Úr reimuðum skóm hversdagsins

Úr reimuðum skóm hversdagsins

Hún kom  dúðuð með roða í kinnum úr myrkrinu sem hafði staðsett sig fyrir utan kirkjuna - æskan með birtu og fjörleika í hverju spori.    Í jólaguðspjallinu segir að María og Jósep höfðu komið langan veg.   Þau höfðu líka gert það skólahóps börnin úr leikskólanum Heiðaborg sem heimsóttu kirkju sína í aðventunni í fyrra með jólaguðspjallið í huga og leikmuni í poka.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
13. desember 2012

Hún kom  dúðuð með roða í kinnum úr myrkrinu sem hafði staðsett sig fyrir utan kirkjuna - æskan með birtu og fjörleika í hverju spori.    Í jólaguðspjallinu segir að María og Jósep höfðu komið langan veg.   Þau höfðu líka gert það skólahóps börnin úr leikskólanum Heiðaborg sem heimsóttu kirkju sína í aðventunni í fyrra með jólaguðspjallið í huga og leikmuni í poka.   Eftirvæntingin skein úr andlitunum.  Prúð í fasi stilltu þau sig  upp í röð og biðu þolinmóð eftir því að verða engill ekki bara einhver engill heldur „Erkiengill!“ eins og stúlkan eða „Erkiengillinn“ minnti mig á með áherslu - hneysklun mjórri röddu, aðspurð.  Hirðar, María mey, Jósep, vitringar, jólastjarnan stigu fram á gólf kirkjunnar á þessum  kalda dimma aðventumorgni hér í Árbænum.   Það var kyrrð í mjúkri birtu kirkjunnar og ósegjanleg helgi.  

Þá tók við biðin-allt tilbúið fyrir væntanlega áhorfs og áheyrendur.   Við í kirkjunni fengum vita að litlu börnin í leikskólanum kæmu og mamma og pabbi og kannski afi og amma. 

Um tíma var kyrrðin algjör, en þegar maður er 5 ára gerist það að Jósep stóðst ekki mátið að stríða vitringunum og vitringarnir tóku til við að lemja englana í hausin með gjöfunum sem litla Jesúbarnið átti að fá og ekki má gleyma hirðunum sem stóðust ekki freistinguna að skylmast „bara aðeins“ eins og þeir sögðu.  „María mey“ hélt sig til hlés því hún var jú komin að því að verða mamma Jesúbarnsins og því fylgir ábyrgð sem „María mey“ þessa morguns í kirkjunni fór með alla leið.

Undirbúníngurinn fyrir þessa stund í kirkjunni hafði staðið frá því um haustið.  Hin langþráða stund rann upp-sýningin hófst og allt fór fram eins og segir í jólaguðspjallinu og lauk með jólalaginu „Bjart er yfir Betlehem“ – það var sannarlega hægt að taka undir að birtan sem stafaði frá börnum í helgileiknum var björt.  Bjart eins og hugur okkar í andrúmi aðventunnar.  Undarleg kyrrð breiðist yfir tilveruna, hvernig sem ástatt er hjá fólki.   Hvernig sem jólahaldi okkar er háttað.  Aðventunni fylgir djúp og hljóðlát eftirvænting.  Gleðin yfir lífinu, gleðin yfir því að vera til og það að tilheyra að gleðja og gleðjast með glöðum.

Ilmur aðventunnar er  eins og af kornabarni í vöggu drauma okkar um að tilveran mætti þó ekki nema augnabliks stund standa á hlaði vitundar okkar að frelsari heimsins lægði sig og kom sem barn í þennan heim. 

Kann að vera fyrir einhverjum að myndin sé óskýr, birtuskilyrði ekki góð því fæðingin átti sér ekki stað í hátæknivæddu sjúkrahúsi nútímans heldur lágreistu fjárhúsi í Palestínu og myrkrið lúrði á sínu með alla þræði í hendi sér óttan og taglhnýtinga hans  á öllum stöðum og það var ekkert sem gat bifað þeirri staðreynd á því augnabliki þegar birta alls lýsti upp vellina fyrir utan litla þorpið Betlehem af öllum stöðum og fjárhirðarnir sem þar voru og stóðu næturvaktina urðu skelkaðir.  Þorðu ekki að segja nokkrum manni frá heldur hlupu við fót þangað sem engillinn og herskarar þeir sem fylgdu honum sögðu þeim að fara, sem þeir gerðu og sáu barn vafið í reifa og lagt í jötu.   Það þarf harðúgt hjarta að finna ekki eitthvað bresta innra þegar augum er litið ósjálfbjarga barn.

