Samheldni og samfélag

Samheldni og samfélag

Þegar þú tekur ábyrgð á öðru lífi verður til samábyrgð og samheldni, sem verndar og styður og það er sú kennd, sem boðskapur jóla kallar á, það er sú kennd sem verður enn dýpri og sterkari í því samfélagi, sem Jesús Kristur hefur stofnað til og heitir kirkja, slíkt samfélag eigum við hér og nú á helgu jólakvöldi og við getum hugsað um þegar við tökumst saman á við hrun, flot og gjaldeyrissjóð.
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
24. desember 2008
Flokkar

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.

En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. Lúk 2.1-14

Aftansöngur 2008

Náð sé með....

Gleðileg jól! Yður er í dag frelsari fæddur!

Hrun, flot og gjaldeyrissjóður. Þetta eru að verða nokkuð kunnugleg hugtök. Það kemur nú til vegna þess að við byrjum á því að kyngja þeim með morgunkorninu dag hvern. Þau eru nánast komin inn í umræðuna áður en við bjóðum góðan daginn.

Með þessi hugtök á bak við eyrað, getum við ályktað sem svo að þjóðarskútan veltist um varnarlaus í ólgusjónum, en eitt er það sem reynslurík eyþjóð í norðurhafi veit og það er sú staðreynd að til þess að koma skútunni í höfn þarf hugtök eins og trú, von, kærleika. Það er öllu jákvæðari þrenna, sem þarf að yfirgnæfa hina fyrrnefndu, því í trú, von og kærleika felst sömuleiðis samstaða, heiðarleiki og ekki hvað síst drifhvati til uppgjörs þeirra mála, sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir.

Við biðjum Guð um að blessa hin nýju verkefni og aðstæður þjóðar, sem vonandi færa okkur ný sannindi og ný viðhorf er fjalla um annað og meira en útrás og einkaþotukaup. Og þegar við hugum að blessun Guðs, þá birtir hún m.a. í sér það, sem við þurfum öll á að halda og það er ljós í myrkrinu, lífið er leysir dauða af hólmi eins og vorið veturinn, þar erum við að tala um grundvallarboðskap jóla, grundvallarboðskap kristninnar. Allt kemur það síðan saman í Jesúbarninu í Betlehem, sem bankar upp á til þess fyrst og fremst að hjálpa okkur að þekkja Guð og vilja hans.

Hver er svo vilji Guðs? Það er ótrúlega stór spurning, sem við erum að fást við og leita svara við allt okkar líf, og þó svo það taki allt lífið þá verðum við ekki svikin, því á meðan við leitum, þá erum við að finna vissa sýn á lífið, og um leið finnum við stöðugt fyrir meiri vellíðan, við finnum sem sagt þær tilfinningar er veita okkur þá lífsfyllingu, sem birta trú á tilvist og tilgang.

Ekkert í hinni ytri umgjörð veruleikans, getur uppfyllt slíkt fullkomlega. Aðeins trúin. Þess vegna segir Jesús á einum stað: „Óttast þú eigi, trú þú aðeins.“ Ef þú vilt vísun á lesefni í leit þinni, þá er mælt með Biblíunni, því þar er m.a. að finna söguna um Jesú, ekki bara jólaguðspjallið, heldur einnig frásagnir af boðunarstarfi hans í Galíleuhéraði, samskiptum hans við lærisveinahóp sinn og annað fólk, yfirvaldið og meðhöndlun þess á frelsara heims er sagði sannleikann, örlögum hans og lífsins sigri, sem er undirstaða kristinnar trúar.

Þá má ekki gleyma djúpvitrum dæmisögum, sem Jesús sagði, er kalla okkur til sátta og uppgjörs í eigin hjarta, því þær spegla á vissan hátt það sem við vitum en neitum að kannast við, þær halda okkur vakandi gagnvart mörgu því sem er ótrúlega fljótt að blinda okkur gagnvart lífi og aðstæðum þess og minna á þau gildi, er snerta okkur hvað mest þegar á öllu er á botninn hvolft, þegar á reynir, og við fáum eflaust að þreifa frekar á í hallæristíð.

Í öllum þeim boðskap, sem fylgir tilkomu Jesú inn í veröldina, eru þau sígildu sannindi að við erum ekki ein í þessari veröld og styrkur góðra samskipta og samheldninnar leiðir til blessaðra verka. Það nokkuð sem talar skýrt inn í veruleika íslensku þjóðarinnar, við erum fámenn en styrkur okkar margfaldast þegar við finnum okkur sem þjóð og finnum fyrir samheldni og samfélagi.

Það að koma saman og finna fyrir hvetjandi samfélagi og samstöðu er eitthvað, sem fær okkur til þess að yfirstíga meiri og stærri hindranir en við höfum nokkru sinni staðið frammi fyrir.

Ég hef margsinnis heyrt og séð og skynjað þann styrk, sem birtist í samheldni þegar sorgin knýr dyra. Það var einstakt t.a.m. að fylgjast með því, þegar þjóðin stóð saman við úrvinnslu þeirra áfalla er snjóflóð féllu yfir byggðarlög á Vestfjörðum á tíunda áratugnum og ollu hörmungum. Það var samheldni trúar, vonar og kærleika svo ekki verður um villst.

