Í fréttum Ríkisútvarpsins annan dag ársins kom fram að þriðjungur landsmanna hefði sótt kirkju um jól. Vitnað var í tölur úr Þjóðarpúlsi Capacent. Það er gríðarlega mikill fjöldi þó að skilja mætti annað af fréttinni, sem í báðum tilvikum var orðuð á þann hátt að „aðeins“ þriðjungur sækti messu um jól. Ég staldraði við þetta orðalag og reiknaði nokkrum sinnum hve margir teldust þriðjungur landsmanna. Niðurstaðan var alltaf rúmlega hundrað þúsund manns. Það var ekki laust við að mér þætti fréttamaðurinn tala niður kirkjusókn með smáorðinu „aðeins“.
Mér er stórlega til efs að mörg lönd þar sem kristni er ríkjandi trú geti státað af jafnalmennri þátttöku í helgihaldi um jól. Til samanburðar má nefna að 15% meðlima norsku kirkjunnar (ekki 15% landsmanna) sóttu messu á aðfangadagskvöld í fyrra. Könnun Capacent spyr ekki um kirkjudeildir og því má reikna með að það sem hér flokkast undir kirkjusókn sé bæði Þjóðkirkjan og aðrar kristnar kirkjudeildir.
Það eru heldur ekki margir viðburðir hér á landi sem draga jafnmarga til sín og jólahátíðin gerir í kirkjum. Mýtan um tómu kirkjuna er hins vegar sterk og mér varð einmitt hugsað til fréttamanns sem sagði fyrir nokkrum árum við mig að „kirkjan væri hvort sem er tóm“ og var þá að ræða um Hallgrímskirkju í desembermánuði. Allan þann mánuð ómar kirkjan af söng og helgihaldi og má sem dæmi nefna að þar voru 800 manns við aftansöng og 720 við miðnæturmessu um síðustu jól. Rúmlega 2000 manns tóku þátt í helgihaldi í kirkjunni yfir háhelgina en mun fleiri ef aðventan er talin með. Alls tóku hátt í þrettán þúsund manns þátt í helgihaldi og tónleikum í Hallgrímskirkju í desember 2010. Þá eru ótaldir þeir sem komu í öðrum erindagjörðum. Kirkjan var ekki tóm.
En það er auðvitað ljóst að ekki fara allir í kirkju um jól. Helgihald á öldum ljósvakans skiptir líka máli þegar jólahald Íslendinga er skoðað. Vinsælasta útvarpsefnið ár hvert er útsending Rásar 1 frá guðsþjónustu í Dómkirkjunni á aðfangadagskvöld og um síðustu jól hlustuðu 99.000 Íslendingar á aldrinum 12-80 ára á útsendinguna á Rás 1 eða í gegnum Sjónvarpið. Að auki horfðu 16,4% á jólamessu Sjónvarps á aðfangadagskvöld. Stöð 2, Bylgjan og Vísir.is sendu líka út aftansöng á aðfangdagskvöld.
Í fyrrnefndri könnun Capacent, þar sem þátttakendur merktu við ýmsa þætti í jólahaldi, var staðhæfingin um kirkjusókn orðuð: „Fer í kirkju fyrir eða um jólin.“ Þetta bendir til þess að telja megi þátttöku í aðventukvöldum með í þessari tölu. Ekki um kirkjudeildir og því má reikna með að það sem hér flokkast undir kirkjusókn sé bæði Þjóðkirkjan og aðrar kristnar kirkjudeildir.
Upplýsingar um þátttöku í helgihaldi og kirkjusókn benda til að aðventukvöld séu almennt vel sótt og kirkjur fullar á aðfangadag, bæði hjá Þjóðkirkjunni og öðrum kristnum kirkjum.
Í stærri sóknum Þjóðkirkjunnar er helgihald alla jóladagana. Í minni prestaköllum, svo sem víða í sveitakirkjum er iðulega messað einu sinni í hverri kirkju prestakallsins um jól. Þátttaka þar er iðulega góð, enda sýndi könnun Capacent að kirkjusókn á landsbyggðinni var hlutfallslega betri en meðal höfuðborgarbúa, 41% á móti 30%. Það er gaman að skoða tölur um kirkjusókn frá fámennari stöðum. Sem dæmi má taka að í Hofsprestakalli á Vopnafirði sóttu 500 manns guðsþjónustur í kirkjunum um aðventuna, jól og áramót, en á Vopnafirði búa um 650 manns. Í Eiðaprestakalli tóku að meðaltali 55% sóknarbarna þátt í messunum um jól.
Það er því greinilegt að það að sækja kirkju eða hlýða á helgihald er hluti af jólaundirbúningi og jólahaldi landsmanna og enn er stór hópur sem gerir það. Kirkjusókn er þó mest í elsta hópnum og hlýtur það að vera hvatning til safnaða um allt land að sofna ekki á verðinum heldur halda áfram góðu starfi svo að ekki færri en þriðjungur landsmanna njóti þess að fylla áfram kirkjurnar fyrir eða um næstu jól.