Leitum ekki langt yfir skammt

Leitum ekki langt yfir skammt

Megi nafnið hans áfram vera sameiningartákn og minna okkur sem hér búum og störfum á að leita ekki langt yfir skammt að grundvelli til að standa á.

Lúk. 2.21

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilegt nýtt ár og þakkir fyrir það sem var að kveðja.

Ég heyrði á tal ungra drengja um daginn. Þeir töluðu saman á ensku þar sem þeir stóðu við Hallgrímskirkju með síma í höndum. Eftir að hafa sinnt erindi í kirkjunni gekk ég fram hjá þessum sömu drengjum og voru þeir þá að tala saman á íslensku. Þeir virtust hafa fullt vald á báðum þessum tungumálum. Þannig er Ísland í dag hugsaði ég og hugurinn hvarflaði til þess tíma þegar kynslóðirnar skildu tungu hver annarrar, unga fólkið skildi íslenskuna þeirra eldri og öfugt. Það er ekki endilega raunin nú til dags. Hugmyndir manna hafa einnig breyst um mann og heim. Ég minnist góðs vinar sem oft hafði á orði þegar einhvern bar á góma. „Þetta er prýðismaður, sívinnandi“. Þannig hugsuðu margir hér á landi á fyrri tíð þegar allt var undir dugnaði hvers og eins komið. Það var í þann tíð þegar fólk mátti vinna, yrkja jörðina sína og bæta landið sitt, sagði annar vinur minn aldraður maður. Það var í þann tíð þegar ein útvarpsrás var hér á landi, ekkert sjónvarp og nokkur dagblöð og héraðsfréttablöð sem flest komu út á vegum stjórnmálaflokka. Menningin var einsleit og ekki miklir möguleikar til að breyta þeirri félagslegu stöðu sem fólk fæddist inn í. En nú er öldin önnur og fylgja því bæði kostir og gallar eins og við allt.

Á nýársdegi stöldrum við ekki við það sem var heldur horfum til framtíðar, til ársins sem í hönd fer. Við vitum ekki hvað nýja árið færir okkur en vitum þó að margt og kannski flest sem á daga okkar drífur byggist á því sem hefur verið og er. Flestu ráðum við um framtíð okkar en ekki öllu. Því sem við ráðum og ráðum við skulum við leggja okkur fram um að gera vel og taka því af æðruleysi sem við ráðum ekki við. Guð hjálpi okkur til þess.

Hver er sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar árið 2017? Hvernig skynjar hún sjálfa sig? Hvað sameinar, hvað gerir okkur sérstök? Sjálfsmynd einstaklinga og þjóða byggist á þessu tvennu, því sem sameinar og því sem gerir okkur sérstök. Stundum er augljóst hvað sameinar. Það kom glöggt fram í sumar þegar Evrópumótið í knattspyrnu karla fór fram í Frakklandi. Þjóðin sameinaðist og fylgdist áhugasöm með frábærum árangri sinna manna í keppninni. Jafnvel þau sem varla vita hvernig fótbolti fer fram fylltust áhuga og fögnuðu eins og þjóðin öll. Á norrænum biskupafundi sem ég sat þegar leikur Íslendinga og Englendinga fór fram sögðu biskuparnir: “Við erum allir Íslendingar” og svo var víkingaklappið tekið. Það er nauðsynlegt hverjum einstaklingi að þekkja sjálfan sig, kosti sína og galla, getu og hindranir. Sjálfsmyndin ákvarðar hvernig einstaklingurinn skynjar sjálfan sig og hefur úrslitaáhrif á það hvernig hann nýtur sín í samfélaginu. Í skýrslu nefndar um ímynd Íslands sem unnin var fyrir tæpum áratug telja Íslendingar sig almennt vera duglega, bjartsýna og áræðna og að náttúrulegur kraftur og frumkvæði einkenni atvinnulíf og menningu landsins. Guðspjall nýjársdags er aðeins ein ritningargrein. „Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi.” Það fer vel á því að 8. dag jóla sem er í dag skuli þessi texti vera lesinn, enda er hann beint framhald frásögu Lúkasar af fæðingu drengsins hennar Maríu. Hann var látinn heita Jesús og tilheyra fylgjendur hans fjölmennustu trúarbrögðum heimsins. Kristnir menn eru um allan heim og á vesturlöndum er kristin trú ríkjandi og er hún þar talin ein af meginstoðum vestrænnar menningar.

Kristin áhrif hafa mótað menningu þeirra þjóða sem vilja kenna sig við Krist. Það á líka við hér á landi. Árið 2017 er hátíðarár í okkar kirkjudeild, lúthersku kirkjunni þar sem þess er minnst að þann 31. október næst komandi eru 500 ár liðin frá því Lúther sem kirkja okkar er kennd við, hengdi greinarnar 95 upp á dyr hallarkirkjunnar í heimabæ sínum Wittenberg í Þýskalandi. Hann vildi koma á framfæri hugsunum sínum varðandi það sem honum fannst betur mega fara í kirkjunni sinni, hinni rómversk kaþólsku. Hann hafði ekki í hyggju að stofna nýja kirkjudeild. Sú varð þó raunin eins og kunnugt er. Hugmyndir hans um ríkin tvö, hinn almenn prestsdóm og köllunarhlutverk kristins manns hafa ekki einungis mótað þá kirkjudeild sem við hann er kennd heldur einnig haft áhrif á þau samfélög sem kirkjan þjónar.

