Svar til efahyggjumanns/guðleysingja

Svar til efahyggjumanns/guðleysingja

Þakka þér fyrir að benda mér á athugasemdir þínar við prédikun minni. Það er gott að vita að þú sýnir prédikunum presta áhuga og viljir ræða þær – jafnvel þótt þú teljir prédikun mína „endemis þvæl[u]“ og „með því vitlausara frá fullorðnum háskólagengnum einstaklingi sem [þú] hef[ur] lesið um tíðina“
fullname - andlitsmynd Gunnar Jóhannesson
19. júní 2009

Kristinn nokkur Theódórsson hafði eitt og annað að athuga við prédikun mína, Gæðin og Guð, sem ég flutti í Hóladómkirkju 14. júní sl. og birti í kjölfarið á trúmálavef Þjóðkirkjunnar. Kristinn birti gagnrýni sína, Um postillu sr. Gunnars Jóhannessonar, á bloggi sínu og bauð mér að bregðast við henni ef ég vildi. Það er gert hér að neðan.

* * *

Sæll og blessaður, Kristinn.

Þakka þér fyrir að benda mér á athugasemdir þínar við prédikun minni. Það er gott að vita að þú sýnir prédikunum presta áhuga og viljir ræða þær – jafnvel þótt þú teljir prédikun mína „endemis þvæl[u]“ og „með því vitlausara frá fullorðnum háskólagengnum einstaklingi sem [þú] hef[ur] lesið um tíðina“. Viðhorf þín koma mér ekki á óvart og bera þau efahyggju þinni – og líklega guðleysi þínu – gott vitni. Hitt er annað mál að þú virðist bæði misskilja mig og gera mér upp skoðanir í umfjöllun þinni. Þá þykir mér miður að þú skulir bera viðhorf þín fram með þeim hroka og því yfirlæti sem orðaval þitt á köflum ber vitni um. Burtséð frá því skal ég bregðast við gagnrýni þinni, ekki síst í ljósi þess að margt þurfti að liggja á milli hluta í prédikuninni.

Fyrst er að nefna að þú gerir mér upp skoðun er þú segir að ég hafi látið guðleysingjann sem ég minnist á í upphafi prédikunarinnar fara í taugarnar á mér. Það var alls ekki svo og ég skil ekki hvers vegna þú segir það. Ég er að vísa í samræður mínar og góðvinar míns sem fóru fram í mesta bróðerni þrátt fyrir öndverðar skoðanir. (Hann mundi sjálfur gangast við hæðni sinni.) Ég notaði einfaldlega atvik úr daglegu lífi sem útgangspunkt í upphafi prédikunarinnar.

Megingagnrýni þín beinist að tveimur atriðum sem ég ræði í prédikun minni sem varða annars vegar hinar tilvistarlegu afleiðingar guðlausrar heimsskoðunar og hins vegar samband hennar og siðferðis.

Hvað fyrrnefnda atriðið varðar skal það tekið fram að ég er einfaldlega að taka undir með mörgum guðleysingjum sem sjálfir hafa bent á hið sama. Guðleysingjar á borð við Friedrich Nietzsche Bertrand Russel, Albert Camus, Jean-Paul Sartre, Richard Dawkins o.fl. hafa áttað sig á hinum tilvistarlegu afleiðingum guðleysis síns, nefnilega að guðleysi sviptir lífið og tilveruna öllum eiginlegum tilgangi, merkingu og gildi. Þannig er maðurinn, að mati Bertrand Russel, aðeins tilgangslaus aukaafurð tíma plús efnis plús tilviljunar. Að mati Russel er „uppruni mannsins, vöxtur hans, vonir hans og væntingar, kærleikur hans og trú, aðeins afleiðing ósjálfráðrar samstillingar atóma.“ Hann segir ennfremur að „enginn eldmóður, engin hetjudáð, engin ákefð hugsunar eða tilfinninga, getur varðveitt líf einstaklingsins handan grafarinnar; allt erfiði aldanna, öll trúrækni, sérhver andagift og allur ljómi mannlegrar hugsunar bíður þess eins að verða að engu í hinum algjöra dauða sólkerfisins; og það musteri sem hýsir afrek mannsins mun óhjákvæmilega hrynja til grunna og grafast undir í rústum þess alheims sem var.“ Russel taldi ekki hægt að grundvalla lífið á öðru en þessari „angist án enda“.

