Hér erum við umvafin vináttu sem við höfum notið svo innilega í heimsókn okkar hingað á höfuðborgarsvæðið. Við höfum dvalið hér í kirkjunni síðustu þrjá daga – 30 manna hópur frá Vopnafirði, og móttökurnar frábærar. Við höfum notið vináttu sem varir. Kærar þakkir.
Jesús Kristur sagði: “Þið eruð vinir mínir, ef þið gerið vilja föður míns”. Þetta er kjarninn í hinum kristna boðskap. Kirkjan byggir starfið sitt á vináttu. Erindi okkar, vopnfirskra unglinga áamt fylgdarliði, hingað á höfuðborgarsvæðið er að kynna verkefnið Vinavikuna á Vopnafirði sem unglingarnir þar hafa staðið fyrir undanfarin fjögur ár með svo góðum árangri, að athygli hefur vakið. Við fórum í heimsókn til sr. Agnesar Sigurðardóttur, biskup Íslands, og á Alþingi þar sem við hittum Sigurð Inga Jóhannsson, starfandi forsætisráðherra, og fleiri alþingismenn, knúsuðum þá og áttum samtöl um gildi vináttunnar í lífinu. Einnig vorum við með kynningarbása í Smáralind og hittum fólk að máli og í gær tókum við þátt í námskeiði hér í kirkjunni. Alls staðar þar sem við höfum komið hefur okkur verið tekið opnum örmum og fólkið áhugasamt um að kynna sér framtak unglinganna frá Vopnafirði.
Spurningin sem við erum oftast spurð að er: Af hverju Vinavika? Því verður ekki svarað með einni setningu. Hugmyndin var ekki tilkomin vegna þess að við eigum við vandamál að stríða, síður en svo. Miklu frekar vegna þess að vináttan er svo mikil áskorun í hinu kristna fagnaðarerindi og á ef til vill í vök að verjast í nútímanum. Þá þekkja unglingarnir hve vinátta og kærleikur er þeim mikill styrkur og eru okkur hinum eldri til fyrirmyndir. Á unglingsárunum er þörfin fyrir vini líklega aldrei meiri, þegar þau eru að reyna sig á hinum stóra vettvangi lífsins. Eru að æfa sig í að sleppa takinu af foreldrunum sínum, rækta sjálfstæða og ábyrga vitund og þá skiptir máli að mynda ný tengsl og eignast vini, sem hægt er að deila með nýrri reynslu og upplifunum.
Þetta heitir að eignast traustan vin. En vinátta er ekki bara þetta. Vinátta er kærleikur í samskiptum og viðmóti, samfylgd á lífsins leið, – að njóta samvista og koma fram við náungann af virðingu og standa líka með vináttunni, þegar á reynir. Lífshamingjan er grundvölluð á nánd, trausti og kærleika, sem birtist fyrst og síðast í samskiptum okkar við samferðarfólk og þá skiptir máli hvað við segjum, gerum og hvernig. Hlý kveðja, þakka fyrir með bros á vör, traust handtak, hrós, og umvefjandi faðmur getur svo auðveldlega lýst upp daginn. Oft þarf ekki meira til í dagsins önn, en gefur svo mikið.
Að sýna hlýju, ástúð og skilning byggir upp samheldið og traust samfélag. Það finnum við vel í guðsþjónustunni, því hér blómgast vonin í vináttu með Guði og hvert með öðru, um leið minnumst við þess hvað það er sem raunverulega skiptir máli í lífinu. Hér er ekki verið að boða glansmyndir, dulin skilaboð eða fegraðan sannleika, heldur ástina sem breiðir yfir allt, trúir öllu og vonar allt.
Við komum til guðsþjónustu til að styrkja tengslin, en út í daglega lífinu er þetta ekki alltaf svo einfalt. Stundum er það feimnin og hlédrægnin sem heldur aftur af okkur. Mér er minnistætt, þegar ég var einu sinni á ferðalagi erlendis og fór í skoðunarferð. Í hópnum var fólk frá ýmsum löndum og enginn þekkti neinn. Það var boðið upp á sameiginlegan hádegismat og við vorum látin sitja við lítið borð og það var þröngt á þingi. Meðan við biðum eftir matnum var óþægileg þögn og allir horfðu hvert á annað, en engin sagði neitt. Þögnin var enn óþægilegri þegar maturinn var borin á borð, en svo safnaði einhver kjarki og spurði sessunaut sinn lágt: „Hvaðan ert þú?“ Í þögninni voru allir með eyrum sperrt og hlustuðu á hvert orð, en þessi setning var nóg til að brjóta ísinn og á einu augabragði hófu allir að tala saman, skiptast á ferðasögum og segja frá aðstæðum sínum. Allt annað andrúmsloft, fólk brosti og hló og naut samfélagsins í botn.
Við getum öll sagt svipaðar sögur af óþægilegum atvikum, þegar við fundum fyrir nánd, augnsambandi og þörfinni að segja eitthvað. Þetta geta oft orðið óþægileg augnablik, unglingarnir hafa orð yfir þetta og segja einfaldlega: Vandræðalegt.
