BloggGuð

BloggGuð

Jesús var bloggari sins tíma. Blogg nútímans er það að koma boðskap á framfæri. Koma því til skila sem hverfist um í huga. Það sem skilur á milli þá og í dag er það að orðið eða orðin standa stutt við í dag í huga. Ef ekki er staðið á “tánum” og þau meðtekin eru þau frá.

Nú var mikill fjöldi saman kominn, og menn komu til hans úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið, og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt, en skrælnaði, af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt. Að svo mæltu hrópaði hann: Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri.

En lærisveinar hans spurðu hann, hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.

En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni, merkir þá, sem heyra orðið, en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra, til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina, merkir þá, sem taka orðinu með fögnuði, er þeir heyra það, en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund, en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna, merkir þá er heyra, en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.

Lúk. 8.4-15

Orðum sáð

Ég hef oftar en ekki komið sjálfum mér á óvart þar sem ég er í þungum þönkum um hvernig Jesú bæri sig að við boðskapinn ef hann væri meðal okkar í dag. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að hann væri líklega meira en annað mikilvirkur bloggari. Hann var bloggari sins tíma. Blogg nútímans er það að koma boðskap á framfæri. Koma því til skila sem hverfist um í huga. Það sem skilur á milli þá og í dag er það að orðið eða orðin standa stutt við í dag í huga. Ef ekki er staðið á “tánum” og þau meðtekin eru þau frá. Sum þeirra fara svo hratt hjá að aðeins heyrist ómur þess eina augnabliksstund er það fellur hjá og önnur koma og fara og koma. Orð geta byggt upp og orð geta rifið niður-það er ekki nýtt-þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það verða. Orð verða að segjast-þögnin skilur ekkert eftir sig annað en slóða þess sem ekki var sagt órekjandi með öllu.

Við lifum á timum þar sem hið talaða orð hefur aldrei verið fyrirferðameira, háværa og ef eitthvað minna vægi. Það kemur úr öllum áttum og rásum daginn inn og daginn út. Það er engin óhult/ur fyrir þeim. Oftar en ekki höfum við lítið sem ekkert um það að segja hvað “gusast” yfir okkur. Afleiðing þessa verður auðvitað sú að víð myndum ónæmi fyrir orðum og þeim boðskap sem þau oftar en ekki fela í sér. Boðskapur orða er auðvitað misjöfn að gæðum. Tilgangur orða getur verið sá að byggja upp og rífa niður. Orðið í sjálfu sér hefur ekkert um það að segja í hvaða samhengi það er sett fram og hvaða tilgangi það þjónar heldur er það sá eða sú sem notar þau sem ber ábyrgðina. Orð eru sögð til að ná huga einhvers eða orð eru sögð án nokkurs tilgangs.

Orð eru sögð til að fylla upp í tómarúm þagnar merkingarlaus með öllu aðeins að afmá neyðarlega kyrrð þagnar. Orð geta verið egghvöss eins og vel brýnt sverð og þeim er ætlað að skera í herðar niður þann sem þeim mætir og tvístra huga. Orð geta stungið í hold svo undan blæðir. Orð eru til alls-án orða erum við ekkert. Orð eru sveipuð skarti klæðnaðar og fyllt tónum lita og hugarflugs. Orðið er allstaðar-fyllir hvern krók og kima og leitar eftir huga til að taka í fóstur og fæða og klæða og verða að því sem það óskar sér helst að vera fyllt krafti og lífi. Orðið mætir okkur hverja okkar andartaksstund – það mætir okkur hlutlaust án þess að gera sér væntingar um hvað verður. Aðrar en þær að við bregðumst rétt við þegar við heyrum orðið. Það er okkar og engra annarra en okkar að bregðast við orðinu sem mætir okkur. Kann að vera að það sé óvinveitt eða fyllt kærleika og lífi sveipað von og björtum væntingum það skiptir engu máli í raun því spurningin er í hverskonar “jarðveg” fellur orðið. Jarðvegur hjartna okkar er margvíslegur. Fyllt súrefni vaxtar og þroska eða súru ylgdubragði sem aðeins veitir skjól og geymir orð sem valda depurð reiði og niðurrifi.

