Án unga fólksins verður kirkjan gömul

Án unga fólksins verður kirkjan gömul

Ég mun seint gleyma vekjandi áletrun aftan á stuttuermabol sem þýskir unglingar gengu í á kristilegu tjaldmóti rétt fyrir utan Akureyri fyrir um 11 árum síðan. Þar stóð í íslenskri þýðingu „Án okkar verður kirkjan gömul“.
fullname - andlitsmynd Guðni Már Harðarson
05. mars 2010

Í Reykhólakirkju

Ég mun seint gleyma vekjandi áletrun aftan á stuttuermabol sem þýskir unglingar gengu í á kristilegu tjaldmóti rétt fyrir utan Akureyri fyrir um 11 árum síðan. Þar stóð í íslenskri þýðingu „Án okkar verður kirkjan gömul“.

Kirkjan er ekki byggingar heldur samfélag fólks sem leitast við að hafa Jesú sem leiðtoga í lífi sínu. Samfélagið verður aldrei yngra eða eldra en þeir sem taka þátt, ef engum yngri er rétt keflið til að halda áfram og vera með í samfélagi kirkjunnar mun samfélagið smám saman eldast uns það hverfur og deyr.

Einmitt þess vegna er næsti sunnudagur, 7.mars, Æskulýðsdagurinn, svo mikilvægur, enn hann tileinkar Þjóðkirkjan unga fólkinu og víða í kirkjum landsins er metnaðarfull dagskrá þar sem unga fólkið gefur kirkjugestum af tíma sínum og hæfileikum. Poppmessa á Vopnafirði, Léttmessa á Borgarfirði eystra, Unglingakór ásamt Ingó úr Veðurguðunum í Selfosskirkju, Stuttmynd frá unglingum sýnd í messu í Lindakirkju, Drengjakór Reykjavíkur og hugleiðing frá 10-12ára (TTT) í Hallgrímskirkju svo fátt eitt sé nefnt.

Vanrækjum hvorki andlegu hliðina né æsku landsins og fjölmennum til kirkju á Æskulýðsdaginn, því án unga fólksins verður kirkjan gömul.