Andlit Jesú

Andlit Jesú

Gleðilegt ár!

Við kristnir menn hefjum árið í Jesú nafni. Oft söng ég lofsöng um Jesú nafn með viðlagi sem byrjaði með stórri fullyrðingu: “Öllum nöfnum æðra er nafnið Jesús”. Og þar var ennfremur fullyrt að nafnið það frelsar. Og merking nafnsins Jesú er: Guð frelsar. Og ég söng af sannfæringu og gleði. Nú um þessi áramót skulum við líta til baka og fram á veg með það í huga og skoða líf okkar og starf.

Getur það verið að þetta nafn sé slíkt grundvallaratriði í tilveru allri að það eitt getur gert okkur að því sem við erum sköpuð til?

    1.

Vissulega verða efasemdamenn að viðurkenna að nafn Jesú beri hátt í veraldarsögunni og þær hugmyndir sem til hans eru raktar. Mér er minnistæð mynd sem sýnd var fyrir nokkrum árum síðan í sjónvarpinu um andlit Krists (The Face). Hún er ágætt dæmi um þau miklu áhrif sem nafnið hans hefur haft á mannkynssöguna og í þessu dæmi á myndlist í gegnum aldirnar. Það er merkilegt hvað hugmyndir manna um Krist eru fjölbreyttar og aðlagast ólíkum menningarheimum og samfélögum án þess þó að nafnið Jesú glati einkennum sínum. Tvö meginatriði voru dregin fram í myndinni eða tvær hliðar á myndinna af Kristi: (1) Annars vegar Jesús sem Drottin sem ríkir á krossi (Upsa-Kristur) og (2) hins vegar Jesús sem maður þjáningarinnar (Húsavíkurroðan). Kristur tekur þátt í þjáningu mannkyns, hvers manns. Það sýnir samtöðu Guðs með mannkyni.

Því verður ekki móti mælt að nafnið Jesú er eitt af þeim nöfnum sem stendur upp úr í sögu mannkynsins og sérstaklega í Vestrænni menningu. Tímatal okkar miðar við fæðingu hans. Hátíðir okkar kristinna manna móta hvert árið á fætur öðru. Lengi vel voru áramót miðuð við jólanótt en tengdust svo áttunda degi jóla upp úr siðbót (Saga daganna). Þá kom þessi texti um umskurn Jesú og nafngjöf upp á nýjársdag, á áttunda degi jóla.

    2.

En það er meira en það. Nafn Jesú leiðir hugann að gildum og verðmætamati sem stangast í mörgu tilliti á við venjulegan mannlegan hugsunarhátt. Við erum krafin um það að endurskoða líf okkar og sú sjálfskoðun er ofarlega í huga okkar um áramót, þegar við erum minnt á fallvaltleika okkar gagnvart eilífð Guðs. Jólaboðskapurinn leiðir þetta nýja gildismat vel okkur fyrir augu. Þegar ég leiði hugann að Jesú þá kemur mér ekki í hug tignarstóll og konungsvald, valdabrölt og hernaður, miklu frekar verður mér hugsað til auðmýktar og veikleika. Það er umhugsunarvert að það er undir okkur hverju og einu komið hvaða sess nafnið Jesú hefur í lífi okkar. Við getum tignað nafnið hans en það virðist einnig vera á okkar valdi að láta sem það sé ekki til. Og efasemdamaðurinn yppir öxlum og spyr hverju þetta nafn breyti. Veikleiki Guðs blasir við okkur. Trúarleg rökræða virðist svo haldlítil gagnvart veikleika Guðs, að Guð skuli takmarka vald sitt, almáttugur Guð, við vilja manna. En það birtir okkur Jesú eins og hann er, við sjáum í honum Guð mildinnar og auðmýktarinnar. Hann kemur í auðmýkt en ekki með valdabrölti hershöfðingjans á jólum, barn í jötu, nýfætt barn, viðkvæmustu augnablik mannlegrar tilveru, með því kallar Guð á andsvar kærleikans af okkar hálfu.

