Jesus fær ríkisborgararétt

Jesus fær ríkisborgararétt

Á þeim tíma þegar sjúkir, holdsveikir, fátækir, já og útlendingar voru hafðir utangarðs í samfélögum, hlúðu kristnir menn að slíku fólki og veittu því fæði og klæði. Já og húsaskjól. Þetta vakti athygli í því umhverfi þar sem þeir störfuðu

Mig rak í rogastans nú á dögunum er ég renndi augum af gömlum vana yfir fyrirsagnir netmiðlanna. Ein þeirra tók alla athyglina frá hinum. Hún hljóðaði svo: „Jesus og tólf aðrir fá ríkisborgararétt á Íslandi“. Það var nú kominn tími til, hugsaði presturinn með sér en velti því fyrir sér hversu langan tíma það hefði tekið að veita þeim hin langþráðu réttindi.

Tímbært?

Íslendingar fengu fyrst fréttirnar af Jesú og þeim tólf fyrir þúsund árum og gott betur. Sagan af þessum allslausu íbúum í hernumdu ríki barst til eyrna forfeðrum okkar og formæðrum og hitti þar í mark eins og annars staðar þar sem hún fær að hljóma.

Líklega var það þó nokkru fyrir kristnitökuna sem börnin heyrðu söguna af hinum fátæku Galíleumönnum. Fóstrur þeirra og jafnvel mæður komu frá Írlandi þar sem þjóðin hafði tilbeðið Krist kynslóðum saman og lært að sækja í nægtabrunn fagnaðarerindis hans um sigur kærleikans og ljóssins á öllu því sem drepur niður og deyðir. Ef til vill hafa sögur þeirra og kvöldbænir yfir ungviðinu haft áhrif á það hversu greiðlega gekk að sannfæra þingheim á alþingi árið 1000 um að taka upp hinn nýja sið.

Margt frábrugðið

Við sjáum samt fyrir okkur að tilbeiðslan á Hvítakrist var um margt frábrugðin því sem síðar átti eftir að verða. Hann var ekki sá líðandi þjónn sem sigraði illt með góðu sem þoldi háðung, illsku og ranglæti þessa heims. Nei, fræg sem kennd er við Upsa í Svarvaðardal er frá víkingatímanum. Hún sýnir sigrandi konung sem breiðir út arma sína og stendur öruggur á stallinum. Á höfðinu ber hann ekki þyrnikrónu sem nístir inn í holdið heldur kórónu að hætti veraldarhöfðingja.

Þessi mynd kemur illa heim og saman við orð Krists sem lesin voru hér í áðan. Þar talar hann til lærisveina sinna, sem mislíkaði boðskapur hans um að hann ætti eftir ekki eftir að verða sá konungur sem þeir töldu hann munu verða. Hann dró upp þann greinarmun í þessum orðum:

„Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“

Hér talar ekki sá sem vill tróna efstur í hverri goggunarröð og hverjum þeim valdapíramída sem reistur er í þágu valda og yfirráða. Sannarlega er boðskapur Krists af öðrum toga. Völdin eru ekki markmið starfa hans. Yfirráðin eru ekki mælikvarði á árangurinn og yfirgangurinn sem þarf að sýna til þess að ná þeim fram verður ekki prófsteinn á mannkosti og hæfni til þess að skara fram úr.

Jesús snýr þeim mælikvörðum algerlega á hvolf. Og við fyrstu hughrif við lestur fyrirsagnarinnar: „Jesus og tólf aðrir fá ríkisborgararétt á Íslandi“ er auðvitað eins og allt renni upp fyrir þeim sem spyr sig hvort þeir hafi ekki átt hér vísan stað í gegnum aldirnar.

