Já það er rómantíkin

Já það er rómantíkin

Nei ekki einu sinni krabbaófétið eða morfíndælan gátu drepið rómantíkina því hún er hluti af upprisunni.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
24. apríl 2011
Flokkar

Gleðilega upprisuhátíð kæri söfnuður, já gleðilega páska.

Þegar vötnin leggur, heldur lífið áfram undir ísnum, þó flestir haldi að ekkert líf sé þar lengur.

Þegar snjórinn fýkur yfir glerhelluna svamla litlir fiskar undir henni, um síkjamaraskóginn með gljáandi augu Í fannlýstu rökkri

Allar nætur meðan við sofum ( Gyrðir Elíasson Nokkur almenn orð um kulnun sólar)

Þannig hljóðar ljóðið í Djúpinu, eftir skáldið Gyrði Elíasson sem hlaut einmitt bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs á dögunum, Gyrðir hefur lengi verið einn af okkar allra bestu rithöfundum, textinn hans, hvort sem er í ljóðum eða sögum fæst alltaf við djúpar tilvistarlegar spurningar, honum tekst að fjalla um mannlegar tilfinningar á svo heiðarlegan en um leið myndrænan og jafnvel ævintýralegan hátt. Í þessu ljóði verða ákveðin sannindi t.a.m mjög ævintýraleg, við sjáum heim smáfiskanna fyrir okkur eins og fjarlæga heimsálfu þar sem konungar búa í höllum og nornir fljúga á strákústum í “Síkjamaraskógi.” Og þó gætir þú allt eins haft þann skóg undir fótum þér þar sem þú rennir þér eftir ísilögðum pollinum hér í innbænum eða á tjörninni í Reykjavík. En þannig er líka lífið, það er fullt af leyndardómum og litlum draumkenndum ævintýrum en líka ofur hversdagslegum brotum sem við tökum oft sem sjálfgefnum hlut. Hin kristna trú er einmitt blanda af þessu tvennu, þ.e. leyndardómum og hversdegi. Öll gæði kristins boðskapar eru óáþreifanleg eins og smáfiskar undir glerhellu, en þau eru þarna engu að síður hvernig sem á það er litið. Í okkar lúthersku kirkju höfum við tvö sakramenti, þ.e. skírnin og altarisgangan, sakramenti þýðir leyndardómur og leyndardómur skírnar og altarisgöngu er sá að Guð mætir okkur, hverju og einu með sérstökum hætti þar sem við annaðhvort stöndum með tvær hendur tómar eða hvílum ómálga í örmum ástvina okkar. Og þó að enginn sjái með berum augum (eins og börnin segja), þegar Guð tekur við okkur í þessum tveimur athöfnum, þá gerist það engu að síður, það er þess vegna sem foreldrar halda áfram að bera börn sín til skírnar og söfnuðurinn gengur til altaris sunnudag eftir sunnudag, af því að það er eitthvað merkilegt sem gerist,, eitthvað óáþreifanlegt, já eins og ástir nýgiftra hjóna. Hver hefur séð ást með berum augum, rétt upp hönd? Nei einmitt, alveg eins og þú hefur ekki séð réttlæti með berum augum eða virðingu eða frelsi eða frið en þú hefur vonandi séð og skynjað birtingarmyndir þessara gæða. Og þannig er það líka með upprisu drottins á Páskadegi, það hefur enginn séð hana með berum augum, ekki einu sinni fyrstu vitnin ,en birtingarmyndir hennar eru hins vegar mörgum kunnar. Og hverjar eru þær birtingarmyndir? Þær eru eflaust jafn misjafnar og við erum mörg. Enda skynjum við upprisuna á jafn persónubundin máta og ástina, friðinn og réttlætið. Persónulega sé ég tóma gröf drottins mjög oft í mínu starfi og oftar en ekki blasir hún við á ögurstundum í lífi þess fólks sem ég fæ að þjóna en ég hef líka séð hana í mínu persónulega lífi. Ég man t.a.m. eftir atviki frá því faðir minn var enn á lífi og var sjúklingur á Landakotsspítala með langt genginn heilabilunarsjúkdóm, ég man eftir degi þar sem ég lagði bílnum mínum fyrir framan spítalann eins og ég var vön og gekk inn að vitja hans. Skrefin þann dag voru eitthvað óvenju þung og erfið, ég man ekki svo gjörla hvað olli en sjálfsagt