Unaðsdalur

Unaðsdalur

Unaðsdalurinn sem bíður okkar verður örugglega líkari þeim sem er þar fyrir vestan, hógvær og lágur, mjúkur undir fót. Hann verður í sjálfu sér eins og ljúf áminning til okkar um að farsældin býr ekki í taumleysinu og óhófinu. Hin sanna velferð, já hinn raunverulegi unaður byggir á því réttlæti sem Guð kallar okkur til.

Jes 40.1-8, Post 17.22-31 og Lúk 1.57-66

Fyrir þremur árum um þetta leyti ársins er ég var nýtekinn við þjónustunni í Keflavíkurkirkju þurfti ég að gera mér ferð vestur á Firði til þess að inna af hendi prestsverk sem ég hafði lofað fyrr um veturinn. Par var komið frá Bandaríkjunum, íslenskur piltur og bandarísk stúlka og vildu þau staðfesta og helga hjónaband sitt í Guðs húsi. Athöfnin fór fram á ekki ómerkari stað en í Unaðsdal á Snæfjallaströnd þar sem spegilslétt Ísafjarðardjúpið speglar grónar hlíðarnar og jökullinn trónir þar fyrir handan í allri sinni dýrð.

Tilkomumikið örnefni Ég játa að ég tók ekki í mál að finnan annan prest til þess að sinna athöfninni þótt ég væri fluttur í annan landshluta enda ómögulegt að láta sér úr greipum ganga tækifæri til að sækja heim þessar slóðir sem bera fegurra heiti en flestir aðrir staðir á Íslandi. Fá örnefni eru jú tilkomumeiri en einmitt þetta: „Unaðsdalur“. Víst hæfir sá staður vel til þess að helga kærleikssamband hjóna? Á leiðinni í bátnum frá Ísafirði hugleiddi ég söguna á bak við nafnið. Vestfirðir eru flestum stöðum fegurri hér á landi og ekki síst dalirnir sem þar teygja sig frá sjávarströndu langt inn í land. Þar sameinast þeir sléttri háheiðinni sem jarðfræðingar segja að hafi eitt sinn verið sjálft miðhálendi þessarar ungu eyjar áður en hún tognaði í báða endana. Þar má víða finna öfluga fossa sem steypast niður hamrabeltin, birkigrónar hlíðar og tærar bergvatnsár sem líða niður að ósnum í minni dalanna.

Ekki verður þó sagt að heimamenn hafi fundið dölum þessum heiti við hæfi. Flestir draga þeir nafn sitt af því að forðum höfðust menn við í seljum í dölum þessum – Seldalur, Seljadalur, Seljalandsdalur, Selárdalur – bera ekki vott um mikla náttúruskynjun þeirra sem gáfu þeim upphega heiti sitt. Öðru máli gegndi um Unaðsdal. Þar var nú andagiftin ósvikin og tilfinningarnar ríkar.

Dalurinn látlaus Það vakti hins vegar athygli mína fyrsta skiptið er í kom í dalinn hversu fábrotinn dalurinn var miðað við alla þá hina sem fengið höfðu tilkomuminni nöfn. Þetta er í raun lítið dalverpi, aflíðandi brekkur, grösugar mjög og lítill lækjaráll trítlaði þar niðureftir uns hann rann út í sjó. Um nafnið á dalnum hefði mátt fjalla í brúðarræðu í þeirri von að ekki yrði þurr hvarmur í litlu kirkjunni sem stendur nánast í fjörunni og blasir sjórinn við kirkjugestum um leið og kirkjudyrnar eru opnaðar. En ég þurfti vissulega að hafa þar fyrirvara á því sagan á bak við Unaðsdalinn sem ég heimsótti á jónsmessu fyrir þremur árum er því miður laus við alla þá náttúrurómantík sem síðar átti eftir að einkenna rit og talað mál innblásinna skálda. Sagan á bak við nafnið Nei, það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sigldi yfir Djúpið er ég fékk skýringu á heiti dalsins, skömmu eftir að við hjónin höfðum sest að á Ísafirði. Nafnið má rekja til þeirra tíðu ferða sem farnar voru frá Grunnavík í Jökulfjörðum yfir heiðina og niður að Snæfjallaströnd. Eins og við má búast er leið sú hættuleg og torfarin, ekki síst ef búsmali er með í för eins og oftast var eða hópur hrossa.

