Eftirsóknarvert jafnvægi

Eftirsóknarvert jafnvægi

Við vegum og metum lífið, leggjum gleði og hamingjustundir á aðra vogaskálina, þrautir og sorgir á hina. Stundum vegur hamingjan þyngra en sorgir, þegar svo í annan tíma hún má sín lítils fyrir þunga sorgarinnar eða rauna lífsins.

Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga. Abraham sagði: Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor. En hann sagði: Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað. En Abraham segir: Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim. Hinn svaraði: Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun. En Abraham sagði við hann: Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum. Lk. 16.19-31

Á sólríkum sumardegi fylgdist ég með tveimur ungum vinum vega salt. Annar var örlítið stærri og þyngri en hinn sem oftar dinglaði stuttum fótum sínum í loftinu. Þeir undu sælir við leik sinn góða stund, annar fór upp og hinn niður en jafnvægi náðu þeir ekki nema sem nemur sekúndubroti. Við munum það líka vonandi enn sem eitt sinn tókum þátt í slíkum leik, hve erfitt ef ekki ómögulegt það var að ná vegasaltinu beinu þannig að fullkomnu jafnvægi væri náð. En eftir því sem við í árum fjarlægjumst þennan einfalda leik á róluvellinum situr áfram eftir krafan um einhvers konar jafnvægi í lífinu. Við vegum og metum lífið, leggjum gleði og hamingjustundir á aðra vogaskálina, þrautir og sorgir á hina. Stundum vegur hamingjan þyngra en sorgir, þegar svo í annan tíma hún má sín lítils fyrir þunga sorgarinnar eða rauna lífsins. Við leitum að jafnvægi og sé slíkt ekki mögulegt finnst okkur við eiga þá réttlátu kröfu að vogaskál hamingjunnar sé heldur þyngri en hin.

Guðspjall dagsins birtir okkur mynd af tveimur mönnum. Annar var ríkur og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. Hinn hét Lasarus, hann var fáttækur og þjáður. Ríki maðurinn hafði allt til alls, svo mikið var ríkidæmi hans að hann þurrkaði hendur sínar á brauði sem hann síðan lét falla á gólfið. Það brauð vildi Lasarus seðja sig á, því brauði sem hundarnir sóttu í. Kjör þessara manna voru á allan hátt ólík og dregur guðspjallamaðurinn ekkert undan í frásögn sinni, annars vegar hinn nafnlausi ríki maður sem klæddist purpura og dýru líni og hins vegar sá sem ekkert átti nema nafn sitt – Lasarus sem merkir að hjá Guði er hjálp. Enn er aðstæðum þeirra líst á ólíka vegu eftir að þeir deyja. Þá kvaldist ríki maðurinn í helju meðan Lasarus var borinn af englum í faðm Abrahams þar sem hann naut huggunar. Einfaldasta skýringin á þessari sögu væri sú að jafnvægi hefði þá verið náð eftir allt saman. Annar þjáðist í lifanda lífi en naut fagnaðar á himnum meðan öfugt var farið fyrir ríka manninum. Við værum hins vegar að svíkja söguna ef við leyfðum okkur að skoða hana aðeins í þessu ljósi. Þá værum við sömuleiðis að skjóta okkur undan þeirri ábyrgð að takast á við boðskap hennar. Þegar Jesús sagði þessa dæmisögu var hann að tala við fariseana sem voru fræðimenn gyðinga og betur að sér um lögmálið og spámennina en flestir aðrir. Þeir töldu sig fyrir það talsvert yfir aðra hafna og hefðu í hendi sér sannindin um komu Messíasar sem leysa myndi þjóðina úr ánauð og leiða hana til frelsis. Til þeirra talar Jesús, ekki til þess að tala um veraldleg hlutskipti eða misskiptingu mannanna að veraldlegum auði heldur dregur hann upp andstæður til þess að vekja þá til meðvitundar um það sem mestu máli skiptir. Aðalatriði sögunnar er ekki ríkidæmi og fátækt heldur hver afstaða þessara manna var til lífsins. Ríki maðurinn hélt ekki boðorð Guðs, hann lifði hvern dag í fagnaði, jafnvel hvíldardaginn og hann sá ekki Lasarus öðruvísi en sem fátækan sjúkan mann ef hann þá veitti honum nokkra athygli þar sem hann lá við dyr hans. Ekki miskunnaði hann sig yfir Lasarus eða rétti honum hjálparhönd á nokkurn hátt. Eina vísbendingin sem við höfum um Lasarus er nafn hans. Það vísar til þess að hann hafi í kjörum sínum leitað hjálpar hjá Guði. Og ef það var ekki nóg til þess að sannfæra fariseana um gildi trúarinnar gerði upprisa hans frá dauðum það ekki heldur og því tilgangslaust að senda hann til bræðra ríka mannsins þeim til aðvörunnar. Í guðspjalli Jóhannesar er önnur saga af manni sem hét Lasarus sem hefur ákveðna samsvörun við guðspjall dagsins. En þar segir frá því að Jesús reisti vin sinn Lasarus upp frá dauðum eftir að hann hafði legið í gröf sinni í fjóra daga. Það kraftaverk sannfærði ekki fariseana eða fræðimenn gyðinga um kærleika hans, mátt og dýrð, miklu fremur jók það andúð þeirra og vantrú. Á sama hátt myndu bræður ríka mannsins ekki heldur sannfærast þótt einhver rísi upp frá dauðum, ekki ef orð Guðs talaði ekki til þeirra.