Upsakristur er víða

Þeir eru auðvitað margir eins og Kristur sá sem kenndur er við bæinn Upsa í Svarvaðardal. Hversu mjög höfum við ekki skynjað það sama vald í fari þeirra sem koma fram í nafni kristinnar trúar? Þarf ekki að horfa aftur til liðinna tíma til þess að finna dæmi um slíkt. Við skynjum það víða í söfnum sem kenndir eru við Krist hvernig leiðtogar rísa upp og drottna þar yfir þeim sem tilheyra hópnum.

Við eigum hins vegar hugmyndafræði sem byggir á kenningum Krists, þar á meðal þeim orðum sem hér var vitnað í. Upp frá þeim er komin aðferðin sem kennd er við þjónandi forystu og hinn þjónandi leiðtoga. Hún hvílir á þeirri sannfæringu að hver og einn hafi þá frumskyldu að þjóna samfélaginu sem hann leiðir. Hlutverk leiðtogans er því það að styrkja þá og efla sem í kringum hann starfa í eigin leiðtogahlutverki. Þjónandi leiðtogi sækist ekki eftir völdum og áhrifum, þjónustan við samfélagið skiptir höfuðmáli í hverju því verkefni sem ráðist er í.

Frumsöfnuðirnir

Upp frá þessu verður mikill vöxtur og þegar við rýnum aftur í sögu frumsafnaða kirkjunnar, þeirra hópa sem litu á Krist sem leiðtoga sinn og fyrirmynd, þá sjáum við það svo vel hversu árangursrík sú aðferð var, já og gefandi og tilgangsrík.

Á þeim tíma þegar sjúkir, holdsveikir, fátækir, já og útlendingar voru hafðir utangarðs í samfélögum, hlúðu kristnir menn að slíku fólki og veittu því fæði og klæði. Já og húsaskjól. Þetta vakti athygli í því umhverfi þar sem þeir störfuðu og þær gegndarlausu ofsóknir sem þeir máttu þola viku smám saman fyrir aðdáun. Þarna urðu þeir sem áttu sér Krist að fyrirmynd, sjálfir að fyrirmynd þeim sem vildu eiga tilgangsríkt líf.

Ekkert kallar eins vel fram í okkur þá sterku kennd sem það er að vera maður en það þegar við hlúum að náunga okkar, ekki síst þeim sem standa utan garðs.

Réttur til ríkisfangs

Og það var auðvitað inntak þessarar fréttar. Jesus þessi var ekki Jesús frá Nazaret, heldur maður að nafni Jesus Rodriguez Fernandez, fæddur á Spáni 1976 árum eftir fæðingu þess sem hann heitir eftir. Og hinir tólf voru ekki postularnir heldur litríkur hópur fólks sem kemur úr öllum heimshornum og á það eitt sameiginlegt að leita að betra lífi hér á Íslandi.

Og í hópi þeirra sem reglulega mæta í Keflavíkurkirkju eru hjónin Farzaneh og Ebrahim. Þau eru frá Íran og hafa þurft að flýja frá heimalandi sínu vegna trúarofsókna. Já, þau eru kristin í umhverfi sem umber ekki slíkt litróf og var það af ótta við líf sitt sem þau fluttu hingað til Íslands. Við biðjum fyrir því að þau megi að sama skapi fá borgararétt í landi okkar. Guð blessi þau.

Rétturinn sem því er veittur til ríkisfangs er sannarlega í þeim anda sem Jesús boðaði og hann orðar svo vel í guðspjalli dagsins. Hlutverk okkar er ekki það að drottna heldur að þjóna.

Með þjónustu okkar breytum við umhverfi okkar til batnaðar, við höfum áhrif á þá sem með okkur standa, við getum orðið fyrirmyndir eins og sannir kristnir menn hafa verið á öllum tímum. Allt þetta gerir okkur að leiðtogum, þjónandi leiðtogum. Hlutverk þeirra er þrungið siðferðislegu gildi því það snýst um fólkið sem í kringum okkur stendur og heiminn sem við erum hluti af.

Göngum rösklega til verks í nafni Jesú frá Nazaret og þjónum heiminum með gleði svo hann megi bera vott um kærleika Krists.