Guð sér þig

Guð sér þig

Guð sér þig. Já, Guð sér þig. Það er ekki víst að þér finnist það rétt eða að þú sjáir það alltaf en Guð sér þig. Alveg sama í hvaða ástandi þú ert, Guð sér þig og vill gefa þér gjöf.
fullname - andlitsmynd Guðbjörg Arnardóttir
06. október 2014
Flokkar

Guð sér þig. Já, Guð sér þig. Það er ekki víst að þér finnist það rétt eða að þú sjáir það alltaf en Guð sér þig. Alveg sama í hvaða ástandi þú ert, Guð sér þig og vill gefa þér gjöf. Það má vel vera að þú grátir og að þú sjáir ekki Guð í öllu sem í kringum þig er en Guð sér þig. Guð er á ferðalagi með þér í lífinu, hann nálgast þig í þínum aðstæðum og sér þig. Hann er ekki einn á ferðinni, með honum er manneskjur, stundum jafnvel mannfjöldi sem einnig sér þig og fólkið sem í kringum þig stendur í þínum aðstæðum sér þig einnig. Sorgin, dauðinn, alvarlegir erfiðleikar eða veikindi eru viðkvæm og erfið, svo erfið að stundum má ekki einu sinni tala um þetta, við tipplum á tánum í kringum þessar erfiðu aðstæður og viljum helst ekki ræða þær og alveg sérstaklega ekki þegar við teljum að ákveðinn tími sé liðinn frá því sorgin mætti í hús, þá á eiginlega ekki að þurfa að ræða hana meira. Því það er bara svo margt ógeðslega erfitt í kringum hana. Guð sér þig alltaf í sorginni, hann kennir í brjósti um þig, finnur til með þér þegar þú grætur. Hann vill ekki að þú grátir alla daga, hann leyfir þér samt gráta. Hann sér tárin þín og vill hjálpa þér að láta þau ekki verða að flóði allt þitt líf eftir sorg eða erfiðleika. Hann huggar, hann segir þér að það sé huggun að finna, að þú getir hætt að gráta, því hann sér þig, veit hvernig þér líður og finnur til með þér. Hann vill að þú hlustir og skoðir þá gjöf sem hann vill gefa þér. Hann sér einnig það sem veldur þér sorg, hann horfir á áhyggjurnar þínar, hann horfir á og sér það sem veldur þér harmi og veldur því að þú grætur. Hann sér það og vill hjálpa þér í aðstæðum þínum. Hann sér þetta allt og kemur til þín því hann finnur til með þér enda er hann með þér á göngu. Hann ávarpar sorg þín, harminn þinn og vill að upprisan komi inn í líf þitt. Hann snertir á harminum, finnur enn frekar fyrir honum því hann sér þig við hliðina á því sem veldur þér sorg, þar sem þú grætur og finnur til. Þar stendur hann með öllu sínu fólki og öllu þínu fólki og þú ert ekki ósýnileg/ur held séð/ur af fjöldanum sem er með þér á göngu. Sem á einhvern hátt finnur einnig harminn og vill bera hann með þér. Guð sér þig, finnur til með þér, vill að þú hættir að gráta, snertir sorgina og vill gefa þér upprisu, vill gefa þér von. Vill að þú trúir því og sjáir að hann sér þig og er með þér á göngu. Leiðirnar til þess að þú öðlist upprisu í erfiðleikum er jafnmargar og fólkið allt í kringum þig sem Jesú leiðir til þín. Hann notar fólkið sem er í kringum þig og færir þér enn fleiri bjargráð því hann gengur sérstaklega í áttina til þín þegar þú lætur hann vita og grætur. Þegar þú stendur við gröf, við líkbörur látins ættingja sér hann þig gráta. Hann sér og skilur hvert tár jafnvel það sem ekki er tengt þessari sorg hann heyrir ekkann. Hann gengur að ástvini þínum, sér hann eða hana, snertir og segir: ,,Rís þú upp” og ástvinur þinn rís upp, fer heim til Guðs. Þú lifir áfram, kannski bara jafnvel hálf lifandi stundum, Guð sér það. Guð snertir það sem særir þig, það sem veldur þér erfiðleikum, kvíða, áhyggjum. Hann finnur til með þér, vill hugga þig því hann segir líka segja við þig: ,,Rís þú upp” og þú munt rísa upp, ekki alla daga, alltaf en þú munt heldur ekki alla daga alltaf gráta og standa kjurr í sorginni heldur halda áfram. Þetta er gjöf, þetta gefur Guð þér. Guð er á göngu með þér, kemur til þín þar sem þú ert. Hann finnur til með þér, huggar þig og reisir þig við. Gefur þér alltaf tækifæri til að rísa upp, standa upp, tjá þig um sorg þína og halda áfram. Hann er að gefa þér þetta á hverjum degi, hann gefur þér upprisu bæði í hversdeginum og við endalok lífsins. Hann leysir líf þitt frá gröfinni og hann leysir líf þeirra sem eftir lifa frá því að standa alla daga, alla tíð við gröf þess sem dó eða standa alla daga föstu við erfiðleika. Sjáðu Guð, hann sér þig, sjáðu hann og láttu það eftir þér að treysta því að hann sér þig og saman gangið þið, eruð á ferðinni, gegnum sorg, harma, tár og gegnum daga upprisunnar því Guð sér þig og hann vitjar þín eins og hann hefur alltaf gert. Sjáðu Guð, hann sér þig.