Kirkjuþing sem nú situr virðist fast í sömu viðjum og kirkjuþingin frá því að sjálfstæði fékkst árið 1997. Síðan þá hefur það verið brýnasta verkefnið að koma á viðunandi og trúverðugu fyrirkomulagi á stjórn, stöðu og innri skipan sjálfstæðrar þjóðkirkju. Það á kirkjuþing að gera og það getur tekið sér vald til þess. Enn er málunum frestað og vísað til Kirkjuráðs.
Auðvitað eru heppilegustu samstarfssvæðin þrjú: Reykjavík, sem býr við allt aðrar aðstæður en kirkjan á landsbyggðinni, og svo gömlu biskupsdæmin tvö, hvert með sinn biskup, sem hefði ritara og etv einn eða tvo starfsmenn til viðbótar.
Biskup Íslands var settur niður í Reykjavík í upphafi 19. aldar af hagkvæmnisástæðum fyrir ríkisvaldið og það var hentugt að hafa það fyrirkomulag áfram á meðan einn aðili þurfti að tala fyrir og gæta hagsmuna kirkjunnar allrar gagnvart ráðuneyti og alþingi sem fóru með löggjafar- og framkvæmdarvald fyrir kirkjunnar hönd. Strax eftir að kirkjan öðlaðist sjálfstæði hefði hún átt að gera alvöu úr þremur biskupsdæmum, fyrirkomulagi sem sjálft kirkjuþing hafði samþykkt hvað eftir annað.
Biskupafundur verður að vera æðsta vald í varðandi kenningu, helgisiði og meginlínur í kirkjulegri þjónustu, sem svo væri hægt að útfæra í nánu samráði við grasrótina, hina lifandi söfnuði, svo notað sé gott og gamalgróið hugtak í kirkjulegri umræðu. Biskupar bæru þannig ábyrð á fyrirkomulagi á sínum svæðum sem eðlilega tæki mið mið af hefðum, en líka nýjum aðstæðum.
Á þeim forsendum gæti kirkjan t.d. betur nýtt og staðið vörð um eigur sinar og etv laðað frjálsa evangelíska lútherska söfnuði og sérþjónustuaðila að stofnunum sínum. Nú á að selja eigur og læsa sem mest niður í miðstýrt skipulag sem hætt er við að styrki ekki kirkjuna.
Íslenska ríkinu mundi vart detta í hug að skilja sig frá kirkju sem samsamaði sig þúsund ára hefð, sjálfri sögu þjóðarinnar, sem er svo nátengd biskupsstólunum fornu. Það er með kirkjuna eins og blómstrið eina, það þarf að fá næringu gegnum ræturnar til að blómgast í sólskininu. Ímynd kirkjunnar mundi ekki vera í veði þótt átök og ágreiningur kæmi upp á einum stað – viðunanleg fjölbreyttni yrði innan viðráðanlegra takmarka og frumkvæði yrði ekki jafnan kveðið niður með rökum miðstýrðs regluveldis.
Fólk mundi aftur skrá sig í kirkjuna og kirkjutraust eflast. Vissulega yrði kirkjulegur ágreiningur ekki úr sögunni en það yrði auðveldara að skilgreina hann og bregðast við. Nú er kirkjan í viðjum eigin strúktúrvanda og situr þar föst og gengur í gegnum hverja krísuna af annari.
Kirkjuþing 2010 fékk tækifæri til að taka á vandanum, en gerði það það?
Ég spyr kirkjuþingsfulltrúa hvern og einn?