Haustregnið færir blessun

Haustregnið færir blessun

Nú er það ekki veðrið sívinsæla sem rætt er um, heldur hin válindu veður sem geisa í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hefur síðast liðin vika einkennst af stöðugri umfjöllun fjölmiðla um efnahagsmál sem virðast vera enn óstöðugri en veðrið.
fullname - andlitsmynd Bryndís Malla Elídóttir
03. október 2008

Eitt af því sem einkennir haustið öðru fremur eru haustlægðirnar með rok sitt og rigningu. Þær hafa ekki svikið okkur þetta haustið en hafa hins vegar átt undir högg að sækja því annað mál virðist hafa tekið yfir umræðu manna á meðal. Nú er það ekki veðrið sívinsæla sem rætt er um, heldur hin válindu veður sem geisa í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hefur síðast liðin vika einkennst af stöðugri umfjöllun fjölmiðla um efnahagsmál sem virðast vera enn óstöðugri en veðrið.

Svartsýni og bölmóður hefur verið ráðandi í þeirri umfjöllun svo ætla mætti að hamingja heillar þjóðar ráðist af vísitölum, vöxtum og verðbólgu. Margir eiga enda erfitt með að fóta sig í allri þessari umræðu og fyllast kvíða við stöðugar neikvæðar fréttir af efnahagsmálum, þar sem þeirri véfrétt er stöðugt viðhaldið að enn eigi ástandið eftir að versna.

En þegar kemur að umfjöllun um fjármál, hvort sem það eru fjármál bankastofnanna, ríkis eða jafnvel heimilanna er ekki verið að fjalla um þá hamingju sem skapar verðmæti sem hvorki mölur né ryð fær grandað. Þegar við erum spurð að því hvað ráði hamingju okkar þá byrjum við ekki upptalningu okkar á vaxtatöflum eða verðbótum. Við minnumst á önnur verðmæti eins og börnin okkar, maka, ástvini, þau sem standa hjarta okkar næst. En við vitum hins vegar að fjárhagslegt öryggi er ein af grunnstoðum hverrar fjölskyldu og þegar það er ekki til staðar leggst aukinn þungi á aðrar stoðir sem oftar en ekki þarf að styrkja með einhverju móti.

Kirkjan hefur í því sambandi boðið upp á margvísleg námskeið og fræðslu fyrir alla aldurshópa þar sem sjónum okkar er beint að Jesú Kristi sem sjálfur hafði hvergi höfði sínu að að halla. Samfylgd með honum er hamingjugefandi því hún veitir okkur vissu um að við stöndum ekki ein þegar á móti blæs því Kristur Drottinn muni vel fyrir öllu sjá.

Hann hefur einnig heitið okkur því í orði sínu að blessa okkur ríkulega með margvíslegum hætti. Jafnvel haustrigning getur orðið okkur til blessunar ef aðeins við lítum með jákvæðni til þess sem við eigum og forðumst að dvelja við það sem eykur kvíða okkar eða neikvæðni. Við ráðum miklu um okkar eigin hamingju og það er enginn leyndardómur fólginn í því, annar en sá að þekkja gæfu sína og blessun. En einmitt sú staðreynd virðist vandfundin þegar áhersla þjóðlífsins er öll á hin veraldlegu verðmæti sem okkur eru sannarlega einnig nauðsynleg. Þegar lánin og lífið eru farin að haldast í hendur án þess við áttum okkur á því hver ræður þar för, þá er vert að staldra við og gefa því betur gaum sem mestu máli skiptir.

Þess vegna ákvað Reykjavíkurprófastsdæmi eystra að efna til málþings í Fella- og Hólakirkju miðvikudaginn 15. október kl. 17:30. Yfirskrift málþingsins er einmitt Lánin og lífið og verður þar leitast við að skýra hin flóknu tengsl peningamála og velferðar fjölskyldunnar. Því þó svo við stjórnum hvorki veðri né vindum, vöxtum né verðbólgu þá getum við glaðst yfir þeirri hamingju sem að okkur er rétt úr hendi skaparans í trausti þess að jafnvel haustrigningin muni færa okkur blessun eins og stendur í 84. Davíðssálmi.