Fyrirvaralaust gat þoku slegið yfir hópinn og sáu menn þá ekki handaskil. Jafn skjótt gat stormur skollið á – vestan af Grænlandssundi eða austan af jöklinum með ægilegri hríð og kafaldsbyl. Og ef menn þurftu að hafast við í einhvern tíma þar uppi voru góð ráð dýr því þar var lítil spretta og erfitt um vik að sækja vatn handa mönnum og skepnum.

Unaðsdalur tengist þessu. Hann markaði endimörk leiðarinnar, þegar hver hættan hafði verið yfirstigin, hvert gil og hver skorningur. Grasið í dalbotninum markaði endi fararinnar. Nú var loksins komið að síðasta hlutanum og hann var bæði greiðfarnari og öruggari en allir hinir leggirnir. Hvað skyldu þeir þá hafa kallað dalinn? Já, einmitt: Unaðsdalur.

Annars konar hrakningar Textinn sem Jesaja spámaður flytur okkur á jónsmessu er fluttur þeim sem í hættu eru staddir þar sem þeir eru staddir á framandlegum háskaslóðum. Fyrstu áheyrendurnir voru hrakinn og sigraður hópur þræla sem voru niðurkomnir óravegu frá heimkynnum sínum. Þeir strituðu við Babýlónsfljót og óvinirnir hæddust að þeim þar sem þeir unnu í sveita síns andlits. Vissulega var þetta ein þjóð af ótalmörgum í sögu mannkyns sem misst hafði sjálfstæði sína og reisn og glataði fyrir vikið réttindum sínum og að því er virtist möguleikum á mannsæmandi lífi. En sögur þessarar þjóðar lifðu og sjálf átti hún eftir að komast í gegnum þær þrengingar þótt ýmsum kynni sjálfsagt að hafa þótt slíkt ótrúlegt á þeim tíma.

Áður höfðu menn hins vegar lifað góða daga og spámaður sá sem kallaður var Jesaja þrumaði varnaðarorð yfir fólkinu þar sem hann fáraðist yfir hjáguðadýrkun og taumlausu óhófi. Á þeim tíma hamraði hann á því að gjaldið fyrir þennan lífsmáta yrði hátt og ætti eftir að snerta á dýpstu verðmætum fólksins – sjálfu frelsinu. Enginn hlustaði en skyndilega var í óefni komið og þegar þjóðin loks vaknaði upp af vondum draumi hafði erlent stórveldi lagt ríkið undir sig, hrifsað til sín allt fémætt og hneppt stóran hluta íbúanna í þrældóm.

Spámaður talar En forðum hljómaði predikun hans yfir þjóðinni einhvern vegin svona:

...lærið að gera gott, leitið réttarins, hjálpið hinum kúgaða. Rekið réttar munaðarleysingjans. Verjið mál ekkjunnar. Komið, vér skulum eigast lög við, segir Drottinn.

Kannast einhver við þennan tón? Þetta er hinn spámannlegi hljómur. Ólíkt öllum því tuði og eftirsókn eftir vinsældum er boðskapur þessi samur og óbreytanlegur óháð því hverjar viðtökurnar eru. Þetta var tónninn í góðærinu. Ólíkt mörgum þeim sem nú kveða sér hljóðs á þessu herrans ári hér uppi á Íslandi og segjast hafa sagt það og spáð fyrir um allt saman hafði spámaðurinn Jesaja stöðugt land undir fótum og miðlaði sannfæringu sinni og boðskap til þjóðarinnar þegar hún stefndi á ranga leið.

