Eðlishvöt og áramót

Eðlishvöt og áramót

Við stöndum á strönd lífsins, við ísbrúnina eins og ungar keisaramörgæsarinnar og framundan er hafið, vítt og breitt, djúpt og leyndardómsfullt, tímans haf.

Hægt er að hlusta á ræðuna á bak við þessa smellu.

á jólum horfði ég á kvikmynd um líf keisaramörgæsarinnar á Suðurheimskautslandinu. Þetta var áhrifarík mynd um líf þessa ófleyga fuglas sem kemur upp úr sjónum á tilteknum tíma, upp á ísröndina með fuglafjöld og gengur í einfaldri röð, langan veg yfir ísbreiðuna og til staðar þar sem fuglinn fæddist fyrr. Þegar á áfangastaðinn kom hófst mökun en hvert par lifir saman eitt ár og reynir að koma upp unga. Þegar egginu hefur verið orpið geymir móðirin það milli fóta sér og heldur á því hita uns hún kemur því síðan yfir á karlinn. Stundum misferst eggið í þeirri stuttu ferð frá kerlu til karls vegna fimbulkuldans. En ef það tekst þá fer móðirin af stað og gengur leiðina til hafs og kafar þar eftir æti til að fita sig, kemur svo aftur, ef hún sleppur við rándýr hafdjúpanna og leysir karlinn af sem fer sömu leið í ætisleit. Þetta er mynd um harða lífsbaráttu. Fuglarnir standa í þéttum hópum til þess að draga úr hitatapinu. Eðlisávísun þeirra kennir þeim að standa saman. Þegar ungarnir eru loks orðnir stálpaðir heldur hersingin af stað til sjávar. En það sem var svo undursamlegt að sjá var þegar ungarnir komu að ísbrúninni og sáu hafið í fyrsta sinn – ungarnir sem aldrei höfðu synt og aldrei séð sjó – þeir köstuðu sér ákafir til sunds og köfuðu í djúpið. Eðlisávísun þeirra lætur ekki að sér hæða. Við höfum líka eðlisávísun, eðlishvöt.

Við stöndum á strönd lífsins, við ísbrúnina eins og ungar keisaramörgæsarinnar og framundan er hafið, vítt og breitt, djúpt og leyndardómsfullt, tímans haf. Af eðlishvöt höldum við áfram, leggjum á djúpið, eins og Jesús kallaði okkur til að gera.

Áramót marka skil í tilverunni. Tíminn líður og við færumst nær þeirri skör sem allir menn nálgast og mæta fyrr eða síðar. Við komu líka að skörinni í fyllingu tímans sem skilur að tíma og eilífð. Við erum minnt á það að tíminn líður og tíma okkar sem einstaklinga lýkur þegar kallið kemur. Við höldum áfram og vonum að við fáum eitt ár í viðbót. Guðspjall dagsins fjallar um von, um miskunn, um tækifæri, um eitt ár til viðbótar.

Vonin er sterk í kristinni trú. Hún er sterk Nýja testamentinu. Þar byrjar allt. Þar liggur uppspretta vonarinnar. Hún er á Golgata þar sem Kristur þjáðist og dó. Hún er í upprisu hins þjáða, upprisu sigrarans dauðans sanna. Í honum eigum við vonina. Hvergi í Nýja testamentinu er að finna vonleysi og ósigur enda þótt þar sé sagt frá þjáningu og baráttu. Á síðum þess hljóma von og gleðióp, hugrakkt Hósanna og himneskt Hallelúja!

Þjóð okkar þarfnast nú nýrrar vonar og sú von er í kristinni trú sem er ný á hverjum degi. Við þurfum sem þjóð að horfa fram á veginn, láta af linnulausum deilum og bölmóði en horfa þess í stað fram á vonarveg.

Áður en Jesús og lærisveinarnir héldu af stað í þá för sem lá til Golgata, sungu þeir lofsönginn. Þeir sungu sálm. Það er gott að syngja sálma. Ég las um það á danskri vefsíðu í vikunni að sálmasöngur lækkar blóðþrýsting! Það hefur verið staðfest með mælingum. Trúrækni er holl iðja og því erum við á réttum stað hér og nú. Til hamingju með lífið og trúna.

