Ár virðingar og friðar

Ár virðingar og friðar

Á nýju ári skulum við strengja þess heit að bera virðingu fyrir fólki og skoðunum þess. Að treysta því að fólk beri gott fram úr góðum sjóði hjarta síns en sé ekki vænt um óheiðarleika eða hagsmunapot. Ef við viljum raunverulega betra þjóðfélag og persónulegt líf þá byrjum við hvert og eitt á huga okkar.

Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka,

Þessi orð voru sungin í kirkjum landsins við aftansönginn í gærkveldi. Þau voru sungin í ljósvakamiðlunum við mæri áranna tveggja, þess sem við kvöddum og þess sem við heilsuðum. Þau voru sungin í heimahúsum.

Þessar ljóðlínur Valdimars Briem eru þær fyrstu í kunnum áramótasálmi þar sem minnst er miskunnar Guðs sem breytir öllu í blessun um síðir.

Áramót eru ekki tímamót nema að því leyti að þau breyta ártalinu og minna okkur á að enginn stöðvar tímans þunga nið. Þau vekja í huga okkar löngun til að gera betur í framtíð en í fortíð og þau minna okkur á að gefa gaum að tækifærum lífsins.

Guðspjall nýársdags er ekki frásaga margra orða. Aðeins ein málsgrein, sem er í beinu framhaldi af fæðingarfrásögunni um Jesú. „Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi“.

Drengnum var gefið nafnið sem ákveðið hafði verið. Jesús merkir Guð hjálpar. Öll erum við hjálpar þurfi einhvern tímann á lífsleiðinni og þá er gott að vita af traustum vinum eða sérfræðingum sem til hjálpar koma. Undanfarna daga höfum við fylgst með öflugu starfi björgunar- og hjálparsveita hér á landi. Starfi sem unnið er af miklum kærleika til náungans og áhuga á að láta gott af sér leiða. Það er þakkarvert og ekki sjálfgefið að eiga að slíka bakvarðarsveit. Það er ánægjulegt að finna það traust sem þjóðin ber til hjálparsveitanna, en traust er lykilhugtak fyrir farsæld í mannlegum samskiptum og endurreisn þjóðar.

Á aðventunni tók ég á móti fjárframlögum frá félagasamtökum til Hjálparstarfs Kirkjunnar, en sú stofnun hefur um fjögurra áratuga skeið unnið í anda kristinnar trúar, eins og systurstofnanir kirknanna í löndunum í kringum okkur. Það var gott að finna það mikla traust sem gefendur bera til Hjálparstarfsins. Þeir treysta þeirri stofnun til að koma framlaginu í hendur þeirra sem hjálpar eru þurfi bæði innan lands og utan.

Á aðventunni kynntist ég því einnig hve mörg félagasamtök leggja sig fram um að láta gott af sér leiða til uppbyggingar traustara samfélags og betra lífs fyrir þegnana. Söfnun til styrktar nýjum línuhraðli á Landsspítala fór fram í sóknum landsins og var merkilegt að fylgjast með hugmyndaauðgi og framkvæmd sóknarbarna og presta sem gengu fjöll, héldu basara og uppboð, tóku samskot og fleira mætti telja. Það býr mikill mannauður í kirkju okkar og samfélagi. Vil ég þakka ykkur framlag ykkar og stuðning sem og allt það góða og gefandi starf sem fram fer í sóknum landsins og þátttöku í því. Það fer ekki alltaf hátt sem unnið er í sóknunum. Guði séu þakkir fyrir ykkur og mannbætandi þjónustu ykkar.

Í Jesú nafni var kirkja Krists reist hér á jörð. Erindi hennar er aðeins eitt, að boða Krist. Segja frá barninu Jesú, unglingnum í musterinu, manninum sem kenndi og Guði sem læknaði. Hann er fyrirmynd okkar og frelsari. Kirkjan er fólkið sem trúir á hann, treystir honum. Treystir honum fyrir lífi sínu og dauða. Treystir honum fyrir málum sínum, gleði og áhyggjum. Kvíða og hræðslu. Treystir að

Í hendi Guðs er hver ein tíð, í hendi Guðs er allt vort stríð, hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár.

Eins og sr. Matthías komst að orði í áramótasálmi sínum.

Barnið í jötunni treysti á Maríu og Jósef eins og öll börn treysta á móður sína og föður. Því miður kynnast mörg börn heimsins því allt of fljótt að ekki eru öllum treystandi og ekki öllu treystandi. Þá verður óöruggið til sem getur skapað ófrið og slæma líðan.

