Sannleikurinn verður aldrei klisja

Sannleikurinn verður aldrei klisja

Í dag hefði hins vegar sjórinn umhverfis landið eða þráhyggjulegur fréttaflutningur og daglegar heimsendaspár ekki getað hindrað frelsi Jóhannesar því hann lifði án þess að kúga sínar innri auðlindir eða breyta þeim í ál.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
14. desember 2009
Flokkar

Þetta er ótrúlegt, hefur þú tekið eftir því að á liðnu ári hafa orðið meiri umbreytingar í veröldinni en á nokkru öðru skeiði mannkynssögunnar. Við erum að tala um það gott fólk að það er hreinlega brostinn á heimsfriður. Í Írak heyrast ekki lengur byssuskot, talibanar í Afganistan eru gengnir í Nato og Osama bin Laden talin vera líklegur kandítat til að hljóta friðarverðlaun Nóbels. Afganskar konur hafa fellt netmöskvana af andlitinu og ganga glaðbeittar til náms án þess að þurfa að fæða börn sem börn. Frá Afríku er það helst að frétta að hungursneyð hefur verið útrýmt, borgarastyrjaldir þar sem konum og börnum er misþyrmt á líkama og sál heyra sögunni til. Nú svo hafa Ísraelar og Palestínumenn komist að samkomulagi um skiptingu landssvæða, uppbygging er hafin á Gazasvæðinu og menn virða fullkomlega trúarbrögð beggja þjóða. Kínverjar hafa ákveðið að viðurkenna sjálfstæði Tíbet og sjá ekki lengur ástæðu til að fangelsa munka sem halda úti friðsömum mótmælum og Norður Kórea er orðið leiðandi afl í mannréttindamálum heimsins. Eiturlyfjaviðskipti hafa verið upprætt með öllu í Kólumbíu og Bubbi Morthens fengin til að vera þar með forvarnarfræðslu þannig að svo virðist sem eina vandamálið í heiminum í dag sé hér hjá okkur, á Íslandi af því að við vitum náttúrulega ekki hvort við þurfum að borga Icesave reikningana og hvort það sé heillaspor að ganga í ESB. Kæru vinir auðvitað er ég að bulla, en hefurðu samt ekki tekið eftir því þegar þú horfir á fréttatímann að það er eins og við tilheyrum ekki lengur umheiminum, það er nánast eins og styrjaldir, fátækt, sjálfstæðisbarátta og náttúruhamfarir annarra landa og þjóða heyri sögunni til. Mér finnst ég ekki lengur vita hvað er að gerast út í hinum stóra heimi, það er ekki nóg með að maður sé hættur að ferðast til útlanda af því að krónan er svo dæmalaust flughrædd heldur fær maður takmarkaðar ef nokkrar fréttir af öðrum þjóðum í gegnum fjölmiðla Færðu ekki dálitla innilokunarkennd þegar þú hugsar um þetta, í fyrsta lagi að búa á Eyju þar sem allir eru að bíða eftir Nóaflóði af því að í fréttum er talað um að næsta ár verði verra en þetta og svo kemur næsta ár án þess að Eyjan sökkvi og þá verður árið þar á eftir alveg örugglega það versta í sögu þjóðarinnar. Og svo er eins og umheimurinn sé ekki lengur til eða við svo einangruð í eymd okkar að við höfum ekkert um hann að segja. Við vöknum við íslenskar heimsendaspár og við sofnum við íslenskar heimsendaspár. Ég er ekki að gefa í skyn að örlög þjóðarinnar séu lítil og léttvæg, það væri nú skrýtið af presti sem sálgæsluþjóni að halda slíku fram, það sem ég er að segja með öllum þessum öfugmælum og skáldskap er að það eru ekki nýjar fréttir að veröldin sé hverful, sú staðreynd hefur blasað við okkur árum saman í fréttum af örlögum annarra þjóða, sem oftar en ekki stafar af, ja ekki gulli, reykelsi og myrru, heldur einmitt bulli, ergelsi og firru eins og segir í gömlum brandara og líka slatta af mannvonsku, græðgi og valdníðslu, Heródes er nefnilega ótrúlega langlífur. En nú höfum við sem byggjum þetta land um stund fengið að reyna þann sannleika á eigin skinni, að veröldin er hverful, ekki bara veröldin fyrir utan landhelgi Íslands, það er einmitt þess vegna sem það er lífsnauðsynlegt að við ræktum okkar andlega frelsi, þjálfum okkar andlegu vængi, já vegna þess sem spámaðurinn Jesaja segir í lexíu dagsins með eftirfarandi orðum „Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins. Grasið visnar, blómin fölna þegar Drottinn andar á þau. Sannlega eru mennirnir gras. Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs vors varir að eilífu.“ Við eigum að rækta Guðs orð í hjarta okkar vegna þess að þá verðum við frjáls í öllum aðstæðum sem mæta okkur í veröldinni, sama hversu erfiðar og sárar þær eru. Sú staðreynd liggur fyrir, reyndar ekki fyrir þinginu ótrúlegt en satt, að við erum gras og við munum visna og deyja, öllum mönnum eru settar þessar skorður en það sem gerist fram að því byggist á afstöðu okkar til mennskunnar og til frelsisins. Hvað þýðir það eiginlega að vera frjáls manneskja?. Af því ég minntist nú stuttlega á Tíbet hér áðan þá er viðeigandi í þessu samhengi að vitna í orð mannvinarins og þjóðhöfðingjans Dalai Lama um að einu auðlindirnar sem eru óþrjótandi og við megum ganga endalaust á eru hinar innri auðlindir. Finnst þér þetta ekki falleg samlíking? Ég sé fyrir mér Dettifoss, mesta vatnsfall Íslands innra með manneskjunni fullt af sálargæðum sem hægt er að virkja til frelsis til að verða frjáls þrátt fyrir ytri skorður, það er svo sannarlega eftirsóknarvert. Frumskilyrði þess að vera frjáls maður er að elska sannleikann skilyrðislaust. Jóhannes Skírari sem guðspjall dagsins greinir frá er gott dæmi um mann sem elskaði sannleikann og lét hann stýra lífi sínu en ekki öfugt. Það er nefnilega alltaf hætt við því að sannleikurinn verði ekki skilyrðislaust elskaður ef við sjálf í eigin valdi stjórnum honum, við eigum nefnilega að láta sannleikann teyma okkur áfram og treysta eðlisávísun hans. Það gerði Jóhannes Skírari, enda verður honum seint lýst sem upprennandi diplómat, hann var hippi sem borðaði sannkallað hráfæði engisprettur og villihunang Sjáið þið ekki fyrir ykkur þegar hann gengur inn í höll Heródesar án þess að virða “prótókól” hirðarinnar af því að honum varðar ekkert um það, stillir sér upp í sínum óvenjulegu og óstíliseruðu klæðum úr úlfaldahári og tilkynnir Heródesi undanbragðalaust að hann megi ekki eiga þá konu sem hann girnist af því að það sé siðlaust. Fyrir þetta var Jóhannesi varpaði í fangelsi þaðan sem hann átti aldrei afturkvæmt. Samt var hann frjáls vegna þess að hann hlýddi aðeins einu valdi, valdi sannleikans. Honum hefði sjálfsagt ekki orðið mjög ágengt í góðærinu gamla, góðærið hló að svona mönnum, svona barnalegum mönnum, sem töluðu sannleikann án skrúðmælgis og klisjukenndra frasa, sannleikurinn getur aldrei verið klisja, sannleikurinn er lifandi veruleiki. Í dag hefði hins vegar sjórinn umhverfis landið eða þráhyggjulegur fréttaflutningur og daglegar heimsendaspár ekki getað hindrað frelsi Jóhannesar því hann lifði án þess að kúga sínar innri auðlindir eða breyta þeim í ál. Jóhannes var spámaður, það sem einkennir spámenn er að þeir taka alltaf frumkvæði og taka þar af leiðandi á sig skellinn þegar sannleikurinn hefur afhjúpað lygina og leyndarmálin. Þeir taka frumkvæði, þeir taka slaginn en þeir verða aldrei fangar eigin ótta jafnvel þó þeir séu stundum kvíðnir, þeir virkja sínar innri auðlindir til þess að ryðja brautina. Þú getur verið spámaður, Jóhannes skírari var jú bara manneskja af holdi og blóði, heldurðu að