Leið lærisveinanna lá um reynslustig þar sem þeir féllu á erfiðum prófum sem snerust um hollustu við frelsarann. En þeir nutu miskunnar og fengu að halda áfram á vegi vonar vegna þess að Guð er miskunnsamur, náðarríkur og fyrirgefandi Guð. Við höfum öll brugðist á einn eða annan hátt á prófum lífsins. Við njótum sömu miskunnar og fylgjendur Krists á öllum tímum. Við krossinn á Golgata eru allir jafnir. Þar erum við jafnsek og lærisveinarnir forðum daga. Mikilvægt er að horfast í augu við það að syndin er í lífi okkar allra, ekki bara hjá meintum gerendum í efnahagshruninu. Við erum öll ábyrg fyrir lífinu í landinu og þurfum að axla þá ábyrgð í sameiningu, í trú, von og kærleika. Við erum kölluð til að gera beinan veg Drottins. Við þurfum að ryðja hinu góða veg í eyðimörkinni og stuðla saman að réttlátu samfélagi. Megi bjartsýni í stað bölsýni móta hugsun okkar á nýju ári.

Gamla árið kann að hafa verið þér ár gleði og uppskeru eða ár sorgar og missis. Lífið mætir okkur í ýmsum myndum, færir með sér meðbyr eða mótbyr.

Í ljóði um sorg og missi sem Matthías Johannessen yrkir í bókinni Söknuður segir:

Þegar Shelley yrkir um Dauðann segir hann að einmanaleikinn sé skilinn eftir á jörðinni.

ég þekki hann vel,

hann er eins og náladofi,

ekki í hendi eða fæti heldur við rætur hjartans þar sem þú bjóst um þig meðan við lifðum bæði á jörðinni. (Söknuður 2011 s. 62)

Í stormum lífsins er mikilvægt að eiga von og trú. Við vitum ekki hvað nýja árið ber í skauti sér. Það veit Guð einn. En stýrir hann öllu? Lætur hann hið góða og hið illa eiga sér stað? Er hann valdur af því sem fyllir okkur sorg og harmi?

Barbara Lundblad heitir bandarísk kona sem er prestur og kennir prédikunarfræði við merka guðfræðideild í New York. Hún talaði um það í ræðu sem ég las hve erfitt það væri oft að leyfa Guði að vera Guð. Við viljum svo gjarnan útskýra það sem Guð einn veit. Menn hafa um aldir leitað skilnings á orsökum og afleiðingum atburða sem leiddu til góðs eða ills. Við þekkjum öll orðin um að það rignir yfir réttláta sem rangláta. Guð fer ekki í manngreinarálit. Margir verða fyrir óhappi og þar er Guð ekki neinn örlagavaldur.

Barbara Lundblad vitnar í frægan prédikara, William Sloan Coffin, sem flutti prédikun um þá freistingu okkar mannanna að upplýsa hvað búi í huga Guðs. Þegar Coffin var sóknarprestur í Riverside kirkjunni í New York City, lést sonur hans, Alex, í bílslysi. Alex var á ferð í miklu óveðri. Hann missti stjórn á bílnum svo að hann ók út í sjó við höfnina í Boston. Sunnudaginn eftir slysið prédikaði Coffin í kirkju sinni og talaði um dauða sonar síns. Hann þakkaði þeim sem höfðu sent honum samúðarkveðjur og huggunarorð, fyrir mat sem fólk færði honum heim, fyrir faðmlög og nærveru þegar enginn gat sagt orð. En hann reiddist líka velmeinandi fólki sem talaði um að þetta hefði verið Guðs vilji. „Ég vissi að reiðin gerði mér gott“ sagði hann í því sambandi og svo hélt hann áfram og sagði: „Haldið þið að það hafi verið vilji Guðs að Alex lét ekki gera við rúðuþurrkurnar . . . að hann ók líklega allt of hratt miða við aðstæður, og að hann hafði líklega fengið sér of marga „kalda“ um kvöldið? Haldið þið að það sé Guðs vilji að ekki eru ljósastaurar meðfram sjónum og ekkert vegrið sem skilur að veg og vatn. Hið eina sem aldrei má segja þegar einhver deyr er: „Þetta er vilji Guðs.“ Við vitum aldrei nóg til að geta sagt slíkt. Huggun mín felst í því að vita að þegar bylgjurnar hvelfdust yfir sökkvandi bílinn var hjarta Guðs fyrst allra hjartna til að bresta af harmi.“

Já, það er erfitt að leyfa Guði að vera Guð. Við reynum stöðugt að útskýra hið óræða og teljum okkur geta talað af viti um vitleysuna.

Jesús talaði um slys og ólukkku fólks á sinni tíð þegar hann t.d. vísaði til ófara þeirra sem urðu fyrir barðinu á Pílatusi:

Í sama mund komu einhverjir til Jesú og sögðu honum frá Galíleumönnunum sem Pílatus lét drepa er þeir færðu fórnir sínar svo að blóð þeirra blandaðist fórnarblóðinu. Jesús mælti við þá:

„Haldið þér að þessir Galíleumenn hafi verið meiri syndarar en allir aðrir Galíleumenn fyrst þeir urðu að þola þetta? Nei, segi ég yður, en ef þér takið ekki sinnaskiptum munuð þér allir farast á sama hátt. (Lúk 13.1-3)

Hann gerir áheyrendum ljóst að engin skynsamleg skýring sé til á þessum atburðum. Hann segir hvergi að þetta hafi verið vilji Guðs. Snorri goði orðaði sömu hugsun á alþingi árið 1000 þegar sumir töldu jarðelda á Hellisheiði bera vott um reiði goðanna. Þá spurði Snorri: „Hverju reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?“ Þar með sleit hann orsakasamhengi milli Guðs og atburða sem verða af völdum náttúrunnar eða manna.