(Ef raunin er sú að allt, og þar á meðal uppruni mannsins, sé afleiðing af tilviljanakenndum árekstri atóma þá þýðir það að hugsanir og skoðanir mannsins eru aðeins aukaafurð þeirrar tilviljunar. Það á einnig við um hugsanir og skoðanir Bertrand Russel og annarra efnishyggjumanna. Ef svo er, ef hugsanir þeirra eru aðeins tilviljunarkennd aukaafurð, hvers vegna ættum við að trúa því að þær séu sannar og gefi rétta mynd af veruleikanum?)

Dawkins tekur undir með Russel er hann segir með eftirminnilegum hætti að „alheimurinn, eins og hann blasir við, er nákvæmlega eins og við er að búast ef það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint, miskunnarlaust tómlæti“. Á öðrum stað segir Dawkins að maðurinn sé ekkert annað en æxlunarvél fyrir DNA og í því liggi tilgangur hans.

Á grundvelli slíkrar heimsskoðunar er ekki hægt að réttlæta þá ályktun að lífið hafi gildi í sjálfu sér eða að tilvist mannsins hafi einhverja eiginlega merkingu eða þýðingu. Líti guðleysingjar á að svo sé þá eru þeir einfaldlega ósamkvæmir sjálfum sér.

Guðleysinginn, sagnfræðingurinn og þróunarlíffræðingurinn William Provine hefur sagt að ef darwínsk efnishyggja sé rétt þá fylgi fimm óhjákvæmilegar afleiðingar: (1) Það er ekkert sem bendir til tilvistar Guðs. (2) Það er ekki líf eftir dauðann. (3) Það er enginn algildur grundvöllur fyrir rétt og rangt. (4) Það er engin merking eða tilgangur á bak við lífið. (5) Fólk hefur ekki frjálsan vilja.

Þetta eru auðvitað ekki ný viðhorf. Í Prédikaranum í Gamla testamentinu er m.a. fjallað um eðli veruleikans í ljósi þess viðhorfs að Guð sé ekki til. Í því samhengi er sagt:

„Því að örlög mannanna og örlög skepnunnar - örlög þeirra eru hin sömu: Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn, og allt hefir sama andann, og yfirburði hefir maðurinn enga fram yfir skepnuna, því að allt er hégómi. Allt fer sömu leiðina: Allt er af moldu komið, og allt hverfur aftur til moldar.“ (Pd 3.19-20)

Við þetta má svo bæta að á endanum hverfur sjálf moldin, þ.e. alheimurinn ferst óhjákvæmilega skv. heimsmynd vísindanna. Þetta merkir að allt sem maðurinn gerir í sínu lífi hefur enga hinstu merkingu og breytir að engu leyti því sem óhjákvæmilega bíður hans og alls sem er. Hér er einfaldlega um að ræða rökrétta ályktun að gefnum tilteknum forsendum.

(Samkvæmt guðlausri efnishyggju er heimurinn einfaldlega lokað kerfi og allt sem gerist innan þess má útskýra á grundvelli einhvers annars innan kerfisins. Með öðrum orðum er enginn eiginlegur tilgangur né merking. „Alheimurinn bara er,“ eins og Russel sagði. Auðvitað má minna á að vísindin hafa svipt viðhorf Russel öllum skynsamlegum stoðum með því að hefja yfir allan skynsamlegan vafa þau aldagömlu heimspekilegu sannindi að alheimurinn sé ekki eilífur heldur hafi orðið til á tilgreindu augnabliki í fortíðinni (sbr. 1M 1.1) – sem merkir að orsök alheimsins er yfirnáttúruleg, þ.e. ekki af náttúrulegum toga, og liggur handan tíma, rúms og efnis, og er því eðli málsins samkvæmt eilíf, takmarkalaus, óefnisleg og máttugri en allt sem er þar sem hún orsakaði allt sem er.)

