Pappakassinn og rekkjan

Pappakassinn og rekkjan

Maðurinn sem eitt sinn var lamaður en hafði nú mátt, gekk heimleiðis með rekkjuna sína. Fjársýslumennirnir sem eitt sinn höfðu völd og auð ganga nú heim til sín með pappakassann í höndunum. Leiðin er sú sama og aðstæðurnar jafnvel einnig.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
30. september 2008
Flokkar

,,Ekki vantar þetta fólk hæfileikana...“ Þessi hugsun flaug um kollinn á mér þegar ég horfði á skrifstofufólk ganga með pappakassa í fanginu út úr háhýsinu. Þetta voru starfsmenn stórfyrirtækis sem starfað hefur að fjármálum í heila öld og gott betur og fyrir fáeinum misserum hafði það slegið enn eitt metið í ofsagróða. Allir vegir virtust færir og allt virtist fært. Aðeins hæfasta fólkið fékk þar vinnu enda óvíða að finna önnur eins tækifæri til þess að öðlast völd, frama og mikla peninga. Hæfasta fólkið, með mestu menntunina og færnina í sínu fagi kvaddi nú fyrirtækið sem svo skömmu áður hafði malað gull. Hjólin snerust ekki lengur og ekkert var lengur malað.

Pappakassinn

Þessi mynd blasir við okkur í fjölmiðlunum: Vel klætt fólk gengur út úr stórfyrirtækinu með pappakassann. Hvaða skilaboð lesum við úr þessum myndum? Er ekki pappakassinn tákn hins forgengilega, hann vísar til einhvers tímabundins ástands – geymslu, flutninga frá einum stað til annars – frá einu umhverfi í annað. Undirmeðvitundin skynjar þetta og við fyllumst óróleika. Ekki það að tölurnar séu eitthvað skiljanlegri en áður. Fréttamennirnir eru eins og smástrákar að þylja upp ógnarháar tölur – billjón, trilljón – orðræða sandkassans er komin í fréttatímana. Og tölurnar greina frá tapi. Hvaða heilvita maður tapar billjón eða jafnvel trilljón dollurum? Það hlýtur að þurfa mikla hæfileika til þess Já, ekki vantar þetta fólk hæfileikana!

Gjaldið fyrir græðgina

Nú spyrja menn sig hvers hafi verið vant. Tannhjólavirkið í fyrirtækjunum já í hagkerfunum hefur aldrei verið eins vel smurt. Leiðirnar liggja til allra átta, aldrei hefur verkaskiptingin verið eins þróuð, eftirlitið aldrei meira eða hugbúnaðurinn flóknari við að leysa útreikningana. Og margir þeir hæfustu á okkar dögum hafa helgað sig þessari hugsjón. Tímaritið Time fjallar um þessar aðstæður í forsíðufrétt nú á dögunum. Yfirskriftin var: ,,Gjaldið fyrir græðgina“ þar þar horfa menn um öxl með hinni alvitru sýn sem fæst þegar fjarlægð tímans er komin á og atburðirnir tilheyra liðinni tíð.

Á tíma hins gamla Ísraelsríkis höfðu menn ekki fjölmiðla með litríkum forsíðum og fréttamönnum í hverju horni til þess að færa sér slíkar fréttir. Þar var þó hópur manna sem hafði áþekku hlutverki að gegna. Þeir voru kallaðir spámenn og þeir höfðu eins og nafnið gaf til kynna það hlutverk að greina frá því sem framundan var. Ekki veltu þeir sér upp úr liðnum atburðum heldur rýndu þeir fram á við og, spáðu. Þó var spádómsgáfa þeirra ekki alltaf af ójarðneskum toga eins og á að vera í tilviki spámanna og –kvenna nútímans. Þurfti ekki annað til en næmt auga fyrir umhverfinu og því eðli sem við köllum mannlegt sem fæst þegar menn þekkja köllun sína í lífinu.

