Skrefinu á eftir

Skrefinu á eftir

Sorgin felst í því meðal annars að einhver sem var okkur kær er horfin af mannlífssviðinu og við getum ekki lengur auðsýnt henni/honum væntumþykju – kærleika. Hann eða hún er ekki lengur hjá okkur. Við getum ekki talað við viðkomandi eða faðmað, glaðst með honum eða henni, grátið og gantast.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
05. nóvember 2006
Flokkar

Nú kom hann aftur til Kana í Galíleu, þar sem hann hafði gjört vatn að víni. Í Kapernaum var konungsmaður nokkur, sem átti sjúkan son.

Þegar hann frétti, að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu, fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona.

Þá sagði Jesús við hann: Þér trúið ekki, nema þér sjáið tákn og stórmerki.

Konungsmaður bað hann: Herra, kom þú áður en barnið mitt andast.

Jesús svaraði: Far þú, sonur þinn lifir. Maðurinn trúði því orði, sem Jesús mælti til hans, og fór af stað.

En meðan hann var á leiðinni ofan eftir, mættu honum þjónar hans og sögðu, að sonur hans væri á lífi.

Hann spurði þá, hvenær honum hefði farið að létta, og þeir svöruðu: Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.

Þá sá faðirinn, að það var á þeirri stundu, þegar Jesús hafði sagt við hann: Sonur þinn lifir. Og hann tók trú og allt hans heimafólk. Jóh. 4.46-53

Bjartsýniskast tilverunnar

Stundum er sagt og einhverjum bent á hvort hann eða hún vildi vera í sporum þessa eða hins. Án þess að leggja huga að erum við oft fljót til svara af eða á. Það vildum við iðulega - ég og æskufélagar mínir í gamla daga og lékum okkur að því að gera svo að setja okkur sjálfviljugir í spor einhverra annarra í bókstaflegri merkingu. Ég og mínir félagar í æsku lékum okkur að því að stíga í spor sem skilin höfðu verið eftir í snjónum. Gekk það út á það að við urðum algjörlega fylgja sporunum ef ekki vorum við úr leik. Þetta gat verið býsna erfitt þegar skreflangur fullorðinn hafði farið um og eða þegar spor var að finna eftir barn yngra en við smáfættari einstakling en okkur félagana. Annað hvort gátum við ekki fyllt út í sporin eða við stækkuðum sporin sem fyrir voru og þar af leiðandi var í raun ekki hægt að fylgja algjörlega sporunum sem í snjónum voru. Með öðrum orðum við gátum ekki sett okkur í spor þess sem hafði farið um. Við getum verið í sporum einhvers en ekki sett okkur í spor þess sem myndaði þau fram með framgöngu sinni. Við vissum ekkert um líf þess og þeirra sem höfðu farið yfir hjarnbreiðu nokkrum stundum eða dögum á undan okkur. Lífið var ekki markað í sporin heldur aðeins það að einhver hafði farið þar um á leið sinni eitthvert. Svo voru það öll hin sporin sem gáfu enga vísbendingu eða tákn um að einhver hafi skilið eftir sig þung og eða létt spor.

Við uxum úr grasi og það að setja sig í spor annarra varð okkur fjarlægt í huga í bókstaflegri merkingu þess orðs. Lífið gekk meira út á að marka sín eigin spor og huga að svona stundum hvert ég gæti leitt þau en ekki þau mig því sporin mín voru einhvernvegin alltaf skrefinu á eftir. Reyndar gátu þau átt það til að fara á undan mér. Það gerðist þegar hugur og veruleiki tilverunnar voru ekki samstíga og sammála um næsta skref í oft á tíðum í gráglettni tilverunnar.

