Sælan og sorgin

Sælan og sorgin

Það er í hinum einföldu mannkostum, sem Jesús Kristur lagði okkur á hjarta að rækta og heilagur andi hans eflir í okkur, sem eilífa lífið verður ljóst: Sæl eru hin hógværu, sæl eru hin miskunnsömu, sæl eru hin hjartahreinu, sæl eru þau sem flytja frið og réttlæti. Í þessum gjöfum andans verður himnaríki á jörðu, þarna verður Guð sýnilegur.

Ólöf Sigurðardóttir á Hlöðum (1857-1933) var ein fárra íslenskra skáldkvenna, sem birtu ljóð sín og sögur á fyrstu áratugum síðustu aldar. Ljóð hennar “Tárin” þekkjum við vafalaust flest, þó færri viti ef til vill hver höfundurinn er:

Dýpsta sæla og sorgin þunga svífa hljóðlaust yfir storð. Þeirra mál ei talar tunga, tárin eru beggja orð.

Ólöf var alin upp í mikilli fátækt, næstyngst 16 barna móður sinnar, en tíu lifðu. Móðirin var hvorki læs né skrifandi, en faðirnn læs og systkinin lærðu að lesa heima. Öðru námi var ekki til að dreifa. Sveið Ólöfu sárt menntunarleysið eins og kemur fram í ritgerð hennar Benskuheimili mitt. En gefin var hún fyrir skáldskap og þótti sérvitur fyrir bragðið. Ólöf giftist þrítug að aldri, en hjónabandið var barnlaust (sjá m.a. Soffía Auður Birgisdóttir: Sögur íslenskra kvenna 1879-1960, útg. í Reykjavík 1993, bls. 924-925).

Þannig er lífshlaupið að baki þessu stórkostlega ljóði. Víst er að Ólöf á Hlöðum hefur átt sínar sorgir, strax í bernsku á blásnauðu heimili, bæði til líkama og anda. Hún ólst upp á þeirri öld þegar barnadauði var mikill og vinnulúnar axlir foreldranna niðurbeygðar af sí endurteknum missi. Haft var á orði að fólk skyldi bera harm sinn í hljóði, nokkuð sem við heyrum æ sjaldnar í dag þegar viðurkennt er að sorgin þurfi að finna sér farveg í eðlilegri tjáningu. Ekki hefur þó sársaukinn verið minni við ástvinamissi þá en nú; sorgin er eitt af því vonda, sem ekki venst, og harmurinn yfir hverju barni sem dó samur í móðurhjarta og föður. - Sælan svífur líka um líf skáldkonunnar, ekki síst í hjónabandinu, sem mun hafa verið farsælt og laust við þá undirokun, sem margar samtímakonur hennar þekktu.

Í ljóði Ólafar heyrum við líkt og enduróm frá speki samtímamanns hennar, kristna líbanans Kahlil Gibran (1883-1931), sem hún þó áreiðanlega hefur ekki þekkt: “Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn og þú munt sjá að þú grætur vegna þess sem var gleði þín” (úr Spámanninum eftir Kahlil Gibran). Bæði minna þau okkur á að sælan og sorgin eru systur og bæði ná með orðum sínum að tjá þann djúpa veruleika tilfinningalífsins, sem ella verður ekki orðum að komið.

* * *

Á allra heilagra messu er látinna minnst. Þessum messudegi, sem raunar sameinar tvær messur, allra heilagra (1. nóv.) og allra sálna (2. nóv.) var lengi næsta lítill gaumur gefinn hérlendis eftir siðbót. Hélst hann þó, ólíkt fjöldamörgum öðrum messum, tileinkuðum dýrlingunum, og safnaði saman þeim messudögum öllum.

Síðari ár hefur sá siður fest sig í sessi hérlendis að vitja leiða ástvina sinna á allra heilagra messu. Með því gerum við hvort tveggja, að heiðra minningu þeirra sem voru ljós á leiðum okkar og veita sorginni heilbrigðan farveg. Þá er látinna víða minnst við messugjörð í kirkjunum og tónlist með viðhafnarsniði.

Í Fossvogskirkju hefur undanfarinn áratug verið boðið til tónlistardagskrár þennan sunnudag frá kl. 14 til 17, þar sem kirkjukórar, organistar og annað tónlistarfólk flytur list sína og prestar annast bæn og hugvekju. Á sama tíma vísar starfsfólk Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma veg um Fossvogs- og Gufuneskirkjugarð og Hjálparstarf kirkjunnar selur friðarkerti. Þau eru mörg sem nýta þetta tækifæri til að fara í kirkju, hlýða á frábæra tónlist í fallegri umgjörð og setja ljós á leiði ástvina sinna.

