„Þau fundu hann ekki“

„Þau fundu hann ekki“

Guð er hulinn hverjum þeim manni, sem ætlar sig þess umkominn að setja sig í dómarasæti yfir Guði sjálfum. En hann opinberar sig hverjum þeim, sem kemur til hans í auðmýkt og þökk, og þiggur þá óskiljanlegu og óendanlegu náð, sem hann vill gefa honum.

I. “.... þau fundu hann ekki....” Þetta eru aðeins fjögur orð, en hversu mikið er okkur þó ekki sagt í þessum fáu orðum? Þau draga í raun upp fyrir okkur skýra mynd af því, sem hér var að gerast. Það var mannmargt í Jerúsalem á páskahátíðinni. Gyðingar flyktust jafnan til borgarinnar helgu hvaðanæva að, til að geta haldið þessa höfuðhátíð sína í musterinu. Og því gerðist það oft, að aðkomufólkið varð jafnvel fjölmennara en íbúar borgarinnar. Alls staðar var því ys og þys og hvarvetna fólksmergð á götum og torgum. Í þessu mikla mannhafi voru þau nú mætt til borgarinnar, María og Jósef, og varla hefur nærvera þeirra vakið mikla athygli. Þau voru aðeins umkomulítil og fátæk hjón norðan úr Galíleu, sem komu til musterisins eins og allir aðrir til þess að færa þar fram fórn sína. Og í ár var drengurinn þeirra, hann Jesús, með þeim í fyrsta sinn. Það var einnig eftir venju og siðum þjóðarinnar. Þegar gyðingadrengir urðu tólf ára, þá var það venjan að taka þá með upp til musterisins. Því þá þótti tími til þess kominn, að þeir fengju þá viðurkenningu, að vera teknir í hóp hinna fullgildu safnaðarmeðlima. Það má því e.t.v. að einhverju leyti jafna þessari athöfn við ferminguna hjá okkur. Þeir voru nú fullgildir meðlimir trúarsamfélagsins og áttu sem slíkir með nýjum hætti að gefa sig undir lögmálið og leitast við að lifa samkvæmt því. Bernskan var að þessu leyti á enda.

II. Þegar guðspjallamaðurinn dregur upp fyrir okkur mynd af heimsókn þessarar litlu fjölskyldu til Jerúsalem, þá verður huganum ósjálfrátt reikað til annarar myndar, sem í hinu ytra svipar á margan hátt til þessarar. En þar á ég auðvitað við jólaguðspjallið, en í því er einmitt að finna mjög svipaðan bakgrunn og í þessari frásögu. Einnig þá var mikill fjöldi fólks á ferð og alls staðar ys og þys. Og þá voru þau einnig á ferð, María og Jósef, og ekki vöktu þau heldur í það sinn mikla athygli fjöldans. Enginn veitti þeim sérstaka eftirtekt á ferð þeirra og þau skáru sig á engan hátt úr fjöldanum, nema þá helst fyrir það, að María var alveg að því komin að fæða barn sitt. En ekki einu sinni það vakti þó sérstaka athygli fjöldans. Og svo fæddist litla jólabarnið við fábrotnar aðstæður. Englasöngurinn hljómaði úti í haganum. Hirðarnir lofuðu Guð og vitringarnir komu frá fjarlægum löndum. En mannfjöldinn tók almennt varla eftir því sem gerðist. Nú voru svo liðin tólf ár. Litli drengurinn var orðinn stálpaður. Nógu stór til að taka á sig skyldur hvers fulltíða Gyðings. Og þótt þau vektu ekki heldur sérstaka athygli fjöldans að þessu sinni, þá hefur þessi ferð þó geymst í minningu móðurinnar. Lúkas segist hafa rannsakað gaumgæfilega allar heimildir um ævi Jesú. Og þetta er eina sagan sem hann segir frá bernsku hans, auk sjálfrar fæðingarfrásögunnar. Þessi atburður hafði því greinilega grópast hvað dýpst í huga Maríu. Og þarf í raun engan að undra.

