Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls!

Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls!

Á síðustu vikum og mánuðum höfum við fengið að sjá hverju raddir sannleikans, raddir sem rísa upp gegn leyndarhyggju og misbeitingu valds, geta fengið áorkað. Þolendur kynferðisofbeldis, sem hafa stigið fram og haft hátt, hafa gefið okkur öllum mikilvægt fordæmi í baráttunni gegn óréttlætinu í okkar persónulega lífi, sem og í samfélaginu sem við tilheyrum. Skilaboðin eru ótvíræð: Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls!

Flutt 29. október 2017 · Dómkirkjan (útvarpað í Ríkisútvarpinu á Rás eitt)

Náð sé með yður og friður frá Guði, skapara okkar og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls! Þannig hljóðar boðskapur Krists til þeirra sem vildu fylgja honum í guðspjallatexta dagsins. Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls.

Þessi orð Krists tala sterkt inn í okkar aðstæður núna í upphafi 21. aldar. Það er fátt sem hefur verið meira rætt undanfarnar vikur og mánuði en gildi sannleikans, gildi virðingarinnar fyrir sannleikanum og mikilvægi þess að sannleikurinn fái að koma fram í dagsljósið.

Flest þekkjum við það af eigin reynslu eða reynslu einhverra nákominna hversu hættulegt það getur verið þegar sannleikanum er haldið leyndum; hversu sundrandi það getur verið í nánum samskiptum, innan fjölskyldu eða á vinnustað, að lifa með lyginni. Á síðustu vikum og mánuðum höfum við svo áþreifanlega verið minnt á áhrif þöggunarinnar í kynferðisbrotamálum, m.a. í átakinu „höfum hátt“ sem var mikið áberandi í íslensku samfélagi í tengslum við umræðuna um uppreist æru dæmdra kynferðisbrotamanna. Segja má að leyndarhyggju hafi verið sagt stríð á hendur í þessu átaki og þeirri hreyfingu sem varð til í kringum það. Hið sama má segja um „me too“ eða „ég líka“ gjörninginn, þar sem milljónir kvenna um allan heim hafa á síðustu vikum sýnt samstöðu í baráttunni gegn kynferðisofbeldi, með því að stíga fram og viðurkenna að þær hafi einnig verið þolendur kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis.

Sú vitundarvakning sem hefur átt sér stað gagnvart alvarleika og útbreiðslu kynferðisbrota sýnir ótvírætt hversu sterk tengslin eru á milli hins persónulega og hins pólitíska. Þannig hefur umræðan um gildi þess að þögnin í kringum kynferðisofbeldið verði rofin orðið að pólitískri hreyfingu á hinum opinbera vettvangi, eins og við höfum svo áþreifanlega fengið að sjá í íslensku samfélagi. Á síðustu mánuðum höfum við orðið vitni að því hvernig leyndarhyggja og ósannindi hafa m.a. orsakað pólitískan óstöðugleika sem leitt hefur til tveggja kosninga til Alþingis á tæplega einu ári.

Það er við kringumstæður eins og þessar sem við sjáum mikilvægi þess að standa vörð um lýðræðið, þar sem sannleikurinn er í lykilhlutverki. Til þess að lýðræðið fái að vaxa og dafna þarf sannleikurinn að eiga greiða leið til okkar, þegnanna. Hér gegna fjölmiðlar veigamiklu upplýsingahlutverki. Því miður hafa fjölmiðlarnir staðið sig misjafnlega vel í þessu hlutverki og hafa stundum sofið á verðinum, eins og raunin var í aðdraganda efnahagshrunsins haustið 2008. Þá var langt frá því að fjölmiðlarnir miðluðu nauðsynlegum upplýsingum til almennings um þróun mála. Þess vegna kom hið efnahagslega hrun íslensku þjóðinni í opna skjöldu. Í kjölfar hrunsins var, eins og allir vita, kallað eftir endurnýjun þjóðarsáttmálans, stjórnarskrárinnar, og stjórnlagaráði, sem kosið var í almennum kosningum, falið að vinna það verk. Í frumvarpi til nýrra stjórnarskipunarlaga er að finna mikilvægar greinar um skoðana- og tjáningarfrelsi, upplýsingarétt og frelsi fjölmiðla, til þess að standa vörð um þessar nauðsynlegu undirstöður lýðræðissamfélagsins. Þetta var gert í samræmi við gildin sem þjóðfundurinn haustið 2010 kom sér saman um að skiptu mestu máli fyrir samfélag framtíðarinnar. Hér er um að ræða gildi eins og heiðarleika, réttlæti, jöfnuð, virðingu, sjálfbærni og kærleika, sem voru leiðarstef í vinnu stjórnlagaráðs á sínum tíma.