Hvað fer um huga okkar á stundu sem þessari, aðventustundu?   Einhver kann að finna til feginleika, miklu frekar fleiri til hátíðleika.   Á sama tíma og  einhver eða einhverjir eru þögulir  horfa og skynja helgi stundarinnar og lesa úr henni að um stund sameinast himin og jörð falla í faðma og úr verður það sem við innst inni óskum okkur helst um jólahátíðina.   Kyrrðar og samveru og fjarveru fjölskyldna við undirbúning jóla sem aftur leiðir af sér að einhverjir koma móðir og másandi í mark, hníga niður örmagna af þreytu við jólaborðið.   Kannski hugsa með sér.   Er það þess virði að fara heim með jólin í gjafaöskju úr einhverri verslunarmiðstöðinni.   Eða eins og stúlkan í skólaheimsókn í kirkjunni sagði aðspurð „hvar jólin væru“  „Jólin eru í Smáralind“  sagði hún.   „Nei“ svaraði prestur.  „Jólin eru í hjartanu.“  Stúlkan var þögul um stund og sagði síðan.  „Þetta verð ég að segja mömmu því hún veit það allveg örugglega ekki.“   Eða strákurinn sem sagði að móðir hans fengi alltaf betri sjón fyrir jólin.  Því hún sæi drullu allstaðar þó svo að engin annar sjái hana.

Hvað sjáum við á jólum?  Á aðventunni í fyrra fékk ég að sjá helgileik barna sem áður segir í flutningi einlægs huga barnsins.  Hvað sjáum við á jólum?  Þegar við fáum að sjá allt það sem við höfum tekið með heim.  Líka það sem hefur ekki ratað í gjafaumbúðir.  „Sjá ég boða yður mikinn fögnuð.  Yður er í dag frelsari fæddur...“   Sjáum við gjöf guðs barnið, ómálga, ósjálfbjarga fálmandi út í sorta framtíðar.  Vitum við, eða skynjum við innra með okkur að þetta barn er og býr  með hverju og einu okkar?  Því jólin eru vitjunarstund.  Guð faðir á himnum vitjar hvers og eins og okkar í barninu.  Spyr, hvar ert´u?

Daga og vikur og fyrir jólin undirbúum við jólahátíðina.   Hátiðarbragur gerir sig heimkomin, tekur ofan, dustar af sér eril dagana á undan, fer úr reimuðum skóm hversdagsins og skilur eftir í forstofunni  til að eiga spariklætt stefnumót við drauma okkar.  Hátíðleika alls- Jólin.   Það er ekki hægt að færa stemminguna í orð.  Það er tími þagnar, það er tími fjölskyldunnar, það er tími þegar allt Er og þess vegna finna til þess sem er ekki á jólum svo sárt að undan verkjar. 

Á jólum er vitjunarstund.  Á jólum á engin/n vera gleymd eða gleymdur.  Á jólum eigum við ekki að gleyma.   Kannski á miklu frekar að segja að á jólum fáum við ekki að gleyma.  Jólin eru nefnilega það sem við sem erum eldri en tvævetra í gegnum tíðina um árin höfum gert úr þeim og eða það sem þau hafa fært okkur hvort heldur umbeðið eða ekki.  Jólin eru hátíð hefðarinnar dagana fyrir um og eftir jólin þar sem fjölskyldur hittast og eiga stund saman.  Talandi um hefðir.  Bendir ekki jólaguðspjallið einmitt á þetta með inntak jólanna vina og fjölskyldu-samvera, gleðjast með glöðum.   Ekki spurt um aldur eða stöðu.  Hámenntaðir vísindamenn samtíðar, vitringarnir komnir langan veg og fátækir hirðar stóðu við hlið ungra bláfátækra foreldra og barn þeirra í jötu því ekki var rúm í gistihúsi.   Eða eins og litla stúlkan fjögurra ára sagði um kvöldið eftir að hafa verið í jólasunnudagaskólanum og fengið geislamynd með fæðingarfrásögunni.  „Ég er með kvöldbænina mína.„   Er það ekki bæn okkar og ósk að fá að staldra við jötu æskujóla  á stundu myndar sem kann að vera gulnuð, eilítið krumpuð, kannski óljós, en hún er minningin því hún skiptir máli.

Jólafrásagan er gjöf - einföld þar sem allir, eldri sem yngri geta mátað sig í eins og börnin gerðu í einni af fjölmörgum kirkjuheimsóknum  aðventunar.  Báru  með sér óaðvitandi birtu sakleysis og óbilandi trú á lífið og tilveruna þegar allt á að vera rétt og fullkomið, en er það svo átakanlega ekki fyrir svo mörgum.  Megi góður Guð gefa þér og þínum nær og fjær gleðiríka jólahátíð.