Áminning og hvatning

Já, sérstaða þeirra og framlag til samfélagsins byggði á einhvers konar Guðlegri köllun – og sú köllun birtist í einlægri sannfæringu um það sem rétt er og eftirsóknarvert. Við getum kallað það samvisku enda segir í Biblíunni að samviska okkar sé rödd Guðs. Og tónninn var svo svipaður þeim sem fjölmiðlarnir birta okkur núna: græðgin kostar. Gjald græðginnar er hátt. Spámaðurinn Jesaja varaði þjóðina við því að sóknin eftir stundlegum veraldargæðum gæti kostað hana sjálfstæðið og frelsið. Sá spádómur rættist þegar hún var leidd í burtu frá lendum sínum og færð yfir í fjarlægt land. Spámaðurinn Esekíel talar hins vegar inn í þrengingar sem myndu gera allt krepputal á okkar dögum hálf léttvægt. Stórveldi Babýlóníumanna hafði sigrað þjóðina og leitt það sem eftir lifði af leiðtogum hennar í þrældóm í landi sínu.

Þjóðin hafði áður tilbeðið Guð í musterinu og fann honum engan annan stað. En á þessum fjarlægu slóðum færði spámaðurinn þeim sanninn um það að Guð er ekki bundinn við stað og stund. Guð er allstaðar þar sem menn ákalla hann og biðja til hans í einlægni.
Þar talar spámaðurinn til þjóðarinnar. Hann sýnir henni, rétt eins og naskir hugsuðir okkar daga, hvernig fer þegar ekki er farið eftir þeim grunnreglum sem Guð skráir í hjarta okkar: ,,Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið.“

Rödd spámannsins

Hinn spámannlegi boðskapur er sannarlega skýr. Hann hvetur ekki til þess að þjóðin sýni meiri kænsku, meiri útsjónarsemi, bæti við sig nýjum vopnum sem muni gera henni kleift að sigra þá sem í kringum hana eru. Nei, hann talar um réttlæti og hvetur hana til þess að snúa til betri vegar. Ef þjóðin gerir það – þá eru henni allir vegir færir. Þessi boðskapur er harla frábrugðinn þeim sem dunið hefur á okkur undanfarin ár. Hér er það ekki lögmálið góða um sigur hinna hæfustu. Nei, þeir báru heldur ekki sigur úr bítum. Fyrirtæki stærðu sig af ævintýralegum vexti frá ári til árs, barðist gegn öðrum fyrirtækjum og starfsfólkinu var att hvert gegn öðru í slag um gullið. Jú línuritin vísuðu öll í rétta átt – þar til skyndilega var eins og ekkert héldi þeim uppi lengur.

Ekki minnist ég margra viðvörunarradda þegar sá dans stóð sem hæst. Nei, það er ekki fyrr en að honum loknum sem orðin koma, svolítið of seint – óneitanlega – Gjaldið fyrir græðgina: og hin vinsæla ljósmynd af jakkafataklæddum verðbréfasölum með föggurnar sínar í pappakassa á leið út úr fyrirtækinu. Rödd spámannsins er hins vegar full vonar og fyrirheita – mitt í þrengingunum: ,,Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda“ segir hann við aðþrengdan lýðinn. Guði er engin gleði í harmi ykkar en hin óbreytanlegu lögmál hans hafa hins vegar talað sínu máli. Rétt eins og þau gera á öllum tímum. Guð vill að við lifum samkvæmt köllun okkar og tilgangi. Það er þráðurinn rauði sem gengur í gegnum Heilaga ritningu.

Statt upp

Og í guðspjallinu mætir Kristur – ekki sigraðri og herleiddri þjóð – heldur manni sem hefur ekki mátt í líkama sínum. Þar sem hann mætir manninum flytur hann honum þann boðskap að syndir hans séu fyrirgefnar. Hann segir honum að vera hughraustur. Vissulega óvenjuleg skilaboð til manns sem getur sig hvergi hrært, en,,hvort er auðveldara að segja: syndir þínar eru fyrirgefnar eða statt upp og gakk?“

Vegna þess að í ritningunni er þetta ekki svo frábrugðið. Fyrirgefning syndanna er á sinn hátt hvatning til okkar til þess að bera höfuðið hátt – ganga áfram í heiminum og vinna þau verk sem eru Guði þóknanleg. Þetta er boðskapurinn um að láta hið góða stjórna lífi okkar. Sjáið hvernig Kristur tengir þetta tvennt saman – rétt eins og spámaðurinn Esekíel gerði 500 árum áður. Guði er engin þóknun í dauða okkar – Guði er þóknun í því að við stöndum upp – göngum til góðra verka og látum kærleikann stjórna lífi okkar og gjörðum. Þetta kallar Páll postuli að ,,íklæðast nýjum manni“ því þetta er endurnýjun líkama og sálar.

