Fordómar og fúndamentalismi

Fordómar og fúndamentalismi

Nauðsynlegt er að greina fjölbreytnina í fúndamentalismanum og ólíkar hefðir og áherslur innan þessara stefna. Það verður að draga úr alhæfingum. Hugtök og hlutverk þeirra innan mismunandi bókstafstrúarhreyfinga geta verið gerólík.
fullname - andlitsmynd Haraldur Hreinsson
06. október 2014
Meðhöfundar:

Inngangur Nú á dögum er mikið talað um bókstafshyggju eða „fúndamentalisma“ en hugtakið er svo vítt í þeirri umræðu að óljóst er fyrir hvað það stendur. Lengi vel hefur fólk álitið að þetta væri fyrirbrigði sem myndi líða hjá en raunin virðist aftur á móti vera sú að að fúndamentalískar hreyfingar njóti sífellt meira fylgis, bæði á hinu trúarlega sviði sem hinu hugmyndafræðilega.1

Þrátt fyrir þessa stöðu er áberandi að hugtakið skuli enn vera notað til þess að útiloka hópa frá þátttöku í almennri orðræðu. Það er í raun og veru grátbroslegt, jafnvel hreinlega sorglegt, að fylgjast með því hvernig hinar smæstu trúarlegu skírskotanir og tungutak er lagt að jöfnu við „fúndamentalisma“ í þeim tilgangi að halda tilteknum röddum frá almennri umræðu. Og það einmitt þegar svo nauðsynlegt er að halda sem flestum innan hennar.

Slík beiting hugtaksins er lítt gagnleg og kemur í veg fyrir opna umræðu og skoðanaskipti ef eitthvað er. Þess vegna er nauðsynlegt að huga eilítið nánar að þessaði neikvæðu notkun hugtaksins áður en gerð er grein fyrir uppruna þess og nýrri fræðilegri skilgreiningum í tengslum við það.

Hættan við þöggunina

Nauðsynlegt er að gera skýran greinarmun á gagnrýni og fordómum þegar fjallað er um fúndamentalisma. Fúndamentalismi er ekki undanþeginn gagnrýni frekar en aðrar stefnur, en sú gagnrýni verður einnig að snúa að klisjum sem hafa verið mjög áberandi í umræðu um fúndamentalisma. Þannig hefur þeim sem hugtakið er eignað verið haldið frá almennri umræðu með því að tengja þá við úrelt gildismat og forna heimssýn. Vegna þessarar afstöðu er því haldið fram að fúndamentalistar skrifi sig hreinlega sjálfir út úr umræðunni og einangrist í afhelguðu fjölhyggjusamfélagi samtímans. Afleiðing þessarar almennu áherslu hefur verið að stórir hópar innan samfélagsins neita að taka þátt í slíkri umræðu þar sem jafnræðis er ekki gætt og skoðanir eru ekki virtar. Í seinni tíð hefur þessi hópur risið upp gegn slíkri forræðishyggju og hreinlega krafist lögbundins réttar síns sem þátttakendur í lýðræðissamfélagi. En hættan er sú að langvarandi útilokun leiði til þess að með auknu vægi og valdi þessara hópa komi það niður á opinni lýðræðislegri umræðu. Í krafti fjöldans getur fúndamentalisminn nefnilega storkað þeirri einokun sem svokallaðar menntastéttir hafa sett á alla umræðu innan samfélagsins.

Rétt er að geta þess að á meðan kirkjudeildir sem styðja hið opna vestræna samfélag og þá umræðuhefð sem þar hefur þróast skreppa saman þá vaxa m.a. kristnar fúndamentalískar hreyfingar og áhrif þeirra aukast jafnt og þétt. Þessar stefnur með sína skýru heimsmynd og siðferðilegar áherslur og hugmyndir um réttan lífsmáta höfða mjög sterkt til ungs fólks sem er viljugt til að ganga þeim á hönd. Víða, t.d. í sumum ríkjum Bandaríkjanna og í S-Ameríku, er um að ræða afar fjölmenna hópa sem hafa áhrif í krafti stöðu sinnar sem skattborgarar og kjósendur. Margir stjórnmálaflokkar eru farnir að átta sig á þessari stöðu og sjá tækifæri í stuðningi þessa hóps.