Hvað einkennir myndina af Kristi, hvað felur nafnið Jesú í sér? Í einum elsta sálmi kristninnar, að talið er, sem er að finna í Biblíunni er nafn Jesú tignað. Það er Kristur sem ríkir á krossi. Orðfærið er sett upp í andstöðu við vald keisarans í Róm. Í honum játast fylgjendur Kristi og honum einum sem Drottni. En vald hans er annars konar vald, vald Jesú er vald kærleikans, mildi og fyrirgefningar, sáttargjörðar og endurreisnar. Fyrri hluti sálmsins dregur upp Jesú sem gengur krossgönguna allt til enda, lægir sjálfan sig, þótt hann ríki með Guði. Og í seinni hluta eru þessi orð:

Fyrir því hefur Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn. (Fil. 2:9-11)

    3.

Það er hin bjartsýna trú að Guð muni sigra hið illa í veröld okkar. Í þeirri trú göngum við til móts við komandi ár til að láta gott af okkur leiða vegna þess að til þess erum við gerð þrátt fyrir það að veröldin geti reynst okkur harðneskjuleg. Þessi trú hefur blasað við þeim sem dýrkuðu Krist á Dalvík í gengum aldirnar. Þar var elsti íslenski róðukrossinn, skorinn út í birki, Upsa-Kristur, kallaður, þar sem Kristur er krýndur konungur, sem stendur fyrir framan valdastól sinn krossinn, hann réttir út blessandi hendur sínar. Krossinn er túlkaður í ljósi upprisu, sigurs þess, sem gengur fram í von og trú, veg kærleikans. Þar er tími og rúm rofið, þar sem Guð stígur fram í mannlegu lífi til að sýna sig, hver hann er í raun og veru, þrátt fyrir andstæða veröld að því er virðist. Sá sem gefur sjálfan sig er sá sem ríkir í kærleika. Jesús breytir valdahugmyndum okkar, gengur þvert á þær, hann er ekki kominn til að ríkja sem venjulegur konungur, heldur til þess að breiða út kærleika. Þau einkenni sem hann kemur með í öllum fjölbreytileika sínum er mildin og miskunnsemin.

Uppsa-Kristur

Annar roðukross heldur yngri er frá Húsavík þar er það hinn líðandi Kristur sem blasir við augum okkar, höfuð hnígið, sárin ljós. Þar birtist okkur annað einkenni í myndinni af Jesú þar sem hann stendur með þeim sem þjást og líða. Í þeim sama anda er altaristaflan hér í kirkjunni þó að hún tilheyri öðru tímabili í sögu kirkjunnar. Í myndinni um andlit Krists fannst mér það merkilegt að Jesús hefur tekið stöð með mannkyni öllu á svo róttækan hátt að hann hefur tekið upp alla litarhætti í kristinni myndlist þó að hann hafi fæðst sem gyðingur. Það er annað atriði sem gerir nafn Jesú einstakt.

Roðukross frá Húsav�k

    4.

Um áramót hugleiðum við tímamót, dagana sem okkur er úthlutað, takmörk mannlegs lífs. Og þá eru okkur boðuð þau sannindi að Jesús er grundvöllur tilveru okkar. Hann er ofar tíma og rúmi, hann er grundvöllur tilverunnar allrar, mannleg tilvera er mótuð í mynd Guðs, hins milda og ástúðlega. Það er grunnur tilveru okkar sem auglit Jesú birtir okkur. Og skiptir það okkur máli? Í bæninni eigum við þessa eilífðarstund fyrir Jesú, við biðjum í hans nafni og hann biður með okkur á himni. Þannig er kristin hugsun um tíman bundin við Jesú.

Hugsanir:

Tímamót afmarkast ekki af dagatali, dagarnir ákvarðast af persónum og verkum þeirra, hugsunum, sem breyta gangi sögunnar, en tímatal okkar miðast við það, að sagan tók nýja stefnu með persónu, sem fæddist á tilteknum tíma – í fyllingu tímans, hann var Guð kominn til okkar, og nafn hans er Jesús, og eftir það er veröldin önnur og verður aldrei söm.

Hann ríkir á himni en er um leið í hjarta þess sem trúir. Hann krýpur við hlið hvers manns sem andvarpar til Guðs í bæn í nafni hans.

Og vald hans er mildi og kærleikur sem þjónar og gefur af sjálfum sér, gefur líf sitt svo að mennirnir fái lifað í veröld sem er þjökuð af græðgi og hörku.

Komi ríki hans á jörðu sem á himni: Jesús Kristur er Drottinn.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Lesa á vefsíðu höfundar