Tilvera veruleikans eins og við skynjum hana kemur oftar en ekki á móti okkur blaðskellandi sporlétt, slæst í för með okkur og okkur finnst hún vera íklædd gulum sumarkjól með roða í kinnum og birta dagsins ljómar í kringum hana þegar hún hleypur út undan sér í bjartsýniskasti og við gleymum stað og stund. Hún getur líka tekið á móti okkur með súran svip og sveipuð drunga klæðar svertu skósóla albúin þess að gefa okkur spark svo fast að undan verkjar. Það hefur verið reyndin fyrir okkur hér í þessum söfnuði undanfarna viku. Tilveran skekin svo mjög að allt virðist hafa skekkst. Það sem var er ekki lengur í þeirri mynd sem við vildum hafa. Staður og stund gleymir okkur aldrei. Hversu mjög sem við vildum gleyma þá glefsar hún í okkur og sársaukinn, já sársaukinn leggst á líkama og vitund. Þau systkin staður og stund sækja okkur heim hvar sem er og hvenær sem er fúllynd og eða með bjart bros á ásjónu. Þau eru ekkert að hafa fyrir því að spyrja hvort tími sé hentugur. Fyrir þeim er tíminn hentugur þegar ekki skal gleyma stað og stund hvort heldur í gleði og eða raun.

Óbærileg staða foreldris

Hvoru tveggja hafði konungsmaðurinn sem frá sagði í guðspjalli dagsins fengið að kynnast næstum í sömu andrá í sama skrefi. Hver manneskja sem er þess umkomin að elska getur staðið við hlið konungsmannsins, ekki í sporum hans aðeins við hlið hans í angist hans og ótta við það sem tæki við í næsta skrefi og við finnum sjálf fyrir þessari angist og þessum ótta þessa dagana hér í þessum söfnuði með þeirri fjölskyldu sem hefur misst svo mikið að óbærilegt að huga að. Við finnum til samkenndar með fjölskyldunni sem tilveran grimmúðleg ásýndum horfir í ásjónu þannig að jafnvel við sem hjá stöndum hjá í algjörum vanmætti skortir kjark og við viljum helst líta undan og ekki vita af. En við vitum og það er sárt svo undan verkjar en samt skulum við standa upp í birtu vonar.

Kann að vera að einhver hugsi með sér að það er auðvelt að setja sig í spor konungamannsins en viljinn ekki til að dvelja þar. Barnið hans veikt-dauðvona. Bara það að lesa það og íhuga er sárt, óbærileg tilhugsun fyrir þann sem er foreldri. Því höfum við á óþyrmilegan hátt fengið að kynnast síðustu dægrin. Það er miklu betra að fletta yfir á næstu blaðsíðu eða leita af öðru spori til að standa í sem kann ekki endilega uppfylla okkar væntingar um lífið og tilveruna - bara allt annað en þetta-allt annað!

Við erum ekkert spurð að því. Lífið sem andartaki áður brosti sínu breiðasta á móti tilverunni og tilveran gaf af sér það besta tiplandi um á rauðum lakkskóm missir fótanna-það sem var og gaf fyrirheit um er ekki lengur og verður aldrei eins og var. Gefur jafnframt fyrirheit um að verða eitthvað annað sem fyllt er von og þrá eftir því óumræðanlega. Þannig hafði það verið um konungsmanninn. Staðreyndirnar íklæddar svertum skósóla kepptust við að anda ofaní hálsmál hans köldum andardrætti veruleikans að sonur hans var sjúkur. Það að vera sjúkur á þeim tíma þýddi að sá sjúki væri ekki Guði þóknanlegur. Ekkert biði hans nema ískaldur veruleiki sonarmissis. Það er sem aldirnar sem skilja á milli þess atburðar sem sagði frá í guðspjallinu og þess sem hefur hitt okkur fyrir í samfélaginu okkar séu eins og lítið skref sem allir ungir sem aldnir geta stigið í en bara eitt augnablik. Því skrefin framundan þung og dimm kallast á við myrkur vonleysis og sorgar miskunnarlaus og glottandi sigurs. Ekki sigur viljans heldur þess sem við viljum ekki sjá og vita af hvað þá að stíga í og máta okkur með stórum eða smáum fótum, en samt eru þau þarna. Þau voru þarna og farið að fenna yfir en mótaði fyrir þeim og þau eru hér ný og fersk í dag eins og til að minna okkur á okkur á mennsku okkar og vanmátt og um leið á styrk okkar og kraft sem okkur er gefin af ást eins og konungsmanninum var gefið af ást.

