nútíð sem er þó ekki nema skurðarpunktur hins liðna og þess sem ókomið er.

Við getum líka spurt hvort þessi eldur sem lýsir upp myrkrið á gamlárskvöld sé til marks um þau tök sem við þykjumst hafa náð á kröftum náttúrunnar. Fagurlitaðar eldrósir sem birtast á himninum, sýna þær ekki hversu vel við stjórnum eldinum, þessari óstöðugu og hættulegu frumskepnu? Er nokkurt stig á þróunarbraut mannsins merkilegra en það þegar hann tamdi eldinn?

Eyðing og stjórn, hvort tveggja blasir við okkur nú eftir nokkra klukkutíma á næturhimni. En það sem virðist vera „undir kontról“ eins og við segjum gjarnan leiðir okkur á nýjar og óvæntar brautir. Rétt eins og eldurinn fylgir ekki alltaf þeim leiðum sem við ætlum. Stundum eyðir hann því sem á að varðveita og stundum lætur hann það ósnert sem við viljum brenna í burtu.

Fíkjutréð

Guðspjall gamlárskvölds fjallar einmitt um þá spurningu hvort því gamla skuli eytt og rýmt til fyrir hinu nýja. Fíkjutréð í frásögninni hafði ekki borið ávöxt og yfir því vofði sá dómur að því yrði eytt. En Kristur lýsir því hvernig tréð fær nýtt tækifæri til þess að sinna því hlutverki sem því er ætlað. Árlega lesum við í kirkjum landsins þann dóm sem felldur var yfir því tré sem engar fíkjur uxu á. Bíðum í ár, næsta ár skulum við höggva það niður. Og á næstu áramótum kemur hið sama guðspjall. Fíkjutréð sem fékk ár til viðbótar.

Við sjáum í þessari knöppu frásögn hvernig mót hins gamla og þess nýja eru sett fram í þeim úrskurði hvort tréð megi standa eða því skuli í eldinn kastað. Hvernig er það með okkur sjálf og þann afrakstur sem lifir okkur? Hvað er það sem heldur áfram að vera til og hvað verður ekki til?

Fíkjutréð hið forna merkti Ísraelsþjóð. Yfir henni vofði sá dómur sem skáldið felldi síðar yfir Keflavík. Sem verkfæri guðlegrar áætlunar má segja að Ísrael sé ekki til. Hin Guðs útvalda þjóð hefur ekki þá sérstöðu sem henni var ætlað að hafa.

Fíkjutréð birtir okkur aðra mynd. Það er hver og einn kristinn einstaklingur sem lítur á eðli sitt og afrakstur og spyr sig þeirrar áleitnu spurningar hver sé ávöxtur starfa sinna. Verður sá sami dómur yfir þeim felldur yfir verkum okkar eins og títtnefnd bók virðist gera um brauðstrit og baráttu þessarar þjóðar?

Því handan alls þess sem eyðist og deyr, þess sem var til og verður ekki til eða er kannske ekki til – er annar veruleiki sem lýtur ekki þeim sömu lögmálum. Það er náð Guðs, þessi takmarkalausa fyrirgefning sem er okkur haldreipi og fótfesta mitt í ólgusjó daganna og því hvikula umhverfi sem við erum hluti af.

Miskunnsemd Guðs er öndverð því sem líður í aldanna skaut og kemur aldrei til baka. Hún varir og hún er eilíf. Og við sem eigum lifandi trú í hjartanu þekkjum það hversu dýrmætt það er að finna fyrir hinu stöðuga handan alls þess sem hverfur og deyr.

Það sem ekki er til

Skáldið dregur upp mynd af harmleik heillar þjóðar og þrengir sjónarhornið niður í eina byggð suður með sjó. Víst er það svo að við þekkjum bæði skin og skúrir hér í þessu samfélagi. En mótlætið hefur kennt okkur það hversu mikið býr í þeim sem eiga gott hjarta og háleitar hugsjónir. Sá kraftur hefur einkum fundið sér farveg innan þessarar kirkju. Kirkjudyrnar hér eru fjarri því frosnar fastar. Þær standa opnar upp á gátt og hingað kemur gott fólk með góð áform náunganum til heilla og Guði til dýrðar. Og við horfum fram til bjartari tíma eins og tíðkast að gera við hver áramót, því við vitum að Keflavík er til og þar býr svo margt gott sem getur byggt upp betra samfélag til framtíðar.