III. Mitt í mannfjöldanum hafði litli drengurinn orðið viðskila við þau. Hann hafði týnst. Fyrst í stað voru þau þó líkast til ekki með sérstakar áhyggjur. Það var venja að fólk ferðaðist saman í stórum hópum, til og frá borginni, m.a. til þess að eiga góðan félagsskap og svo auðvitað til að forðast árásir ræningja og rándýra. Þau voru því róleg fyrst í stað. Hann hlaut að vera einhversstaðar í hópnum og þá líkast til í slagtogi við hin börnin og unglingana. Það væri ekkert óvenjulegt við það. En þegar dagurinn var að kveldi kominn án þess að hann skilaði sér fóru þau fyrir alvöru að verða áhyggjufull og tóku að leita hans. Og þá kom í ljós, að hann var hvergi að finna meðal samferðafólksins. “.... þau fundu hann ekki....”

Og þá grípur óttinn og angistin þau fyrir alvöru. Þau voru harmi slegin. Hvað hefur orðið af drengnum? Hvar getur hann verið niðurkominn? Þau snúa í skyndi aftur til borgarinnar til að leita hans þar. Og sú leit verður lengri en þau bjuggust við í upphafi, því þau finna drenginn hvergi. Þau fara á alla staðina, sem þau hafa heimsótt á hátíðinni, en lengi vel án árangurs. Loks koma þau í sjálft musterið og þar finna þau hann. Mitt í hópi lögvitringanna og fræðimannanna stendur þessi tólf ára drengur og hlýðir með athygli á kenningu þeirra. Við og við varpar hann fram spurningum. Spurningum sem vekja undrun þeirra og furðu. Og þegar þeir síðan spyrja hann á móti, þá undrast þeir einnig skilning hans og þau svör sem hann gefur. Þannig eru tólf ára drengir ekki vanir að spyrja eða svara.

Þegar María hefur loks fundið drenginn, tekur hún hann með sér og fer að spyrja hann, hvers vegna hann hafi gert þeim þetta? Og er ekki sem við heyrum ásökunartóninn og harminn í raddblæ hennar? En hann horfir þá undrandi á hana og spyr hissa: “Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?”

Og enn undrast María. Hún skildi raunar alls ekki hvað hann var að fara með þessum orðum, en minnist samt um leið allra þeirra undarlegu orða, sem við hana höfðu verið töluð um þennan dreng allt frá því að fæðing hans var fyrst boðuð. Orðanna, sem hún geymdi í hjarta sér sem sinn dýrmætasta fjársjóð. Hún skildi ekki enn, hvað beið hans. En hitt vissi hún, að það var mikið og veglegt hlutverk. Um það var hún sannfærð. Hún vissi að hann væri hinn útvaldi Guðs, þótt hún gerði sér ekki nema að litlu leyti grein fyrir því, hvað í því væri fólgið.

IV. Þetta er, eins og áður sagði, eina frásagan, sem okkur er gefin af bernsku og uppvaxtarárum Jesú. Og nú getum við spurt: Hvert er þá gildi hennar fyrir okkur? Kemur okkur það nokkuð við, þótt tólf ára Gyðingadrengur hafi týnst á páskahátíðinni í Jerúsalem fyrir nákvæmlega tuttugu öldum? Og fundist síðan í musterinu eftir þriggja daga leit? Og þarf það nokkuð að skipta okkur máli, þótt móðir hans hafi haft trú á honum? Ég veit ekki hvað þér finnst í þeim efnum, en kirkjan virðist a.m.k. álíta að svo sé, því annars hefði hún víst ekki valið þessa frásögu til íhugunnar, sem guðspjallstexta dagsins í dag.