Einn þekktasti fulltrúi frjálslyndrar guðfræði í Þýskalandi í dag, Friedrich Wilhelm Graf, hefur tekið þessi málefni til umræðu og greiningar, m.a. í nýjustu bók sinni, Götter Global, þar sem hann ræðir hvernig heimurinn er orðinn að stórmarkaði trúarbragðanna, bæði í formi hefðbundinna trúarbragða og hinna ýmsu hugmyndakerfa.2 Á hugmyndum hans verður að hluta til byggt í þessari grein.

Raunveruleikablinda afhelgunarinnar

Lengi hefur sú afstaða verið vinsæl að skilgreina trú og áhrif hennar á samfélagið sem birtingarmynd annarra þátta, t.d. efnahagslegra, samfélagslegra, menningarlegra o.s.frv., með öðrum orðum, að líta framhjá öllu sem snertir trúna og inntak hennar. Þessi afstaða er mjög almenn meðal menntaðs fólks á Vesturlöndum sem er auk þess afar gagnrýnið á eigin menningararfleifð. Hinn venjulegi frjálslyndi maður gengur alla jafna út frá róttækri aðskilnaðarhugmyndafræði ríkis og kirkju og afhelgaðri heimsmynd þar sem trúnni er í mesta lagi veitt rými innan einkalífsins fyrir einstaklinga í leit að tilgangi. Þessari raunveruleikablindu sannfæringu um hið afhelgaða samfélag hefur einungis tekist að festa rætur í vernduðu umhverfi vestrænna menntamanna. Umræðan um trúarlegan fúndamentalisma líður því fyrir afneitun á því blasir við.

Hið trúarlega birtist okkur nefnilega hvarvetna. Í augum þessa hóps vísar fúndamentalismi til hins óvinveitta, það er hlaðið ótta við óskapnað hins órökræna og endurspeglar þær áhyggjur að allt það sem Upplýsingin hefur áorkað varðandi frelsi og mannréttindi verði fórnað á altari trúarlegrar ánauðar. Þessi sýn getur tekið á sig mynd pólitísks rétttrúnaðar3 sem tengir ekki einungis allt birtingarform hins trúarlega við fúndamentalisma heldur gengur jafnvel svo langt að setja allan veruleika trúarinnar undir það yfirhugtak. Slíkt hjálpar lítt þegar þarf að skýra eðli fúndamentalisma og sigurgöngu hans í samtímanum. Nauðsynlegt er að greina á milli ólíkra gerða fúndamentalisma því enda þótt finna megi ýmis sameiginleg einkenni innan slíkra hreyfinga er til staðar grundvallarmunur á þeim. Þannig er kristinn píslarvættisskilningur frábrugðinn islömskum píslarvættishugmyndum að því leyti að í hinu fyrrnefnda þá líður píslarvotturinn harðræði og jafnvel dauða vegna boðunar fagnaðarerindisins en innan islam er píslarvættið hluti af heilögu stríði – jihad. Síðar og sérstaklega í kjölfar nútímans var leitast við að túlka það sem andlega baráttu, en í vissum súrum kóransins og í þröngri bókstafstúlkun islamista er það lagt að jöfnu við hernað og stríðsátök.