Guðlaus efnishyggja getur því af sér angist án enda, eins og Russel orðar það. Það er því ekki að undra að heimspekingar á borð við Sartre og Camus hafi sagt að eina alvöru heimspekilega spurningin sem vert væri að spyrja væri sú hvers vegna við fremdum ekki sjálfsmorð.

En eins og þú segir réttilega, Kristinn, lifir fólk ekki lífi sínu eins og það hafi enga merkingu eða tilgang. Við getum það hreinlega ekki. Án þess að leiða hugann sérstaklega að því gera flestir ráð fyrir því að líf þeirra hafi tilgang og gildi í sjálfu sér. Tilgangur, gildi og merking lífsins og tilverunnar fellur vitanlega að kristinni heimsskoðun og leiðir eðlilega af kristinni trú. En guðleysingjar sem lifa líkt og lífið hafi tilgang og gildi verða að ganga lengra en heimsskoðun þeirra leyfir. Þeir geta ekki, með öðrum orðum, réttlætt viðhorf sín á grundvelli eigin heimsskoðunar. Þótt guðleysingi gangi út frá því að líf hans sé mikilvægt og þrungið tilgangi (sem ég efast alls ekki um að það sé) þá er þar aðeins um að ræða huglægt viðhorf sem leiðir ekki af sér að lífið sjálft eigi sér tilgang og merkingu í hlutlægri merkingu.

Í þessu samhengi ber að geta þess að hér er ekki um að ræða rök fyrir sannleiksgildi guðstrúar heldur er miklu fremur bent á merkingu og afleiðingar guðlausrar heimsskoðunar og hversu mikilvæg og afdrifarík spurningin um Guð er. Vitanlega lifa og hrærast guðleysingjar og guðstrúarmenn í einum og sama veruleikanum. En annaðhvort gefur guðleysi rétta mynd af þessum veruleika eða guðstrú – það er enginn millivegur í þeim efnum, annaðhvort er Guð til eða ekki, annaðhvort hefur guðleysinginn rétt fyrir sér eða guðstrúarmaðurinn. Að mínu mati eru engin góð rök fyrir guðleysi. Hins vegar tel ég ýmis rök skjóta afar skynsamlegum stoðum undir það viðhorf að Guð sé til í reynd og að guðstrú gefi raunrétta mynd af veruleikanum.

Þá vil ég koma að seinna atriðinu sem þú gagnrýnir og varðar sambandið milli guðlausrar heimsskoðunar og siðferðis. Þú segir m.a. að þér þykir það dapurlegt ef „orðræða af þessu tagi sé . . . af einhverjum talin boðleg upplýstu fólki sem hugleiðing um siðgæði“. Ég vil minna þig á að vangaveltur mínar í þessum efnum eru vitaskuld ekki nýjar af nálinni heldur hafa svipaðar spurningar leitað á vel upplýst fólk um aldir, heimspekinga, guðfræðinga og vísindamenn af ýmsum toga, jafnt trúaða sem guðlausa, sem hafa séð fyllstu ástæðu til að taka þær alvarlega.

Til að byrja með vil ég staðhæfa að ég er alls ekki þeirrar skoðunar að trú eða trúarbrögð séu forsenda „góðmennskunnar“ eða siðferðis almennt og yfirleitt. Eins og gjarnt er með efahyggjumenn/guðleysingja virðist þú gera ráð fyrir því að sem guðstrúarmaður sé ég þeirrar skoðunar þótt ekkert í prédikun minni hafi gefið tilefni til að gera mér þá skoðun upp. Að því gefnu að viðkomandi sé réttilega kristinnar trúar ætti hann að vera fyrstur til að segja að guðstrú sé ekki nauðsynleg sem undirstaða góðs siðferðis eða réttrar siðferðilegrar breytni. Það er hins vegar skoðun mín að tilvist Guðs sé nauðsynleg undirstaða algilds siðferðis (þ.e. siðferðisviðmiða sem eru gild óháð stað og stund og skoðunum fólks) – burtséð frá því hvort fólk trúi á hann – og í því eru vangaveltur mínar í prédikun minni fólgnar. Að mínu mati getur guðlaus heimsskoðun ekki grundvallað siðferði í þeim skilningi.

