Sáning og tjáning

Sáning og tjáning

Orð á orð ofan. Líklega hefur aldrei streymt annar eins orðaflaumur í heiminum og nú á tímum. (Mikið væri það nú gott ef hægt væri að virkja þenna orðaflaum og framleiða til dæmis rafmagn úr honum).

Orð á orð ofan. Líklega hefur aldrei streymt annar eins orðaflaumur í heiminum og nú á tímum. (Mikið væri það nú gott ef hægt væri að virkja þenna orðaflaum og framleiða til dæmis rafmagn úr honum). Tvennt ber þar til, annars vegar hefur mannkyn aldrei verið jafn fjölmennt og nú og hitt að öflugar vélar fjölmiðlunar vinna dag og nótt.

Fjölmiðlar eru stóriðjuver og velta gífurlegum fjárhæðum. Á þeim vettvangi keppast fjárfestar nú við að ná stærri hlut af kökunni um leið og hver fjölmiðill fyrir sig leitast við að ná meiri útbreiðslu. Og við erum akurinn sem sáð er í – við - ég og þú. Sáðmenn orðanna vinna stöðugt.

Danskt táningarfrelsi

Og þessi veruleiki er ekki sér íslenskur. Um allan heim er tekist á með orðum og barist. Tjáningarfrelsið, þetta mikilvæga vesturlenska hugtak, á í vök að verjast eftir að Jyllandsposten birti skopmyndir af spámanninum Múhammeð. Og danskur sjálfbirgingsháttur hefur sjaldan risið hærra þegar hann ber höfðinu við steininn í sífellu og klifar á réttinum til tjáningarfrelsis. Danski biskupinn sem sat fund í Egyptalandi með einum æðsta leiðtoga súnní-múslima í heiminum fannst mér vera eins og illa gerður hlutur, eins og olíublautur rauðbrystingur, þegar hann reyndi að verja Anders Fogh Rasmussen og handaþvott hans í málinu eins og raun bar vitni í sjónvarpsfréttum gærdagsins. Væri ekki réttast fyrir forsætisráðherrann danska að skammast sín fyrir barnaskap þegna sinna og segja það opinberlega. Hann er ábyrgur og tilgangslaust fyrir hann að þvo hendur sínar og segja: Ég teiknaði ekki þessar myndir! Það vita allir að hann hélt ekki á blýantinum en hann er leiðtogi þjóðar sinnar og sem slíkur ber hann ábyrgð á orðum hennar og gjörðum þegar svo er komið sem raun ber vitni. Það kostar ekkert að beygja kné sín og sýna auðmýkt. Mér koma í hug orð úr Gamla testamentinu: „Sá sem oftlega hefir ávítaður verið, en þverskallast þó, mun skyndilega knosaður verða, og engin lækning fást.“ (Orðskviðir Salómons 29.1)

Aðgát skal höfð

Hitt er svo annað, miklu alvarlegra mál og það eru sjúkleg viðbrögð sumra múslima í þessu máli. Takið eftir að ég sagði: sumra. Í fréttum snemma í morgun var sagt frá árásum á kirkjur kristinna manna í fjarlægum löndum og morðum á trúsystkinum okkar vegna „saklausra“ teikninga í dönsku „sveitablaði“. Orð eru ekki aðeins töluð orð. Orð er tjáning í víðum skilningi. Og orð er ekki nema einum staf frá orðinu morð. Orð geta meitt, orð geta deytt. Orð skáldsins eru mörgum töm á tungu þar sem hann segir:

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt, sem dropi breytir veig heillar skálar. Þel getur snúizt við atorð eitt. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Frelsi og ábyrgð

Já, já, við Vesturlandabúar höfum tjáningarfrelsi og allt það, en frelsi fylgir ábyrgð. Ég hef það á tilfinningunni að fjölmiðlar séu að leiða okkur í ógöngur, ekki aðeins úti í hinum stóra heimi, heldur einnig hér á landi. Þeir eru t.d. á góðri leið með að eyðileggja tunguna. Þegar ég var drengur taldist ein ambaga í Ríkisútvarpinu til stórslyss en nú er tjáning fjölmiðla ein samfelld slysasaga. Svo er allt leyfilegt og fáir hreyfa mótmælum þegar hver þáttagerðarmaðurinn á fætur öðrum lætur „ljós“ sitt skína á öldum ljósvakans. Auglýst er eftir fólki sem vill afhjúpa sig frammi fyrir öðrum, afhjúpa það sem eitt sinn taldist skömm og blygðun, en þykir nú vera eitthvað til að státa sig af.