Viðtaka orðsins

Hvort heldur okkur líkar betur eða ver þá er það okkar að taka orðið til okkar. Kann að vera að þegar það fellur í huga og hjarta að við skiljum það ekki en við tökum samt við því. Leggjum huga að því eða alls ekki. Við erum minnt á þetta í guðspjalli dagsins. Orð voru sögð, en skilningin vantaði. Það er einmitt það sem við glímum við í dag. Það er svo margt sagt en við höfum ekki forsendur til að skilja.

Jesú talaði til samtímamanna sinna með þeim hætti að þeir gátu skilið hvað hann var að segja þeim. Hann notaði daglegan veruleika þeirra. “Sáðmaður gekk út að sá….” það ber við að áheyrendur hans skilja ekki hvað hann er að fara með orðum sínum og hann segir þeim það-hann lýkur upp orðunum þannig að þau finna fótfestu í huga og hjartna þeirra-einfalt ekki satt? Jesú talar ekki aðeins til samferðamanna sinna heldur og okkur líka. “féll sumt hjá götunni…” hver er viðtaka orðsins og hvernig mætir það okkur. Erum við að skilja hvað orðið ber með sér eða fer það hjá okkur meiðir engan og eða byggir upp? Auðvitað er allur gangur á því.

Því miður er það svo að orð hvort heldur þau eru sögð eða birtast á prenti hittir manneskju sem fyrir verður á miskunnarlausan hátt. Sögð eða skrifuð af þeim sem ættu að vita betur að verða ósögð. Það er barna háttur að láta ýmislegt frá sér án þess að hafa vit til að greina á milli hvort væru viðeigandi eða ekki-það er bara krúttlegt. En það er ekkert krúttlegt þegar meiðandi orð eru sögð bara til þess að meiða. Tilgangurinn sá einn að koma höggi á manneskju sem oftar en ekki hefur engin tök á að verja sig á einn eða annan hátt.

Oftar en ekki eru orð sögð inn í aðstæður og umhverfi þar sem viðtakendur hafa engar forsendur til að meðtaka á neikvæðan eða jákvæðan hátt. Samfélag nútímans er flóknara en svo að hægt sé að ætlast til að viðtakendur orðsins eru inni í málefninu og út frá því vegið og metið orðin sem sögð eru hvort heldur til upplýsingar og eða fróðleiks. Hraðfleyg orðin mæta okkur og óþreyjufull krefst þess af okkur að við tökum afstöðu til þeirra. Oftar en ekki erum við í engri aðstöðu til þess hvorki á neikvæðan hátt eða jákvæðan hátt. Það er svo gífurlegt magn upplýsinga sem við erum að meðtaka að aðeins brotabrot af því á degi hverjum náum við svo einhverju nemur. Þrátt fyrir það er við oftar en ekki tilbúin að mynda okkur skoðanir á mönnum og málefnum út frá því leifturbroti orða sem nema huga og hjarta okkar. Við könnumst öll við frasan um að það sé vandlifað í veröld þessari – það verður að segjast okkur til vorkunnar að það er nákvæmlega svo í dag á okkar tímum. Aldrei í veraldarsögunni hefur verið auðveldra fyrir hvern sem er sem hefur lágmarskþekkingu á orðinu að koma þeim fyrir sjónir allra. Þar sem engin sía er á hvað er sagt og hvað er skrifað. Uppbyggjandi orð og meiðandi orð takast á í huga okkar sem aðeins getum vegna magns þeirra aðeins skautað yfir og myndað okkur skoðanir og mönnum og málefnum út frá því.

Það fylgir því ábyrgð að mæla orð frá munni og að ekki sé talað um á prenti sem hægt er að sækja hvar og hvenær sem er sér til upplýsingar og eða nánari fróðleiks. Frelsinu fylgir ábyrgð

Í dag lifum við á tímum þar sem engin höft eru á orðinu og notkun þess, sbr.bloggið sem áður er nefnt. Það getur hver sem er talandi og skrifandi komið sínu á framfæri við alla með því að blogga úti sínum innstu og helstu hugðarefnum. Ritstjórinn ert þú og útgefandinn ert þú. Við tölum um prent og málfrelsi sem er vel. En þessu frelsi fylgir ábyrgð. Sú ábyrgð liggur hjá þeim sem mælir og skrifar orðin. Ábyrgðin er sú að vísvitandi má ekki meiða og særa. Sá eða sú sem sáir orðunum veit ekki hver sá er sem meðtekur orðin. Auðvitað hefur það alltaf verið svo þar sem frelsi til orðs og æðis var og er við lýði. Dæmi þess höfum við í gegnum mannkynssöguna og það er að gerast í dag. Við meðtökum upplýsingar og nákvæmlega sömu orðin á misjafnan hátt. Oftar en ekki túlkum við þau eftir því sem okkur hentar, sé það “málstaðnum” eða því sem við stöndum fyrir okkur til framdráttar. Hvað við látum frá okkur fara í orðræðu og riti fylgir mikil ábyrgð. Við viljum öll að orðið sem við sáum beri ávöxt. Þá væntingar höfum við hvort heldur að við mælum orð haturs og eða góðvildar. Það á jafnt við um hvort við erum í daglegri orðræðu við náungann og eða í ræðu yfir hópi fólks. Orð eru sögð til þess að hafa áhrif á þann eða þá sem við tölum til hverju sinni. Við erum oftar en ekki í þeirri stöðu að við vitum ekki hvaða eyru – hvaða hjörtu meðtaka orðin. Það er aldrei hægt að setja aðra en okkur undir þá ábyrgð heldur byrjar hún þ.e.a.s. ábyrgðin þegar í stað þegar við mælum orðin og eða ritum þau og sendum þau út. Það er okkar skylda í raun að halda áfram þótt við höfum á tilfinningunni að ekki er á okkur hlustað að breiða út orðið. Það er ekki hjá því komist að þau verði af einhverjum túlkuð á annan hátt en við ætluðum þeim að gera þegar þeim var “sáð”.

Ég minnist í þessu sambandi orða rithöfundar sem skemmti sér við að lesa ritdóma og hugleiðingar um texta þann sem hann hafði látið frá sér fara. Hann skemmti sér yfir því að orðin sem hann hafði einhverjum mánuðum eða árum sent frá sér væru honum orðin ókunnug. Þau lifðu sjálfstæðu lífi í huga þeirra sem lásu. Það segir okkur að orðið er aldrei dautt og líflaust, þvert á móti er það fullt af krafti og lífi. Krafti og lífi sem getur leyst það góða úr læðingi og líka haft allveg þveröfug áhrif. Við þurfum ekki annað en að fletta Biblíunni og lesa okkur áfram og bera saman bækur okkar við náungan til að komast að því að þeim orðum sem þar eru sáð eru túlkuð á mismunandi vegu. Það segir okkur aðeins það að orðið er lifandi. Það færir okkur ekki aðeins mismundandi sýn á lífið og tilveruna heldur og færir okkur sanninn um að orðið hvernig og hvar sem það heyrist og birtist verður ekki tjóðrað við “brúsapall” vanans og látið standa þar til það súrnar og verður hellt niður engum til gagns-ekki heldur jarðveginum sem tekur á móti því.

“Að heyra og skilja Guðs orð leggur þær skyldur á herðar að deila orðinu með öðrum.” Það er nefnilega okkar að taka við orðinu og færa það úr stað. Gera það hreyfanlegt þannig að komist sem víðast og ekki aðeins sem víðast heldur og að það geti breytt einhverju til hins betra. Til þess að svo megi verða verður orðið að fá að lifa og kanna nýjar lendur og staði. Bloggari nútímans er knúin áfram af þörf til að koma hugrenningum sínum á framfæri. Á sama hátt var Jesús knúin áfram af þörf til að boða orðið á jörðu að sá því í hjörtu. Hann vissi sem er að auðvitað féllu þau í frjóan sem og grýttan jarðveg hjartna okkar. Það varð ekki til þess að hann þagði og settist niður í volæði skilningsleysis heldur hvatti hann áfram til þess að boða orðið eins og enn er gert í dag. Kann að vera að tilveran hafi breyst bæði til ills og góðs en jarðvegur hjartna sem taka á móti hefur ekki breyst. Kann að vera að orðin standi stutt við í dag og eru ekki lengur að finna á brúspöllum fortíðar heldur í huga okkar sem erum hvikul og oftar en ekki eirðalaus. Það er okkar að þau verði bloggGuð í hjörtu til þess að þau mættu bera ávöxt vaxtar og þroska í veröldinni.