Eitt af því sem er hvað erfiðast við að stíga út fyrir mörk öryggisins, er að horfast í augu við eigin barnaskap og einfaldleika. Í janúar dvaldist ég í Detroit og neyddist til að horfast í augu við forréttindi mín og rasisma á algjörlega nýjan hátt. Ég gæti skrifað lærða kafla um ungbarnadauða í fátækrahverfum BNA, misbeytingu valds af hendi lögreglunnar, spillta stjórnmálamenn, kynþáttamisrétti, sálarmorð á samkynhneigðum og margt fleira sem ég sá með eigin augum þegar ég heimsótti heilsugæslu, barnaspítala, geðdeildir, félagsmálaskrifstofu, gistiheimili fyrir heimilislausa, skrifstofu borgarstjóra og tók í hendina á einhverjum spilltasta stjórnmálamanni BNA, fékk að fylgja lögreglunni á vakt á föstudagskvöldi og ræddi við kirkjugesti og presta í jafnt svörtum og hvítum kirkjum í þessu ríkasta landi heims. Ég var enda reiður fyrstu fjóra dagana, ég kallaði samnemendur mína fífl fyrir að taka þátt í svona samfélagi og bregðast ekki við. Ég benti þeim á að ungbarnadauði í Detroit væri sjö sinnum meiri en í mínu heimalandi, ég hneykslaðist á misskiptingunni í skólakerfinu sem við heyrðum um frá skólastjórum almenningsskóla í borginni og svo mætti lengi telja.
Það var ekki fyrr en á fjórða degi að ég þorði að horfast í augu við sjálfan mig og mínar aðstæður í besta landi í heimi. Ég hugsaði til þess að auður sumra Íslendinga er byggður á atvinnulausum símamönnum í Austur-Evrópu, mér varð hugsað til þess hvernig stjórnmálamenn á Íslandi hafa selt sjálfum sér ríkiseignir. Ég mundi eftir fréttum um ráðherra á Íslandi, sem segist aðhyllast jöfnuð, hafa uppi stórar hugmyndir um að innleysa milljarðahagnað í orkuveitum í fátækustu löndum heims. Vissulega er Detroit Íslendinga ekki staðsett í Norður-Atlantshafi, okkar Detroit er í Búlgaríu.
Í leit minni að réttlætingu staldraði ég við þrælahaldið. Við vorum alla vega ekki þrælahaldarar, við fluttum ekki milljónir manna frá heimkynnum sínum. En sú hugsun varði ekki lengi. Á safni um sögu Bandaríkjamanna af afrískum uppruna í Detroit eru flögg nokkurra stórtækra Evrópuþjóða í þessum ómanneskjulegustu þjóðflutningum sögunnar. Þar mátti sjá bæði danska og sænska fánann. Ég hef lesið mér til síðan þá, bæði sænska og danska krúnan byggðu fjármálaveldi sitt á þrælaflutningum yfir Atlantshafið. Skyndilega fékk frásagan um endurheimt Guðríðar Símonardóttur úr ánauðinni í Alsír nýja vídd. Auðvitað var danski konungurinn með þrælakaupmenn á sínum snærum.
Ég vil því með þessum pistli biðja fermingarbörn síðustu ára í Vatnaskógi afsökunar. Ef fræðarinn ykkar sagði sögu Guðríðar eins og hún er skráð í kennsluefninu sem ég tók þátt í að útbúa, þá var það ekki sagan öll. Við vorum ekki saklaus fórnarlömb þrælahaldara, heldur hluti konungsveldis sem var í bransanum.