Hvað erum við að tala um þegar við tölum um “Vinaheimsóknir” ?
Við erum að tala um að heimsækja fólk, það er mikilvægur liður í kærleiksþjónustu kirkjunnar að láta sér annt um náungan. Í Markúsarguðspjalli segir Jesús:
Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð er þessu meira.Náunginn eða vinurinn getur átt erfitt með að komast út á meðal fólks og fáir koma kannske til hans aðrir en fjölskyldan. Þrátt fyrir að fjölskyldan sinni vel heimsóknum getur innlit frá óviðkomandi manneskju breytt daglegu mynstri og verið spennandi viðbót.
Þá skipta vinaheimsóknir miklu máli fyrir fólk sem á engan að eða fámenna fjölskyldu sem hefur mikið að gera og við vitum að margir hafa nóg með sig.
Í þessum heimsóknum er til dæmis hægt að lesa fyrir fólk, ekki hafa allir þá sjón að geta t.d. lesið blöðin, á eftir má síðan ræða það sem lesið var um. Þá má einnig hugsa sér að tefla eða spila á spil. Margir hafa gaman af því að segja frá og rifja upp gamla daga. Að heyra af lífi fólks sem er eldra og man tímanna tvenna er oft forvitilegt og jafnvel þroskandi fyrir heimsóknarvininn.
Í öðrum tilvikum má fara út að ganga með viðkomandi, margir ganga við göngugrind eða eru í hjólastól þessu fólki þarf að hjálpa svo það komist út undir bert loft. Einnig er hægt að fara með vininn í bíltúr. Þörfin getur verið mismunandi. Þarna er kjörið tækifæri fyrir sjálfboðaliða.
Svona heimsóknir gefa ekki einungis þeim sem heimsóttur er, þær gefa einnig þeim sem heimsækir í sjóð minningnana.
Gleymum því ekki að maður er manns gaman.