Allt frá því á 18. öld hefur Upplýsingin og allt sem hún stendur fyrir – t.d. frjálslynd lýðræðisþróun og nútímavæðing efnahags og menningar – verið gagnrýnd frá sjónarhóli trúarlegrar og pólitískrar hefðarhyggju. Nútímavæðingin olli kaþólsku kirkjunni miklum vandkvæðum, þar risu upp andnútímalegir hópar sem börðust fyrir síaukinni miðstýringu páfa innan kirkjunar. Meðal mótmælenda var einnig risið gegn hinum frjálslynda anda nývæðingarinnar í guðfræði og samfélagi og fann sú gagnrýni sér farveg í nýrétttrúnaði, vakningarhreyfingum, biblíufestu og jafnvel hópum tengdum svonefndri bókstafstrú eða bókstafshyggju. Í þessu ljósi er fúndamentalisminn, innan kristninnar, hreyfing sem verið hefur til staðar allt frá upphafi nútímasamfélagsgerðar. Hann er ein af þeim gagnrýnisröddum sem fylgdu í kjölfar Upplýsingarinnar. Líta má á stefnuna sem skilgetið afkvæmi upplýsingarstefnunnar í þeim skilningi að hún er beint viðbragð við henni. Mikilvægt er að virða slíka grundvallarhyggju sem hluta af gagnrýnu samtali við áherslur upplýsingarstefnunnar og þá nývæðingu sem fylgir í kjölfar hennar í löndum sem voru mótuð af siðbótinni og þeim menningarlegu umhleypingum sem hún hafði í för með sér. Sambærileg þróun átti sér ekki stað í þeim löndum þar sem rétttrúnaðarkirkjan er mótandi og þannig séð er jafnvel villandi að tala um fúndamentalisma eða grundvallarhyggju innan þeirrar kirkjudeildar. Hér veldur mestu að innan þeirrar kirkjudeildar hefur aldrei átt sér stað sú aðgreining á milli kirkju og ríkis sem er mótandi fyrir vestræn samfélög. Segja mætti að þetta fyrirkomulag væri séreinkenni vestrænnar menningar sem vill oft gleymast þegar fjallað er um aðra menningarheima en hinn vestræna.

Kristinn fúndamentalismi

Uppruni kristins fúndamentalisma Hugtakið fúndamentalismi birtist sem sjálfskilgreining tiltekins kristins hóps á megináherslum sínum fyrst í upphafi tuttugustu aldar. Upphaflega var kristinn fúndamentalismi ekki settur fram sem andstæða eða í andstöðu við sjálfskilning nútímamannsins heldur einungis sem tilbrigði í trúarlegri orðræðu viðkomandi samtíma. Markmiðið var að setja fram grundvallarreglur sem ekki væri hægt að gefa upp á bátinn og mættu ekki verða afstæðishyggju að bráð í heimi þar sem hraði breytinga, ekki einungis í tækni heldur líka í gildismati, var gífurlegur.

Fyrir kristna trú voru m.a. sett fram eftirfarandi grundvallaratriði:

  • Óskeikulleiki ritningarinnar – kristin heimssýn og sjálfskilningur grundvallast á henni
  • Meyfæðingin – dregur fram að Jesús var sannur Guð og sannur maður
  • Fórnardauði Jesú – hann tók á sig syndir mannkyns og sætti manninn við Guð
  • Líkamleg upprisa Jesú – sem staðfestir gildi fórnardauðans og nýsköpun manns og heims
  • Endurkoma Krists, þúsundáraríkið og dómurinn í lok tímanna – undirstrikar að veruleikinn og sagan er í hendi Guðs 4

Hér verður að hafa í huga að trúarleg hugtök og trúarlegar kenningar þarfnast opinnar túlkunar og stöðugrar aðlögunar að mismunandi aðstæðum. Sú var ekki raunin hér. Þegar fram liðu stundir voru þessi grundvallaratriði túlkuð mjög þröngt sem leiddi til þess að þau voru notuð sem tæki til þess að sniðganga:

  • niðurstöður sögulegra rannóknaraðferða á ritningunni
  • þá þekkingu sem nútímanáttúruvísindi drógu fram (sérstaklega þróunarkenningu Darwins)
  • frjálslynda túlkun á veruleika kristninnar

Þrátt fyrir þessar tilhneigingar nýta fúndamentalistar aðferðir sögurýninnar og jafnvel má sjá djúpa þekkingu á niðurstöðum og aðferðum náttúruvísindamanna í ritum svokallaðra sköpunarsinna. Þess vegna er ekki hægt að ásaka þá um fáfræði sem ætti að draga úr fullyrðingagleði þegar rætt er um þá sem aðhyllast ofangreindar skoðanir.

