Kærleikurinn reiðist líka

Kærleikurinn reiðist líka

Allt þetta kom upp í huga minn í tengslum við umræðuna um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar en þar fylgdist ég aðallega með umræðunni á fésbókinni sem var oft býsna fjörleg. Þegar sú umræða er skönnuð kemur í ljós að þar takast hin svokölluðu tilfinningarök á við annað.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
26. ágúst 2013
Flokkar

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Það þekkja flestir þennan texta, hann er lesinn við brúðkaup, skírn og jarðarför, fermingu og almenna guðsþjónustu, af því að þetta er texti sem fjallar um þann grundvallandi veruleika sem kærleikurinn er. Þetta er bæði ljóðrænn texti en líka jarðbundinn, auðskilinn en djúpur. Þennan texta finnst mér gott að lesa við kistulagningarbæn þegar ástvinir líta hinn látna í hinsta sinn, hann undirstrikar tengslin og eflir þá trú að kærleiksböndin slitni ekki þó dauðinn skilji menn að. Kærleikurinn er svo máttugt afl að hann lifir sjálfan dauðann, allir sem horft hafa á bak ástvini vita að tilfinningar slokkna ekki þó ástvinur kveðji. Þess vegna er gott að lesa textann hans Páls, lýsing hans er hvorki væmin né tilgerðarleg, það er enginn marengstertubragur á kærleiksóðnum, engin sykurhúð bara jarðtengd umfjöllum um hin raunverulegu lífsgæði. Ég var einmitt að lýsa þessu á fésbókinni á dögunum, þá nýkomin úr útför í nágrannasveit og hugsunin var að það væri svo skrýtið með útfarir í litlum sveitakirkjum þar sem fólkið situr þétt upp við hvert annað og menn þurfa að draga inn magann til að snúa kistunni og kórinn er skipaður heimamönnum og orgelið hvæsir með hverri nótu og rakspírar blandast við timburlyktina og flugurnar suða í gluggunum að maður verður eitthvað svo óvenju viss um að mannleg tengsl séu það eina sem skiptir máli í þessu lífi. Það er eitt í þessum merkilega texta sem reynist mér erfiðara að samþykkja eftir því sem ár og lífreynsla færist yfir, það er setningin „ hann reiðist ekki.“ Ég er ekki sammála því að kærleikurinn reiðist ekki, því hann þarf að reiðast stundum. Þó að Jesús hafi jafnan hvatt til gagnstæðra viðbragða við neikvæðri framkomu vegna þess að hann vissi að slík viðbrögð hefðu tilhneigingu til að afvopna aðstæðurnar þá gat hann sjálfur orðið reiður. Jesús varð reiður þegar fólk varð græðginni að bráð, samanber þegar hann hrinti borðum víxlaranna í musterinu. Sú frásögn er margbrotin því hún lýsir ekki andstöðu gegn viðskiptum sem slíkum heldur því þegar mannleg samskipti hætta að vera samskipti og verða bara viðskipti, þegar fólk notar aðrar manneskjur til að ná fram eigin markmiðum í stað þess að umgangast manneskjur sem markmið í sjálfum sér. Í sögunni þar sem Jesús hrindir borðunum í musterinu er musterið tákn manneskjunnar, það er heilagt eða frátekið sem einstakt markmið. Hin réttláta reiði er viðbragð gegn óréttlæti. Þess vegna er reiðin líka samþykkt viðbragð í sorg, flestir upplifa einhvers konar reiði við ástvinamissi, mismikla eftir aðdraganda og aðstæðum en oft einhverja gagnvart hinum breyttu aðstæðum. Við upplifum oft dauðann mjög óréttlátan, stundum beinist þó reiðin að eigin skinni, stundum að hinum látna og stundum að Guði. Reiði er tvíeggjað sverð, hún getur veri drifkraftur mikilvægra breytinga, eldsneyti baráttunnar fyrir bættum heimi og auknum mannréttindum en hún getur líka verið farvegur sundrungar og ofbeldis. Þess vegna er reiðin stundum kærleikur og stundum bara heift. Reiðin er merkilegt fyrirbæri, í reiðinni verður maður stundum mjög kjánalegur , segir einfeldningslega hluti sem eiga engan veginn við rök að styðjast, svo getur maður orðið þannig reiður að það hreinsar burt óhreinindi eins og mister Propper og snýr óheilbrigðum samskiptum til betri vegar. Ég tek eftir því þegar ég er að undirbúa minningarorð með aðstandendum, að það er gjarnan sérstaklega tekið fram að hinn látni hafi nánast aldrei reiðst. Ég tek líka eftir því í hjónaviðtölum að fólk leggur oft ríka áherslu á að það hafi aldrei rifist, jafnvel þó hjónabandið sjálft vegi salt á bjargbrúninni. Í grunninn virðumst við vera