Ég á mér draum um kirkju....!

Ég á mér draum um kirkju....!

Það er gott að dreyma með nýjum og gömlum vinum í fögru umhverfi, umvafin bjartri nóttinni. Innst í hugskotinu vakir vitundin um að draumar eru ekki bara draumar. Þeir eru líka markmið, hugsjónir til að framkvæma.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
03. júlí 2011

Sumarblóm.Að kvöldi sólstöðudagsins kom hópur fólks saman í Árbæjarkirkju. Erindið var að halda saman inn í björtustu nótt ársins. Hápunktur samverunnar var enda göngumessa í Elliðaárdalnum. Sigrún Óskarsdóttir leiddi gönguna en tilefnið var öðrum þræði að fanga áfanga sem náð var daginn áður í undirbúningi að vígslubiskupskjöri í Skálholti. Þá rann út frestur til að tilnefna kandídata. Sá atburður bendir vissulega til framtíðar og því alls ekki illa til fallið að hann beri upp á hásumarið þrátt fyrir að stefnt hafi verið að öðru!

Samveran hófst í kirkjunni undir yfirskriftinni: „Ég á mér draum um kirkju!“ Hvert af öðru gegnum við fram og röktum drauma okkar. Þeir voru margvíslegir eins og þau sem dreymdi voru ólík. Í upphafi dansaði hópur úr æskulýðsstarfinu drauma sína. Ein hafði málað draum sinn, draumar annarrar voru hljóðir, einn var seigfljótandi og blár. Við vorum komin úr ýmsum áttum, vorum á ýmsum aldri, margar konur og nokkrir karlar: Dreymir karla síður en konur?! Skaplyndi okkar, reynsla, persónuleiki, allt þetta sem ræður draumunum var með ýmsu móti.

Séu allir draumarnir lagðir saman er þó alveg hægt að reisa úr þeim eina kirkju sem virkar: Í þeirri kirkju eru engir þröskuldar. Þar komast því öll hvert sem þau vilja. Þar eru engir bekkir. Ekkert okkar verður því bundið á bás. Þar myndar himininn hvelfinguna. Kirkjan er því opin upp á við. Draumakirkjan er einlæg, án tilgerðar með báða fætur á jörðinni. Hún er „öruggur staður til að vera á“, þar er haldið utan um þau sem þurfa stuðning en snertingin er holl og græðandi — hvorki lævís né grimm. Þar getum við öll verið við sjálf án áhættu. Í þessari kirkju er horft til Krists og hann horfir á móti eins og á íknoni.

Það er gott að dreyma með nýjum og gömlum vinum í fögru umhverfi, umvafin bjartri nóttinni. Innst í hugskotinu vakir vitundin um að draumar eru ekki bara draumar. Þeir eru líka markmið, hugsjónir til að framkvæma. — Ég treysti því að öll þau sem dreymdi drauma um kirkju á sólstöðunóttinni séu nú byrjuð að leggja grunn að draumakirkjunni.