Ég fékk tölvupóst frá kennara sonar míns. Áminning til þeirra foreldra sem geta að skrá sig sem sjálfboðaliða í kennslustofu bekkjarins. Ég smellti á meðfylgjandi vefslóð og kom inn á dagatal með yfirliti yfir tíma og verkefni sem þurfti að sinna í stofunni. Mér rann blóðið til skyldunnar og ætla að hjálpa með stærðfræðina í 2. bekk í Rashkis Elementary School, 12. og 18. desember.
Síðastliðið vor kom svipaður tölvupóstur frá kirkjunni. Það vantaði áhugasamt fólk til að aðstoða á leikjanámskeiði í júní. Ég hef svo sem unnið á leikjanámskeiðum áður og bauð fram þjónustu mína. Ég fékk svo það þakkláta verkefni að styðja við og hjálpa ungum dreng með ADHD að taka þátt í dagskrá vikunnar með jafnöldrum sínum.
Á hverjum degi höfum við tækifæri til að gefa af sjálfum okkur fyrir aðra án endurgjalds. Öll þekkjum við hið frábæra starf hjálparsveitanna, margir hafa notið góðs af öflugu sjálfboðastarfi Rauða Krossins eða Mæðrastyrksnefndar. Skátaforingjar og leiðtogar í starfi KFUM og KFUK nota tímann sinn til að bjóða ungu fólki upp á vandaða dagskrá án þess að þiggja laun fyrir. Enn fleiri taka að sér að sitja í stjórnum félagasamtaka, safna til góðra málefna eða sitja í sóknarnefndum. Þegar þetta er skrifað er hópur sjálfboðaliða að ganga frá í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg eftir enn einn frábæran basarinn sem í 103 ár hefur skilað tugum milljóna króna til æskulýðsstarfs í landinu.
Ég hef lagt stund á rannsóknir á sjálfboðnu starfi, lesið bækur, kallað sjálfboðaliða til starfa, séð um skipulag sjálfboðnar þjónustu og talað á námskeiði um samspil ábyrgðar, valds og hæfni. Ég hef kennt prestsnemum í Bandaríkjunum um hvernig við skipuleggjum sjálfboðaliðastarf og hvetjum fólk til áframhaldandi góðra verka.
Þegar allt kemur til alls, er þetta samt sem áður fremur einfalt. Öll þurfum við að spyrja. Vil ég gefa mér tíma? Er ég tilbúin að segja já við beiðninni sem kemur og/eða leita vettvangs þar sem hæfileikar mínir og reynsla nýtast öðrum?
Eins þurfum við sem störfum á vettvangi að spyrja okkur sjálf. Viljum við þiggja hjálp? Viljum við gefa tækifæri fyrir aðra að njóta sín, nota hæfileika sína? Viljum við leyfa öðrum að skína, þó það kalli á okkur að standa um sinn í skugganum?
Síðari spurningarnar eru því miður erfiðari en þær fyrri. Flest viljum við gefa af okkur, gera góða hluti, en ég vona að við sem vinnum á vettvangi megnum að gefa þeim rými sem vilja vel. Þannig getum við öll fundið stað til að gera góða hluti, Guði til dýrðar og öðrum til blessunar.