býsna sammála postulanum Páli um það að kærleikurinn reiðist ekki eða þá að reiðin sé andstæða kærleikans. Þetta er merkileg pæling. Annað þessu tengt er afstaða okkar gagnvart svokölluðum tilfinningarökum, í þjóðmálaumræðunni þykja þau oft vera til marks um ákveðið veiklyndi, þeim er oft svarað með ákveðnu yfirlæti rökfræðinnar sem gengur út á það að meta öll mál með skynseminni einni, rétt eins og tilfinningar geti alls ekki verið skynsamlegar. Samt er í raun ekkert eins skynsamlegt í þessum heimi eins og mannlegar tilfinningar, á endanum eru þær það eina sem getur sagt okkur hvers við þörfnumst og hver við erum. Þess vegna getur hjónaráðgjafi t.d. aldrei sagt hjónum hvað þau eiga að gera heldur aðeins hjálpað þeim að lesa líðan sína og tilfinningar til að finna rétta svarið. Allt þetta kom upp í huga minn í tengslum við umræðuna um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar en þar fylgdist ég aðallega með umræðunni á fésbókinni sem var oft býsna fjörleg. Þegar sú umræða er skönnuð kemur í ljós að þar takast hin svokölluðu tilfinningarök á við annað. Norðlenskur faðir sagði frá syni sínum sem fæddist hér með alvarlegan hjartagalla og var fluttur suður með sjúkraflugi og læknar framkvæmdu aðgerð á honum í anddyri Landsspítalans því það mátti ekki tæpara standa. Þarna skipti hver mínúta máli. Annar Akureyringur sem lenti í alvarlegu vélsleðaslysi síðastliðinn vetur sagði líka frá því hvernig sjúkraflugið bjargaði lífi hans. Í báðum tilvikum skiptu snör handtök og tíminn öllu máli. Faðirin sem sagði sögu sonar síns, fékk mestmegnis jákvæð viðbrögð en þó fékk hann líka að heyra að tilfinningar og einhver nefndi tilfinningaklám mætti ekki stjórna umræðunni. Ég held að þegar mannslíf séu annars vegar í húfi og fyrir því áþreifanlegar sannanir sé hæpið að tala um tilfinningaklám, það er ekki þannig að tilfinningarök séu ætíð byggð á einhverri óskilgreindri líðan eða dagsformi. Tilfinningarök eru oftast nær byggð á lífsreynslu fólks og þeim ályktunum sem það dregur af henni. Þegar Jesús hrinti borðum víxlaranna í musterinu var komið að lokum starfstíma hans hér á jörðu, þetta gerðist þegar hann kom í hinsta sinn til Jerúsalem, nokkrum dögum áður en hann var krossfestur og hann vissi þá hvað ætti fyrir honum að liggja. Og ástæðan fyrir því að hann varð svona reiður er sú að hann var búinn að hitta ógrynni af fólki á þessum þriggja ára starfstíma, í öllum mögulegum aðstæðum mannlegrar tilveru. Og hann var búinn að prédika í orði og verki hvern einasta dag þann sannleika að allar manneskjur væru óendanlega mikilvægar, að engin manneskja mætti missa sín, að sérhvert mannslíf væri með öllu ómetanlegt. Hann var búinn að leggja svo mikið á sig til að leiða ráðamönnum fyrir sjónir að hórsek kona væri jafn merkileg og mikilvæg og þeir, sem og tollheimtumenn og aðrir jaðarhópar, hvort sem það var vegna áunninna eða áskapaðra aðstæðna. Hann var búinn að brýna fyrir fólki að það yrði að gefa börnunum gaum og sinna þeim af alúð af því að þau væru grundvöllur guðsríkis á jörðu, hann var margsinnis búinn vara við því að menn gæfu sig mammon á vald og hvetja til þess að við finndum lífsfyllingu í alvöru gæðum, svo sem mannlegum tengslum. Og svo kemur hann þarna við lok starfstíma síns til Jerúsalem og það fyrsta sem hann sér eru sveittir karlar og konur að hamast við að græða peninga í aðal skjóli samfélagsins, musterinu, rétt eins og þau hefðu engan grun um hvað teldist heilagt í þessum heimi. Og hann verður reiður, af því að honum er misboðið og líka af því að hann veit að tíminn vinnur ekki með honum. Þarna verður reiðin leið til að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri á sem skemmstum tíma , þannig að sem flestir sjái og heyri. Þarna tekur Jesús ákvörðun um að leiða fólki kærleikann fyrir sjónir með reiðiviðbrögðum og það tekst svo vel að frásögnin ratar beint í ritninguna, rétt eins og setningin „þá grét Jesús.“ Já þessar setningar og senur sem undirstrika mannlegar hliðar hans með áherslu á að hið mannlega sé gott. Af því að hið mannlega er gott og þess vegna eru tilfinningarök marktæk.