Þau eru núna

Þau eru núna

Já, nú erum við mitt í ljósadýrð jólanna. Þau eru núna. Þessi tíð, sem stendur svo kyrfilega á milli fortíðar og framtíðar, minninga og undirbúnings, réttnefnd há-tíð. Þegar við hefjum okkur yfir sviðið, lítum í kringum okkur, gægjumst inn í eigin sálarlíf og hjarta og spyrjum okkur stórra spurninga um hvernig líf er okkur samboðið.

Gleðilega hátíð. Jólin eru einmitt núna. Það er eitthvað sérstakt við að segja þessa setningu og á sinn hátt, óraunverulegt að það skuli vera jól einmitt núna. Leyfið mér að útskýra hvað átt er við.

Ókomin eða liðin

Þessi hátíðlegi tími er oftar en ekki ókominn á þéttriðnu dagatali, með tossalista og óskalista yfir það sem þarf að gera áður en hátíðin stóra rennur upp. Dagatöl uppi á veggjum, niðurtalning í dagblöðum, skór í gluggum og óþreyjufull kríli iða í skinninu eftir því að dögunum fækki til jóla. Þau sem eldri eru, óska þess kannske að dagarnir líði ekki alltof hratt, þurfa tíma fyrir allt sem klára þarf. Svo þegar sér fyrir endann á verkefnin senda gárungar frá sér hina vinsælu yfirlýsingu aðventunnar: ,,nú mega jólin koma fyrir mér!”

Já, jólin eru oftar en ekki hluti af því ókomna, eru þarna í framtíðinni eins og klettur sem stendur upp úr ölduróti hversdagsins, við snörum af löngu færi og rekjum okkur svo jafnt og þétt til á hinum viðuburðarminni dögum.

Svo eru það hin liðnu jól. Allar þessar minningar sem við eigum, frá bernskuárum. Hér forðum, sjaldgæfur munaður, sætindi og rauð epli, biðröð eftir hvítöli við Ölgerðina, lotningarfull nálægð marglitra ljósa, Hátíðartón í messum og allir prúðbúnir. Fyrsta sleðaferðin með nýja húfu og hanska. Jólakortin standa á hillum fram í janúar og endalausar minningarbrot eigum við frá þessari helgu tíð. Þau skjótast upp í hugann á öllum tímum árs, vonandi af þeim toga að þau ylja sálinni. Því er ekki þó að neita að margir eiga sárar endurminningar frá þessari tíð og þær magnast upp. Það sem veldur depurð og sorg verður enn sterkara á jólunum. Við biðjum góðan Guð að vera með þeim sem nú eiga um sárt að binda.

Svo er það jólafasta nútímamannsins. Fyrstu mánuðir ársins eru undirlagðir tilboðum frá líkamsræktarstöðvum og næringarfrömuðum þar sem fólk er hvatt til að losa sig við það sem safnaðist á skrokkinn yfir hátíðarnar. Svona heldur þetta áfram og eftir standa þau sannindi að sjálf jólin eru þegar á allt er litið, harla skammur tími á milli tveggja miklu lengri skeiða: undirbúnings og upprifjunar.

Spádómar

Það hæfir reyndar jólunum ágætlega.

Þessir helgu dagar eiga sér rætur og sögu eins og allt annað og þar leitum við í fjársjóðskistu heilagrar ritningar þar sem við lesum um atburði jólanna. Já, og eins viðeigandi og það nú er, þá eiga atburðirnir sem við miðum tímatal okkar við sér langan aðdraganda. Spámennirnir í hinu gamla Ísrael höfðu boðað komu frelsarans. Enginn texti undirstrikar þær væntingar betur en orð Jesaja sem dregur fram andstæðu ófriðarins, hatursins og sundrungarinnar og svo hinnar fullkomnu gleði þegar barnið fæðist í heiminn, sá sem nefndur verður, undraráðgjafi, Guðhetja, eilífðarfaðir, friðarhöfðingi. Þessi orð eru flutt þjóð sem þekkti af eigin raun ófriðarbál og þá sundrungu sem slíku fylgir.

