„Hvað erum við að gera með þessa páska?“ spurði ritstjórinn, þegar hann fór þess á leit að ég skrifaði nokkrar línur í Vesturbæjarblaðið um þessa upprisuhátíð kristins fólks. Já, upprisa, er það ekki eitthvað sem á sér stað í skíðalyftum eða í flugtaki þegar landinn stefnir á sólarstrendur yfir hátíðarnar? Svona getum við haldið áfram með þær vangaveltur.
Páskasólin
Þegar páskasólin skín inn um stóra Suðurgluggann á Neskirkju, þar sem ég þjóna, finnst mér að skilaboðin séu þau að við getum skynjað nálægð Guðs víðar en í þeim helgidómum sem við köllum kirkjur. Boðskapur páskanna um sigur lífsins á ekki síður erindi við okkur þar sem við stöndum við hjalandi læk, göngum um úfið hraun eða horfum út um kýrauga flugvélar yfir skóglendi, fjöll og akra.
Upprisa er fólki hugstæð hvar sem kristin trú er við lýði. Að baki henni býr sú vitund að heimurinn sé ekki allur þar sem hann er séður, að enn búi leyndardómar baki þess sem við þekkjum. Ekki aðeins huliðsheimar vídda og efnis og orku sem mannhugurinn hefur ekki enn kannað til fullnustu heldur líka sá kraftur sem tengir manninn við Guð. Upprisutrúin segir okkur að lífið hafi tilgang. Já, það er þessi trú sem flytur fjöll og um það á sagan mörg dæmi.
Hvað gerðist í gröfinni þar sem frelsarinn lá vitum við ekki. Við vitum á hinn bóginn að tíðindin um upprisu hans ollu byltingu. Fylginautar hans höfðu horft vonlaus framan í myrkrið. Allt sem þeir höfðu skynjað og upplifað á för sinni með Jesú hlyti að hafa verið til einskis.
Upprisa er uppreisn
Upprisan leiddi til sögulegrar uppreisnar þar sem mælikvörðum var kollvarpað. Nú er hagur hins sterka ekki lengur mælikvarðinn á gott líf og gagnlegt. Nei, skyldur okkar og um leið tilgangur felast í umhyggjunni gagnvart þeim sem standa höllum fæti. Í Biblíunni er í því sambandi víða talað um ekkjur, munaðarleysingja og útlendinga. Og það á ekki síður við um skyldur okkar gagnvart ókomnum kynslóðum, sem birtist í umhyggju fyrir náttúru og lífríki.
Eru páskar í háska? Það held ég ekki, heldur þvert á móti. Um leið og við gefum því gaum hvernig við getum lagt okkar minnstu systkinum lið þá erum við fólk upprisunnar. Og, já þegar við fyllumst lotningu þegar páskasólin skín við okkur þá erum við fólk upprisunnar. Það getur verið í skíðabrekkum, í fallegri íslenskri sveit þar sem náttúran vaknar af vetrarblundi, í hópi ástvina á hlýrri slóðum. Og vitanlega í helgidóminum þar sem við lesum og hugleiðum söguna sem öllu breytti.