Góðærið tekur enda Þeir dagar runnu svo upp að þjóðin var leidd burt úr örygginu og velsældinni – yfir í hörkulegt umhverfið þar sem ánauð og helsi beið þeirra sem áður höfðu notið alls hins besta. Þá fyrst breyttist boðskapurinn. En þó með þveröfugum hætti því sem við eigum að venjast þar sem lýðskrumarinn skiptir um tón og segir: „Hvað sagði ég?“ eða „ég sá þetta allt saman fyrir“. Nei, spámaðurinn blæs nú kjarki í fólkið og minnir það á að handan alls þess sem hrörnar og deyr er eitthvað óbreytanlegt og stöðugt. Og úr þeim fjársjóði hjartans koma orð hans:

Huggið, huggið lýð minn, segir Guð yðar. Hughreystið Jerúsalem og boðið henni að áþján hennar sé á enda, að sekt hennar sé goldin, að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins fyrir allar syndir sínar.

Hugsið ykkur hversu ljúflega orð þessi hafa hljómað í eyrum þrælanna sem áttu síst von á því að framundan væri neitt annað en þrautir og ánauð. Þeir voru staddir eins og ferðalangar í vonskuveðri á hrjóstrugri heiðinni þar sem engin sýn var framundan. Eða þjóð sem misst hefur fótanna og horfir með ótta og óvissu til framtíðar þar sem engin sýn blasir við – aðeins þykk þoka hins ókomna og frekari harðindi.

Hver dalur, hvert fjall Textinn er eins og óður til þeirrar hugsunar sem birtist í nafngift dalsins góða sem ég vitjaði fyrir þremur árum.

Greiðið Drottni veg um eyðimörkina, ryðjið Guði vorum beina braut í auðninni, sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólar verði að jafnsléttu og hamrar að dalagrundum.

Orðin hafa líklega vakið sömu hughrif meðal þeirra sem á hlýddu og dalurinn vestur á fjörðum gerði þegar ferðalangar höfðu fetað leiðina erfiðu frá Jökulfjörðum að Snæfjallaströnd. Hann er þeirra Unaðsdalur þar sem skyndilega víkur hörð klöppin fyrir mjúkum mosa. Svo taka við grænar grundir og hjalandi lækur sem fylgir þeim allt fram á leiðarenda.

Sumarsólstöður Já, sagan bak við nafnið á dalinn sem ég vitjaði á jónsmessu 2006 er í raun merkileg og stendur í sjálfu sér ekki að baki þeirri rómantísku mynd sem fyrst kom upp í hugann þegar nafn hans bar á góma. Þar sem ég sigldi til baka eftir viðburðarríka dagskrá á þessum eyðislóðum var komið fram yfir miðnætti. Þar tyllti sólin sér á sjóndeilarhringinn uns hún hóf aftur vegferð sína upp á himininn. Þess sýn greypir sig í minningu þess sem hennar fær notið. Hún minnir okkur á sigur lífsins og ljóssins yfir hverju mótlæti.

Unaðsdalurinn okkar Nú erum við á erfiðri vegeferð og við bíðum í ofvæni eftir því að við finnum okkar Unaðsdal. Ef til vill gerum við okkur þær væntingar að hann verði tignarlegur, djúpur og magnaður í allri sinni dýrð rétt eins og þær hugmyndir sem ég hafði á sínum tíma um dalinn sem kenndur var við sjálfan unaðinn. En Unaðsdalurinn sem bíður okkar verður örugglega líkari þeim sem er þar fyrir vestan, hógvær og lágur, mjúkur undir fót. Hann verður í sjálfu sér eins og ljúf áminning til okkar um að farsældin býr ekki í taumleysinu og óhófinu. Hin sanna velferð, já hinn raunverulegi unaður byggir á því réttlæti sem Guð kallar okkur til. Hinn sanni friður snýst ekki um það að elta þá sem hæst hafa og mest eiga heldur hitt sem fram kom í boðskap spámannsins Jesaja til þjóðarinnar þar sem hún hafði tapað sér í góðæri síns tíma: Að læra að gera rétt og lifa í því samræmi sem hæfir börnum Guðs.