Samráðsleysi, aftur í boði stjórnenda kirkjuþings

Samráðsleysi, aftur í boði stjórnenda kirkjuþings

Væri ekki best að byrja á því að ræða saman, forseti kirkjuþings og biskup, auka samráð og skoða málin á upplýstan máta, áður en meingölluð skipuritsdrög eru tekin til umfjöllunar og afgreiðslu á kirkjuþingi?
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
26. ágúst 2021

Viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 6. september 2019 var afrakstur af samskiptum ríkis og kirkju um fjármál.

Samningurinn fjallar hins vegar miklu meira um breytingar á skipulagi heldur en breytingar á fjárhæðum. Fjárhæðirnar stóðu nánast í stað á milli ára, þótt form greiðslnanna frá ríki til kirkju breyttust, en samningurinn kallaði á algerlega breytta stöðu prestastéttarinnar.

Um það var ekki rætt í aðdraganda samningagerðarinnar heldur þvert á móti ríkti þöggun, leyndarhyggja og síðan hraði, varðandi þann þátt í störfum samninganefndar kirkjuþings, sem leidd var af þáverandi forseta kirkjuþings.

Afleiðingin var mikil óvissa og tortryggni hjá bæði starfsfólki biskupsstofu sem og í prestastétt í garð kirkjuþings og þeirra vinnubragða sem þar var beitt. Óvissa og tortryggni sem svo auðveldlega hefði verið hægt að komast hjá með öðrum og betri vinnubrögðum.

Það sama virðist vera upp á teningnum nú þegar 7. mál kirkjuþings er lagt fram af forsætisnefnd. Í tengslum við stefnumótunarvinnu er allt í einu sett fram mynd af nýju skipulagi á stjórnskipan kirkjustjórnarinnar, eins og það er kallað, sem forsætisnefnd gerir tillögu að á aukakirkjuþingi, sem sett verður á morgun, föstudaginn 27. ágúst.  Málið þarf að bera upp með afbrigðum, þar sem það er lagt fram með of skömmum fyrirvara. Kirkjuþingsmenn hafa því ekki haft tilskilinn tíma til að setja sig inn í málið, svo ekki sé talað um þjóðkirkjufólk og bakland kirkjuþingsins, sem veit ekkert um það sem er í gangi. Það er mjög sérstök meðferð á valdi að stilla kirkjuþingsfulltrúum aftur svona upp við vegg, líkt og gert var þegar viðbótarsamningurinn við ríkið var samþykktur af kirkjuþingi í september 2019. En auðvitað gætu kirkjuþingsfulltrúar nú, hafnað beiðni forseta um að taka málið á dagskrá með afbrigðum.  

Stýrihópur stefnumótunarvinnunnar stendur ekki að baki þessari tillögu, heldur einungis fámennur hópur starfsfólks Biskupsstofu og kirkjuþingsfulltrúa, samtals fimm einstaklingar og hefur kynningin verið í algjöru lágmarki.

Í grófum dráttum gengur tillagan út á að skáka biskupi út úr öllum þeim málefnum sem snúa að fjármálum og rekstri, og fela forseta kirkjuþings þá ábyrgð, sem formanni nýrrar framkvæmdastjórnar. Ný framkvæmdastjórn virðist eiga að koma í stað núverandi kirkjuráðs, en umræða um þá breytingu virðist ekki hafa farið fram. Skipta á skrifstofunni í tvennt þar sem allur rekstur mun heyra undir forseta kirkjuþings. Tiltekin málefni sem tillöguaðilar virðast flokka sem biskupsmál, skulu síðan heyra undir biskup.

Vinnan er sögð byggja á nýjum þjóðkirkjulögum, en skipuritsdrögin eru verulega gölluð og í mörgu tilliti röng. Í tillögunni segir að forseti kirkjuþings og biskup skuli í framhaldi samþykktar kirkjuþings á tillögunni bera ábyrgð á nánari útfærslu hins nýja skipulags og innleiðingu þess.

Ég spyr einfaldlega: Væri ekki best að byrja á því að ræða saman, forseti kirkjuþings og biskup, auka samráð og skoða málin á upplýstan máta, áður en meingölluð skipuritsdrög eru tekin til umfjöllunar og afgreiðslu á kirkjuþingi?