Skortur á sannleikanum, á réttum upplýsingum, hlýtur að vera sérstakt áhyggjuefni á tímum svokallaðra falskra frétta, eða sann-líkis. Víða um heim hafa fjölmiðlar og samfélagsmiðlar verið sakaðir um að miðla vísvitandi röngum upplýsingum til að hafa áhrif á gang mála. Þetta hefur t.d. verið áberandi í umræðunni um umhverfismál og gróðurhúsaáhrif, þar sem gerð er tilraun til að gera lítið úr alvöru málsins og jafnvel afneita þeirri hættu sem lífinu á jörðinni stafar af hlýnun jarðar. Þó að hægt sé að tala um ákveðna vitundarvakningu í kjölfar Parísarsamkomulagsins í lok árs 2015, þá veldur takmörkuð athygli sem þessi málaflokkur fékk í nýafstaðinni kosningabaráttu ákveðnum áhyggjum. Hér er vissulega ekki bara um enn eitt sérhagsmunamálið að ræða, heldur mál sem varðar framtíð komandi kynslóða og möguleika þeirra til mannsæmandi lífs.

Þörf á siðbót?
Á þessu ári höldum við upp á það að 500 ár eru liðin síðan Marteinn Lúther skrifaði tesurnar 95 og hleypti þar með af stað hreyfingu sem átti eftir að hafa víðtæk áhrif og kljúfa kirkjuna á Vesturlöndum í herðar niður. Þessi guðfræðistefna varð síðar að kirkjulegri og samfélagslegri hreyfingu og kallast á erlendum málum re-formation, sem bókstaflega merkir endur-mótun, endur-skoðun, eða endur-uppbygging, en hefur á íslensku ýmist verið þýtt sem sið-breyting, siða-skipti, eða sið-bót. Reformert guðfræði fól vissulega í sér siðbót á 16. öldinni en hún var sett fram sem andsvar við spillingu innan kirkjustofnunarinnar og andvaraleysi almennings gagnvart ríkjandi ástandi. Reformert guðfræði gekk með öðrum orðum út á það að bæta siðinn og er því réttilega kölluð siðbótarguðfræði.

Margt hefur verið gert hér á landi til að halda upp á afmæli siðbótarinnar. Má þar nefna leikrit um Lúther, tesu-gjörning sem nú stendur yfir í Hallgrímskirkju, tónleikhús um siðbótarkonur, útvarpsþáttaröð á Rás 1 og útgáfu á völdum verkum Lúthers á íslensku í lok árs. Auk þess er og hefur verið ýmislegt á dagskrá í kirkjum víða um land í tilefni afmælisins. Á sjálfan siðbótardaginn, 31. október n.k. verður svo sérstök afmælishátíð í Hallgrímskirkju þar sem m.a. 95 tesur Lúthers verða lesnar upp í hádeginu.

Eins og allar guðfræðistefnur varð siðbótarguðfræðin til í ákveðnu sögulegu samhengi. Engin guðfræði verður nokkurn tímann til í sögulegu tómarúmi. Þegar við minnumst þess sem gerðist í borginni Wittenberg í Þýskalandi árið 1517 þá gerum við það ekki aðeins til að rifja upp 500 ára gamlan atburð og áhrif hans, heldur hljótum við líka að velta fyrir okkur merkingu boðskaparins í okkar samhengi sem er að svo mörgu leyti frábrugðið samtíma Marteins Lúthers og samverkafólks hans í upphafi 16. aldar.

