Auðæfi sem ekki aðrir ná af manni

Auðæfi sem ekki aðrir ná af manni

Og það er ólíkt með þessum auðæfum og venjulegum krónum og aurum, eða eigum við að segja milljörðum, því enginn virðist vera maður með mönnum nema hann hugsi í milljöðrum – að því meira sem þú eyðir af kærleika, því meiri verður innistæðan.

Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga. Abraham sagði: Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor. En hann sagði: Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað. En Abraham segir: Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim. Hinn svaraði: Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun. En Abraham sagði við hann: Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum. Lk. 16. 19-31

Það var í gær á 17. júní þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga að mér var gengið Suðurgötuna fram hjá gamla kirkjugarðinum. Þegar ég nálgaðist Skothúsveginn varla steinsnar frá þeim stað sem við erum stödd á - hér í Neskirkju, rifjaðist það upp fyrir mér að þarna stóð dálítið kot fyrir réttri öld, þegar Íslendingar sátu enn undir Danakóngi, tómthús var það og nefndist Melkot. Þar bjó á þann tíð ömmusystir Halldórs Laxness og maður hennar, en þau urðu seinna fyrirmyndir afa og ömmu Álfgríms í Brekkukotsannál.

Í sögunni þar sem skáldið vefur æskuminningum og hughrifum saman við skáldskap lætur Laxness ömmuna segja: “Auðæfi er það sem ekki aðrir ná af manni”.

Ég ætla að tala um auðæfi hér í dag, - auðævi sem ekki aðrir ná af manni. Ég ætla líka að tala um auðæfi sem aðrir ná af manni og græðgina eftir þeim.

Í guðspjalli dagsins er einmitt rætt um þessi tvenns konar auðæfi, auðæfi sem ekki aðrir ná af manni og auðæfi sem verða hæglega frá manni tekin.

Nú um stundir tíðkast sá siður að fólk er vegið og metið eftir því hversu mikið það á af auði sem hæglega verður frá því tekinn. Nú á dögum ríkir hér á landi einhver harðasta efnishyggja á byggðu bóli frá því að sögur hófust.

Við Íslendingar erum nýrík þjóð með mikla þörf fyrir að sýna hversu ríkir við erum.

Kannski vegna þess að við vorum svo fátæk einu sinni. Kannski er það vegna þess að stutt er síðan að sá eini auður sem fannst í torfkotum landsins - svo sem Melkoti - var sá auður sem ekki aðrir ná af manni.

Íslendingar síðustu alda áttu töluvert af þeim auði sem ekki aðrir ná af manni, en lítið af hinum. Þeir áttu þrautseigju, vinnusemi, trú, og töluvert af samlíðan og kærleik með öðru fólki, þótt oft hafi fátæktin haft ill áhrif og forherðandi. Frelsisbarátta Íslendinga snérist mikið til um frelsi undan fátæktinni, efnaskortinum. Það var ekki síst draumur sjálfstæðisbaráttunnar að búa mönnum mannsæmandi líf með sæmilegum húskynnum, þrifnaði, mat, og frelsi til að ráða örlögum sínum sjálfir.

Nú höfum við náð þessu öllu og gott betur. Við höfum meira að segja frelsi til að vera ófrjáls. En eigum við auðæfi sem ekki aðrir ná af okkur? Hver er raunverulegur ríkdómur okkar sem manna?

Textar þessa sunnudags veita svarið. Sá auður sem ekki aðrir ná af manni er náungakærleikur – sjálfur kærleikurinn. Þessi auður er sá sem hæst er skrifaður í kristinni trú. “Guð er kærleikur... segir í 1. Jóhannesarbréfi. Ef við viljum þekkja Guð kristninnar þá nálgumst við hann í kærleik, eins og hann nálgðist okkur í kærleika Jesú frá Nasaret.

Og takið eftir: Kærleikur í þessu samhengi er ekki einhver 19. aldar rómantík, eða 20. aldar “I love you Honey”.

Kærleikur Guðs er annarrar ættar. Hann setur engin skilyrði fyrir elskunni, hann er vissulega tilfinning sem kemur af sjálfu sér, en líka staðfastur vilji og skynsemd. Kærleikurinn er athöfn – ekki bara hugsun - að gera hið góða. Koma því góða til leiðar með fullu viti.

Eða þannig skil ég kærleikann í kristninni, þessa aðaleinkunn Guðs. Þessa úrvalsvísitölu guðsríkisins. Þessi auðæfi sem ekki aðrir ná af manni.

Jesús setur þetta með kærleikann á oddinn í krassandi dæmisögu – sögunni um ríka manninn og Lazarus. Ríki maðurinn hlaut hið verra hlutskipti í dauðanum af því að hann átti ekki þennan auð er dugði til lífs með Guði. Greinilegt að Lazarus átti hann aftur á móti.

Mér hefur alltaf fundist þessi saga harðneskjuleg. Er Jesús að dæma menn í eitthvað eldsvíti? Ég veit það ekki, en hann talar þó alla veganna um það ólíka hlutskipti að lifa með Guði og án Guðs.

Ef Guð er kærleikur getum við þá lifað með Guði ef við kunnum ekki að elska? Það hefur verið bent á að orðið sem Jesús notar um glötunarstaðinn Gehenna hafi átt við öskuhauga þeirra Jórsalabúa, þar sem eldar loguðu. Og hver vill búa á öskuhaugunum?

Svo vekur þessi saga líka aðra spurningu. Er vont að vera ríkur, ríkur af fé? Ef þessi saga og aðrar þar sem auðæfi ber á góma eru skoðaðar, þá virðist það ekki vera ríkidæmið sjálft sem Jesús er á móti. Fyrst og fremst það hugarfar að gera ríkidæmið, Mammon að sínum guði. Peningar eru hvorki góðir né vondir, hins vegar eru mennirnir góðir og vondir.

Á sama hátt gerir fátæktin menn ekkert sjálfkrafa góða. Jafnvel eru dæmi um hið gagnstæða.

Í textum dagsins er lóðið þetta: Ef auður, áhrif, völd hindra þig í að eignast þennan auð sem hvorki mölur né ryð granda, þessi hlutabréf í þeim Guði sem er kærleikur - þá ertu á leið í gjaldþrot ríka mannsins

Auðævi sem ekki aðrir ná af manni, kenndi amma Álfgríms í Brekkukoti, kotinu hér vesturí bæ. Víst heita þau auðæfi fleiri nöfnum, réttlæti, góðvild, fegurð, hugrekki, hófsemi, trú og von. En umfram allt annað kærleikur.

Og það er ólíkt með þessum auðæfum og venjulegum krónum og aurum, eða eigum við að segja milljörðum, því enginn virðist vera maður með mönnum nema hann hugsi í milljöðrum – að því meira sem þú eyðir af kærleika, því meiri verður innistæðan.

Auðæfi sem ekki aðrir ná af manni – Kærleikurinn – innsta vera Guðs.

Af lýsingu skáldsins að dæma þá fundust þessi auðæfi í Melkoti – kotinu hér á Melunum í þann tíð. Vinarþel, náungakærleikur, þótt ekki væri sífellt verið að klifa á því – þótti eflaust bara sjálfsagður. Guð gefi slík auðæfi finnist hér enn á Melunum hjá okkur – auðæfi sem ekki aðrir ná af manni.