Eins og sjá má af ofangreindum orðum Dawkins hafnar hann einfaldlega tilvist rétts og rangs og góðs og ills í krafti guðlausrar efnishyggju sinnar. Líkt og Provine bendir á mást út skilin á milli rétts og rangs og góðs og ills í guðlausum heimi enda ekki hægt að grundvalla þau á neinu. Líkt og margir aðrir guðleysingjar átta þeir Dawkins og Provine sig á því að siðferði í algildri merkingu fellur ekki að guðlausri, darwínskri efnishyggju og rúmast ekki innan hins lokaða kerfis sem alheimurinn þá er. Að gefnum guðlausum veruleika hafa hugtökin rétt og rangt og gott og illt enga hlutlæga merkingu. (Ef gengið er jafnvel út frá því að maðurinn hafi ekki frjálsan vilja – eins og Provine gerir réttilega – þ.e. að allt sem maðurinn geri sé nauðsynlega skilyrt af einhverju öðru, umhverfi, erfðum, líffræðilegum ferlum o.s.frv., þá er fráleitt að sakast við manninn sjálfan þegar kemur að breytni hans. Það væri fáránlegt að lofa hann eða lasta fyrir gjörðir „sínar“.

Með öðrum orðum: Þegar kemur að réttu og röngu, góðu og illu, þarf guðleysinginn enn og aftur að ganga lengra en heimsskoðun hans leyfir. (Hann þarf að taka að láni frá öðrum heimsskoðunum, og þá fyrst og fremst hinni kristnu heimsskoðun.) Ef Guð er ekki til er veruleikinn efnislegur og náttúrulegur að öllu leyti. Hann er einfaldlega eins og hann er og gæti ekki verið öðruvísi. Sé það svo á hvaða grundvelli gagnrýnum við þá ranglæti eða köllum eftir réttlæti. Þessari spurningu varpaði ég fram í prédikun minni og hún er fyllilega gild. Þú lagðir ekki fram nein rök, Kristinn, sem ógilda spurningu mína.

(Þú nefnir að samfélagið taki „ákvörðun um að ákveðnir hlutir séu ekki ásættanlegir“ og það sem gengur gegn þeirri ákvörðun ber að gagnrýna. En það eitt merkir ekki að viðkomandi hafi beinlínis gert eitthvað rangt eða illt í siðferðilegri merkingu. Hann einfaldlega gengur gegn viðteknu viðhorfi samfélagsins. Þarf ekki annað til að grundvalla rétt og rangt en „samfélagslega ákvörðun“? Var þrælahald ekki rangt? Var aðskilnaðarstefnan ekki röng? Lengi mætti spyrja! Hvað var það sem gerði þau beinlínis röng?)

Um leið og við segjum eitthvað rangt eða illt (sbr. samfélagslegt óréttlæti) erum við að segja að veruleikinn sé ekki eins og hann eigi að vera. Um leið og við segjum það erum við að segja að við vitum hvernig hann ætti að vera. Við erum að segja að það sem er sé ætlað að vera með öðrum hætti. Hvernig er hægt að segja það á guðlausum forsendum? Guðlaus heimsskoðun leyfir ekki slíkt stökk. Guðleysi getur ekki brúað bilið á milli þess er er og þess sem ætti að vera, þ.e. þess sem við vildum að væri. Þegar við segjum að eitthvað sé ekki eins og það ætti að vera felur það í sér þá forsendu að því hafi verið ætlað að vera með ákveðnum hætti. En samkvæmt guðlausri heimsskoðun er ekki hægt að gefa sér slíka forsendu. Hvernig er hægt að draga þá ályktun að eitthvað sem er náttúrulegt, efnislegt, óhjákvæmilegt, sé gott eða slæmt, rétt eða rangt? Út frá forsendum guðleysis svara gildisdómar af þeim toga ekki til neins veruleika. Hvernig getur maður sagt að eitthvað sem er að öllu leyti náttúrulegt sé gott eða illt? Á guðlausum forsendum hafa gjörðir mannsins ekkert siðferðilegra innihald en gjörðir annarra dýra.

Það sem guðleysingjar á borð við Dawkins og Provine benda réttilega á er að ekki er hægt að tala um siðferði í einhverri algildri merkingu að svo miklu leyti sem Guð er ekki til. Allt er einfaldlega afstætt og félagslega og/eða líffræðilega skilyrt. En vandi guðleysingjans er að slíkt viðhorf rímar ekki við innsæi okkar og reynslu. Við vitum að sumt er alltaf rétt og annað rangt og að sumt er gott og annað illt. Voru krossferðirnar ekki siðferðilega rangar? Ber ekki með réttu að fordæma þær sem og rannsóknarréttinn, svo dæmi séu tekin? Hvað með helförina og hreinsanir Stalíns? Er þar um að ræða siðferðilega hlutlausar gjörðir? Er ekki alltaf rangt að pynta saklausa manneskju sjálfum sér til skemmtunar? Er siðferðilegt gildi slíkrar breytni ekki hafið yfir skoðanir fólks á henni? Myndir þú ekki segja að slík breytni sé raunverulega röng og því fordæmanleg í algildri merkingu. Þarf samfélagslega ákvörðun því til grundvallar? Vitanlega ekki. Við vitum betur.

En hvaðan kemur okkur þetta innsæi og sú þekking? Hvaðan kemur okkur sú hugmynd að eitthvað sé rétt eða rangt, gott eða illt? Guðleysinginn getur ekki fært rök fyrir því á grundvelli heimsskoðunar sinnar. Hann getur sagt að siðferði sé fólgið í samfélagsþrýstingi, samfélagssamningi af einhverjum toga og/eða líffræðilegri og félagslegri þróun. En það svarar ekki þeirri spurningu hvað það er sem gerir eitthvað raunverulega rétt eða rangt. Ef maðurinn er sinn eigin mælikvarði, ef skoðanir hans skera úr um rétt og rangt og gott og illt, er augljóslega ekkert rétt og rangt eða gott og illt í raunverulegri merkingu. Það sama á við ef mælikvarða góðs og ills er að finna í menningarstraumum samtímans eða löggjöf hvers tíma. Þú getur breytt þvert á skoðanir annarra eða viðteknar hefðir eða meirihlutaviðhorf o.s.frv. en það merkir ekki að þú hafir beinlínis gert eitthvað rangt í siðferðilegri merkingu.

C.S. Lewis var einn þeirra guðleysingja sem hafnaði tilvist Guðs og kristinni trú á grundvelli alls þess ranglætis sem blasti við í heiminum. Hins vegar kom að því að hann spurði hvaðan sér kæmi sú hugmynd að heimurinn væri í reynd ranglátur. Hann áttaði sig á því að maður kallar ekki línu bogna án þess að hafa hugmynd um beina lína. Staðreyndin er sú að ekki er hægt að segja að eitthvað sé illt án þess að gera ráð fyrir því að eitthvað sé gott. Að því gefnu verður maður einnig að gera ráð fyrir siðferðislögmáli sem gerir manni kleift að greina á milli góðs og ills. En þá verður maður líka að gera ráð fyrir löggjafa siðferðisins, einhverjum mælikvarða sem er hafinn yfir skoðanir, viðhorf, stefnur og strauma, manninn sjálfan. Að mínu mati er mælikvarði guðstrúarmannsins mun trúverðugri en mælikvarði guðleysingjans því frumspekilega séð er Guð hið endanlega. Samkvæmt skilgreiningu er hann hin æðsta hugsanlega vera. Ekkert stendur honum ofar. Við getum ekki farið lengra í leit að mælikvarða góðs og ills.

Ég læt þetta duga, Kristinn, og vona að þú sért einhverju nær um viðhorf mín.

Virðingarfyllst, Sr. Gunnar Jóhannesson