G8 - Þjóð í fjötrum ranglætis -- frá öryggi til örbirgðar

G8 - Þjóð í fjötrum ranglætis -- frá öryggi til örbirgðar

Íslenskt samfélag í sárum, sárum þess sem beittur hefur verið ranglæti. Vandi okkar verður því ekki leystur með efnahagslegum aðgerðum einum saman heldur verður uppbyggingarstarf komandi missera einnig að beinast að hinu andlega og tifinningalega áfalli sem þjóðin hefur orðið fyrir.

G8 hópurinn

Frá í október á liðnu hausti hafa átt sér stað róttæk umskipti í samfélagi okkar sem líkja má við hrun heimsmyndar. Til skamms tíma voru þjóðartekjur hér á landi með því hæsta og lífskjör með því besta sem þekktist. Flest okkar trúðu því að við byggjum við samfélagslegt og fjárhagslegt öryggi. Á undraskömmum tíma hefur framtíðarsýn okkar breyst. Fyrir stafni eru meiri óvissu- og erfiðleikatímar en þau okkar sem eru um miðjan aldur og þaðan af yngri hafa lifað. Velferðarkerfi því sem byggt hefur verið upp með átaki heilla kynslóða og miðaði að félagslegum jöfnuði er ógnað. Við blasir upplausn sem nær langt út fyrir hið efnahagslega svið þótt upptakanna sé að leita þar.

Í umræðu um atburðarás síðustu mánaða hefur mörgum orðið hugsað til hamfara. Hamfaralíkingin á þó ekki við um það sem hefur átt sér stað núna. Hamfarir eru stóráföll sem dynja yfir af náttúrunnar hendi og mannlegur máttur fær ekki afstýrt. Hrunið sem við urðum vitni að í haust varð af manna völdum. Þjóð sem þreyð hefur í þúsund ár í harðbýlu landi hefur byggt upp hamfaraþrek sem einkennist af æðruleysi. Sá sameiginlegi reynsluarfur kynslóðanna nýtist okkur ekki nú. Það er þess vegna sem höggið hefur reynst mörgum svo þungt, valdið sársauka og reiði sem leitað hefur útrásar í réttmætum mótmælum.

Fámennur hópur sópaði til sín fjármunum

Alþjóðleg efnahagskreppa hefur vissulega haft sín áhrif hér á landi. Traust rök hafa þó verið færð fyrir því að hér hefði efnahagshrun átt sér stað án utanaðkomandi áhrifa og heimskreppan hafi aðeins ráðið því hvenær hið óhjákvæmilega hrun varð.

Hinn eiginlegi vandi felst í því að fámennur hópur manna fór eins og eldur í sinu um efnahagslíf landsins, sópaði til sín fjármunum, tæmdi heilu fjármálastofnanirnar og skildi fjölmörg fyrirtæki í landinu sem staðið höfðu undir verðmætasköpun og opinberum rekstri eftir sem rjúkandi rúst. Við erum nú að kynnast afleiðingunum hvert á sinn hátt. Eldurinn brennur heitastur á þeim sem þegar hafa misst atvinnu sína eða orðið fyrir mikilli kjaraskerðingu. Aðrir lifa við vaxandi óvissu sem veldur kvíða og vonleysi.

Hver ber ábyrgðina?

Hamfarir vekja spurningar um orsök og merkingu. Stóráföll af manna völdum eru að því leyti ágengari að þau krefjast þess að við spyrjum um ábyrgð. Ekki verður vikist undan að svara slíkum spurningum af heilindum ef takast á að byggja upp traust og samstöðu í samfélaginu að nýju, sefa reiði og hjálpa fólki að sættast við aðstæður sínar. En í því felast forsendur farsæls þjóðlífs og velferðar einstaklinga.

Ljóst er að stjórnvöld bera hér ábyrgð. Hinir kjörnu fulltrúar hafa markvisst afsalað sér völdum í hendur hagsmunaaðila á fjármálamarkaði. Lagarammi á þessu sviði hefur verið víkkaður og dregið úr regluverki og opinberu aðhaldi. Eftirlitsstofnanir hafa verið lagðar niður eða þeim sniðinn þröngur stakkur. Sú hugsun er áleitin að stjórnvöld hafi ekki vakað yfir öryggi landsmanna.

Eftirlitsstofnanir þær sem þó var ætlað að skapa fjármálafyrirtækjum og efnahagslífi aðhald virðast ekki hafa greint í tæka tíð það hættuástand sem hér byggðist upp á lengri tíma en mörg okkar voru meðvituð um eða ekki borið gæfu til að grípa til réttra ráðstafana.

Eigendur og stjórnendur hinna einkavæddu banka bera þó ríkasta ábyrgð. Með stórfelldum, gagnrýnislausum og ábyrgðalitlum lánveitingum til eigenda bankanna sjálfra og tengdra aðila virðast viðskiptavinir og smærri hluthafar hafa verið hafðir að féþúfum.

