Jesúland í Evróvisíón

Jesúland í Evróvisíón

Þá eru liðin þrjú evróvisíónkvöld í sömu vikunni – er þetta ekki orðið ágætt? Fimmtudagskvöldið var auðvitað toppurinn: Ísland komst áfram! Auðvitað höldum við með landinu okkar, nema hvað? En nú eigum við Íslendingar svo mörg heimalönd.

Þá eru liðin þrjú evróvisíónkvöld í sömu vikunni – er þetta ekki orðið ágætt? Fimmtudagskvöldið var auðvitað toppurinn: Ísland komst áfram! Auðvitað höldum við með landinu okkar, nema hvað? En nú eigum við Íslendingar svo mörg heimalönd. Fyrst ber að telja Noreg, auðvitað, og Írland, en Danmörk hlýtur líka að teljast með sem upprunaland flestra útlendinga sem búsettu sig á Íslandi þar til fyrir örfáum árum. Svo má ekki gleyma franska blóðinu og spænska, sem sumir vilja meina að hafi blandast því íslenska á skútuöldinni.

Í nýrri tíma er litrófið dásamlega fjölbreytt, eins og í Kolaportinu, þar sem má finna söluvarning og sölumenn frá flestum heimshornum í bland við þjóðlegan ilm af hákarli og harðfiski. Þannig er Evróvisíón líka, litrík og fjölbreytt, þó ekki fái allur heimurinn að taka þátt í keppninni um besta sönginn – eða flottasta atriðið, eftir því hvernig á það er litið.

Talandi um Ísland: Ég heyrði í vikunni sem leið athyglisverða kenningu um að nafnið á landinu okkar, að það sé ekki kennt við kulda eða frost heldur Jesú. Jesúland – Jísland – Ísland. Þessi ágæta kenning sem Garðar Cortes setti fram í smásöguformi á útskrift Söngskólans í Reykjavík sl. fimmtudag tengir aftur til papana sem hér bjuggu á undan víkingunum og írska múnkinn Brendan.

Jesúland. Hvað finnst ykkur um það? Mér finnst það flott. Ýmsir spádómar hafa gefið Íslandi sérstaka stöðu meðal þjóðanna, jafnvel í þá veru að þessi norðlæga eyja muni skipta sköpum um framtíð heims. Ég er nú enginn sérfræðingur í því en mér þótti strax vænt um þessa hugmynd sem hann Garðar eldri bar fram. Jesúland. Landið hans Jesú. Góð hugmynd.

Og hvað þýðir þá nafnið Jesús? Jú, það merkir að Guð frelsar. Guð bjargar. Guð hjálpi þér, segjum við þegar einhver hnerrar. Það er vegna þess að á tímum svarta dauða gat einn sakleysislegur hnerri verið undanfari endalokanna. Og þá var sannarlega þörf á að kalla Guð sér til hjálpar. Guð hjálpi þér. Það er það sem felst í nafninu Jesús. Jesúland er landið þar sem Guð hjálpar.

Í fyrsta Jóhannesarbréfi (sjá 1Jóh 4.16-21) er talað um kærleikann sem Guð hefur á okkur: Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann, fullyrðir bréfritarinn. Við hér uppi á skerinu ættum reyndar að þekkja kærleika Guðs og helst að trúa á hann, miðað við allan þann tíma sem góðu fréttirnar um elsku Guðs hafa verið sagðar hér, allt frá fyrstu tíð. En er það svo? Veist þú að Guð elskar þig? Að Guð hjálpar þér? Þekkir þú kærleika Guðs? Og ef þú þekkir hann – trúir þú á hann?

Þú þarft ekki að svara mér. En á einhverjum tímapunkti þarftu líklega að svara Guði í hjarta þínu. Og svar þitt verður sýnilegt í lífi þínu, af kærleika þínum til annarra: Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.

Að lokum þetta vers – sem á vel við svona rétt eftir Evróvisíón dóminn mikla:

Fáum við elskað hvert annað og lifað eins og Kristur lifði hér á jörð, verðum við full djörfungar á degi dómsins.

Fólk sem lifir í kærleika lætur sig það engu varða hvort það hreppir fyrsta sætið á sýndarmennskusviðinu. Málið er að vera með, þekkja kærleika Guðs og trúa á hann. Þá er fjórtánda sætið jafn gott og hvað annað í fjölbreytileika mannlífsins. Verum stolt af því að vera Íslendingar, innflutt og aðflutt úr ýmsum áttum, fólk sem býr á Jesúlandi, Jesúfólk.