Við minnumst þess í ár að 500 ár eru liðin síðan Lúther reis upp gegn spillingu og misnotkun valds. Lúther var pólitískur guðfræðingur í þeirri merkingu að hann lét sig varða um samfélagið sem hann bjó í og velferð fólksins sem tilheyrði því.
Í eðli sínu er öll guðfræði pólitísk og ekki til neitt sem kalla má ópólitíska guðfræði, þar sem öll guðfræði verður til í samtali við umhverfi sitt. Það þarf vart að taka það fram að ég er hér ekki að tala um guðfræðina sem flokkspólitíska, heldur pólitíska í víðustu merkingu þess orðs. Með því er átt við að guðfræðinni sé ekkert það óviðkomandi sem lýtur að mannlegu lífi og skipulagi þess, en það er einmitt þetta sem pólitík fjallar um. Af þessum sökum er mikilvægt að við óttumst ekki pólitískt eðli guðfræðinnar, þar sem hlutverk hennar er fyrst og fremst að tala inn í mannlegan veruleika, knúin áfram af umhyggju fyrir manneskjunni og gjörvöllu sköpunarverki Guðs. Þetta er í samræmi við það sem við sjáum í guðspjöllunum. Þar er sagt frá því hvernig Kristur lét sig varða um það félagslega samhengi sem hann var hluti af og hvernig boðskapur hans hafði áhrif á líf fólks og félagslega stöðu þeirra sem hann umgekkst.

Hugsunin að baki siðbótar Lúthers gengur út frá því að siðbót þurfi að vera sístæð. Siðbót getur aldrei átt sér stað í eitt skipti fyrir öll.
Því tel ég mikilvægt að við, í upphafi 21. aldar, spyrjum spurninga eins og:
• Hvað gæti verið sambærilegt ástandinu sem ríkti innan Vestur-kirkjunnar í upphafi 16. aldar, núna 500 árum síðar?
• Hvað getur hugsanlega kallað á jafn afgerandi viðbrögð okkar í dag?
• Og síðast en ekki síst þurfum við að spyrja hvort hugsanlega sé þörf á siðbót hér og nú?

Ákall um siðbót
Það er ekki spurning í mínum huga að leyndarhyggja, spilling og valdamisnotkun sem hefur ítrekað skapað krísuástand í samfélagi okkar á síðustu mánuðum og árum, kallar á siðbót, á endurnýjuð gildi, á nýjan hugsunarhátt, á nýjan samfélags-sáttmála. Sannleikurinn mun gjöra ykkur frjáls, sagði Kristur við fólkið sem vildi fylgja honum. Sannleikurinn mun gjöra ykkur frjáls, er boðskapur Krists til okkar hér og nú. Hver sem vill fylgja Kristi hlýtur að taka þau skilaboð alvarlega. Kirkja Krists hlýtur alltaf að taka sér stöðu með sannleikanum.

Saga siðbótarinnar á 16. öld ber vitni um óbilandi kjark og fullvissu um gildi sannleikans andspænis spillingu og misbeitingu valds. Lúther reis upp gegn ríkjandi valdhöfum, gegn þeim sem vildu þagga niður í honum og knýja hann til hlýðni. En Lúther lét ekki bugast. „Hér stend ég og get ekki annað“, sagði Lúther, og taldi sig ekki bundin af öðru en eigin samvisku og orði Guðs. Fáa gat órað fyrir því að einn einstaklingur, fátækur og valdalítill munkur og háskólaprófessor, gæti risið upp gegn hinu öfluga keisaraveldi og páfanum í Róm, og ýtt af stað kröftugri siðbótarhreyfingu sem ennþá heldur áfram að hafa áhrif, nú 500 árum síðar. Siðbótin á 16. öld var knúin áfram af sannleiksást. Það er einnig hin stóra áskorun til okkar í dag að við höfum kjark til að taka okkur stöðu með sannleikanum og stíga fram í nafni hans.

Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls, eru skilaboð sem eiga við jafnt á hinu persónulega sviði sem og hinum opinbera vettvangi. Sannleikurinn er sterkasta vopnið gegn hverskonar spillingu, þöggun, misnotkun valds og fölskum upplýsingum. Sem þegnar í lýðræðissamfélagi berum við sameiginlega ábyrgð á velferð allra sem búa í þessu landi. Það er ýmislegt sem bendir til þess að sannleikanum hafi ítrekað verið haldið frá dagsljósinu, til þess að standa vörð um hagsmuni fárra á kostnað heildarinnar. Á síðustu vikum og mánuðum höfum við fengið að sjá hverju raddir sannleikans, raddir sem rísa upp gegn leyndarhyggju og misbeitingu valds, geta fengið áorkað. Þolendur kynferðisofbeldis, sem hafa stigið fram og haft hátt, hafa gefið okkur öllum mikilvægt fordæmi í baráttunni gegn óréttlætinu í okkar persónulega lífi, sem og í samfélaginu sem við tilheyrum. Skilaboðin eru ótvíræð: Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.