Þá er ljóst að þeir fjárglæframenn sem kenndir hafa verið við útrás og íslenskt efnahagsundur bera gríðarlega mikla ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin. Þótt leikreglur á fjármálamarkaði séu rúmar og fjármálamönnum séu gefnar frjálsar hendur eru þeir þó ekki firrtir ábyrgð. Þvert á móti eru því mikilvægari siðferðislegar kröfur lagðar þeim á herðar því rýmri sem leikreglurnar eru. — Hinum frjálsa markaði ber að setja sér ábyrgar siðareglur.

Enn má benda á fleiri sem ábyrgð bera, eins og fjölmiðla og ýmsar sérfræðingastéttir, þar á meðal guðfræðinga, sem gegna eiga því hlutverki að vera vakandi auga sem sér og óháð rödd sem varar við aðsteðjandi hættum í þróun samfélagsins. Þessar stéttir urðu illu heilli þeirri auðhyggju að bráð sem mótaði íslenska þjóðarsál á undanförnum árum eða buguðust af markvissri þöggun sem var beitt í því lýðfrjálsa samfélagi sem við héldum okkur vera hluta af.

Siðrof í íslensku samfélagi

Það nægir þó ekki að greina hvar ábyrgðin liggur heldur verður einnig að spyrja hvers eðlis brot þeirra eru sem brugðust. Gera má því skóna að í aðdraganda bankahrunsins í haust hafi verið framin lögbrot. Þó er óvíst að rannsóknir leiði í ljós að þau hafi verið stórfelld eða margir gerst brotlegir. Skiptir þar mestu hve lagarammi um fjármálastarfsemi var rúmur og lagaður að „þörfum“ þeirra sem lagt höfðu undir sig fjármálamarkaðinn.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að mögulegt er að verða brotlegur án þess að varði við lög og geta slík brot verið mun alvarlegri en lögbrot þótt viðurlög liggi ekki við. Er þar komið að hinu siðræna og siðfræðilega sviði. Það skal játað að þar verða dómar seint eins afdráttarlausir og hinir sem byggjast á lagabókstaf. Þó er hafið yfir vafa að ranglæti hefur verið framið í íslensku samfélagi á undanförnum árum. Í nokkrum vel afmörkuðum áföngum hafa meiri fjármunir verið fluttir á skömmum tíma frá þjóðinni og í færri hendur en dæmi eru til á öðrum skeiðum í síðari tíma sögu okkar. Er hér átt við úthlutun framseljanlegs gjafakvóta á sínum tíma, ófaglega einkavæðingu bankanna á grundvelli pólitískra helmingaskipta og loks framrás útrásarvíkinga á undanförnum misserum. Þetta ástand ber merki um siðrof sem leiddi til að brotið var gegn mikilvægum siðferðislegum gildum. Hagsmunir hinna fáu voru teknir fram yfir almannahagsmuni. Sóknarfæri voru nýtt til þess að sópa að sér hagnaði með purkunarlausu braski þar sem ekki var spurt um raunverulega verðmætasköpun heldur stundargróða.

Í kjölfar þessara atburða kom fram hópur manna sem auðgaðist á ótrúlega skömmum tíma úr öllum takti við framlag sitt til þjóðlífsins. Ný verðmætaviðmið ruddu sér til rúms sem dæmdu hinn almenna borgara frá ýmsum lífsgæðum sem einungis var á færi hinna auðugu að njóta. Með hruninu kom loks í ljós að lífsstíll hinna nýríku var kostaður af þeim sem orðið höfðu undir í kapphlaupi útrásartímans. Almenningur í landinu hefur verið rændur með beinum eða óbeinum hætti. Margur hefur verið rændur atvinnu sinni. Margur hefur verið rændur eða mun verða rændur heimili sínu þegar fótum er kippt undan efnalegri afkomu sem honum hafði verið talin trú um að væri trygg. Margur hefur verið rændur sparnaði sem byggður hafi verið upp á löngum tíma. Margur hefur verið rændur draumum um maklega umbun erfiðis síns, fjárhagslegt svigrúm, möguleika til að létta undir með afkomendum eða öruggt ævikvöld. Allt kemur þetta verst niður á þeim sem einhverra hluta vegna standa höllum fæti. Hér er ekki um efnalegt tjón eitt að ræða heldur er hér ráðist að rótum tilvistar okkar og forsendum fyrir öryggi og almennri vellíðan.

Hvernig er brugðist við ranglæti?

Af þessum sökum er íslenskt samfélag í sárum, sárum þess sem beittur hefur verið ranglæti. Vandi okkar verður því ekki leystur með efnahagslegum aðgerðum einum saman heldur verður uppbyggingarstarf komandi missera einnig að beinast að hinu andlega og tifinningalega áfalli sem þjóðin hefur orðið fyrir. Í komandi greinum munum við sem þetta ritum benda á atriði sem mikilvægt er að komi til álita við uppbygginguna.

Anna Sigríður Pálsdóttir Arnfríður Guðmundsdóttir Baldur Kristjánsson Hjalti Hugason Pétur Pétursson Sólveig Anna Bóasdóttir Sigrún Óskarsdóttir Sigurður Árni Þórðarson