Er nútímafólk að einangrast inni í sinni skel, eins fjarstætt og það ætti að vera í heimi tækni, nálægðar og þæginda? Einangrast frá raunverulegum samskiptum? Leyfa afskipta- og sinnuleysi að ráða för? Eigum við langtum meiri áþreifanleg samskipti við tæki heldur en fólk? Það er ekki lengra síðan en svo, að þegar ég var að alast upp, þá var ég oft spurður: “Hverra manna ert þú”? Svona spurning gildir ekki á Vopnafirði, þar sem allir þekkja alla. En í fjölmenninu, þar er umhverfið frábrugðið. Þekkjast nágrannar? Ég bjó einu sinni í blokk á höfuðborgarsvæðinu og þekkti ekki einu sinni nöfnin á fólkinu í sama stigagangi. Er ástæðan sú, að við viljum ekki vera trufluð, fá að vera í mínum einkafriði eða erum við óttaslegin, hreinlega hrædd eða svo upptekin í hraðferðinni um lífið, að við gefum okkur ekki tíma til að rækta gefandi samskipti?
Guðspjöllin segja frá því hvernig Jesús mætti fólk og átti samskipti við það og þar var enginn undanskilinn. Hann talaði og myndaði tengsl við alla; fátæka, sjúka, útskúfaða, einnig ríka og háttsetta. Hann gerði engan greinarmun og kom fram við alla af virðingu. Hann sagði að við ættum að elska Guð og náungann og allt sem þú vilt að aðrir geri þér, það skalt þú gera þeim. Þetta eru svo skír skilaboð og greipt inn í íslenska þjóðarsál, en hvetja svo sannarlega til verka, að við stígum út fyrir þægindahringinn og ræktum vináttu hvert með öðru, til að auðga og njóta lífsins.
Þetta er það sem unglingarnir rækta í Vinavikunni, að stíga út fyrir þægindahringinn og setja vináttu í forgang með átaki. Mæta fólki með brosi, góðvild og já, jafnvel faðmlagi. Fara út fyrir þægindahringinn, sem ekki er alslæmur – því hann getur líka hjálpað okkur að vega og meta aðstæður og vanda okkur í samskiptum. En til að þroskast og vaxa sem manneskjur megum við ekki lokast inni í hringnum, festast þar og einangrast í eigin skinni. Það er sannarlega ástæða til að setja vináttu og samskiptatengslin á dagskrá í íslensku samfélagi.
Það á ekki síst við unga fólkið á mikilvægum mótunarárum þar sem þau taka út svo mikinn þroska. Þau eru alltaf að prófa sig áfram og reyna eitthvað nýtt á leið sinni til aukins vaxtar og sjálfstæðis. Eitt það skemmtilegasta sem við gerum í Vinavikunni er að faðmlagið eða knúsið. Í vinaskrúðgöngunni heilsum við og knúsum hvert annað og ljúkum svo samverunni með stóru hópknúsi. Og svo höfum við knúsdag, þar sem krakkarnir fara á hjúkrunarheimilið og knúsa heimilisfólkið, einnig á alla vinnustaði og í búðinni aðstoða þau fólk við verslunarinnkaupinn og að sjálfsögðu fá allir knús.
Í upphafi eru krakkarnir óörugg með sig, en það hverfur fljótt þegar því þau finna hvað eitt knús getur gefið mikið og launin eru bros og gleði. Við höfum þörf fyrir nánd og að vera snert og þar er faðmlagið svo dýrmætt til þess að elska án þess að segja nokkuð.
Ef við spyrjum lítil börn hvað þau vilja mörg knús á dag þá svara þau örugglega á bilinu 100- 1000 og þau yngstu lyfta 10 fingrum sem er auðvitað í þeirra huga óteljandi. Við erum í svo mikilli þörf fyrir nálægð hvert með öðru, hvatningu, uppörvun og traust tengsl.
Markmið Vinavikunnar að færa fólk nær hvert öðru, rækta vináttu og tengsl, auðga samfélag vináttunnar með samveru, samtali og gera eitthvað saman og þar á enginn að vera undanskilinn. Það þýðir að huga líka að þeim mörgu sem búa við einangrun vegna félagslegra aðstæðna, sökum sjúkdóma, áfalla eða erfiðleika sem hindra félagslega þátttöku. Gleymist þetta fólk og verður útundan á hraðferðinni í dagsins önn? Er það dæmi um hið dulda andlega einelti nútímans þar sem afskipta-og sinnuleysið ræður för? Því má heldur ekki gleyma, að við eru einnig ólík og eigum miserfitt með að gefa af okkur, mynda tengsl og eignast vini. Hér verður að gæta virðingar og nærgætni, en umfram allt að leyfa kærleikanum að blómgast þar sem helgi mennskunnar er í fyrirrúmi.
Sú vinátta blómgast í fyrirmyndinni af Jesú Kristi sem sagði: “Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins”. Þetta er ljósið sem við þráum að megi lýsa yfir vináttu lífsins.
Í Jesú nafni amen.