Spámaðurinn blés þeim í brjóst von mitt í hörmungum fólksins og vonin hefst á þessum orðum: ,,Því barn er oss fætt”. Hin harkmiklu hermannastígvél og blóði stokknar skikkjurnar verða eldsmatur og sverðum verður breytt í plóg því vonin birtist í barninu sem mun fæðast og boða frið á jörðu.

Því verður nafnið sem María og Jósef gefa barninu, að boði engilsins, lýsandi fyrir það hlutverk sem honum var ætlað. Jesús, sem á hebresku er Jesúah, sama nafn og nánasti samstarfsmaður Móses hafði. Nafnið er tvískipt – fyrri hlutinn vísar til Yahve, nafnið sem gyðingar notuðu yfir það sem ekki mátti nefna, sjálfan Guðdóminn. Og svo seinni liðurinn, jasha, sem merkir ,,bjargar”. Orðið Jesús, merkir því, ,,Drottinn bjargar”. Þarna kom sú uppfylling spádómanna sem fluttir höfðu verið herleiddri þjóð og þó varð veruleikinn ekki sá sem sumir höfðu ætlað. Þegar Jesúah þessi kom inn í borgina helgu og lýðurinn fagnaði með pálmagreinum, reið hann á asna en ekki stríðsfáki. Hann var ekki kominn til að sigra illt með illu, heldur vann hann sín verk í nafni kærleikans sem fellur aldrei úr gildi.

Hann gaf manninum sátt við Guð sinn og opnaði syndugu mannkyni leiðina að hinum eilífu gæðum, eins og postulinn segir: ,,Hann gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.”

Hér skynjum við hið sama sem einkennir svo mjög afstöðu okkar til jólanna, hvernig aðdragandinn, í þessu tilviki spádómarnir, eru stór hluti af því kraftaverki sem við minnumst núna. Og allar götur síðar hefur sá sem fæddist á hinum fyrstu jólum, okkur leiðarljós að því hvernig við getum lifað því lífi sem samboðið er börnum Guðs ,,og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu okkar sælu vonar.”Eins og postulinn kemst að orði.

Því er ágætt að minna sig á það, að hátíðin stendur yfir einmitt núna. Og hún er svo miklu meira en það sem e.t.v. ber mest á þegar flett er í gegnum fjölmiðlana. Þessi magnaði tími er ætti í raun að minna okkur á það sem máli skiptir á þeim tíma sem okkur er úthlutaður í lífinu. Við ættum að geta speglað það á þessa þjóð okkar og þá menningu sem hér þrífst.

Já, nú erum við mitt í ljósadýrð jólanna. Þau eru núna. Þessi tíð, sem stendur svo kyrfilega á milli fortíðar og framtíðar, minninga og undirbúnings, réttnefnd há-tíð. Þegar við hefjum okkur yfir sviðið, lítum í kringum okkur, gægjumst inn í eigin sálarlíf og hjarta og spyrjum okkur stórra spurninga um hvernig líf er okkur samboðið.

Þetta er tíminn þar sem við þurfum að hlúa að því sem dýrmætt er. Og þar kemur við sögu hið sígilda og eilífa. Lausnir okkar felast ekki í tækninýjungum, skyndikynnum við töfralausnir hverfullar stundar. Nei, þar ættum við að leita aftur til þess sem bar nafnið, ,,Drottinn bjargar”. Samfélag okkar þarf svo mikið á þeim friðarboðskap að halda þar sem alltof margir ástunda það að níða skóinn af náunga sínum, eins og háskólarektor benti á í ávarpi sínu hér í Neskirkju á aðventu. Alltof margir líta á lífið sem grimma samkeppni við náunga sinn og umhverfi. Alltof margir vanrækja bakgrunn sinn, rætur þessarar menningar sem eru svo kyrfilega grundvölluð á boðskap Jesú frá Nazaret. Þá verður það vegarnesti okkar í kjölfar þessara jóla og á öllum tímum er við hugleiðum boðskap hans að láta gott af okkur leiða og sinna þeim verðmætum sem best eru og aldrei falla úr gildi.

Megi Guð gef okkur styrk, visku og trú til þess. Í Jesú nafni. Amen.