Fjölmiðlaflensa?

Engu er líkara en sumt fjölmiðlafólk hafi lokast inni í einhverjum álfheimum? „Eru álfar kannski menn?“ segir í söngtexta nokkrum. Og ég svar: Nei, en sumir menn eru álfar, allt of margir menn eru álfar sem sannast á vitleysunni sem viðgengst í ímynduðu frelsinu og birtist ennfremur í því að við segjum ekki neitt þegar vitleysunni er ausið yfir okkur. Við skulum einsetja okkur að andmæla óhrædd þegar okkur ofbýður.

Sáðmenn eru margir og öflugir í samfélaginu. En hverju sá þeir? Ósæði, sem einungis spírast og sprettur til ills? Eða hollu og góðu sæði sem gerir mannlífið fegurra, augun skýrari, sálina ríkari?

Mér er ljóst að nú tek ég djúpt í árinni til að leggja áherslu á mál mitt en auðvitað er mér fullkunnugt um að margt frábært er líka borið fram og flutt í fjölmiðlum. Ég hlustaði á góðan þátt Ævars Kjartanssonar í RÚV áður en ég gekk hingað til kirkju í morgun, sem endurtekinn er síðar í vikunni. Í þáttum hans á sér stað virk umræða og skapandi um trú í samtímanum, um Guð og mann. Margt annað mætti telja upp. Stöndum vörð um heilbrigða og góða fjölmiðlun. Vonandi leiðir frumvarp það um breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins sem nú er fyrir Alþingi til þess að RÚV verði sterkari stofnun, sem stendur áfram öflugan vörð um menningu okkar og tungu.

Biblían og túlkun hennar

Í dag er Biblíudagurinn og minnt á mikilvægi hinnar helgu bókar okkar kristinna manna. Við eigum okkur trúarrit, grundvöll sem mikilvægt er að þekkja. Því miður les þjóðin ekki þessa merku bók sem skyldi, bók sem nú er verið að þýða enn á ný svo að ný kynslóð geti skilið hana. Og spurningin er hvort nokkru sinni verði hægt að koma texta Biblíunnar til þjóðarinnar á skiljanlegu máli meðan það tekur áratugi að þýða hana og tungan tekur stökkbreytingum á sama tíma? Í Ástralíu er nú búið að þýða Biblíuna á SMS-tungumáli sem byggist upp á eintómum styttum og skammstöfunum. Unga fólkið getur lesið þá tungu en varla eldri kynslóðin. Það er vel ef útgefendur Biblíunnar finna stöðugt nýjar leiðir til að koma boðskapnum á framfæri. En svo er það hitt. Hvernig skiljum við Biblíuna? Hvernig ber að túlka hana? Og, síðast en ekki síst er vert að spyrja: Hvert er kennivald hennar?

Sódóma í nýju ljósi

Biblíufræðingar hafa til skamms tíma lagt mikið kapp á að rannsaka texta Biblíunnar, þar með talda texta þar sem ýjað er að því sem við nú á tímum köllum samkynhneigð. Og þeir setja fram sannfærandi rök um að þessir textar fjalli allir um annan veruleika en þann sem við tökumst á við í samtímanum. Textarnir um Sódómu og Gómorru eru t.d. sagðir fjalla um kynhegðun sem hefur í sér fólgið ofbeldi eða kúgun en alls ekki kynhneigð eða kærleikssamband tveggja aðila af sama kyni eins og umræða dagsins snýst um og kirkjan er að glíma við að skilja og þar með skilgreina sig út frá þörfum samkynhneigðra (Dr. Kristinn Ólason og dr. Clarence E. Glad). Merkilegar niðurstöður sem gefa vísbendingu um að ekki liggur merking texta Biblíunnar alltaf í augum uppi. Ég vil í þessu sambandi minna á að í dag kl. 17 verður haldin hér í Neskirkju önnur messa og verður hún í samvinnu við áhugahóp samkynhneigðra um trúarlíf - Á.S.T.