Kristinn fúndamentalismi og bandarískt samfélag

Hafa verður í huga að þær grundvallarreglur sem settar voru fram hér að ofan eru hugsaðar sem innlegg í trúarlega orðræðu þess tíma sem þær komu fram í. Í kjölfar heimsstyrjaldarinnar fyrri tengdist þessi kristni fúndamentalismi sífellt meir stjórnmálalegum veruleika bandarísks samfélags. Þegar Bandaríkjamenn hófu beina þátttöku í fyrri heimsstyrjöldinni og í framhaldi af því kemur fram á sjónarsviðið goðsögnin um Bandaríkin sem hina nýju Ísrael eða kingdom of God in America. Sú hugmynd átti ekki, í einfaldleika sínum, að leiða til pólitískrar einangrunar Bandaríkjanna heldur undirbyggja alþjóðlegt hlutverk. 1919 eru stofnuð samtök fúndamentalista (World Christian Fundamentals Association) og 1941 er stofnað American Council of Churches og árið 1948 er International Council of Christian Churches stofnað sem svar við stofnun alkirkjuráðsins í Amsterdam 1948. Þá fær hinn kristni fúndamentalismi á sig skýra stofnanalega umgjörð og alþjóðlegt yfirbragð í mynd skipulegrar hreyfingar. Á 8. áratug 20. aldar tekur hann saman höndum við íhaldssamar menningar- og stjórnmálastefnur. Þessir hópar sameinuðust í því að spyrna fótum við því að öllum lífsskoðunum og gildismati væri gert jafn hátt undir höfði. Þeim hreyfingum sem þeim fannst ógna hefðbundnum samfélags- og fjölskyldugildum var andmælt. Að baki þessa býr sá vilji að í krafti stjórnarskrárbundinna réttinda fái hið trúarlega aftur sinn stað í opinberu rými. Fulltrúar hins kristna fúndamentalisma í Bandaríkjunum höfnuðu þeirri aðgreiningu sem hefur leitt til einangrunar hins trúarlega og þeirri tilhneigingu að því sé vísað inn á svið einkalífsins. Á þeim grunni kröfðust þeir þess réttar að fá að móta samfélagið. Fulltrúar fúndamentalisma láta sér ekki lengur nægja hagsmunagæslu í formi lobbíisma heldur eru þeir farnir að starfa beint með grasrótinni til þess að hafa pólitísk áhrif. Markmið þeirra varðandi það hvernig eigi að móta samfélagið og stofnanir ríkisins eru skýr. Vel kom fram hversu sterk hreyfingin var orðin í þingkosningum 1978 í Bandaríkjunum og sérstaklega í forsetakosningum þegar Ronald Reagan var kosinn. Sá kosningasigur hefði verið óhugsandi án samtaka á borð við Moral Majority, Christian Voice og Christian Roundtable. Enn þann dag í dag eru þessir fúndamentalísku hópar mjög áhrifamiklir meðal repúblikana enda eru þeir mjög öflugir í allri fjölmiðlun og almannatengslum.

Áberandi mál sem þeir beita sér sérstaklega fyrir eru málefni sem snúa að fóstureyðingum, réttindabaráttu kvenna og samkynhneigðra, andstöðu við alræði þróunarkenningu Darwins í líffræðikennslu, endurvakning á hinu gamla efnahagskerfi þar sem ábyrgð og samheldni voru höfð í heiðri, og stuðningi við að Bandaríkin séu í fararbroddi á hernaðarsviðinu. Hafa ber í huga að handan sviðs þeirra atburða sem þykja fréttnæmir er mjög fjölbreytt flóra fúndamentalískra hópa, ekki einungis í Bandaríkjunum heldur um heim allan, sem hefur mótað fjölda fólks sem er algerlega ópólitískur og snýr mun meira að frelsun einstaklingsins, kraftaverkum og helgun hins daglega lífs.

