Pólitík út um allt?

Pólitík út um allt?

Og að þeim orðum sögðum getum við sagt að ekki sé allt pólitík – svo ég vísi nú í bókartitilinn sem nefndur var í upphafi. Það var einmitt lykillinn að farsæld þessara fyrstu kristnu samfélaga sem kunna að vera eina skjalfesta dæmið úr mannkynssögunni þar sem tekist hefur með ærlegum hætti að vinna að jöfnuði á milli fólks í samfélagi.

Einhvern tímann las ég bók sem hefur á ensku yfirskriftina: Everything is Politics, but Politics is not Everything. Já: Stjórnmál eru út um allt en stjórnmál eru ekki allt.


Fyrsta pólitíska reynslan

 

Já, er pólitík út um allt? Getum við samsinnt því? Er hægt að draga fram samskipti okkar og baráttumál saman í þessu orði? Fyrsta reynsla mín af pólitík var sennilega þegar ég var í sumarbúðum sem smástrákur. Þar var góð og gild regla – ef eitthvert barnið fékk sætindi send að heiman þá skyldi setja þau í sameiginlegan sjóð og svo fengu allir smáræði næsta laugardag. Þetta virtu börnin auðvitað og það var alltaf eftirvænting þegar laugardagurinn rann upp að gæða sér á þessum sameiginlegu krásum.

 

Svo fékk ég sendan að heiman ríflegan skammt af nammi. Einhver mér nákominn hafði verið í útlöndum og þarna í fábreyttu vöruúrvali 8. áratugarins voru amerísk sætindi sannkallað fágæti. Ég rétti starfsfólkinu pokana eins og reglurnar sögðu til um. Og hlakkaði auðvitað til laugardagsins enda myndu hin börnin fá að vita hvaðan gott kæmi, ef svo má að orði komast.

 

En þá hruflaði félagi minn sig við leik utandyra og við þurftum að leita inn í eldhús til að fá plástur. Þar komum við að starfsfólkinu þar sem það sat og hámaði í sig sælgætið ameríska. Þetta var að vonum mikið áfall fyrir okkur vinina svo ekki sé fastar að orði kveðið. Við áttum ekki von á öðru en að gúmmilaðið myndi renna óskert til barnaskarans, enda hafði okkur verið tjáð að hugmyndin um sætindapottinn gengi einmitt út á það.


Frjálshyggja eða félagshyggja?

 

Ég segi þessa sögu gjarnan þá sjaldan fólk hefur áhuga á því að vita hverjar pólitískar skoðanir mínar eru. Og það er gaman að lesa í viðbrögðin. Frjálslyndir sjá í þessu harða ádeilu á sameignarstefnu. Starfsfólkið samsvarar þá ríkisvaldinu sem selur þegnunum þá hugmynd að deila með sér gæðunum en að endingu ratar allt það besta í höndum þeirra sem fara með völdin.

 

Félagshyggjufólkið í kringum mig greinir á hinn bóginn arðránið og firringuna sem Marx sjáfur hafði lýst í bók sinni um Auðmagnið. Þetta eru eigendur framleiðslutækjanna sem taka auðinn frá smælingjunum og skilja ekki nema brot eftir handa þeim sem ættu að fá gæðin óskipt í sinar hendur.

 

Já, þetta er ekki lítil dramatík í kringum nokkra poka af marssúkkulaði. Og auðvitað hef ég síðar í lífinu öðlast nokkurn skilning á sykurhungri þessara starfsmanna sem hafa sjálfsagt ekki verið öfundsverðir af launum sínum. En sögur eru engu að síður alltaf góðra gjalda virði og fátt snertir okkur eins sterkt og góðar frásagnir.

 

Og ef við leyfum okkur aðeins að draga saman lærdóminn af þessu sumarbúðasögukorni þá er það einmitt það að hvernig svo sem leikreglurnar eru settar fram, þá geta freistingarnar verið óbærilegar fyrir þau sem verðmætin í sínum höndum. Hætt er þá við að háleitar hugsjónir verði að engu og allt endi í maga þeirra sem hafa burði og aðstöðu til að hrifsa það til sín sem eitthvert gildi hefur.


Stóru hugmyndirnar

 

Þessi örsaga sem hér var lesin úr Postulasögunni lýsir fyrirmyndarsamfélagi. Hún hefur meira að segja verið dregin fram í pólitísku samhengi þar sem fræðimenn hafa horft upp á skipbrot stórra hugmynda og háleitra hugsjóna. Gildir þar einu hvort öreigarnir eiga að hafa alræðið eða hvort þeim er ætlað að njóta brauðmola sem falla af borðum, þá lifum við á tímum þar sem flestir hafa misst trúna á miklar lausnir.

 

Það blasir við okkur hvert sem litið er. Barátta knattspyrnumanna fyrir hinsegin fólki reyndist innantóm þegar þeim stóð til boða að margfalda tekjur sína á leikvöngum Sádí Arabíu. Þar eru eins og kunnugt er, réttindi homma og transfólks fótum troðin. Nei, sjálfsagt er pólitíkin ekki allt. Allt virðist þvert á móti vera falt.

 

En þetta innlit í frumkristna söfnuði lýsir annars konar heimi. Þarna er einmitt byggt á stórum hugmyndum. Hér er lýst einhvers konar ástandi sem kann að minna á aldingarð eða paradís. Höfundur þessa texta úr postulasögunni sýnir fram á það hvernig sterkar hugsjónir um jöfnuð og manngildi geta yfirunnið sundrungaröfl eigingirni og spillingar.