Trú hinni lúthersku hugsun minnumst við þannig ekki dýrlinga á þessum degi – og biðjum heldur ekki fyrir sálum í hreinsunareldi, eins og hin kaþólska hefð gerði ráð fyrir á allra sálna messu. Þess í stað minnumst við látinna ástvina okkar, sem við höfum lagt í faðm Guðs í bæn okkar og athöfnum kirkjunnar í trausti til þess að við erum öll heilög, frátekin í skírninni, þar sem við deyjum okkar gamla manni og rísum upp með Kristi til eilífs lífs. Eilífa lífið er þannig samkvæmt hinni kristnu sýn ekki einvörðungu vonin um himneska samfundi með Guði að jarðnesku lífi loknu. Það er líka lífið sem kristin manneskja lifir dag frá degi, í vináttunni við Guð.

Hin himneska sýn, sem lýst í lestrum dagsins úr spádómsbók Jesaja og Opinberunarbók Jóhannesar, speglast inn í líf okkar hér og nú þegar við lifum í trú á Krist. Guð er okkur eilíft ljós og í messunni eignumst við hlutdeild í hinum himneska veruleika þegar við syngjum Sanctusinn: “Heilagur, heilagur, heilagur ert þú, Drottinn Guð allsherjar...” Þar erum við frammi fyrir hásæti Guðs í samfélagi hinna heilögu á himni og á jörðu.

Þessi himneski veruleiki, eilífa lífið hér og nú, sést líka í Sæluboðunum Jesú og raunar í Fjallræðunni allri. Við erum sæl – og þó fátæk í anda. Við erum sæl – og þó sorgbitin vegna alls sem við höfum misst. Við erum sæl – og þó hungruð og þyrst eftir réttlætinu, sem við þráum að sjá verða að veruleika í umhverfi okkar og heiminum öllum.

Það er í hinum einföldu mannkostum, sem Jesús Kristur lagði okkur á hjarta að rækta og heilagur andi hans eflir í okkur, sem eilífa lífið verður ljóst: Sæl eru hin hógværu, sæl eru hin miskunnsömu, sæl eru hin hjartahreinu, sæl eru þau sem flytja frið og réttlæti. Í þessum gjöfum andans verður himnaríki á jörðu, þarna verður Guð sýnilegur.

Og jafnvel þegar okkur mistekst og heilagleikinn rennur okkur úr greipum, þegar við missum tökin á lífinu og sjáum ekki útgönguleið, jafnvel þar er Guð með okkur og sól hans lýsir okkur veg. Í Rómverjabréfinu segir að “þeim, sem Guð elska, samverkar allt til góðs” (Rm. 8.28). Þannig er trúin okkar haldreipi; þegar við elskum Guð mun allt samverka okkur til góðs, einnig það sem um tíma virðist ætla að buga okkur og verða okkur ofviða.

Fólk fyrri alda fann til á sama hátt og við, víst er það. En þau áttu nokkuð, sem virðist vera hverfandi í nútímanum: Bjargfasta upprisutrú, trú á Krist og líf með honum um eilífð fyrir sig og sína í vináttu Guðs. Aðeins þannig var þeim unnt að halda áfram að lifa með dauðann inni á gafli, jafnvel árlegan gest á heimilinu. Þau höfðu þá vissu, að barnið þeirra, systkinið eða makinn væru komin í öruggt skjól á himnum, í sælu guðsríkisins, burt úr táradalnum. Þannig varð dauðinn þeim ekki jafn óbærilegur og hann hlýtur að vera þeim, sem á sér enga von um líf að loknu þessu.

* * *

Munum að eilífa lífið hefst hér og nú – þegar hvert augnablik, hvert andartak er mótað af lífi Guðs. Himinn mætir jörð í húsi Guðs, musterið er hér, þar sem við fáum að skyggnast inn í veruleika himnanna. Hér er konungshöll, hátt til lofts, súlur, hvelfing. En hvert fátækt hreysi er það líka, þar sem Guð er sjálfur gestur, hreysi huga og húsakosts.

Og vonin er þessi, huggunin harminum gegn, að þau sem hér hafa kvatt hafi fundið saðningu hverri þörf, umlukin ást Guðs við vatnslindir lífsins.

Benda má á frábæra grein sem heitir Hjálp í sorg á www.doktor.is undir Málaflokkar- Geðheilsa, http://www.doktor.is/Article.aspx?greinid=1307, og líka vef Nýrrar dögunar, samtaka um sorg og sorgarviðbrögð, www.sorg.is