Það er annars undarlegt með kristindóminn. Hann virðist svo fullur af allskyns undarlegum hlutum, sem oft virðast ekki skipta okkur mennina miklu máli. Og Guðshugmynd hans virðist oft næsta fáránleg mannlegri skynsemi, eða því heyri ég a.m.k. stundum haldið fram. Og svo eru nefnd margskonar dæmi þessu til sönnunar, sem ekki gefst tóm til að rekja hér. Ég læt því í því sambandi aðeins nægja að minna á boðskap nýliðinnar jólahátíðar. Er það ekki óskynsamlegt að láta sér til hugar koma, að litla barnið í jötunni hafi verið Guð sjálfur, kominn til jarðarinnar í mannlegu holdi? Og að þessi Guð hafi síðan lokið jarðvist sinni sem dæmdur óbótamaður, negldur á kross með illgjörðarmönnum? Þannig er spurt. Og jú, svo sannarlega getur það hljómað óskynsamlega. Og skynsemi okkar getur fært svo ótal mörg rök fyrir því, að kristin trú sé einmitt alls ekki skynsamleg. Í fyrsta lagi er það auðvitað undarleg hugsun, að Guð skuli yfirhöfuð hafa gerst maður. Við getum í raun ekki skilið þá staðreynd. Og ef hann á annað borð vildi taka sér bústað í mannlegu holdi, var það þá ekki undarlega valið, að hann skyldi velja sér einmitt þennan mann? Þetta fátæka barn? Það er undarlegt fyrir mannlegri skynsemi. Minnumst þess að vitringarnir leituðu fyrst til konungshallarinnar þegar þeir leituðu að fæðingarstað hans. V. En svona er þessu nú bara samt farið, sama hvað okkur kann að finnast. Alveg óháð því hvað okkur kann að finnast til um það, þá er það einfaldlega söguleg staðreynd, að Guð kom einmitt þannig í heiminn!! Þetta er sá fagnaðarboðskapur, sem fyrst var fluttur á Betlehemsvöllum. Sá boðskapur sem Jesús Kristur flutti er hann gekk hér um á jörðu. Og þetta er sá boðskapur, sem kristindómurinn og kristinn kirkja hefur að flytja enn þann dag í dag. Og guðspjall dagsins bætir í því samhengi inn ómissandi hlekk í þessa atburðarás. Það er ómissandi dráttur í þeirri mynd, sem Biblían dregur upp fyrir okkur af Jesú Kristi, sem Guði og manni, sem Guði í mannlegu holdi. Því hann var maður eins og við í öllum hlutum. Hann ólst upp eins og drengir gera. Hann tók þátt í öllum kjörum þeirra. Hann reyndi allt hið sama og þeir. Það er ekkert svið mannlegs lífs, sem Jesú er ókunnugt um. Hann var sjálfur maður í öllum greinum. Þessi frásaga kemur því eins og eðlilegt framhald jólafrásögunnar. Hún er enn ein sönnun þess, að það er satt, að Guð kom í þennan heim og gerðist maður.

V. En hér erum við þá einmitt enn og aftur komin að hneykslunarhellu svo margra. Þessi Guð, Jesús Kristur, fæddur inn í þennan heim sem maður, sem frelsari mannanna, er algjör andstæða þeirrar Guðsmyndar, sem þeir hafa gert sér. Hann fellur ekki inn í ramma þeirrar myndar, sem þeir hafa búið sér til. Þess vegna rísa þeir gegn honum. Þeir sjá engan Guð í litla drengnum, sem villtist frá móður sinni og týndist, af því að hann varð svo hugfanginn af öllu því, sem hann sá og heyrði á hinum helga stað. Og þannig var því líka farið með flesta faríseana og fræðimennina, samtíðarmenn Jesú sjálfs. Þeir hneyksluðust á honum og boðskap hans. Því snéru þeir baki við honum og fengu honum að lokum rutt úr vegi. Hann særði guðshugmynd þeirra og trúartilfinningu. Skynsemi þeirra neitaði að fallast á boðskap hans. Og það var sama, hvaða sannanir þeim voru sýndar. Kraftaverkin, táknin, jafnvel sjálf upprisan. Ekkert fékk haggað andstöðu þeirra. Þeir vildu ekki sjá, vildu ekki trúa! Og því eiga orð Lúkasar um foreldrana í guðspjalli dagsins einnig svo vel við um afstöðu þeirra: “.... þau fundu hann ekki....”

Og þannig hefur það einmitt verið með svo marga menn á öllum öldum síðan. Þessi sami boðskapur hefur vakið sömu hneykslan í hjörtum þeirra. Og enn þann dag í dag eru margir slíkir okkar á meðal. Þau eru mörg, sem geta ekki eða vilja ekki trúa. Og oft er þá spurt: Hvernig fær þetta eða hitt, sem gerist okkar á meðal, samrýmst vilja heilags, kærleiksríks og almáttugs Guðs? Þegar þannig er spurt, leggja menn Guð undir mælikvarða skynsemi sinnar. Og í því er einmitt, í stuttu máli, að finna undirrótina að því vandamáli, sem hér er við að glíma. Því skynsemi mannsins fær bara alls ekki skilið Guð. Það er svona einfallt. Hann er og verður henni þverstæða. Undan því verður ekki vikist. Þess vegna taka ýmsir hina gömlu afstöðu, yppta öxlum, snúa við honum baki og telja hann einskis virði.