 

„Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt. Menn seldu eigur sínar og muni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á. Daglega komu menn saman með einum huga í helgidóminum, brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans. Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En Drottinn bætti daglega við í hópinn þeim er frelsast létu.“ (Post. 2.41-47)

 

Þessi lýsing er í raun lykiltexti í samhengi Biblíunnar og langri sögu kristninnar. Allar götur hafa kristnir hugsuðir horft til þessara tíma og séð þar fyrir sér upprunaástand sem einkennist af samheldni og nægjusemi. Fyrirmyndina höfðu þeir í orðum Jesú Krists og vafalítið sístæðu andófi spámanna sem kynslóð fram af kynslóð boðuðu jöfnuð og réttlæti í ríkinu.

 

Já, leitun er að skarpari trúarádeilu en úr hópi þeirra sem eiga sér þá hugsjón að leiðarljósi sem kristin trú er. Hún er í raun mælistika eða sjóngler sem slíkir einstaklingar hafa notað til að vega og meta ríkjandi ástand á hverjum tíma. Siðbreytingar og siðabætur eru fleiri en tölu verður á komið úr þeim ranni, og þær hafa oftar en ekki beinst gegn meðferð verðmæta, fjármuna og eigna.


Pólitísk frásögn

 

Já, þær eru pólitískar – pólitíkin birtist jú víða. Helstu siðbótarfrömuðir í kirkjusögunni hafa nefnilega beint spjótum sínum gegn kirkjuleiðtogum sem hafa hrifsað til sín takmörkuð gæði frá almenningi. Upp úr því andófi hafa ýmist sprottið nýjar klausturreglur, munkar sem hafa afsalað sér öllum veraldargæðum og leitast við að lifa við hin einföldustu kjör – nú eða þá að kirkjan hefur klofnað vegna djúpstæðrar óánægju með ríkidæmi og bruðl þeirra sem fara með völdin. Það er svo aftur annað mál að mannlegt eðli er samt við sig og það var ekki bara blessað fólkið í sumarbúðunum sem að endingu bugaðist undan freistingunni. Nei, þegar auður og völd mætast verður oft fátt um varnir.

 

Sjálfsagt hefur þessi texti verið meðal þess sem meðvitað eða ómeðvitað gaf Marx og hans fylgismönnum innblástur. Sjálfur var hann af rabbínum kominn langt aftur í aldir – og þar að auki mótaður af kristinni samfélagssýn, þótt hann hafi verið óspar á gagnrýni sína á handanheima og fylgspekt trúarleiðtoga við yfirvöld.

 

En við getum gert okkur í hugarlund hvernig ástand samfélagsins var á þeim tíma sem þeir hófu sitt starf. Börnum fátæks fólks var þrælað út í námum og verksmiðjum og á götum úti sat lemstrað og eignalaust fólk og betlaði ölmusu. Á sama tíma risu skrauthallir og fyrirmenni reistu helgidóma sem tróndu yfir lágreistum hreysum fátæklinganna. Hugsjónirnar um kommúnisma og síðar sósjalisma áttu sér fyrirmynd í því þar sem fólk lifir í sátt við Guð og náungann „í fögnuði og einlægni hjartans.“

 

En það var með þær stóru hugmyndir eins og við vitum að þegar til kastanna kom reyndist óravegur á milli hugsjóna og veruleika.


Ágætari leið


Hvað segir þá þessi texti um fyrstu söfnuði kristinnar? Hvaðan spratt þetta örlæti og gagnkvæmur viljinn til þess að allir fái í sig og á? Þetta var ekki stéttskipt samfélag, það byggði á því sem annar greinandi – Max Weber – kallaði karismatískta forystu. Þar er hugsunin sú að fólk búi að náðargáfu eða karisma sem fær aðra til að fylgja því eftir. Weber horfði til einstakra leiðtoga sem bjuggu að þessum eiginleikum en í samhengi þessara safnaða þá fólu náðargáfurnar þvert á móti í sér ákveðinn jöfnuð.

 

Þetta lesum við til dæmis í textum Páls postula þar sem hann talar um það hvernig fólk geti blómstrað í krafti þess sem það getur lagt til samfélagsins:

 

„Guð hefur gefið öllum sitt hlutverk í kirkjunni: Fyrst hefur hann sett postula, í öðru lagi spámenn, í þriðja lagi kennara, sumum hefur hann veitt gáfu að gera kraftaverk, lækna, vinna líknarstörf, stjórna og tala tungum. Geta allir verið postular? Eru allir spámenn? Eru allir kennarar? Eru allir kraftaverkamenn? Hafa allir hlotið lækningagáfu? Tala allir tungum? Útlista allir tungutal? Nei! En sækist eftir náðargáfunum, þeim hinum meiri. Og nú bendi ég ykkur á enn þá miklu ágætari leið.“ (1. Kor. 12)

 

Svo segir Páll og þessi „ágætari leið“ sem hann bendir á er sjálfur óðurinn til kærleikans sem hann lýkur með orðunum: „En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,

en þeirra er kærleikurinn mestur.“

 

Og að þeim orðum sögðum getum við sagt að ekki sé allt pólitík – svo ég vísi nú í bókartitilinn sem nefndur var í upphafi. Það var einmitt lykillinn að farsæld þessara fyrstu kristnu samfélaga sem kunna að vera eina skjalfesta dæmið úr mannkynssögunni þar sem tekist hefur með ærlegum hætti að vinna að jöfnuði á milli fólks í samfélagi.


Þar að baki bjó sú hugmynd að ofar öllum stundlegum gróða og eiginhagsmunum væri veruleiki, verðmæti sem bæri hlúa að og efla. Í stað pólitíkur kom einlægur kærleiki í garð hvers annars. Og enn í dag leitum við til þessara samfélaga sem fyrirmyndir um hið ákjósanlega fyrirkomulag.


Textar dagsins.