,,Hvernig væri nú að fá sér bara nýjan maka?” - sjálfsmynd og kynhegðun unglinga

,,Hvernig væri nú að fá sér bara nýjan maka?” - sjálfsmynd og kynhegðun unglinga

Fyrir skömmu hélt Náum áttum hópurinn málþing um sjálfsmynd og kynhegðun unglinga. Breyting virðist hafa orðið á síðustu árum á afstöðu ungmenna til kynlífs og samskipta kynjanna. Aukið ábyrgðarleysi og lágt sjálfsmat ungmenna virðist einkenna þá breytingu.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
13. október 2009

Pólskur einstaklingur sagði við mig um daginn: „Aldrei kynntist ég því í Póllandi að karlmaður ætti fimm börn með fimm konum! Hvað er eiginlega að siðferðinu hér á Íslandi?“ Ég átti nú ekki mörg svör við þeirri spurningu en varð svolítið hugsi.

Umburðarlyndi er mjög ríkjandi í íslensku samfélagi og áhersla á frelsi og meira frelsi hefur átt upp á pallborðið. Það virðist sjálfsagt mál að hjón skilji, semji bara um sameiginlegt forræði eða mjög ákveðinn og niðurnegldan umgengnisrétt við börnin sín. Við dáumst að foreldrum sem geta eftir skilnað haldið samskiptunum í lagi, pabbahelgarnar og mömmufríin og það allt hitt. En af hverju hneykslumst við ekki á því að fólk ákveður að skilja? Réttindi hverra og hvaða hagmuni er hjónabandinu ætlað að standa vörð um? Ég held að það sé fyrst og fremst þeirra sem geta ekki borið hönd yfir höfuð sér og barist fyrir sínum rétti, það er barnanna.

Fyrir skömmu hélt Náum áttum hópurinn málþing um sjálfsmynd og kynhegðun unglinga. Ljóst má vera af áhugaverðum framsöguerindum að breyting virðist hafa orðið á síðustu árum á afstöðu ungmenna til kynlífs og samskipta kynjanna. Aukið ábyrgðarleysi og lágt sjálfsmat ungmenna virðist einkenna þá breytingu.

Áhrifavaldar eru án efa margir en tvennt var mikið til umræðu á góðu málþingi. Í fyrsta lagi ágangur sumra fjölmiðla, bíómynda, tónlistar og þeirrar menningar sem hefur markvisst markaðsett kynlíf fyrir unglinga. Í öðru lagi vanmáttur foreldra, skólakerfisins og annarra að svara þeim breyttu aðstæðum.

Dagbjört Ásbjörnsdóttir deildarstjóri ÍTR flutti áhugaverða framsögu með yfirskriftinni ,,Kenndu mér að segja já, þá veit ég hvenær ég á að segja nei!" Hún talaði meðal annars um nauðsyn þess að kynfræðsla væri á nótum ábyrgðar og jákvæðni í stað hræðsluáróðurs. Því jákvæðni og ábyrgð stuðlar frekar að sterkari sjálfsmynd ungmenna. Hún sagði frá áhugaverðri rannsókn sem hún hefur staðið fyrir og verkefni sem hún kallar ,,Ego".

Sólrún Ósk Lárusdóttir sálfræðingur hjá fjölskyldumiðstöð Árborgar hélt framsögu undir yfirskriftinni ,,Barn í blóma - forvörn til framtíðar". Hún sagði meðal annars frá spennandi verkefni og námskeiði sem unnið er í sveitarfélaginu Árborg. Upplýsingar um námskeiðið er að finna á heimasíðunni www.barnibloma.com.

Síðast en ekki síst vil ég nefna framsögu ungmenna úr ungmennaráði Barnaheilla. Þau ræddu um auglýsingar og áhrif þeirra á ungmenni. Það var skemmtilegt að sjá og heyra hve meðvituð þau eru um þau áhrif sem fjölmiðlar hafa á uppeldi og sýn ungmenna. Ef rödd þeirra er rödd meirihluta ungmenna í dag þá er kannski ekki þörf á því að hafa áhyggjur af framtíðinni.

Margir þættir hafa áhrif á siðferði og sjálfsmynd ungmenna. Við þurfum án efa að líta okkur nær til að finna mesta áhrifavaldinn á sjálfsmynd og kynhegðun ungmenna. Breytni okkar sem fullorðin eru, samskipti foreldra við hvort annað og börnin sín og umgengni um helgidóma hjónabandsins skipta þar miklu máli.