Hvernig sem við ætlum að næsta skref verður og hvaða spor þung eða létt það skilur eftir sig á hjarnbreiðu hugmynda okkar þá eru þau og verða aldrei alveg eins og við ætluðum þeim að verða. Sá eða sú sem lítur um öxl á gengin spor tímans furðar síg á því að þau eru ekki eins og ætlað var-leið þeirra liggur annað en æskuhugur hafði hugsað þeim að fara og stefna að. Þessi staðreynd er ekki nýgengin spor í huga mannsins. Það sem meira er að það fennir ekki yfir þau. Þess vegna eru alltaf ný og ný kynslóð tilbúin til að reyna sig við að feta nákvæmlega í þessi spor til að uppgötva að annaðhvort passa þau ekki í þau og eða finna sig ekki í þeim.

Sorg/kærleikur-kærleikur/sorg

Konungsmaðurinn sem sagði frá í guðspjallinu fann sig í djúpri sorg. Það má líta á sorgina sem eina hlið á kærleikanum. Þá hlið höfum við því miður verið kölluð til að standa hjá og íklæðast og finna til þess að hún er númeri of stór fyrir hvern þann sem henni íklæðist. Hún fer engum vel, en á óskiljanlegan hátt veitir hún okkur skjól fyrir döprum andvara tilverunnar sem svo sannarlega andar köldu í huga okkar allra þessa dagana og hverjum þeim sem misst hefur.

Sorgin felst í því meðal annars að einhver sem var okkur kær er horfin af mannlífssviðinu og við getum ekki lengur auðsýnt henni/honum væntumþykju – kærleika. Hann eða hún er ekki lengur hjá okkur. Við getum ekki talað við viðkomandi eða faðmað, glaðst með honum eða henni, grátið og gantast. Ekkert kemur í staðinn fyrir þá manneskju sem er dáin – ekki einu sinni minningarnar enda þótt góðar séu og veiti vissa huggun.

Alltaf þarf það að vera þannig að við erum minnt á þennan þátt mannlegs lífs á miskunnarlausan hátt því hvernig er annað hægt?

Nærvera genginna spora

Sá eða sú sem gerir sér far um að fylgja á eftir sporum einhvers er og verður aldrei fær um að veita huggun og styrk þeim sem á þarf að halda. Því ekki aðeins er sá eða sú sem er að reyna að fylla út í sporin eða gera þau ekki stærri upptekinn við það eina að breyta ekki því sem komið er. Sá eða sú sem ætlar að verða náunganum eitthvað veit að ekki er hægt að setja síg í spor annarrar manneskju. Við getum einungis staðið eða gengið við hlið þess sem misst hefur. Kann að vera að sporin séu ekki samsíða stutt eða löng. Það skiptir ekki máli hvort eða hvenær einhver kunni að sjá sporin og skynja nærveru þeirra. Það er augnablikið sem þau eru stigin og skilin eftir þeim næstu sem tekin eru sem skipta máli. Framtíðin kann að vera eitt augnablik og sporin sem áttu eftir að marka tilveru sína eru ekki lengur og við horfum á skilningsvana eins og börn sem í æsku sinni og fjörleika reyna að feta sig eftir án þess að vita hvert leiðir-þannig er lífið oftar en ekki hlaupandi út undan sér og skilur okkur eftir með spurningar á vörum og leit í huga óttaslegin og hrædd.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen