Snertu mig

Snertu mig

Kannski segir þessi saga okkur eitthvað um hvernig fyrirbæri trúin er í lífi manneskjunnar. Til að mynda það að hún verður ekki til bara með því að einhver segir okkur eitthvað. Trúin er eitthvað sem sprettur af alvöru reynslu, eins og því að sjá og snerta.

Allir sem hafa átt lítil börn hafa kynnst því að vakna til þeirra af því þau gráta og láta ekki huggast. Þeim er alveg sama hvað klukkan er og hvort mamma eða pabbi séu sofandi. Þau láta heyra vel í sér og hætta ekki fyrr en þau eru komin í fangið og finna öryggi snertingarinnar og hlýju líkamans.

Það getur tekið á að sinna þessum þörfum smábarnsins og því er ekki skrítið að fólk reyni á einhverjum tímapunkti að leggja upp aðgerðarplan sem hjálpar börnunum til að hugga sig sjálf. Þá venjast þau af því að þurfa að vera tekin upp og hugguð þannig, en læra að grípa til þess sem er nálægt og nota eigin nærveru til að róa sig.

Þetta getur létt streitu af foreldrunum - en það er líka allt og sumt. Rannsóknir sýna að streituhormónið sem losnar úr læðingi þegar óöryggi grípur okkur og við verðum hrædd, lækkar ekki hjá ungabörnum sem ná að róa sig sjálf. Streitan er þess vegna áfram ríkjandi í litlu líkömunum og vonda stresshormónið kortisól lækkar ekki þótt barnið sé hætt að gráta.

Það er bara við snertingu foreldrisins, og að fá að hvíla örugg í fanginu, að fá að sjá og snerta, sem barnið róast í raun og veru, og það getur slakað á. Ekkert kemur í staðinn fyrir líkamlega návist og snertingu. Á allra fyrstu blaðsíðum Biblíunnar, í sköpunarsögunni, segir sjálfur skaparinn: "Eigi er það gott að maðurinn sé einn." Þetta hafa vísindin staðfest að eigi sérstaklega við um ungbörn.

Þannig að við sem eigum lítil börn, verðum að þrauka þennan tíma, halda áfram að vera til staðar og hugga og knúsa. Þetta tekur enda, er ég a.m.k. dugleg að segja við sjálfa mig, þegar næturóróinn keyrir um þverbak.

Snertingin leikur lykilhlutverk í guðspjalli dagsins þegar við heyrum um lærisveininn Tómas, sem gat ekki trúað því sem vinir hans sögðu honum, um að Jesús væri upprisinn. Strax um kvöldið, hinn fyrsta dag vikunnar þegar upprisan hafði átt sér stað, var lærisveinahópurinn, vinir og vinkonur Jesú, samankominn bak við luktar dyr. Þau höfðu læst að sér, enda höfðu þau ástæðu til að óttast, þau voru í lúseraliðinu eftir að meistari þeirra og herra var líflátinn og vildu láta lítið fara fyrir sér. Þegar órói ríkir og ólga í samfélagi getur verið varasamt að tilheyra örlitlum minnihlutahópi sem hefur verið stimplaður sem uppreisnarseggir með glataðan málstað.

Þá birtist þeim allt í einu Jesús sjálfur, hann heilsar þeim með svo fallegri kveðju: Friður sé með yður. Og þau upplifa undrið, að sá sem var dáinn, var upprisinn. Hann sýnir þeim sárin á líkama sínum og stemningin í hópnum breytist undir eins. Í stað vonleysis, kvíða og ótta, kviknaði gleði og von í hjörtum þeirra sem voru viðstödd.

En það voru ekki allir viðstaddir af þeim sem höfðu fylgt Jesú frá Nasaret og orðið snortnir af boðskap hans um náungakærleik og frið á jörðu. Tómas, einn af lærisveinunum 12 sem Jesús kallaði til að fylgja sér, var ekki í hópnum sem sá Jesú þarna um kvöldið. Þegar vinir hans sögðu honum frá sinni reynslu var Tómas ekki tilbúinn til að trúa þeim. Hann þurfti meira. Hann þurfti að fá að sjá og snerta sjálfur.

Það er sagt að þegar við verðum fyrir áfalli af einhverju tagi, sé það ekkert einfalt mál að meðtaka hvað hefur gerst. Það tekur tíma. Ég stóð við hliðina á ungri manneskju sem hafði missti föður sinn, mann á besta aldri, mjög skyndilega. Unga manneskjan hafði ekki verið á staðnum þegar andlátið bar að heldur kom heim þegar hinn látni hafði verið fluttur burtu. "Ég verð að fá að sjá hann" sagði barnið um foreldri sitt, "annars trúi ég ekki að hann sé dáinn. Þetta er allt svo óraunverulegt." Því var komið í kring, og þótt sorgin hafi verið þung og skerandi, var það að fá að sjá og snerta elskaðan föður í hinsta sinn, mikilvægur þáttur í því að takast á við aðstæðurnar, átta sig á því hvað hefði gerst, og lifa með sorginni.

"Ég verð að fá að sjá hann", sagði Tómas líka, þegar vinir hans sögðu að Jesús væri upprisinn. Annars get ég ekki trúað þessu." Kannski segir þessi saga okkur eitthvað um hvernig fyrirbæri trúin er í lífi manneskjunnar. Til að mynda það að hún verður ekki til bara með því að einhver segir okkur eitthvað. Trúin er eitthvað sem sprettur af alvöru reynslu, eins og því að sjá og snerta.

Og þegar við lesum um Jesú, um samskipti hans við þau sem hann hitti og umgekkst, sjáum við að snerting og samneyti einkenndi hvernig hann nálgast fólk. Hann talaði ekki bara um að þjóna og elska, hann þjónaði og elskaði. Það er nærtækt að rifja upp þegar Jesús þvoði fætur lærisveina sinna og vina, á skírdagskvöld. Og nokkrum dögum áður hafði hann sjálfur notið slíkra atlota, þegar María vinkona hans, systir Mörtu og Lasarusar, smurði fætur hans með ilmsmyrslum og þerraði þá með hári sínu.

Svo mikið af mannlegri reynslu verður til í gegnum snertingu. Við þurfum á því að halda að snerta og vera snert, frá því við drögum andann í fyrsta sinn og þangað til við sleppum honum á dauðastundinni. Í gegnum lífið allt þjónum við og elskum með snertingu og við þiggjum snertingu í staðinn.

Mér finnst svo fallleg hugsun að segja að við séum hendur Guðs í heiminum og þess vegna vinnum við verk Guðs þegar við elskum og þjónum. Við kennum börnunum okkar að vera góð með því að láta þau strjúka með hendinni og segja aaa! Og vegna þess að litlar hendur geta líka klipið, klórað og slegið, er gott að vera dugleg að strjúka og segja aaa við öll tækifæri.

Jesús mætti þess vegna Tómasi sem þurfti að sjá og snerta með því að vera til staðar og leyfa honum að gera það sem var honum nauðsynlegt. "Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar og kom með hönd þína og legg í síðu mína og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður" segir Jesús við Tómas.

Þetta magnaða móment hafa ótal myndlistarmenn spreytt sig á að fanga með því að setja á striga. Það er eitthvað bæði heillandi og soldið ógeðslegt að sjá Tómas pota með fingrinum inn í stórt opið sárið á líkama Jesú. Kannski af því að þetta höfðar sterkt til hvatarinnar sem við finnum öll fyrir að kroppa í sár sem á að fá að gróa í friði? Sár vekja bæði forvitni og viðbjóð, við drögumst að þeim þótt þau kveiki einhverskonar frumandúð.

Kannski segir þessi saga okkur líka eitthvað um hvað manneskjan er viðkvæm, við berum á okkur sár lífsins, sum á líkamanum okkar og önnur innra með okkur. Við sýnum bara þeim sem við treystum þessi sár, en það getur kostað mikil átök. Stundum treystum við ekki einu sinni okkur sjálfum til að horfa á þessi sár. En sár þurfa aðhlynningu og alúð við að gróa. Kannski kemur trúin þarna inn í myndina, trúir þú því að sárin því sem þú hefur borið með þér allan þennan tíma, grói?

Jesús býður okkur að sjá sig og snerta sig. Við tjáum þetta og upplifum með samfélaginu sem við eigum í kringum kvöldmáltíðina þar sem við snertum efnin sem ásamt orðinu miðlar náð Guðs. Við tjáum þetta og upplifum þegar við berum litlum börnin okkar - þessi sem halda fyrir okkur vöku á nóttinni, muniði? - til skírnar, þar sem orðið, vatnið og snertingin miðla óendanlegum kærleika Guðs til manneskjunnar og fyrirheitinu að hvorki líf né dauði nái að gera okkur viðskila frá kærleika Guðs.

"Komdu með fingur þinn og komdu með hönd þína og snertu mig" segir Jesús. Trúin verður til við þessa reynslu, reynsluna af því að vera manneskja sem snertir og er snert.