Hraðar en hraðast!

Hraðar en hraðast!

Stundum hef ég á tilfinningunni að nútíminn haldi ekki í við sjálfan sig því hann fari svo hratt - taki svo langt tilhlaup að hann hafi skilið framtíðina eftir á ráslínunni og hún reyni að halda í við nútímann, öfugt við það sem var.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
22. febrúar 2007

Stundum hef ég á tilfinningunni að nútíminn haldi ekki í við sjálfan sig því hann fari svo hratt - taki svo langt tilhlaup að hann hafi skilið framtíðina eftir á ráslínunni og hún reyni að halda í við nútímann, öfugt við það sem var. Stundum heyrist líka þegar eitthvað fer afvega í lífi þjóðar á þá er nútímanum kennt um.

Nútíminn er ekki eitthvað fyrirbæri sem lifir eigin lífi hann er þrælbundin vilja okkar sem í dag lifum. Hvort heldur sem við erum ung að árum eða gömul. Skil nútímans og framtíðarinnar eru óskýr. Það er eins og vilji sé fyrir því að hafa það þannig vegna þess að við viljum ekki horfast í augu við okkur sjálf, við sem eigum að teljast til þeirra sem landið erfa-unga fólkið, sem telur sig vita allt betur en kynslóðirnar á undan. Vissulega er menntunarstigið hátt hér á landi – en það kom ekki til af engu. Heldur af eljusemi og kyrrlátum huga sem horfði til framtíðar án þess þó að vita nákvæmlega hvernig sú framtíð liti út í raun. Unnið var hörðum höndum að því að vera tilbúin að taka á móti henni þegar hún léti sjá sig. Það gerði hún í ýmsum myndum. Vegslóðar aldanna á undan urðu að hraðfara vegum, vanstmiklar ófærar ár urðu sem “mjálmandi kettlingar” og húsin réttu úr sér og horfðu til himins boðleg hverjum sem er. Þetta gerðist ekki á einum eftirmiðdegi eftir langan vinnudag heldur reis upp smátt og smátt og varð að því sem það er í dag. Byggt á væntingum og draumum genginna kynslóða og þeirra sem ævikvöldið hefur heilsað.

“Heilsufar þjóðar”, las ég í grein í ensku tímariti, má sjá og mæla hvernig búið er að þeim sem aldraðir teljast, sem hafa lagt sitt að mörkum til samfélagsins í gegnum árin. Ég man að mér þótti þetta merkileg sýn og mælikvarði á heilsufar þjóðfélags. Sannast sagna hafði ég ekkert leitt hugann að því að þjóðfélag í heild sinni gæti verið veikt eins og einstaklingur. Niðurlag greinarinnar var það að heilsufar breska samfélagsins fékk falleinkunn vegna þess að ekki var nógu vel búið að öldruðum, félagslega og fjárhagslega hvort heldur kæmi á undan og væri afleiðing hvers. Það var ekki það sem skipti máli heldur það að sú kynslóð sem hafði lagt hönd á að verja þjóðina fyrir innrás erlends herafla á sínum tíma heima og að heima lágu meira og minna óbætt hjá garði. Fyrirsögn greinarinnar var “Skömm.”

Þegar árin færast yfir eins og galdur eins og Ólafur Haukur Símonarson rithöfundur og skáld orðaði svo ágætlega í einum að sínum textum. Þá gerist það að hugsun og hreyfingar hægja á sér – hraðinn verður ekki sá sem var. Tilfinning sorgar og missis kann að sækja á þegar tilveran hraðskreið fer framúr og tilfinning þess að vera eftir yfirtekur huga og vanmáttur alls sest að eins og boðflenna.

Það sem meira er að þessi meinsemd samfélagsins fer neðar og neðar í árum, óþolinmæði tilverunnar eyrir engu eða engum. “Ungur nemur gamall temur” safnar ryki á vegslóða þess sem var – kyrfilega bundið undir malbiki framfara og aukins hraða. Mitt í fingerðu ryki framfara spyr maður í barnslegri einlægni skyldi koma að þvi að hraðinn komist ekki hraðar – hvað þá? Það er horft á þig eins og þú værir ekki af þessum heimi. Maður fær ónotalega tilfinningu um stund, skyldi það vera? Sú tilfinning varir ekki lengi og veltur því ekki fyrir sér lengur heldur tekur þátt í hraðanum. Það sem var í dag er ekki á morgun. Það sem var í gær er ekki í dag.