Bleika slaufan

Bleika slaufan

Margir bera bleikar slaufur í barmi sér í október með blendnar tilfinningar í brjósti. Flest þekkjum við einhvern sem greinst hefur með brjóstakrabbamein og við þekkjum öll með einum eða öðrum hætti, hve sterk hin grimma kló krabbameinsins er. Í baráttu þess þurfum við góð tæki til greiningar og lækningar og við þurfum það sem orð Guðs getur gefið okkur.
fullname - andlitsmynd Bryndís Malla Elídóttir
14. október 2009

„Þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar. Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.“ (Sálm. 22:10-11).

Bleika slaufanOktóber er bleikur mánuður. Bleikar slaufur má víða sjá í barmi sem minna á söfnunar og árvekniátak Krabbameinsfélags Íslands. Allur ágóði af sölunni rennur til Leitarstöðvarinnar í Skógarhlíð sem þarf á stuðningi þjóðarinnar að halda, til að viðhalda og bæta tækjakost sinn og þjónustu.

En hinn þáttur bleiku slaufunnar er ekki síður mikilvægur, að minna á nauðsyn þess fyrir konur að fara reglulega í brjóstamyndatöku. Það er lífsnauðsyn því með því að greina brjóstakrabbamein á frumstigi má fremur gera ráð fyrir að fullum bata verði náð. Krabbamein er skelfilegur sjúkdómur, brjóstakrabbamein er í eðli sínu skaðvaldur sem horfir ekki til þess sem hann eyðir. Brjóst kvenna eru hin fallega uppspretta næringar, brjóst sem börnin eru lögð að nýkomin úr móðurkviði, brjóst sem jafnvel stálpuðum börnum finnst gott að leggjast upp að, þar er nálægðin við móðurina svo sterk. En fái kona greiningu um brjóstakrabbamein þarf hún að takast á við sjúkdóm sem ekkert er heilagt. Það er erfitt og það er sárt, það er óbærilegt á köflum. En það er hins vegar ekki óyfirstiganlegt, ekki ef við eigum orð Guðs sem gefur kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa (Jes. 40:29).

Í Davíðsálmi 22 er hrópað í angist, Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig? Þennan sálm bað Kristur Drottinn í þjáningu sinni á krossinum. Hann geymir angist þess sem er í nauðum staddur og því svo vel líst hvernig þrengt er að líkama og sál. „ Mér er hellt út sem vatni og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax bráðnað sundur í brjósti mér; gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér (Sálm.22:15-16).“ Þessi lýsing gæti átt við líðan konu í lyfjameðferð, þess sem líður og hrópar úr djúpi þjáningarinnar. Í sálminum er hins vegar einnig að finna sterka trúarvissu þess sem getur hrópað til Drottins, því hann þekkir sinn Guð sem skilur og hefur sjálfur reynt þjáninguna. Sú sterka trúarvissa í sálminum leiðir til þeirrar vonar sem okkur öllum er svo mikilvægt og ekki síst þeim sem þurfa að takast á við erfiða sjúkdóma. Leiðin að bata er oft löng og ströng og þá er dýrmætt að geta varðað hana með orði Guðs sem hefur að geyma svo margar hugsanir og tjáningu tilfinninga sem ómetanlegt er að reiða sig á. Því í þjáningunni og erfiðleikunum bregðast oft okkar eigin orð, þegar okkur finnst þau ekki ná utan um líðan okkar. En þá eigum við Biblíuna og getum leitað í henni að orðum sem tala inn í okkar líðan og fundið huggun, styrk, kjark, blessun, von og allt það annað sem okkur skortir og við þráum að finna. Orð Guðs er lifandi og kröftugt og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar (Heb. 4:12). Það nær einnig inn að meininu og það má hugsa það þannig að blessun orðsins, helgun þess og lækning þess, nái inn að því sem dregur lífskraftinn úr líkama eða sál. Og það má biðja að það vinni einnig þar sitt verk. Í orðinu er máttur lækningarinnar sem fyrir anda Guðs ber okkur uppi þegar kraftar okkar eru á þrotum. Og jafnvel þegar meinið virðist sterkari en lífið sjálft þá getum við haldið enn fastar í orð Guðs, já ríghaldið okkur í það orð sem varð hold í Jesú Kristi og segir, ég lifi og þér munuð lifa (Jóh. 14:19).

Margir bera bleikar slaufur í barmi sér í október með blendnar tilfinningar í brjósti. Flest þekkjum við einhvern sem greinst hefur með brjóstakrabbamein og við þekkjum öll með einum eða öðrum hætti, hve sterk hin grimma kló krabbameinsins er. Í baráttu þess þurfum við góð tæki til greiningar og lækningar og við þurfum það sem orð Guðs getur gefið okkur. Við daglegan lestur Biblíunnar lærum við að þekkja Guðs orð, við eignumst okkar uppáhaldstexta, okkar uppáhaldsvers sem tala beint til okkar og við lærum gjarnan utanbókar. Þau vers geta verið okkur haldreipi og þau má fara með í huganum aftur og aftur uns við finnum hvernig máttur þeirra hrekur skuggavaldana á brott. Styrkur orðsins og hinn helgandi máttur þess hvetur okkur til árvekni um eigin líðan og meðbræðra okkar og systra, að við finnum þá samkennd að vera öll brjóstmylkingar sem nærast á orði Guðs. Kæri lesandi, Guð gefi þér góða heilsu.