Nú skömmu fyrir jól hefur sprottið upp nokkur umræða í fjölmiðlum um skólaheimsóknir í kirkjur á aðventu. Ýmsir hafa í nafni fjölhyggjunnar svokölluðu kvartað sáran yfir því að íslensk börn skuli fara með skólum sínum í slíkar heimsóknir. Og í ljós hefur komið að þessir hinir sömu vilja sumir helst slíta algerlega á tengsl skóla og kirkju. Þau tengsl eru reyndar gömul og traust. Öld kristninnar gekk í garð á Íslandi þúsund árum eftir hin fyrstu jól í Betlehem sem börnin syngja um í skólaheimsóknunum á aðventu. Þá urðu tímamótin miklu hér hjá okkur, þegar forfeður okkar tóku kristna trú. Reyndar var það ekki svo að hér hafi búið heiðin þjóð fyrir kristnitökuna þó því sé oft haldið fram. Nei, þvert á móti, stór hluti landnámsmanna var frá upphafi kristinnar trúar, bæði írskir forfeður okkar og skandinavískir menn sem höfðu tekið trú á ferðum sínum. En kristninni var haldið niðri af heiðinni yfirstétt. Eftir að landsmenn allir tóku kristni, lærðu þeir að lesa og skrifa og breyttust úr hálfsiðaðri þjóð í siðmenntaða þjóð, bókaþjóð, eins og við urðum og erum og viljum halda áfram að vera enn í dag. Kristnitakan olli straumhvörfum í sögu Íslendinga – rétt eins og í sögu allra þeirra þjóða sem kristinn átrúnaður hefur snortið. Hér höfum við síðan og allt til þessa dags haft kristið siðgæði að leiðarljósi, kærleikann, umhyggjuna fyrir náunganum og Gullnu reglu Jesú sem hljóðar svo – allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra. Eitt fyrsta verk hins kristna miðaldasamfélags eftir kristnitökuna var í anda þessarar reglu - útburður barna var bannaður og sömuleiðis að koma öldruðu fólki fyrir kattarnef. Fátækrahjálp og stuðningur við sjúka fylgdi í kjölfarið en ekkert slíkt hafði þekkst áður. Síðar var það hin kristna trú sem blés forferðum okkar kraft í brjóst á tímum harðræðis, hungurs og áþjánar – og lýsti leiðina til bjartari tíma á tuttugustu öld undir krossfánanum sem blaktir enn yfir landinu. Velferðarsamfélagið sem við öll viljum standa vörð um er sproti af þessum sama meiði – grundvöllur þess er Gullna reglan sem Jesús boðaði okkur.
Kristni hefur þannig viðgengist í landinu í meira en tíu aldir, og jafn lengi hafa landsmenn haldið heilög kristin jól. Öld eftir öld hefur kristin siðfræði og kristin boðskapur mótað okkur og fært okkur fram til góðs þó margt sé auðvitað enn að í mannheimum eins og gengur. Kirkjan hafði einnig forystu um fræðslu fram eftir öldum og þegar barnaskólar ruddu sér til rúms, þá voru það prestar sem höfðu forystu um stofnun þeirra. Sem dæmi má nefna einn elsta skóla landsins, Barnaskólinn í Garði, sem stofnaður var 1872 – en stofnandi hans var séra Brynjólfur Sigurðsson. Annað dæmi má nefna úr Hafnarfirði. Árið 1877 var Flensborgarskólinn stofnaður, upphaflega sem barnaskóli. Það var séra Þórarinn Böðvarsson, prófastur á Görðum á Álftanesi, sem stofnaði skólann til minningar um son sinn, Böðvar. Kennaraskólinn var síðan stofnaður 1907. Fyrsti rektor hans var séra Magnús Helgason, en hann var rektor til 1929. Þannig mótuðu prestar bernskuspor barnaskóla hér á landi og ruddu leiðina fyrir menntun almennings.
Nú er eins og fyrr segir sótt að þessum kristnu gildum sem mótuðu skólana í upphafi hér á landi. Ný kenning er sögð eiga að leysa af þann kristna grunn sem við byggjum okkar samfélag á. Sú kenning er kölluð fjölhyggja og segir að allt sé afstætt bæði í trú, samfélagsháttum og siðfræði. En fjölhyggjan er í raun blekking og fjölhyggjusamfélagið í þessari afstæðu og trúlausu mynd er hvergi til. Trúfrelsi er tryggt á Vesturlöndum enda eru það ekki aðrir trúflokkar sem hamast gegn kristnum sið hér á landi eða kirkjuhimsóknum skóla á aðventu. Ég get nefnt sem dæmi að til mín í kirkjuna koma fyrir jól börn bæði búddista og múslíma, með fullu leyfi foreldra, og hafa gaman af. Enda kirkjan samofin menningu þjóðarinnar órjúfanlega. En undir gagnrýninni á tengsl skóla og kirkju rær illa dulin mannhyggja. Þeir sem lengst ganga þar á bæ vilja afmá öll tákn kristindóms í samfélaginu. Þeir vilja þjóðsöngin burt, enda lofsöngur til Guðs, fánann burt, enda er þar sterkasta tákn kristninnar á ferð og kristið siðgæði, Gullnu regluna, burt úr skólanum.
En við skulum gera okkur grein fyrir því að ef kristin gildi eru aflögð hlýtur eitthvað annað að koma þar í stað. Mannkynssagan kennir okkur það. Saga tuttugustu aldarinnar sýnir síðan hverjum sem vera vill hvílíkar hörmungar mennirnir hafa kallað yfir sig í þjóðfélögum sem hafna Guði en setja manninn á stall í hans stað.
Slík kúgun fámenns minnihluta, ef af yrði, væri brot á réttindum allra hinna mörgu sem áfram vilja farsælt samstarf skóla og kirkju í landinu eins og verið hefur allt frá upphafi skólahalds hér á landi.