Voru þau sem horfin eru verr á vegi stödd en við? Voru þau sekari en við? Nei, lífið er ekki þannig. Hin þekkta gríska grafskrift: „Þeir deyja ungir sem guðirnir elska“, er fásinna út frá kristinni guðfræði.

Við skulum ekki einblína á líf annarra heldur skoða okkar líf og von á þessum tímamótum.

Saga Jesú um fíkjutréð er um tækifæri, ekki um dóm. Í dæmisögunni segir m.a.: „Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið.“ Minna þessi orð ekki á árin þrjú sem Jesús starfaði? Hann fann litla iðrun meðal fólksins. „Högg það upp“ segir dómsorðið, en miskunn Guðs segir:

„ . . . lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“

Garðyrkjumaðurinn er ákafur og vill fá að hlú að trénu og gefa því tækifæri, grafa um það og bera að áburð.

Garðyrkjumaðurinn hefur huga Guðs, huga elsku og miskunnar, huga sem gefur tækifæri.

Sagan er ekki bara um garðyrkju. Vísað er til áranna þriggja sem Jesús starfaði opinberlega. Jesús er garðyrkjumaðurinn. Hann neitar að láta sig það engu varða sem grær í víngarðinum hans.

Hver er víngarður Drottins? Er það veröldin öll? Kirkjan? Þjóðkirkjan? Neskirkja? Lífið þitt og mitt? Jesús gefur ekkert okkar upp á bátinn, hvorki þig né mig, kirkjuna né heiminn. Í sögunni býr von, sterk og heil von: Högg það ekki niður! En um leið er þar að finna ákafa og sterka áherslu: Gefðu mér eitt ár í viðbót.

Verður nýtt ár einmitt ár nýs tækifæris?

Guð vill grafa um og bera áburð að lífi okkar til þess að við getum lifað lengur. Guð vinnur í hjörtum okkar og vill okkur allt hið besta.

Dæmisögur Jesú snerust um lífið og tilverunar, líf venjulegs fólks. Þær voru eins raunverulegar og það sem gerist í heiminum í dag. Við lifum í heimi þar sem margt gerist, eldgos, jarðskjálftar, flóð, hernaðarátök, krabbamein leggst á fólk, hjartaáföll, ótímabær dauði af völdum fíkniefna eða glæpa og átaka í undirheimum. Í lífinu leynast margar hættur.

Tíminn er takmarkaður og því megum við ekki fresta öllu til morguns. „Eitt sinn skal hver deyja“, kvað Þórir Jökull Steinfinnsson á 13. öld. Við getum ekkert gert við því. Kallið kemur. Um dauðann sagði sr. Hallgrímur:

Menn vaða’ í villu og svíma, veit enginn neitt um það, hvernig, á hverjum tíma eða hvar hann kemur að.

Högg það ekki, segir hinn miskunnsami. Við áramót skulum við líta í eign barn og spyrja okkur erfiðra spurninga: Hvernig hefur mér tekist að miðla elsku til annarra? Hef ég verið fús að fyrirgefa og sættast? Trúi ég á að sjálfur geti ég öðlast fyrirgefningu á því sem jafnvel fylgir mér sem byrði ár eftir ár? Er ég svo upptekinn við að vinna fyrir lífinu að ég gleymi að lifa?

Guð spyr okkur spurninga á tímamótum. Hvað hefur þú gert? Hvað hefur þú ekki gert?

Slíkar spurningar ættu að leiða okkur til iðrunar eins og sagan um fíkjutréð sem gefur nýja von og ný tækifæri jafnvel þótt við höfum brugðist Guði og samferðafólki okkar.

Verður þetta árið sem gefur ávöxt, ár sem gefur ferskar fíkjur?

Áramót verða í kvöld. Nýtt ár kemur með nýjum tækifærum. Við stödnum á ísskörinni og framundan er hafið, tímans haf. Eðlishvöt okkar segir okkur að leggja á djúpið í von og trú, í trausti til miskunnar Guðs sem elskar okkur hvert og eitt og vill að líf okkar beri ávöxt.

Þökkum þann góða vilja á tímamótum og treystum skilyrðislausri elsku Guðs.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.