En í þessu er einmitt stærsta yfirsjón mannsins fólgin. Að ætla sér of mikið. Að gera of mikið úr sinni eigin skynsemi. Að ætla sér að leggja mælikvarða hins skapaða á sjálfan skaparann. Enn það lánast auðvitað aldrei. Því ef það væri hægt, þá væri Guð ekki lengur Guð, heldur aðeins maður eins og við. Minnumst í þessu sambandi orða postulans, sem við heyrðum hér áðan: „Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi, og hver og einn haldi sér við þann mæli trúar, sem Guð hefur úthlutað honum.” Það lánast hreinlega aldrei að maðurinn geti skilið eða skilgreint Guð þannig, að þar verði allt ljóst og sundurgreint.

Ætti slíkt að vera mögulegt gætum við með sama rétti gengið inn í fyrsta bekk í grunnskóla og tekið að útskýra fyrir börnunum afstæðiskenningu Einsteins eða nýjustu kenningar á sviði kjarneðlisvísindanna. Skynsemi barnanna gæti á engan hátt skilið það sem við segðum, og það gæti jafnvel verið spurning hvort við skildum það einu sinni sjálf! Nei, börnin hefðu litla eða jafnvel enga möguleika til þess að skilja. Þau myndu því líkast til flest yppta öxlum og snúa sér að öðrum viðfangsefnum, sem þeim hæfðu betur. En væri það þá sönnun þess, að þessar vísindakenningar væru rangar og einskis virði? Auðvitað ekki! Hér væri aðeins um að ræða ofraun fyrir skynsemi barnanna. Og þó held ég, að hvert meðalgreint 6 ára barn hafi mun betri möguleika til þess að skilja þau torskildu fræði, sem hér er vísað til, en við mennirnir höfum til þess að skilja og skilgreina Guð, veru hans og innsta eðli. Við höfum því enn minni rétt til þess að setja okkur sem dómara yfir Guði, en 6 ára barnið hefði til að setja sig sem dómara yfir Einstein eða öðrum vísindamönnum. Hvernig ætti sköpunarverkið að geta skilið og skilgreint skaparann að innsta grunni? Og hvers virði væri líka slíkur Guð, ef slíkt væri mögulegt? VI. En hvað þá? Ef við getum ekki skilið eða skilgreint Guð að þessu leyti, er kristindómurinn þá nokkurs virði fyrir okkur? Jú, hann er óendanlega mikils virði. Í honum opinberast Guð okkur mönnunum. Guð kom inn í þennan heim í syni sínum, Jesú Kristi, og opinberar okkur kærleika sinn og náð. Opinberar okkur þann vilja sinn, að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum. Þann vilja sinn, að allir menn megi lifa í eilífu samfélagi við hann. En við megum bara aldrei gleyma því, að kristindómurinn er trú, en ekki vísindi. Guð ætlar okkur ekki að skilja sig til hlítar, eðli sitt og innstu veru, en hann biður okkur hinsvegar og býður okkur, að trúa á sig, treysta sér, treysta á kærleika sinn og náð, sem hann vill veita hverjum manni. Og það sem stórkostlegast er: Hann býður okkur að lifa í samfélagi við sig. Skilningurinn getur m.ö.o. engan frelsað, engum veit samfélag við Guð. Það er trúin, traustið til hans, sem fæddist inn í þennan heim á jólum sem lítið barn, sem frelsar. Og nú getum við því e.t.v. skilið orð Jesú, er hann þakkar Guði föður fyrir það, að hann hafi opinberað þetta smælingjum, en hulið það fyrir spekingum og hygginda-mönnum. Guð er hulinn hverjum þeim manni, sem ætlar sig þess umkominn að setja sig í dómarasæti yfir Guði sjálfum. En hann opinberar sig hverjum þeim, sem kemur til hans í auðmýkt og þökk, og þiggur þá óskiljanlegu og óendanlegu náð, sem hann vill gefa honum.