Upprisan vekur ekki fremur en kraftaverkin trú. Í Biblíunni kemur skýrt fram að kraftaverk Jesú styrkja trú manna, efla hana og staðfesta en þau bræða ekki harðúð hjartans. Þegar Jesús Kristur sigraði dauðann í upprisu sinni þá vakti sú staðreynd ein og sér ekki trú manna á hann, heldur er forsenda trúarinnar fólgin í orði Guðs og hvernig það orð vinnur í lífi okkar. Dæmisagan um ríka manninn og Lasarus er þannig sett fram sem ákveðinn leiðarvísir að upprisutrúnni. Við öðlumst trúna fyrir orð Guðs og við lifum fyrir upprisu Jesú þegar orð hans er virkt í lífi okkar. Þá verður það til þess að við sjáum neyð náungans, þegar við sjáum þjáninguna og finnum til undan sorg meðbræðra okkar systra. Og þegar við ekki síst látum líf okkar stjórnast af skilyrðislausum kærleika. Ríki maðurinn lifði í dýrlegum fagnaði en ekki í kærleika. Lasarus var hlaðinn kaunum og jafnvel hundar komu og sleiktu hann en hann vissi að Guð hjálpar. Annar lifði í trú hinn fann ekki einu sinni til iðrunar eða til kærleika þó hann væri kvalinn í helju því jafnvel þar sá hann Lasarus aðeins sem þjón sinn sem kæla ætti tungu hans. Þessi saga sem dregur upp svo lifandi mynd af mismunandi aðstæðum manna segir því ekkert til um það hvernig lífið handan þessa heims muni taka á móti okkur eða hvort gæta þurfi þar að einhverju óskilgreindu alheims jafnvægi. Hvergi í Biblíunni er lífinu að baki dauðans lýst, aðeins talað um dýrðina sem muni bíða okkar og blessunina sem fylgir því að lifa í faðmi frelsarans. Og dæmisagan um ríka manninn og Lasarus er engin undantekning þar á, því þó þar birtist ákveðin heimssýn sem þekkt var viðmælendum Jesú þá birtir sagan okkur ekki sýn inn í handanveru þessu heims. En hún birtir okkur hins vegar sterka von sem í trúnni er fólgin að hjá Guði er hjálpina að finna og kærleiki hans er forsenda frelsunarinnar.

Tilgangur lífsins er því ekki leitin að jafnvægi. Við þekkjum lífið sjálfsagt miklu fremur í líkingu vegasaltsins þar sem við förum upp og niður og dinglum jafnvel stundum fótum í lausu lofti. Þannig er jú leikurinn gerður og já þannig er lífið einnig. Við höfum sjálf möguleikann til þess að spyrna okkur upp og höfum sjálf ákveðið vald sem virkir þátttakendur. Enda stjórnumst við ekki af örlögum ytri afla heldur lifum fyrir upprisu Krists. Lífsleikurinn er í okkar í höndum og það er okkar að spila úr honum af bestu getu. Þannig eru það ekki örlög eða álög góð eða slæm sem færa okkur hamingju eða sorgir heldur er hvort tveggja hluti af lífinu. Það sem ræður úrslitum er hvernig við tökumst á við það, hvernig við höndlum hamingjuna og vinnum úr og með sorgina. Hvort tveggja er vandmeðfarið. Hvort tveggja krefst mikils af okkur. Og þar kemur jafnvægið fram, það jafnvægi sem við höfum á valdi okkar með því að lifa með Jesú frá Nasaret. Með því að fylgja honum gengur hann á undan okkur í gegnum lífið og leiðir okkur frá dauða til lífs með sér, frá örvæntingu og ótta til fullvissu og frelsunar. Hann sem er kærleiki Guðs í þessum heimi hann er Kristur Drottinn. Þess vegna felur kærleikurinn í sér ábyrgð og kallar okkur til ábyrgar afstöðu einmitt vegna þess að kærleikurinn breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Jesús Kristur kallaði fariseana til þess að taka afstöðu, til þess að trúa því orði sem þeir höfðu fyrir framan sig. Hið sama gerir Kristur Drottinn við okkur í dag. Hann sýnir okkur mennina tvo til þess að við megum finna að trúin á hann, krossfestan og upprisinn, felur í sér hið eina eftirsóknarverða jafnvægi sem birtist í tvöfalda kærleiksboðorðinu: Þú skalt elska Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum og þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.