Athvarf

Athvarf

Tíminn er vandskilið og vandmeðfarið fyrirbæri. Nú eru uppi raddir um að tíminn sé í raun ekki til, að tíminn sé afstæður á einhvern hátt. Mörg okkar finna til undan tímanum, tímaleysi, tímaskortur, sífellt kapp við klukkuna. Við höfum misst völdin í eigin lífi og tíminn hefur tekið stjórnina. Þá er nauðsynlegt að snúa til baka til uppsprettunnar, hverfa aftur til þess bara að vera.

Ó, hvað þú, Guð, ert góður, þín gæska' og miskunn aldrei dvín. Frá lífi minnar móður var mér æ nálæg aðstoð þín. Mig ávallt annast hefur og allt mitt blessað ráð, og mér allt gott æ gefur, ó, Guð, þín föðurnáð. Það mér úr minni' ei líði, svo mikli' eg nafnið þitt og þér af hjarta hlýði, þú hjartans athvarf mitt. Páll Jónsson (sálmabók þjóðkirkjunnar nr. 7)

Athvarf. Hvað kemur í huga þinn þegar þú heyrir þetta orð? Athvarf. „Hún á ekki að neinu að hverfa“ er stundum sagt og átt við manneskju sem er einhvern vegin alein og allslaus í veröldinni. Fyrir fólk í þannig aðstöðu bjóða félagasamtök fram athvörf, til dæmis Samtök um kvennaathvarf, og Vin og Laut og Lækur sem eru athvörf Rauða Krossins fyrir geðfatlaða.

Vin. Laut. Lækur. Mikið eru þetta vel valin heiti fyrir starfsemi sem ætlað er að miðla öryggi og félagsskap og hlýju. Vin í eyðimörk. Í grænni lautu. Lækur tifar létt um máða steina/lítil fjóla grær við skriðufót. Svona hugtök kalla fram sól og sumar og hamingjutilfinningu innra með okkur.

Tíminn Í ritningarlestrum gamlárskvölds eru nokkur vers úr nítugasta Davíðssálmi, þeim hinum sama og séra Matthías hafði að fyrirmynd þegar hann orti þjóðsönginn okkar.

Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“ Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka. Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. Sálm 90.1b-4, 12
Tíminn er vandskilið og vandmeðfarið fyrirbæri. Nú eru uppi raddir um að tíminn sé í raun ekki til, að tíminn sé afstæður á einhvern hátt. Mörg okkar finna til undan tímanum, tímaleysi, tímaskortur, sífellt kapp við klukkuna. Við höfum misst völdin í eigin lífi og tíminn hefur tekið stjórnina. Þá er nauðsynlegt að snúa til baka til uppsprettunnar, hverfa aftur til þess bara að vera. Við segjum stundum að hann eða hún sé í essinu sínu. Hvað merkir það? Jú, þetta ess er komið úr latínu, esse, að vera. Að vera. Og hverju er nærtækara að byggja veru sína á en Guði sem ER?

Í annarri Mósebók heyrum við samtal Móse við Guð. Móse spyr hvað hann eigi að segja við Ísraelsmenn sem Guð vill senda hann til þegar þeir spyrja um nafn Guðs. „Hverju skal ég þá svara þeim?“ Þá sagði Guð við Móse: „Ég er sá sem ég er.“ Og Guð sagði „Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Ég er‘ sendi mig til yðar.“ (2Mós 3.13-14).

Ég er. Að vera í essinu sínu. Það er að vera í Guði, handan tímans, í Guði sem var og er og verður, í Kristi sem er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn (Op. Jóh. 21.6).

Vin og laut og lækur Myndina af Guði sem athvarfi, vin í eyðimörk með skjólsælli laut og hjalandi læk, er víða að finna í Biblíunni. Nærtækt dæmi er úr 23. Davíðssálmi:

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.
Þetta er sterk mynd af því að VERA. Í Guði hvílumst við, eigum skjól og svölun og næði. Lárus H. Blöndal orti:
Mér athvarf, Kristur, orð þitt var, þitt orð, sem heyri' eg nú: Ég lifi og þú lifa munt, þér lífið gaf þín trú. Lárus H. Blöndal (sálmabók 312)
Og Sigurbjörn Einarsson segir á svipaðan hátt:
elska þín er eilíft athvarf, skjól og líf. Sigurbjörn Einarson (sálmabók 588)
Í Kristi, sem er Orð Guðs og Ást, er lífið sjálft að finna, verundina sem ekkert okkar getur útskýrt að fullu, ekki einu sinni færustu vísindamenn. Felum okkur þeirri ást, þessu athvarfi sem enginn og ekkert getur frá okkur tekið, hvorki tími né rúm, „dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað“ (Róm 8.39).

Ekkert getur gert okkur „viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum,“ segir postulinn. Kveðjum gamla árið í þeirri fullvissu að allt það liðna sé umvafið visku Guðs og ást. Tökum á móti nýja árinu í sömu fullvissu og höndlum augnablikið í eilífri veru Guðs sem okkur býðst að fyllast eins og lungun draga að sér loftið, líkamanum til lífs. Þannig eigum við alltaf að einhverju að hverfa, sama hverjar aðstæður okkar eru.