Hver dagur er veisla fyrir augað og skiptir ekki máli hvar við erum stödd til að njóta veitinganna sem lagðar eru fram. Fyrir nokkrum árum var bandaríski fiðlusnillingurinn Joshua Bell fenginn til að spila við neðanjarðarlestarstöðvarnar í Washington. Hann stóð þar í hversdagslegum fötum sínum, gallabuxum, skyrtu og strigaskóm, og var eins og hver annar götuspilari. Nema hvað hann var hinn frægi fiðlungur og þegar tónleikar voru auglýstir með honum ruku allir miðar út á svipstundu fyrir svimandi upphæðir. Og hann lék í öllum heimsins frægustu tónleikasölum. Nú stóð hann þarna við lestarstöðvarnar og lék meistaralega að venju á Stradivaríusarfiðluna sína (en þær eru rándýrar og ekki nema fyrir snillinga!). Alls staðar í kringum hann var fólk í önnum – karlar, konur og börn. Fólk á þönum í allar áttir, til vinnu og í heimsóknir hér og þar eins og rétt má ímynda sér í fjölmennri borg. Hann lék á fiðluna sína í tæpan klukkutíma og auðvitað af mikilli innlifun sem fyrr. Í fjarska fylgdust menn með honum en þeir ætluðu að kanna viðbrögð vegfarenda og telja þá. Fólkið æddi fram hjá og einhverjir hafa sjálfsagt talið hann vera einn af þessum snapandi tónlistarmönnum sem ekki var flóafriður fyrir. Það voru alls 1097 sálir sem gengu fram hjá Joshua Bell á lestarstöðinni en aðeins sjö námu staðar til að hlusta. 1090 rétt litu til hans og héldu leiðar sinnar hröðum skrefum sem fyrr!
Mennirnir eru önnum kafnir í lífinu. Líf þeirra er oft þannig að þeir þurfa að ganga að mörgum nauðsynjastörfum: skóla, starfi eða fjölskyldu – og tómstundum. Allt er rammað inn í ákveðinn tíma sem er hin stóra stundatafla hversdagsins. Menn reyna að fara eftir henni svo lífið gangi upp. En margt gerist utan þessarar töflu eins og fiðluleikur snillingsins er dæmi um. Litla sagan af honum hvetur okkur til þess að staldra við í önnum hversdagsins þegar við sjáum eða heyrum eitthvað sem er utan stundatöflunnar. Veita sér þau gæði að staldra við. Það eru nefnilega margir snillingar sem færa okkur eitt og annað á hverjum degi. Það eru hinir hversdagslegu snillingar og þú getur verið einn af þeim án þess að vita það. Það þarf ekki vera fiðluleikur! Gott viðmót gagnvart þeim sem höllum fæti stendur getur verið snilld í augum hans. Hlý orð og umhyggja í stað skætings og hryssings sem er andstæða snilldar. Mennirnir geta alltaf boðið öðrum til hversdagslegrar veislu þegar þeir gefa góðmennskunni færi á sér og fleyta henni áfram til náungans. Það eru veitingar sem seint gleymast. Og stundum eru þær jafn hversdagslegar og hafragrautur og þrumari með osti – eða kæfu. Engu að síður eru þær veisluföng. Ekki efi um það.
Menn hafa stundum sagt að lífið sé einhvers konar tegund af veislu. Í lífinu er okkur boðið upp á marga rétti. Flestir þeirra eru góðir og hollir, veita hamingju og gleði. Aðrir eru miður hollir. Snemma læra mennirnir að greina á milli þess sem er gott og illt fyrir sálina. Þeirra er valið og það getur stundum verið erfitt og tvíbent. En flestir velja sem betur fer það sem er í hollari kantinum. Stundum slæðist einhver óhollusta með og það fer ekki fram hjá neinum. Menn uppskera eins og þeir sá – það er ekki von á öðru? Ef þú sáir fræjum illgresis þá sprettur það upp – ef þú sáir fræjum fallegra blóma þá springa þau síðar út og ilma. Það er ekki flóknara en svo – en þó rosa flókið! Góð orð sem menn sá í kringum sig bera ávöxt og gera allt ljúfara meðan ill orð og hörð skræla sál og bein mannsins.
Í umhverfi okkar standa víða yfir veislur og margar þeirra fara fram hjá okkur. Sumar eru stórar en aðrar minni. Það er veisla þegar fuglinn sýnir listir sínar og syngur. Þegar sólin rís og hnígur til viðar. Vindurinn strýkur um vanga og við drögum að okkur andann. Lifum. Fluga á vegg og stimamjúkur köttur með óútreiknanlegt augnaráð. Svart kaffi í bolla, hvaðan koma baunirnar? Eggið sem er spælast á pönnunni í hádeginu. Listinn getur orðið langur.
Hvað með fangelsin? Einhver veisla þar?
Kannski þú takir upp fiðluna þína og strjúkir strengi hennar?