Í leit að festu í óöryggi nútímans

Allar fúndamentalískar hreyfingar nærast á gagnrýni á nútímann. Inn í heim sem mótaður er af afstæðishyggju er algildum grundvallarreglum teflt fram. Fólk í samtímanum þarf að glíma við almenna óvissu á nær öllum sviðum, hvergi er hægt að ganga út frá einföldum og skýrum reglum. Þetta álag kallar fram þreytu og streitu í einstaklingnum sem veldur því að hann tekur því fegins hendi að fá skýra heimsmynd og skýr gildi sem fúndamentalískir hópar bjóða upp á. Hér verður að hafa í huga að fúndamentalisminn er gagnrýni á algildiskröfu sem kom fram með Upplýsingunni eða þá ígrunduðu afstæðishyggju5 sem þar er að finna. Það á fúndamentalisminn sameiginlegt með póst-módernísku hugarfari, þó með þeim skýra mun sem felst í því að fúndamentalisminn lítur ekki á allar skoðanir sem jafnréttháar á meðan póstmódernisminn telur sig gera öllum skoðunum jafnhátt undir höfði. Fúndamentalisminn greinir aftur á móti sýn upplýsingarstefnunnar sem trúarlega, þó í afhelguðu formi sé. Þessari afhelguðu trúarsýn upplýsingarinnar sem mótar nútímann svo mjög, er hafnað sem villutrú. Hér er vísað til þeirrar staðreyndar að ekki er til nein hlutlaus staða sem hægt er að meta hlutina út frá, heldur er nauðsynlegt að byggja á sannfæringu eða trúarlegum grundvelli sem vissulega er hægt að færa góð rök fyrir. Það kemur því ekki á óvart að kristnir fúndamentalistar í Bandaríkjunum áliti aðalóvin sinn vera fulltrúa afhelgaðs húmanisma. Í grunninn er hér um trúarátök að ræða og þess vegna eru þau svo hörð, þar sem annars staðar.

Fúndamentalistar finna vel fyrir því að þeir eru bornir uppi af hefð sem stendur styrkum fótum á meðan nútíminn virðist vera í krísu. Þeir standa á föstu landi á meðan það fjarar undan öðrum. Hér sameinast trúarlegir fúndamentalistar í baráttu sinni gegn afhelguðum húmanisma og í raun og veru með arabískum fúndamentalistum sem berjast gegn vestrænum gildum.6 Báðar fylkingar eru sammála í því að meginmein nútímavæðingarinnar sé guðleysið.

Það sem einkennir aftur á móti allar gerðir af fúndamentalisma er skýr heimsmynd, skýr kenning og afmarkaður farvegur fyrir daglegt líf sem á að veita hald gegn afstæðishyggju vestrænnar menningar og svar við þeim vanda sem hún glímir við. Þetta eru einkenni sem sjást í öllum fúndamentalískum hreyfingum, hvort sem þær er að finna innan kirkjudeilda mótmælenda þar sem stuðst við bókstaflega túlkun ritningarinnar og óskeikulleika hennar eða innan kaþólsku kirkjunnar, þar sem páfinn og hefðin taka sama sæti, eða innan fúndamentalískra hreyfinga innan islam þar sem höfðað er til kóransins og sharia laganna. Svipaðar áherslur er að finna meðal hindúa og búddista og ekki má gleyma að sömu tilhneigingar gætir í hinum „afhelgaða geira“, meðal róttækra herskárra guðleysingja, vísindahyggjusinna og jafnvel innan hinnar breiðu hreyfingar femínisma má einnig greina hópa sem má skilgreina sem „róttækan, femínískan fúndamentalisma með óhagganlegri kenningu um fornútímalegt mæðraveldi“.7

Allar þessar stefnur byggja hver um sig á trúarlegri eða hugmyndafræðilegri hefð sem þær líta á sem óskeikult kennivald. Í þeirra augum er um að ræða algilt og óbreytanlegt kerfi, óháð hinu sögulega tilfallandi. Þannig finnur bókstafstrúarmaðurinn öryggi í kennivaldinu, hvort sem það er trúarlegt eða hugmyndafræðilegt, og skjól í heimi sem er undirorpinn afstæði, óvissu og síbreytileika. Þessi afstaða til óskeikuls kennivalds einkennir alla bókstafstrú. Það merkilega er að sá óskeikulleiki sem þeir ganga út frá er þegar upp er staðið afstæður, eitt hugmyndakerfi af mörgum, og að því leyti undir sömu fjölhyggju settur og mótar nútímasamfélag.

