Lífslind

Lífslind

Vatni ausa - regn af himni. Þú, sem ert höfundur vatnsins, höfundur lífsins, - þú hefur mótað jarðarkringluna fagurlega og rennilega, dregið vatnshringinn á fingur hennar, vatnsklæðin um alla líkama hennar, íklætt hana í veisluklæði sem blakta í golunni, bylgjast um hvelfinguna - rísa og hníga.

Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. Jesaja 12:3

Vatni ausa - regn af himni. Þú, sem ert höfundur vatnsins, höfundur lífsins, - þú hefur mótað jarðarkringluna fagurlega og rennilega, dregið vatnshringinn á fingur hennar, vatnsklæðin um alla líkama hennar, íklætt hana í veisluklæði sem blakta í golunni, bylgjast um hvelfinguna - rísa og hníga. Þú ert vatnaskáldið mikla, sem yrkir og yljar jörð svo vatnið svífur upp í himininn og blæst svo vatnið fellur í öldu niður.

Þú veitir því í hringrás heimsins. Þú veitir því í blóðrás lífsins, leyfir þvi að leika sér í fjallstoppum, skoppa niður stalla og milli steina, faðma aðrar bunur, sameinast, verða fljót og mynnast við hafið, endurvarpa ljósið þitt í morgunsólinni, dreyma hádegisdrauma og hverfa í hafið, risafaðinn þinn, sem minir á að þú ert stór, mikill og góður.

Vatni ausa, með fögnuði... Þú gefur vatn fyrir lífið, fyrir fögnuðinn. Veitir vatni um líkama hvals og fjalldrapa, og í smásyngjandi lyfjagras og dýjamosa, fíla, apa, ær og menn - í innstu inni, smæstu frumur, örverur. Þú gefur lífsfögnuð, - ausa vatni. Frá lífi fer vatnið einnig, í hringrás, til annars lífs, inn í hringrás lífshlekkja, í stóra keðju, sem þú gefur, þú elur, þú mylkir.

Mig þyrstir - þú vökvar, ég er grænþörungur á steini þú ert haf kærleikans.

Ég er ausinn vatni.....þitt vatn þrýtur ekki.

Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.

Kom þú heilagur andi. Kom þú... til manna, kom til sköpunar þinnar, kom til heimsins sem þú hefur skapað.

Þú umspennir allan heiminn blessun, Þú gefur vatn fyrir lífið. Þú gefur ...

En gefur þú fögnuð Guð?

Hvaða lindir eru lindir fagnaðar? Hvað svalar hinum nístandi þorsta hið innra? Hvaða rekja linar þegar kvíðinn sækir að? Hvað endurreisir þegar sektin nagar? Hvað slær á angistina? Hvað græðir brotið fólk, marðar fjölskyldur? Hvað bætir fyrir orð hryllings, hatur, morð og mein?

Hvaða vatnsveita dugar? Er kannski Bal sterkari þér í lífinu?

Vatnið umlykur allt. Ausið með fögnuði úr lindum.

Vatn af himni - vatni er hellt í font. Lítið barn er borið að lauginni, hjalar við sólbroti vatnsins, í nafni guðs föður, sonar og heilags anda, kross á enni, kross á brjóst, vatn á höfuð, bros í augum.

Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. Þú, sem gefur vatn af himni, vatn í jörðu, haf, kemur svo sjálfur með lífsins vatn. Þú ert vatnsveitan eina - lindin lífs.

Þegar geimarnir gliðna, heimurinn fer hamförum, mennirnir æða og sálin engist, þá gefur þú gott vatn, . Þorstinn er minn en þú ert lind lífsvatnsins.

Faðir vor...

Drottinn blessi oss og varðveiti oss. Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir oss og sé oss náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir oss og gefi oss sinn frið. Amen.