Þannig geta hugmyndir sem fæðast í huga eins manns haft gríðarleg áhrif. Hugmyndir Lúthers áttu sér rætur í Biblíunni og þar er enn þann dag í dag þann fjársjóð að finna sem gagnast á öllum tímum í öllum aðstæðum.

Það eru ekki aðeins hugmyndafræði stjórnmálanna sem breyta og hafa áhrif. Það gera líka vald eignamanna sem kemur fram í ákvörðunum þeirra og gjörðum og skrif hinna fjölmörgu sem láta í sér heyra á samfélagsmiðlunum. Þau kristnu gildi og sá kristni hugsunarháttur sem almenningur fer eftir hér á landi gera það einnig. Það er þó ekki þar með sagt að kristið fólk sé öðruvísi en annað fólk. Kristið fólk er breyskt, veldur vonbrigðum og fleira mætti nefna í fari mannfólksins yfirleitt. Kristið fólk er heldur ekki laust við sorgir þessa heims, kvíða og vankunnáttu í samskiptum. En kristið fólk á að vita hvar grundvöllinn er að finna, hvar hjálpina er að fá hvert hægt er að leita þegar vandinn blasir við.

Lúther áleit að trú hins kristna manns kæmi fram í starfi hans. Að kristinn maður sé kallaður til þjónustu og samlíðunar í þessum heimi, hann geti aldrei verið hlutlaus. Hann er kallaður til ábyrgðar. Það er því ekki hægt að þurrka trú út úr samfélaginu því fólk hefur áhrif á samfélagið og samfélagsgerðina.

Hugtakið reformation sem hefur verið þýtt sem endurnýjun eða siðbót lýsir þeirri hreyfingu sem Lúther kom af stað. Kirkja hans á sínum tíma var í þörf fyrir endurnýjun, siðbót og í upphafi var það ekki ætlan Lúthers að stofna nýja kirkjudeild, heldur betrumbæta þá gömlu.

Kirkjan, sem samheiti allra kirkjudeilda kristinna manna hefur það hlutverk að koma þessum boðskap um Jesú til skila og mun aldrei gera annað en það. Samband hennar við yfirvöld hvers lands eða fyrirkomulag í samfélaginu hefur ekkert með það að gera.

Kirkja og þjóðríki takast ekki á samkvæmt hugmyndum Lúters heldur standa saman og skapa landsmönnum eina sjálfsmynd, sem í stórum dráttum var órofinn a.m.k. fram um miðja síðustu öld og er enn að einhverju leyti óhreyfð.

Hingað til hefur það verið talið farsælt fyrir þjóðfélagið að virða það samkomulag sem ríki og þjóðkirkja gerðu fyrir um tveimur áratugum um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar. Það er almennt talið heiðarlegt og farsælt að virða samkomulag sem gert er þó ekki sé það innsiglað með handabandi eins og fyrri síðar menn gerðu. Traustið var algjört en nú er sú grundvallarstoð mannlegs samfélags brostin og sýnist á stundum að enginn virðist treysta neinu né neinum.

Sem kirkja og sem samfélag erum við í þörf fyrir reformation, endurnýjun, siðbót. Það er hrópað á slíkt. En illa gengur að finna þann grundvöll sem við viljum standa traustum fótum á og byggja fyrirmyndarsamfélag á. En kirkjan hefur svarið og kristin trú hefur svarið. En það er ekki í tísku að virða þær systur viðlits í almennri umræðu. Samt er það yfirlýst stefna meirihluta þjóðarinnar að tilheyra kristnum samfélögum. Og menn ganga fram í þeim anda sem Kristur sjálfur birti og boðaði. Það kemur til dæmis fram hjá samtökum áhugafólks um starf í þágu flóttamanna sem stóð fyrir samverustund fyrir hælisleitendur í ráðhúsi Reykjavíkur í gærkveldi. Það kemur fram hjá einstaklingum og samtökum sem styðja við bakið á þeim sem þurfa stuðning og hjálp. Það kemur fram í jákvæðum greinaskrifum þar sem yfirvöldum og fleirum er bent á leiðir til lausnar og vakin athygli á því sem betur má fara. Það kom fram á þjóðfundinum sem haldinn var árið 2009 þar sem fundarmenn lögðu af mörkum í einn heildstæðan gagnagrunn um gildismat og hugmyndir íslensku þjóðarinnar. Þar voru gildin sem nefnd voru öll í anda barnsins sem látinn var heita Jesús. Jafnrétti, jöfnuður, virðing, kærleikur, réttlæti, ábyrgð, heiðarleiki, frelsi, traust, svo eitthvað sé nefnt.

Nafnið Jesús sameinar kristna menn um allan heim og það hafa kristnir menn fundið, nú betur en oft áður, að það er dýrmætt að geta sameinast um nafnið hans þó kirkjudeildirnar leggi ekki allar sömu merkingu í kenninguna og útfærsluna. Nafnið hans hélt lífinu í þessari þjóð um aldir, því flestir áttu ekkert nema traustið til hans. Og enn syngjum við á þessum degi sálminn hans séra Matthíasar Hvað boðar nýjárs blessuð sól? Og treystum því að

Í hendi Guðs er hver ein tíð, í hendi Guðs er allt vort stríð, hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár.

Megið nafnið hans áfram vera sameiningartákn og minna okkur sem hér búum og störfum á að leita ekki langt yfir skammt að grundvelli til að standa á. Blessi hann land og þjóð á nýju ári og færi frið í hjörtu og líf fólks um víða veröld. Gleðilegt ár, í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.