Ekki ber að undra að margar fúndamentalískar hreyfingar sækja grundvöll kenninga sinna til fornútímalegrar samfélagsgerðar þar sem vægi og gildi trúarinnar sem þeir aðhyllast var að þeirra áliti óvéfengjanlegt. Það nægir þó ekki til að verjast óreiðu samtímans. Einnig er nauðsynlegt að skapa heildstæða og lokaða heimsmynd innan trúarkerfisins. Krafan er mjög skýr: hugmyndakerfið verður að ná yfir allan veruleikann, jafnt heiminn sem alheiminn, þróun sögunnar, allt til þess hvernig einstaklingurinn á að móta sitt daglega, persónulega líf.

Þessi tilhneiging skapar mjög sterka „við“ vitund innan fúndamentalískra hópa. Því kemur lítt á óvart að innan alls fúndamentalisma kemur alltaf fram elítuhugsun. Hún birtist í því að settir ákveðnir og útilokandi mælikvarðar á það hverjir megi tilheyra hópnum eða söfnuðinum. Innan hópsins skapast sterk vitund um að hann sé útvalinn. Hann stendur andspænis fjölda þeirra sem eru glataðir og vaða í villu. Uppgötvun þessarar stöðu er lögð að jöfnu við frelsun. Í ljósi hennar getur einstaklingurinn gert grein fyrir lífssögu sinni. Ævi hans fær fast form í veruleika nútímans þar sem fastir punktar á borð við atvinnu, hjónaband og fjölskyldu, verða æ hreyfanlegri. Frelsunin þýðir nefnilega í félagssálfræðilegu samhengi líka að einstaklingurinn veit hverjum hann tilheyrir og hvernig hans eigin saga á að líta út.

Nauðsyn umburðarlynds samfélags

Friedrich Wilhelm Graf varar við skeytingarleysi gagnvart því að standa vörð um þau grunngildi sem umburðarlynd samfélög vestrænnar menningar byggja á. Afrakstur Upplýsingarinnar sem mótar nútímasamfélög kostaði mikla baráttu og krefst árvekni af meðlimum samfélagsins til að viðhalda því. Hluti þeirrar árvekni felst í að greina og taka alvarlega þá gagnrýni sem fúndamentalískar hreyfingar, hvort sem þær eru trúarlegar eða hugmyndafræðilega undirbyggðar, standa fyrir. Í þeirri umræðu ber að forðast alla forræðishyggju og alla tilhneigingu til að setja sig í dómarasæti í því samtali.

Samfélög nútímans einkennast af átökum milli hópa og hagsmunasamtaka, duldri stéttaskiptingu, og menningarlegum og pólitískum flokkadráttum. Það þarf þess vegna viðurkennda umgjörð sem gerir það mögulegt að takast á við þessi ágreiningsefni á friðsamlegan máta sem munu einungis færast í aukana í fjölmenningarsamfélagi nútímans.8 Samkvæmt sígildri frjálslyndri hugmyndafræði er mikilvægasta tækið í því sambandi formlegt réttarfar þar sem gengið er út frá því að fyrir lögum séu allir jafnréttháir og að lögin nái jafnt til allra. Sömuleiðis skulu réttindi og skyldur þegna samfélagsins koma skýrt fram. Þess vegna er ekki mögulegt að hafa inni í þeim lögum reglur og reglugerðir sem aðeins viss hluti borgaranna getur framfylgt eða veita tilteknum aðilum forréttindi. Þannig getur réttarkerfið ekki byggt á ákveðnum trúarlegum grunni, hvort sem hann á rætur að rekja til hebreskrar ritningar, Nýja testamentisins, kóransins eða annarra trúarlegra rita og jafnvel hugmyndafræðilegra stefna sem t.d. hafa tekið hina afhelguðu, húmanísku afstöðu eignarnámi.

Andspænis þessari hugmyndafræði hafa gagnrýnendur nútímans ætíð sett fram þá kenningu að réttarkerfið geti einungis verið bindandi ef það hefur á einhvern hátt trúarlegan grunn sem veitir lögum og reglum tryggan grundvöll. Þessi kenning er jafnan réttlætt með því að einungis trúin eða trúarbrögðin geti skapað einingu og heildarsýn í þeirri óreiðu sem veruleikinn myndar án þeirra. Átökin á milli þessara stefna verða hættuleg þegar það tekst í nafni fúndamentalisma, hvort sem hann er trúarlegur eða hugmyndafræðilegur, að veikja undirstöður hins formlega réttarfars. Einungis hið formlega réttarfar tryggir að tekist sé á um samfélagsleg og menningarleg málefni á málefnalegan hátt sem útilokar valdbeitingu og hnefarétt.