Was Christum treibt: Það sem boðar Krist

Guð orð. Hvað er nú það? Kristin kirkja óx upp úr boðun fagnaðarerindis postulanna um Jesú Krist og kirkjan lifir enn vegna þess að þessi sömu gleðitíðindi eru enn flutt. En boðun kirkjunnar er ekki aðeins það sem fram út gengur af munni presta og prédikara á sunnudögum við þær aðstæður sem við nú upplifum á þessu augnabliki. Boðun fagnaðarerindisins er fólgin í allri tjáningu kirkjunnar fólks með orðum sem eiga sér rætur í sögu Krists og frelsi mannsins til þátttöku í því ríki sem þessi saga opnar honum upp á gátt. Í boðun fagnaðarerindisins felst að prédika, kenna, einnig samræður hópa og einstaklinga, að segja sögur, hugga, hvetja, uppörva og leysa, í eintali og opinberlega, í samtölum tveggja, þriggja eða fleir og einnig í fjölmiðlum með blaðaskrifum, þátttöku í spjallþáttum og samræðu á vettvangi fjölmiðla. Kirkjan er stöðugt kölluð til að finna nýjar leiðir til að segja frá því undri að Guð gerðist maður í Jesú Kristi og boðaði heiminum ný sannindi, ný viðmið, nýjan veg til að ganga. Við erum kirkjan! Ég og þú höfum í heilagri skírn hlotið þá köllun að boða öðrum fagnaðarerindið. Þess vegna sækjum við kirkju, berum hjarta okkar hingað í veg fyrir sáðmanninn Krist sem sáir hinu góða sæði í hjörtu okkar til þess að það beri þar góðan ávöxt.

Þjóðfélagið þarfnast okkar, heimurinn þarfnast gleðitíðinda kristinnar trúar. En heimurinn þarfnast ekki þröngsýnnar boðunar, bókstafstrúar fordómafullra túlkenda. Hvert er kennivald Biblíunnar? Eigum við að taka hana sem heild og kokgleypa hana í einum bita? Nei, auðvitað ekki. Biblían er ritsafn sem varð til á löngum tíma. Hún birtir margt sem skiptir okkur miklu máli en í henni er líka að finna úrelt viðhorf til einstaklinga og hópa. Hvernig í ósköpunum eigum við þá að lesa þessa bók? Við eigum að lesa hana með augum Krists að svo miklu leyti sem það er hægt. Það sem rímar við líf og starf Krists, kenningu hans og boðun, kærleika og miskunn er orð Guðs.

Ritningin skýrir sig að miklu leyti sjálf og opnast hverjum sem vera skal lesi menn hana og nálgist í trú og af lotningu og með heilagan anda að leiðarljósi.

Orð Guðs felur í sér sköpunarmátt Guðs. Guðs skapaði allt sem er með orði einu og heldur því öllu við með orði sínu eins og fram kemur í upphafi Jóhannesarguðspjalls (1.1-4). Guðs orð er sívirkt og starfandi. Þess vegna er því sáð því sáðmaðurinn veit að það ber ávöxt þrátt fyrir afföll. Að skilningi okkar evangelísku kirkju eru Biblían vitnisburður um Krist, Gamla testamentið er vitnisburður um þann sem koma á en Nýja testamentið um þann sem kominn er. Og meira en það. Kristur er ekki aðeins sá sem kom heldur sá sem kemur til að dæma og gera allt upp. Lúther lagði áherslu á að lesa bæri Biblíuna með það í huga að finna hvað Kristur hefur fyrir okkur gert. Mælikvarðinn hljóðar svo með orðum Lúthers: was Christum treibt, það sem boðar Krist. Hið lifandi orði Guðs er virkt í lifandi boðun kirkjunnar á hverjum tíma, túlkun þeirra sem á undan eru gengin og í þeirri túlkun sem nú á sér stað á meðal okkar kynslóðar.