hefur það bara verið almenn þreyta og depurð í bland. Og ég fer inn á deild 4 og sæki pabba þar sem hann situr í hjólastólnum sínum í dagstofunni , hann er þögull sem endranær en þá var hann að mestu hættur að tjá sig þó andlitið gæfi til kynna að ég væri honum kunnugleg , ég kyssti hann á ennið og trillað stólnum inn á hlýlegt aðstandandaherbergi sem þar var til reiðu, ég var ekki stuði til að sitja innan um fleira fólk þennan dag. Og þar sátum við bæði mjög þögul, og horfðum út um gluggann eins og tvær ókunnugar manneskjur að bíða eftir strætó, þá lítur pabbi skyndilega í áttina til mín og horfir á mig með augnaráði sem var skýrara en heiðblár himinn og svo sagði hann “ Hildur mín, ertu eitthvað leið?” Í geðshræringu yfir því að hafa ekki heyrt hann nefna nafn mitt í meira en ár , fór ég að háskæla svo að glerhellan lagðist snögglega yfir vatnið og stundin leið hjá. En ég fór sannarlega ríkari út af spítalanum og ekki eins þreytt og þegar ég gekk þar inn. En það sem þó skipti öllu máli var að eftir þetta atvik, vissi ég að þau bönd kærleikans sem liggja milli foreldris og barns eru sterkari en allir heimsins heilbilunarsjúkdómar, eins frekir og þeir annars eru á lífið. Ég lifi enn á þessari svipmynd. Annað atvik er nýskeð og mig langar að segja ykkur frá. Vinkona mín lést úr krabbameini þann 27.febrúar síðastliðinn , hún var tuttugu og átta ára gömul, glæsileg og greind, nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur, hún skilur eftir sig, 5 ára dreng, eiginmann , foreldra , systkini og stóran vinahóp., Rétt fyrir andlátið kom ég til hennar þar sem hún lá í sjúkrarúmi heima í litlu hlýlegu íbúðinni sinni í Reykjavík, þá var ljóst að hverju stefndi og líknandi meðferð tekin við, við áttum einlægt og innihaldsríkt samtal þar sem ég sat við rúmstokkinn en það samtal verður bara milli okkar tveggja. Einu langar mig þó að deila með ykkur, af því að ég veit að það getur gefið ykkur heilmikið inn í ykkar persónulega líf. Í spjalli okkar tók hún þá ákvörðun sem hafði raunar lengi legið í loftinu, að ganga í hjónaband, hún vildi s.s giftast ástinni sinni áður en hún héldi á vit ljóssins. Og þegar ég fór til að bera fjölskyldunni þær fregnir var þegar tekið til við að undirbúa fallega stund við rúmið hennar, það voru keypt blóm í hennar eftirlætis lit, rauðfjólubláum lit og systur hennar settu á hana skart og varalit, allt eftir hennar eigin tilmælum enda var hún ákveðin stúlka og vissi alltaf hvað hún vildi. Og þar sem ég stóð álengdar og fylgdist með, varð mér að orði, “ elsku Katrín mín ég hef ekki séð augun þín svona skýr og björt lengi” þá svaraði hún að bragði án þess að hugsa," já Hildur, það er rómantíkin." Nei ekki einu sinni krabbaófétið eða morfíndælan gátu drepið rómantíkina því hún er hluti af upprisunni, lífinu sem er sterkara en öfl dauðans, tveimur dögum síðar var þessi unga stúlka látin en stundin þar sem hún játaðist ástinni sinni hefur sannarlega sefað sorg fjölskyldunnar meir en nokkuð annað sem verður sagt eða gert . Þetta eru tvær upprisufrásagnir úr mínu eigin lífi, þær eru úr djúpinu, úr djúpi vitundar minnar og tilfinningalífs og ég get aðeins framreitt þær með orðum og atferli, þetta eru tvær af þeim fjölmörgu sögum sem ég hef lifað og staðfesta fyrir mér að gröfin er tóm og Kristur er upprisinn. Því: “Þegar vötnin leggur, heldur lífið áfram undir ísnum, þó flestir haldi að ekkert líf sé þar lengur”.

Og þess vegna ætla ég ekki að segja neitt meir því fleiri orð geta kæft leyndardóm þess sem nú situr eftir í huga ykkar og hjarta. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.