Samfélag og samheldni eru samkvæmt vilja Guðs. Jesús kallaði lærisveinahóp og fjölda fólks til fylgis við sig og gerir enn í dag. Ég var þess heiðurs aðnjótandi skömmu fyrir hrun, flot og gjaldeyrissjóð, að ferðast til Afríku til þess að kynna mér kristniboðsstarf og ávöxt þess. Segja má að ég hafi haft þessa ferð á heilanum síðan ég kom, því hún snerti þannig við mér að aldrei mun ég gleyma henni, svo mikið er víst.

Þarna var um sterka upplifun trúar að ræða, ekki aðeins trúar í eigin brjósti, heldur ekki hvað síst annarra og hvernig trúarsamfélag fólks getur skapað svo einstakt andrúmsloft að það er heilagt og frá því fer enginn ósnortinn.

Þarna eru samfélög, sem eru til þess að gera nýbúin að heyra um frelsarann Jesú Krist og það er með hreinum ólíkindum hversu mikil áhrif það hefur haft á líf fólks til jákvæðs vegar. Þar er Guð að verki. Þarna er ekki um velferðarþjóðfélag að ræða, en velferðin felst í öðru og meira en veraldargæðum, hún liggur í Jesú Kristi. Þráin eftir honum er svo sterk og allt að því áþreifanleg.

Þegar ég tala um áþreifanleika í því tilliti, þá þreytist ég ekki að segja sögu um konu, sem ég hitti á förnum vegi við landamæri Keníu og Uganda og var þá þegar búinn að heyra merkilega sögu hennar.

Mig langar til þess á þessum sérstaka tíma í sögu þjóðar og á helgri jólahátíð að rifja þá sögu upp í örstuttu máli, því hún snertir við og það er sama hversu oft ég hef sagt söguna og hversu oft sem fólk hefur hlustað, hún er og verður merkileg og áhugaverð.

Hún fékk far hjá sögumanni og sýndi honum ófá ör á handleggjum sínum. Hvert ör bar í raun vitni um styrkleika trúar hennar. Hvort þau voru jafnmörg ferðum hennar til kirkjunnar, veit ég ekki, en hún þurfti að vakna snemma morguns til þess að ná guðsþjónustunni um hádegi. Hún hafði heyrt um frelsi kristinnar trúar hjá vestrænum kristniboðum. „Sannleikurinn mun gjöra yður frjáls,“ segir Jesús í guðspjalli Jóhannesar.

Hún heillaðist af þessum orðum, hún bjó líka við ofríki eiginmanns síns á heimilinu. Hann lagði hendur á hana þegar hún kom heim frá kirkju eftir að hafa notið uppbyggilegs samfélags, en það er samfélag þess anda, sem kennir hverjum og einum að vera manneskja og koma fram við aðra sem manneskjur.

Hún hélt áfram að sækja kirkjuna þrátt fyrir barsmíðar og örunum fjölgaði. Hann flutti fjær kirkjunni, hún vaknaði fyrr á morgnanna og gekk lengri leið. Þráin eftir boðskapnum, eftir Jesú Kristi var slík að ekkert gat stoppað för hennar. Þegar hún kom sunnudag einn inn í kirkjusamfélagið með áberandi áverka tók samfélagið utan um hana og verndaði.

Eiginmaðurinn kom til hennar nokkru síðar hissa, en með þessi orð á vörum: „Þinn Guð er sterkari en minn Guð.“ Þetta eru áhrifamikil orð og geta vel stutt við orð engilsins forðum á Betlehemsvöllum, sem sagði við hirðanna: Yður er í dag frelsari fæddur.“

Frelsari var fæddur í hjarta þessarar afrísku konu, sem varð á vegi mínum í fjarlægri heimsálfu og mér fannst stórbrotið að koma með þau sannindi aftur hingað heim í annað árferði en áður og það gaf vissan styrk til þess að horfa fram á veginn. Það minnti líka á styrk samfélagsins og samheldninnar, sem er ótvíræður.

Vilji Guðs er sá að kalla okkur saman til þess að takast á við aðstæður lífsins. Hann kallar á okkur til þess að skipta okkur af lífinu og öllu því sem það hefur upp á að bjóða, Guð kallaði á fjárhirðanna hina fyrstu jólanótt til þess að veita frelsara heims virðingu sína, þeir fundu þránna eins og afríska konan, finnur þú þessa þrá?

Guð vill kalla fram þessa þrá með því að senda Jesú sem barn í heiminn, barn hefur sérstakan aðdráttarkraft og vekur tilfinningar aðhlynningar og umhugsunar, það þekkja t.d. allir nýbökuðu og hamingjusömu foreldrarnir, sem ég hef kynnst í tengslum við skírnir á þessu viðburðaríka ári, sem senn líður, sem og aðrir þeir sem standa ábyrgir gagnvart lífi annarra.

Þegar þú tekur ábyrgð á öðru lífi verður til samábyrgð og samheldni, sem verndar og styður og það er sú kennd, sem boðskapur jóla kallar á, það er sú kennd sem verður enn dýpri og sterkari í því samfélagi, sem Jesús Kristur hefur stofnað til og heitir kirkja, slíkt samfélag eigum við hér og nú á helgu jólakvöldi og við getum sömuleiðis hugsað um þegar við tökumst saman á við hrun, flot og gjaldeyrissjóð. Við skulum þess vegna sameinast í bæn til Drottins fyrir öllu því og fyrir gefandi og gleðiríkri jólahátíð.