Í nútímasamfélagi eru mörg málefni sem þarf að ræða innan þröngs hóps sérfræðinga sem auðvelda mat og ákvarðanatöku varðandi þau á grundvelli þess formlega réttar sem samfélagið byggir á. Sú umræða fylgir ákveðnum reglum sem tryggja að tekið sé tillit til allra sjónarmiða.9 Þegar fúndamentalistar vilja ekki eða neita að taka þátt í upplýstri umræðu innan samfélagsins, veikir það mjög stoðir þess. Hið sama er uppi á teningnum þegar svokallaðir „menntamenn“ sem hafa gefið hinni afhelguðu heimsmynd nærri trúarlegt vægi í lífi sínu, neita að ræða við fulltrúa hinna ýmsum bókstafstrúarstefna á jafnréttisgrundvelli og vinna þannig að því að útiloka þá frá hinu opinbera rými.

Þegar sá póll er tekinn í hæðina þá virkjar það þá tilhneigingu innan fúndamentalískra hópa að setja slíkan ágreining í samhengi lokauppgjörs eða úrslitaorrustu. Baráttan er þar sett í samhengi hjálpræðis og glötunar. Einstakar ákvarðanir fólks verða að yfirlýsingum um hlýðni við Guð eða afneitun á honum. Fyrir aðila sem setja ákvarðanatöku sína í þetta samhengi, missa lög og umgjörð samfélagslegrar umræðu vægi sitt vegna þess að þeir álíta sig fylgja kennivaldi sem setur æðri lög, þau geta verið nefnd lög Guðs eða verið í formi einhverra hugmyndastefna. Í þessu samhengi verður hið formlega réttarfar sett undir þrönga guðsmynd viðkomandi hóps; það eitt er tekið gilt sem samræmist hinu opinberaða lögmáli hennar. Þessi áhersla á hið guðlega lögmál, sem einnig er að finna í afhelgaðri mynd hjá sumum hugmyndafræðilegum hópum og hugmyndastefnum, á að vera bindandi fyrir alla heimsbyggðina og talinn vera grundvöllur allra þeirra reglna sem eiga að gilda í mannlegum samfélögum.

Í samfélagi umburðarlyndis og menningar sem mótast af því er slíkum hugmyndum hafnað vegna þess að þar gildir hið formlega réttarfar. Á meðan geta áðurnefndar róttækar kröfur gilt fyrir trúarlíf einstaklingsins sem hann hvorki má aldrei beygja aðra undir. Algildiskrafa trúarinnar er bundin við einstaklinginn en ekki samfélagsgerðina. Í þessu samhengi geta ólíkar trúarskoðanir og ólíkar hugmyndastefnur staðið hlið við hlið og stuðlað að hlutlausri og umburðarlyndri umgjörð fyrir samfélagið. Sé þetta ekki haft í heiðri þá er hætta á því að viðkomandi aðilar sjái náunga sína eða hina einungis sem viðfangsefni trúboðs eða óvini. Það gagnast lítið að taka á slíkum aðilum með almennum tilvísunum til mannréttinda og manngilda samfélagsins þar sem fúndamentalisminn lítur á það sem afleiðingu afhelgaðrar villutrúar samtímans. Þess vegna gagnast lítið sú hugsun að aðskilja þeim mun meir trú og ríki til að mæta slíkum hópum heldur þarf að efla vitræna umræðu um trúmál þar sem trúarlegar og siðferðilegar hefðir eru greindar og trúarleg hugtök og lífskilningur túlkaður. Í þessu samhengi hefur skólakerfið lykilhlutverki að sinna. Það er afar nauðsynlegt að kennsla í trúarbragðafræðum sé efld og að almennt sé gerð grein fyrir hugmyndaheimi og veruleika trúarinnar. Ber því að forðast þann sleggjudóm að leggja fræðslu um trú og trúarbrögð að jöfnu við boðun og innrætingu. Slíkur málflutningur er einungis vatn á myllu fúndamentalisma og lokar fyrir opna umræðu. Vesturlönd glíma nú um stundir við afleiðingar slíkrar stefnu eins og birtist okkur m.a. í fjölmiðlum á degi hverjum.