Lífið okkar er svo margbreytilegt og ótal þættir sem spila þar inn í. Stundum reynir á náðargjafir okkar og hæfileika. Sumir eru fljótari að hugsa en aðrir, sumir hugsa lengra, sjá dýpra inn í aðstæðurnar – lesa þær eins og opna bók – og raka til sín auðævum. Ekki vantar þetta fólk hæfileikana – hugsa ég stundum með mér og játa enn eitt skiptið skilningsleysi mitt yfir þessum ógnarlegu fjárhæðum sem æða á milli manna í þessu hagkerfi sem okkur er sagt að sé frjálst. En það er svo margt sem bendir til þess að sigurlaunin sem kapphlaupið býður upp á séu ekki sú svölun sem mannsálin þarf. Ef svo væri – þyrftu menn þá alltaf meira og meira? Kemur hún aldrei þessi kennd að nú sé komið nóg?

Pappakassinn og rekkjan

Gjald græðginnar – hvert er það? Atvinnuleysi, brostnir draumar, enginn staður í tilverunni? Allt er þetta erfitt hlutskipti, þyngra en tárum taki og enginn óskar annarri manneskju slíks. En gjald græðginnar er hærra. Það að rjúfa hin algildu lögmál Guðs tekur sinn toll hvort sem það er vistkerfið sem stynur undan álaginu eða mannsálin sjálf.

Hvað rekur þá áfram sem eignast hafa slík auðævi að venjulegar tölur hrökkva ekki til að mæla sjóðina? Hvaða kenndir eru það sem leitast er við að friðþægja? ,,Vertu hughraustur – syndir þínar eru fyrirgefnar“ sagði Kristur við lama manninn, og hann fékk kraft í líkamann: ,,Statt upp, tak rekkju þína og gakk heim til þín“. Hið sama. Kannske eiga þessi skilaboð erindi til þeirra sem ganga með skrifstofudótið sitt í kassa inn í næsta leigubíl og fara heim á leið Maðurinn sem eitt sinn var lamaður en hafði nú mátt gekk heimleiðis með rekkjuna sína. Fjársýslumennirnir sem eitt sinn höfðu völd og auð ganga nú heim til sín með pappakassann í höndunum. Leiðin er sú sama og aðstæðurnar jafnvel einnig.

Skilaboðin eru hins vegar óbreytanleg: ,,Mælikvarðarnir sem þú hélst að væru hinir einu og sönnu – eru það ekki. Notaðu hæfileika þína til góðs. Skapaðu samkennd, skapaðu líf og láttu gott af þér leiða – og þú munt skynja margfalda þá sælukennd sem af því hlaust að raka til þín enn meiri auði.“ Því maðurinn er svo dýrmætur í allri sinni reisn og í allri sinni lægð. Gildir einu. Fyrir Guði er hann óendanlega mikilvægur og sá sem skynjar þann kærleika allt í kringum sig verður ekki samur á eftir.

Ísraelsmenn höfðu spámenn sem stóðu vörð um hinn guðlega vilja. Þeir lögðu líf sitt í sölurnar til þess að flytja þann boðskap, jafnt til alþýðunnar sem til konunga og herstjóra. Þeir létu sér ekki nægja að rifja upp mistökin. Þeir voru ekki bara vitrir eftir á – nei, þeir átöldu þjóðina mitt í óhófi og velsæld og þeir stöppuðu í hana stálinu þegar á móti blés. Þessi litla og hrakta þjóð sem mátti sín oft lítils andspænis stórveldunum allt í kring – hafði nokkuð sem gerði henni kleift að lifa og starfa í aldir og árþúsundir. Hún hafði þennan boðskap sem hún gat stillt sig eftir og tengt við rétt og rangt. Og sjálf erum við í þeim sporum. Við eigum þennan fjársjóð sem ritningin er og þangað eigum við að leita þegar við þurfum að sjá og skynja hvar hinar sönnu áttir tilverunnar liggja og hver eru hennar réttu verðmæti.

Esk. 18.29-32; EF. 22-32 og Mt.9.1-8