hann hafi ekki verið dálítið stressaður áður en hann tilkynnti valdsmanninum að hann væri barasta að drýgja hór og fremja illskuverk, auðvitað hefur hann verið gripinn dauðans kvíða, við erum ekki að tala um Jemes Bond hérna, það langar engan að hljóta refsingu, vera fangelsaður, úthrópaður, að ég tali nú ekki um hálshöggvinn eins og örlög Jóhannesar urðu um síðir. Spámaður er sá sem segir sannleikann áður en allir þekkja hann, bíður ekki boðanna þó að umhverfið reyni að halda aftur af honum af því að hinn hverfuli veruleiki er ekkert sérstaklega ginnkeyptur fyrir sannleikanum. En sannleiksást Jóhannesar var heldur ekki sjálfsprottin Jóhannes vissi bara svo vel hvar uppsprettunnar væri að leita, hann þekkti nefnilega algóðan Guð og treysti, meira að segja áður en hann leit augu frænda síns frá Nasaret já jafnvel þó að einsemdin innan veggja fangelsisins ætti eftir að vekja með honum efa, en hver efast ekki í einsemd sinni. Danski presturinn Kaj Munk lýsir á svo fallegan og manneskjulegan hátt sannleiksást Jóhannesar í prédikun sinni út frá guðspjalli dagsins, þessi djúpvitra prédikun hans varð mér mikill innblástur við ritun minnar ræðu enda opinberar guðfræði danska prestsins og skáldsins ódauðleg sálargæði manns sem ég hvet alla til að kynnast. Munk lýsir einmitt í fyrrnefndri prédikun hinum sannleikselskandi Jóhannesi frammi fyrir Heródesi fjórðungsstjóra, “Sá dagur rann upp, er hann fann á sér, að nú var tíminn kominn, nú var sannleikurinn kominn til hans og baðst fyrirgreiðslu. Líklega hefur hjartað barist í hærðu brjósti hans og tungan loðað við góminn. En inni í hjartanu, sem barðist svo ört hefur verið mikill friður. “Nú tala ég eins og ég á að tala, nú hlýði ég köllun minni, nú geri ég eins og manni sæmi. Já í hjarta hans, umkringdu af ófriði, hefur verið mikill friður. Og friðurinn gaf tungu hans mátt til þess að losna frá gómi og segja þau fáu orð sem nægðu: Þú mátt ekki eiga hana" ( Kaj Munk, Við Babylons Fljót, s.202-203). Í framhaldi af þessari lýsingu tekur Munk til við að skýra þann veruleika sem býr í hinum guðlega friði, þeim friði sem presturinn boðar við lok hverrar guðsþjónustu í hinni drottinlegu blessun og mig langar til að flytja þá skýringu með hans eigin orðum því fáir skýra það betur: "Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið! Það er hryllileg villa að halda að þessi friðarkveðja sé aðeins ósk um góðar náðir og næðissaman dag og ótruflaða meltingu, og að Guð sjái svo um að þú þurfir aldrei að vaða krapið skóhlífalaus. Nei friður Guðs þýðir það að sálin sé í jafnvægi, vegna þess að hún er í friði við sannleikann, hversu mikill sem ófriðurinn er að öðru leyti" ( Kaj Munk, Við Babylons Fljót, s.203). Skoðum nú þessa skýringu í ljósi jólanna sem senn nálgast, hvað sögðu englarnir á Betlehemsvöllum um leið og hirðunum voru færðar fréttirnar af fæðingu frelsarans, jú, þeir sögðu nákvæmlega þetta “Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með mönnum sem hann hefur velþóknun á.” Í þessum orðum felst áskorunin sem Jóhannes tók, og við getum líka tekið að segja sannnleikann, friður á jörðu er sannleikur á jörðu, já Dýrð sé Guði í upphæðum og sannleikur á jörðu með mönnum sem hann hefur velþóknun á það er vilji Guðs, til þess kom hann í heiminn, til þess dó hann og fyrir sigur sannleikans reis hann upp. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.

Ath fyrir áhugasama. Prédikun Kaj Munk er að finna í bókinni Við Babylons Fljót sem er gefin út í Reykjavík árið 1944.