Friedrich Wilhelm Graf bendir á að andspænis þessari stöðu ber að virða það að trúarlegt tungutak krefst víðrar túlkunar og stöðugrar heimfærslu inn í mismunandi aðstæður. Það er eina svarið við þröngri túlkun og yfirfærslu sem er jafnt að finna meðal trúarlegra og afhelgaðra bókstafstrúarhreyfinga.

Niðurlag

Nauðsynlegt er að greina fjölbreytnina í fúndamentalismanum og ólíkar hefðir og áherslur innan þessara stefna. Það verður að draga úr alhæfingum. Hugtök og hlutverk þeirra innan mismunandi bókstafstrúarhreyfinga geta verið gerólík. Samtímis verður fólk að vera meðvitað um sameiginlega grunnþætti þar innan, eins og þrána eftir skýrum gildum, augljósri heimsmynd og skýrri umgjörð utan um hið daglega líf. Auk þess ber að huga að því að fúndamentalískar hreyfingar eru í gagnrýni sinni hluti af arfleifð Upplýsingarinnar og afsprengi hennar.

Það gefur því að skilja að fúndamentalistar gera kröfu til þess að taka þátt í samfélagslegri umræðu. Það verður að taka alvarlega ef þeir sem hafa haft stjórn á umræðunni fram að þessu ætla að halda áfram að taka þátt í henni.

Tilvísanir

1 Sjá umræðu í bók Harvey Cox, The Future of Faith (New York: Harper Collins, 2009), 141-212.

2 Friedrich Wilhelm Graf, Götter Global: Wie die Welt zum Supermarkt der Religionen wird (München: C. H. Beck, 2014).

3 Vilhjálmur Árnason, Farsælt líf, réttlátt þjóðfélag (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2008), 432.

4 Klaus Kienzler, Der Religiöse Fundamentalismus: Christentum – Judentum – Islam (3. útg.; München: C. H. Beck, 2001), 30.

5 Afstæðishyggja er oft lögð að jöfnu við það að allt sé leyfilegt eða allar skoðanir séu jafnréttháar. Að vissu leyti er mögulegt að fallast á þetta en það þýðir þó ekki að fólk sé leyst undan þeirri sjálfsögðu kröfu að þurfa að færa rök fyrir afstöðu sinni, undirbyggja hana og leiðrétta í ljósi réttmætrar gagnrýni. Því tölum við hér um ígrundaða afstæðishyggju sem gerir ráð fyrir slíkum rökstuðningi, gagnrýni og umræðu í tengslum við það sem haldið er fram. Af þessu leiðir að fullyrðingar í guðfræði- eða trúarlegri umræðu geta ekki staðið bara fyrir það eitt að einhver trúi einhverju.

6 Á miðvestur-afríska tungumálinu Hausa, má þýða Boko Haram sem „Vestræn menning er bönnuð“ en líka „Nútímauppeldi er synd“ og er þá átt við vestrænar uppeldisaðferðir og samfélagsskipan.

7 Graf, Götter Global, 242.

8 Segja má að sú meginhugmynd sem sett er fram í bók Vilhjálms Árnasonar, Farsælt líf, réttlátt samfélag, lúti einmitt að þessu atriði.

9 Bæði John Rawls og Jürgen Habermas hafa fjallað mikið um þetta efni og vægi slíkrar rökræðu fyrir samfélagsgerðina. Í þessu samhengi er rætt um rökræðukenninguna og í íslensku samhengi hefur Vilhjálmur Árnason mikið fjallað um hana. Vilhjálmur Árnason, Farsælt líf, réttlát samfélag – kenningar í siðfræði, 329-373. Áhugaverða umræðu um heimfærslu hennar upp á íslenskt samfélag er að finna í grein Vilhjálms, „Valdið fært til fólksins? Veikleikar og verkefni íslenskt lýðræðis í aðdraganda og eftirmála hrunsins“ Skírnir 2013 (Vor): 11-54.