Það er margt í heimi hér sem gerir okkur óörugg. Það getur t.d. skapað óöryggi að sitja í bíl eða öðru farartæki sem einhver annar stjórnar. Við viljum stjórna sjálf, ekki bara farartækjunum heldur einnig lífi okkar. Það getur líka brugist að við getum stjórnað sjálf. Vantraust beinist ekki aðeins að öðrum heldur einnig að okkur sjálfum.

Í tvöfalda kærleiksboðorðinu er sagt að við eigum að elska Guð og náungann eins og sjálf okkur. Við getum skipt um orð og sagt treysta skaltu Guði og náunganum eins og sjálfum þér.

Traust er orð sem oft hefur heyrst, einkum í seinni tíð þegar að ýmislegt sem við treystum var ekki traustsins vert. Margir fóru til dæmis í bankann fyrir 5 árum að taka út sparnað sinn, sem ekki var lengur til staðar. Það er því ekki óeðlilegt að traustið hafi beðið hnekki í samfélagi okkar síðast liðin ár, þegar við höfum þurft að endurmeta margt og læra að lifa við aðrar aðstæður. En til að endurreisnin í samfélaginu og í eigin lífi verði sönn verðum við að treysta. Traust er grunnur að farsælu lífi. Allt er hverfult í heimi hér og allt er breytingum háð. En það sem ekki breytist er Guð. Við sem trúum, treystum því að kraftur Guðs sé að verki í veröld okkar og við treystum því að Guð muni eftir okkur og elski okkur eins og við erum. Að trúa er að treysta því að Guð er með okkur á lífsins vegi.

Hann heyrir stormsins hörpuslátt, hann heyrir barnsins andardrátt, hann heyrir sínum himni frá hvert hjartaslag þitt jörðu á.

Segir sr. Matthías líka í sálmi sínum.

Með þá trúarvissu í hjarta að Guð muni vel fyrir öllu sjá göngum við inn til hins nýja árs 2014. Við erum ekki öll eins og við erum ekki öll með sömu skoðanir. En eitt af grundvallaratriðum mannlegra samskipta er að virða skoðanir annarra. Það er ljótt að sjá það á bloggsíðum og í athugasemdakerfum á netinu þegar lítið er gert úr skoðunum fólks, það hreinlega lagt í einelti með sífelldu niðurtali og háði. Þá er eins gott að sá eða sú sem fyrir verður hafi það sjálfstraust til að bera að geta staðið keik á eftir.

Á nýju ári skulum við strengja þess heit að bera virðingu fyrir fólki og skoðunum þess. Að treysta því að fólk beri gott fram úr góðum sjóði hjarta síns en sé ekki vænt um óheiðarleika eða hagsmunapot. Ef við viljum raunverulega betra þjóðfélag og persónulegt líf þá byrjum við hvert og eitt á huga okkar. Í huga mannsins hafa mestu framfarir mannkyns orðið til í upphafi og þar er lagður grunnur að fyrirmyndarþjóðfélagi og framtíð. Í huga okkar mótast hugsanirnar sem verða að orðum og verkum.

Hann fékk nafnið Jesús, Guð bjargar, drengurinn sem lagður hafði verið í jötu 8 dögum áður. Þetta nafn hefur verið lofað í tvö þúsund ár og í dag játa um tvei komma þrír milljarðar trú á hann og nefna nafnið hans í bænum sínum. Á bak við nafnið hans er persóna, sem fæddist hér á jörð eins og hver annar en einnig Guð sem elskar öll sín börn. Það er auðvelt að sjá leiðir til að feta í sporin hans, því guðspjöllin segja okkur frá honum. En það er ekki alltaf auðvelt að feta í sporin hans. Breyskleiki okkar mannanna kemur í veg fyrir það á stundum. Það er í okkar höndum að velja hvort við viljum gera hann að leiðtoga lífs okkar. Leyfa honum að leiða okkur á lífsins leið og móta hugsunarhátt okkar og framgöngu alla. Það kostar aðeins vilja og styrk til að fylgja því eftir.

Á fyrsta degi nýs árs horfum við til framtíðar. Við horfum til framtíðar í trausti til Guðs. Að Guð láti okkur finna leiðir til farsæls lífs. Að Guð minni okkur á að bera kærleika til lífsins, bæði til eigin lífs og annarra. Að Guð miskunni sig yfir hrelldum heimi og breyti böli í blessun.

Að trúa er að treysta. Treystum því að sá Guð sem sendi son sinn í þennan heim með ljósið og lífið, muni einnig gefa okkur æðruleysi, kjark og vit til að ganga þann veg sem liggur til ljóssins og lífsins.

Gleðilegt ár friðar og farsældar, í Jesú nafni.