Hvor frelsar í dag, mammon eða Jesús?

Hvor frelsar í dag, mammon eða Jesús?

Á tímabili vorum við í frjálsu falli. Þá leið okkur afar illa. Þá virtist enginn mannlegur máttur geta hjálpað. Þá urðum við að treysta á Guð opinberlega og í leyndum. Þá kom vel í ljós að það sem átti að hafa vald og geta ráðið mestu, peningarnir, urðu verðlausir og ónýtir á svipstundu. Keisari heimsbyggðarinnar, fjármálavélin, mammon, hökti og hikstaði, ekki aðeins hér á landi heldur um víða veröld.
fullname - andlitsmynd Magnús Björn Björnsson
24. desember 2008
Flokkar

Keisari heimsbyggðarinnar, Ágústus og mammon

Gleðileg jól og velkomin hingað í Digraneskirkju í dag. Nú ert þú hér að kveldi aðfangadags jóla og jólin eru komin til þín. Þau koma með messunni kl. 6 og með jólamáltíðinni. Svo setjast flest okkar saman og taka upp jólagjafir. Það er oft viðkvæmt augnablik, hrærir upp í tilfinningum okkar. Væntingar okkar byggja á minningum og vonum. En í kvöld ertu hér í kirkjunni til heyra jólaguðspjallið enn á ný. Anda að þér niði aldanna, því sálmarnir og orðin eru sum aldagömul. En það er í lagi. Reyndar er það einmitt það sem við viljum helst af öllu á jólum. Að sem minnst breytist frá ári til árs. Ef það virkar, hvers vegna að breyta því?

Á klukkustundarfresti fáum við fréttir í hljóðvarpi. Við getum einnig farið inn á vefinn og fengið fréttirnar nánast um leið og þær gerast. Þar eru fréttirnar endurnýjaðar miklu oftar. Fréttir láta okkur finnast við vera lifandi og í takti við líðandi stund, burtséð frá innihaldi fréttanna eða mikilvægi þeirra fyrir líf okkar. Samt er fréttamat afar einsleitt og einkennilegt. Konan mín hefur árum saman kvartað yfir því hvernig fréttatímar hafa hafist: „Sautján fórust og yfir fimmtíu slösuðust....“. Slíkar fréttir hafa nú vikið fyrir öðrum nærtækari fréttum af okkar eigin landi.

Við höfum orðið vitni að því hvernig heimur okkar hefur tekið dýfu í efnahagsþrengingum. Við vitum ekki enn hve djúp dýfan verður, en við erum í henni. Á tímabili vorum við í frjálsu falli. Þá leið okkur afar illa. Þá virtist enginn mannlegur máttur geta hjálpað. Þá urðum við að treysta á Guð opinberlega og í leyndum. Þá kom vel í ljós að það sem átti að hafa vald og geta ráðið mestu, peningarnir, urðu verðlausir og ónýtir á svipstundu. Keisari heimsbyggðarinnar, fjármálavélin, mammon, hökti og hikstaði, ekki aðeins hér á landi heldur um víða veröld. Keisari heimsbyggðarinnar er knúinn áfram af sömu hvötum og Ágústus keisari var, valdagræðgi og gróðafíkn. Ágústus keisari vildi ráða lífi fólks til að skattleggja það og hann vildi skilyrðislausa hlýðni, því hann taldi sig vera frelsara heimsbyggðarinnar. En veldi hans leið undir lok. Fjármálavélin hrundi með brauki og bramli. En nú sjáum við á ný gegnum rykið, sem er að setjast eftir hrunið. Það er ekki fögur sjón. Tómar, augnstungnar byggingar og einmanalegir byggingarkranar, sem sveiflast til eftir veðrum og vindum. Niðurskurður á öllum sviðum, í heilbrigðis- og tryggingarmálum, í menntamálum og framkvæmdum. Og mörg fyrirtæki eru gjaldþrota, heimili illa stödd. Það er sorglegt að horfa á hvernig fjárhagsleg undirstaða heimilanna og þjóðfélagsins hefur riðað og molnað.

Raunverulegur frelsari

Og mitt í okkar eigin sögu koma jólin enn á ný. Þau koma ár eftir ár. Enginn stöðvar þau, hvort sem árferði er gott eða slæmt. Þau koma með fagnaðarboðskap um frelsi í dag handa öllum. Þeirra saga er um litlu fjölskylduna sem varð að fara af stað vegna skipana keisarans. María og Jósef voru svo agnarsmá í samanburði við stærð heimsbyggðarinnar. Það fór nánast ekkert fyrir þeim. Þau gistu ekki einu sinni í gistihúsi er þau komu til Betlehem. Fyrsta hvíla litla drengsins var jata. Þannig var koma mannkynsfrelsarans í þennan heim, einföld, látlaus og hógvær. En þó svo fáir virtust ætla að átta sig á mikilvægi fæðingar drengsins litla, gátu himnarnir ekki hamið sig. Englarnir létu hirðana, sem voru í nágrenninu, vita. „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur“.

Raunverulegur frelsari, því milljarðar játa trúa á hann enn í dag. Frelsari, því hann umbreytir lífi fóks og þjóða, ef það leyfir honum að móta líf sitt. En það kostaði frelsarann mikið. Það kostaði hann lífið. Í stað þess að hugsa aðeins um eigin hag, lægði hann sjálfan sig, fór eftir eigin hugsjónum og fórnaði lífi sínu. Allt til þess að mannkynið mætti njóta þess sem hann kenndi og framkvæmdi. Það er gott að ræða um hugsjónamanninn Jesú, þegar fátt er um slíka okkar á meðal.

Í dag

En hann var meira en hugsjónamaður sem breytti heiminum. Hann var sá frelsari sem englarnir sögðu frá á hinum fyrstu jólum. Yður er í dag frelsari fæddur. Á þeim degi fóru breytingar af stað sem breyttu bæði einstaklingum og heilum þjóðum.

Við sjáum að þegar Jesús hóf þjónustu sína las hann úr bók Jesaja spámanns. Þar var hlutverki hans lýst. Hann sagði:

„Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“ Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“

Þann dag fór Jesús af stað og við lesum um þau kraftaverk sem hann gerði og þau fögru orð er gengu af hans munni um Guðs ríki. Ein af merkilegu sögunum um hvernig gleðiboðskapur hans hafði áhrif, var í lífi Sakkeusar, sem kleif tré til að sjá frelsarann. Eftir að Jesús var kominn inn í hús hans átti þetta sér stað:

“En Sakkeus sneri sér til Drottins og sagði við hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“ Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu enda ert þú líka niðji Abrahams. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“

Ef til vill eru þó undursamlegustu orðin þó hin sem loka rammanum um líf hans. Er Jesús hafði verið krossfestur milli tveggja ræningja og annar spottaði hann, en hinn iðraðist og bað Jesú að minnast sín segir Biblían:

“Og Jesús sagði við hann: „Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.““

Þannig breyttist líf þeirra sem komust í snertingu við líf frelsarans.

Englarnir sögðu er hann fæddist: „Yður er í dag frelsari fæddur.“ og sjálfur sagði hann deyjandi við þann sem bað hann að minnast sín: „ Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“

Jesús er hér hjá þér á jólanótt. Leyfum blessuðu Jesúbarninu að snerta við lífi okkar, koma inn í innstu veru okkar. Bjóðum hann velkominn með umbreytandi elsku sína. Megi blessun frelsarans vera þín í dag.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun, um aldir alda. Amen.