Ofbeldi og kirkja – Hvernig getur okkar kirkja gert ?

Ofbeldi og kirkja – Hvernig getur okkar kirkja gert ?

Um þessar mundir eru liðin 5 ár síðan Alkirkjuráðið hleypti af stokkunum áratug sem helgaður er baráttunni gegn ofbeldi. Skilningur Alkirkjuráðsins á ofbeldi er að það sé samvaxið menningu og formgerðum samfélagsins, það sé margslungið og því mikilvægt að þróa margar mismunandi leiðir í baráttunni gegn því.
fullname - andlitsmynd Sólveig Anna Bóasdóttir
06. desember 2005

Um þessar mundir eru liðin 5 ár síðan Alkirkjuráðið hleypti af stokkunum áratug sem helgaður er baráttunni gegn ofbeldi. Skilningur Alkirkjuráðsins á ofbeldi er að það sé samvaxið menningu og formgerðum samfélagsins, það sé margslungið og því mikilvægt að þróa margar mismunandi leiðir í baráttunni gegn því. Þá er mikilvægt að dómi Alkirkjuráðsins að fram fari fagleg, skapandi og hvetjandi umræða um málefnið innan kirkjunnar. Alkirkjuráðið benti í upphafi á mikilvægi þess að setja sér skýr markmið fyrir áratuginn i heild, en skipta vinnunni upp þannig að eftir 5 ár mætti líta til baka og meta það starf sem hafi verið unnið og skerpa þau markmið sem vinna á að hin síðari 5 árin. Sérhver kirkja og sérhver söfnuður var hvattur til að nota sínar eigin forsendur og reynslu og finna sínar leiðir til að vinna gegn ofbeldinu.

Starfshópur sem skipaður var af biskupi Íslands til að sinna þessum málaflokki valdi í upphafi áratugarins að beina sjónum að ofbeldi gegn konum og börnum. Prestar í öllum prófastdæmum landsins fengu fræðslu um þetta árið 2002 og bæklingurinn „Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum. Framkvæmdaáætlun fyrir kirkjuna“ var þýddur árið 2003 og sendur til safnaða um allt land. Í bæklingnum stendur að kirkjan sé samfélag fólks sem kallað sé til að frelsa kúgaða og því beri henni að vinna að því að frelsa fólk undan menningu þar sem ofbeldi ríkir og koma á samfélagi lífsfyllingar og einingar. Í boðun sinni verði kirkjan að hrista upp í þeim sem eru ánægð með ráðandi skipan og styðja þau sem eru misrétti beitt. Vissulega þarf óbilandi staðfestu og samstillt átak til að vekja fólk til vitundar um þessi mál. Þótt það sé seinunnið má þó ekki leggja árar í bát. Allt starfsfólk kirkjunnar þarf að fræðast um ofbeldi og birtingarmyndir þess. Inn í þessa fræðslu þarf að flétta guðfræðilegan og siðfræðilegan skilning á þessu vandamáli og gefa starfsfólki kirkjunnar verkfæri i hendur til að þekkja vandamálið og bregðast við því á réttan hátt. Markmiðið er að gera starfsfólk kirkjunnar enn hæfara í sínu starfi. Hæfara til að taka jákvæð, uppbyggileg skref í rétta átt, nefnilega þá átt að ráða niðurlögum ofbeldis.

Kirkjan hefur einstakan aðgang að fólki á göngu þess gegn um lífið. Þennan aðgang gæti hún nýtt til að vinna gegn ofbeldi, t.d. með því að flétta umræðuna um ofbeldi inn í boðunina, inn í efnið fyrir sunnudagaskólann, í fermingar- og æskulýðsstarfið og í samtölum við verðandi hjón, svo nokkuð sé nefnt. Starfshópurinn sem starfar á vegum kirkjunnar gegn ofbeldi verður á Akureyri 29. nóvember og hittir norðlenska presta til að uppörvast sameiginlega í þekkingu og starfi. Rætt verður um samstarf við aðrar fagstéttir og hvernig hægt sé að stilla saman hina mörgu góðu krafta sem nú þegar vinna gegn ofbeldi í samfélagi okkar.