Hugrekki eða kjarkleysi – þitt er valið

Hugrekki eða kjarkleysi – þitt er valið

Það er hverri manneskju hollt að taka reglulega frá tíma til sjálfsrannsóknar. Kirkjuárið gerir ráð fyrir að á föstunni tökum við okkur sérstaklega tíma til þess. Við rifjum upp píslarsöguna. Leið Jesú að krossinum. Sú saga fjallar um hugrekki. Píslargangan er vörðuð freistingum.

Gegnum glerið

Það er hverri manneskju hollt að taka reglulega frá tíma til sjálfsrannsóknar. Kirkjuárið gerir ráð fyrir að á föstunni tökum við okkur sérstaklega tíma til þess. Við rifjum upp píslarsöguna. Leið Jesú að krossinum. Sú saga fjallar um hugrekki. Píslargangan er vörðuð freistingum.

Nægar freistingar urðu á vegi Jesú. Gylliboðum um að seðja hungur, að öðlast frægð, frama og völd var hafnað. Freistingin um að missa kjarkinn var handan við hvert horn. Við þekkjum þessar freistingar. Við freistumst til að fylgja straumnum. Gleymum að nýta okkur samviskuna og hlusta á rödd hennar. Við freistumst til kjarkleysis, andstæðu hugrekkis.

Við skulum vanda okkur, kalla fram styrk okkar og hugrekki til þess að fylgja sannfæringu okkar. Hlustum á rödd samviskunnar og stöndum vörð um réttlætið. Vinnusemi er dyggð í okkar samfélagi. Það er ekkert nema gott um það að segja meðan vinnusemi er innan heilbrigðra marka og kemur ekki niður á heilsu okkar eða samskiptum við ástvini og vini.

Hættan getur líka verið sú að vinnan verði skjól fyrir leti. Leti sem snýr að því að hafa skoðanir. Við nennum ekki að setja okkur inn í málin og látum umhverfi og annað fólk um að mata okkur. Við höfum séð hvert það getur leitt okkur. Finnum jafnvægi. Verum dugleg en sjáum hlutina í víðu samhengi.

Við skulum leita uppi galla okkar til þess að eiga forsendur til þess að bæta okkur. Leitum uppi kosti okkar og láta okkur þykja vænt um þá og notum þá okkur í samskiptum við samferðafólkið.

Við vildum svo gjarnan vera laus við þjáninguna. Þjáning er hluti lífsins, hluti af því að vera manneskja sem getur fundið til. Hversvegna byrðum lífsins er svo misskipt milli mannanna barna er ein af stóru gátum lífsins. Ekkert okkar sleppur þó undan sorg og sársauka.

Lífsgæði fjalla ekki um að flýja eða afneita sársaukanum. Lífsgæði eru miklu heldur það að vera til staðar í lífi samferðafólksins. Deila sorg, deila gleði, deila von. Miðla kærleika. Veita huggun og styrk. Miðla trú og trausti á umhyggju Guðs. Við erum ekki alltaf meðvituð um það en stundum erum við borin, borin á bænaörmum, borin á kærleiksörmum Guðs. Jafnvel þegar allt annað virðist hverfa getum við treyst því.

Hvað get ég gert? Hlúð að lífinu. Hlúð að sjálfri mér til þess að vera aflögu fær þegar systir eða bróðir þarf á nálægð að halda. Ræktað líkama og sál, styrkt fjölskylduböndinn, varðveitt vináttuna. Leitað kyrrðar. Gefið mér tíma og rúm fyrir samfélag við Guð.