En nú má auðvitað engin skilja þessi orð mín hér í dag þannig, að skynsemin sé þá af hinu illa og hver kristinn maður verði að reyna að losna við hana, áður en hann geti trúað á Guð. Öðru nær. Skynsemin er þvert á móti ein af hinum bestu gjöfum Guðs. Og það er því auðvitað einnig rangt, sem sumum hefur dottið í hug að halda fram, að trú og vísindi séu andstæður sem útiloki hvort annað. Öðru nær. Þau eru fremur sem systkini, sem geta ekki án hvors annars verið. Og þetta hafa auðvitað margir miklir og góðir vísindamenn skilið. Þeir hafa skilið það, að skynsemin er ein af bestu gjöfum Guðs til mannsins og við eigum því að nota hana og beita henni af fremsta megni í lífi okkar. En við megum bara aldrei misbeita skynseminni. Megum aldrei setja hana í Guðs stað eða Guði ofar. Enda væri slíkt beinlínis brot gegn fyrsta boðorðinu. Því skynsemi okkar eru takmörk sett. Takmörk, sem bundin eru við þennan heim. Hún er því jafn ófær um það að ígrunda leyndardóma Guðs, eins og hvert 6 ára barn er ófært um að leysa torráðnar gátur leyndardóma mannlífsins og vísindanna. Þar fyrir segjum við ekki, að barnið eigi að leggja skynsemi sína til hliðar og hætta að nota hana. Nei, það á að einbeita henni að þeim viðfangsefnum, sem hún er hæf til að leysa. Það á að keppast við að læra að lesa og skrifa, reikna og teikna, og þroskast að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum, til þess að það geti síðar tileinkað sér þekkingu vísindanna. Fyrst er að trúa því og treysta sem þeim er kennt, jafnvel þótt skilninginn skorti. Hann kemur þá oft síðar, svona svipað og þegar við lærðum margföldunartöfluna.

Þróunin er í raun hin sama í heimi trúarinnar. Trúin á Guð er undirstaða allrar þekkingar á Guði. Sá sem trúir ekki á Guð, getur aldrei öðlast neina raunhæfa þekkingu á honum. Hann skortir undirstöðuna til þess að byggja á, svipað og sá maður, sem er ólæs og óskrifandi, skortir forsendurnar til þess að geta leyst hinar dýpstu gátur mannlegrar þekkingar. Trúin er undirstaða þekkingarinnar á Guði, því enginn þekkir Guð nema sá, sem Guð opinberast. Og hann opnberast augum trúarinnar einum. Guðsþekkingin fæðist af trúnni.

VII. “.... þau fundu hann ekki....” segir í guðspjallinu. Sömu sögu er því miður að segja af svo mörgum mönnum. Þeir fundu ekki Jesúm Krist. Þeir fundu ekki Guð. Hann var þeim týndur og þeir vissu ekki hvar hans skyldi leitað. Þeir vissu jafnvel ekki heldur, hvernig skyldi leita. María fann hann, því að hún vissi, þegar upp var staðið, hvar leita skyldi. Ef þú villt finna Jesúm Krist, þá verður þú að vita hvar og hvernig þú átt að leita. Skynsemin ein getur ekki fundið hann. Henni er það um megn, þótt hún geti vissulega stundum orðið þar til hjálpar. Það er trúin ein, sem finnur Guð. Sú trú, sem í auðmýkt og þökk beygir sig fyrir Guði. Lærir að treysta honum. Áttu þá trú? Það er sú spurning sem við mætum hér í dag. Góður Guð gefi, að þessi undurfagra frásaga um hinn tólf ára dreng mætti einmitt verða til þess að hjálpa okkur til þess að finna Guð. Hann er í musterinu. Hann er í orðinu. Hann er þar sem hann hefur opinberast og annars staðar ekki. Annars staðar er tilgangslaust að leita. Þú finnur hann ekki þar. Trúin er eina tækið, sem finnur Guð. Og trúin er gjöf Guðs, gefin hverjum þeim sem þiggja vill fyrir Heilagan anda. Biðjum Guð um þá dýru gjöf. Þá munum við finna hann. Og þá munum við einnig læra að skilja þverstæðurnar allar, með augum trúarinnar. Amen.