„Leyndardómur kirkjunnar er fyrst og fremst sá, að Jesús Kristur er ekki dauð minning, sem kirkjan heldur við, heldur hinn lifandi Drottinn, sem í sífellu kallar kirkju sína og leiðir. Heilagur andi er sá, sem vitnar, heldur kirkjunni við Krist, lífgar hana. Og milliliðalaust fæðist sambandið ekki, heldur er prédikunin rödd hins upprisna meðal vor. Í henni á Kristur að tala til hverrar samtíðar sem frelsarinn.“ (Einar Sigurbjörnsson, Orðið og trúin, s. 77).

Hann talar til okkar hér í dag. Orðið hans vex og grær. Orðið hans er máttugast alls, sama orðið sem skapaði himinn og jörð. Þetta orð getur gert kraftaverk í lífi þínu, vakið þér trú og von.

Lesum Biblíuna!

Við skulum einsetja okkur að lesa orð Guðs og nema það. Ég legg til að við sem söfnuður lesum t.d. Davíðssálma á komandi mánuðum. Og svo skulum við einnig lesa Passíusálma séra Hallgríms Péturssonar og nema rödd Guðs í þeim. Þar talar Kristur sjálfur. Kristur talar alltaf þar sem um hann er rætt og orð hans útlagt.

Ég læt liggja frammi handa ykkur að messu lokinni biblíulestrarskrá HÍB og skal panta meira af henni fyrir næsta sunnudag ef upplagið klárast. Við þurfum að læra og nema Guðs orð, festa okkur í huga og sinni, fyrirheit Guðs. Ég prentaði til að mynda einn Davíðssálma af netinu í gær og festi á ísskápinn heima hjá mér til að minna mig á tiltekin orð, fyrirheit um vernd Guðs og blessun í ölduróti lífsins.

Lærum og nemum Guðs orð þannig að við getum farið með það hvenær sem vera skal, okkur til huggunar og styrks og í baráttunni við niðurrifsöflin sem nú herja á heiminn. Þekkjum Guðs orð, þekkjum smáa letrið í tryggingaskilmálum Guðs, björgunarskilmálum Guðs, lærum orðið og gerum okkur það tamt á tungu í lífi og dauða.

Þekkjum grundvöllinn

Hugsanlega erum við að sigla inn í nýjan veruleika þar sem trúarbrögðin takast á í vaxandi mæli. Þá skiptir máli að við, kristið fólk, þekkjum okkar grundvöll, þekkjum Orðið, hið skapandi, máttuga orð sem græðir og bætir veröldina. Þekkir forystufólk þjóðar okkar Guðs orð? Hvar heyrir það hið boðaða orð ef það kemur sjaldan eða aldrei í kirkju? Minnið frambjóðendur stjórnmálaflokkanna sem þið hafið mætur á á að sækja kirkju til þess að heyra hið prédikaða orð sem skapar trú og von og er þess megnugt að leiða okkur í baráttu þeirri sem óhjákvæmilega bíður okkar í margvíslegum myndum.

Eina læknismeðalið sem dugar við sjúkdómi mannsins, synd og dauða, er orð Guðs.

Þitt orð er, Guð, vort erfðafé, þann arf vér bestan fengum. Oss liðnum veit til lofs það sé, að ljós við þess vér gengum. Það hreystir hug í neyð, það huggar sál í deyð. Lát börn vor eftir oss það erfa blessað hnoss. Ó, gef það glatist engum.

(Sb 300 - Grundtvig - Sb. 1871 - Helgi Hálfdánarson).